Þriðjudagur 11.8.2009 - 12:53 - 31 ummæli

Hvað er uppí erminni?

Samningarnir um Icesave voru undirritaðir 5. júní og frumvarpinu um ríkisábyrgð var útbýtt á þinginu 30. þess mánaðar – nú er kominn 11. ágúst og verður sífellt óljósara hvernig málinu reiðir af.

Eftir rúmar fimm vikur í fjárlaganefnd er hinsvegar orðið ljóst að draumur nokkurra VG-þingmanna um 63–0 rætist ekki nema með því að setja samningana í fullkomið uppnám – einu skilyrði/fyrirvarar/túlkun/umgjörð sem Framsóknar- og Sjálfstæðismenn vilja fallast á eru þau sem jafngilda nýjum samningum – sem þá þyrfti nýja ríkisstjórn til að hefja. Málið er strand í nefndinni – þar næst ekkert samkomulag.

Öllum sem vilja vita er líka að verða ljóst að ríkisstjórnin á líf sitt undir málinu, og að Steingrímur J. Sigfússon hlýtur að hætta störfum sem ráðherra og flokksformaður ef þingmenn úr hans eigin flokki verða til að fella málið.

Það eru undarleg tíðindi fyrir stuðningsmenn vinstristjórnarinnar. – En gott og vel, þjóðarhagur ræður –

– og þá er kannski kominn tími til þess að andstöðuhópurinn á alþingi fari að segja okkur hvað hann vill gera.

Fróðlegt væri til dæmis að vita þetta:

Þeir sem vilja með einhverjum hætti semja aftur halda því fram – einsog Ólöf Nordal í gær í Kastljósinu – að núna sé nóg fyrir okkur að senda tölvupóst um nýja samninga og þá sýni Hollendingar og Bretar og Norðurlandamenn og Evrópusambandið skilning.

Ein af röksemdunum gegn samningunum er hins vegar einmitt sú að þessir sömu menn sýni engan skilning ef til þess kæmi að við þyrftum á endurskoðunarákvæðinu að halda eftir sjö ár!

Af hverju halda Sigmundur Davíð, Bjarni Ben og Liljurnar að þeir menn sem verða svona vondir eftir sjö ár bregðist núna við með brosi á vör?

Er það vegna þess að Liljur, Sigmundur og Bjarni hafa uppí erminni einhver þau gylliboð eða hótanir sem við hin vitum ekki um?

Á að hætta að flytja út fisk?

Eigum við að loka landinu fyrir ferðamönnum frá Bretlandi og Hollandi?

Eða eigum við kannski að gá hvað þeir segja ef „stelpurnar okkar“ neita að spila á EM í Finnlandi?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.8.2009 - 12:49 - 28 ummæli

Blóðtappi

Þessa daga eru liðnir tíu mánuðir frá hruninu. Auðvitað var óraunsætt að halda að við næðum upp úr því á nokkrum mánuðum, en ósköp gengur okkur hægt! – bæði að klára björgunaraðgerðir og koma okkur í vinnustellingar.

Þjóðin varð gjörvöll fyrir feikilegu áfalli í október, efnislegu og huglægu, og við erum enn ekki komin lengra en á reiðistigið í sorgarferlinu: Ásökum hvert annað og sjálf okkur – og getum um fátt sameinast nema sjálfsagða andúð á fjárglæframönnunum og svo að bölsótast út í grannríkin sem séu ýmist í fólskulegum árásum á litla saklausa smáþjóð eða að svíkja okkur í aldagömlum tryggðum.

Þetta kristallast í Icesave-deilunni, sem nú er farin að hindra alla framþróun – samfélagið snýst hring eftir hring um þetta mál einsog þráhyggjusjúklingur – kannski mætti líkja því við tappa sem þrengir að blóðstraumnum í mikilvægri æð.

En við þurfum að halda áfram. Við þurfum að fá peningana að utan, þurfum að bæta lánstraust og viðskiptavild – fá kaupfrið, þurfum að koma atvinnulífinu í almennilegan gang, þurfum að hafa vinnu fyrir alla og þurfum koma í veg fyrir hörmungar á heimilum landsins. Við þurfum að fá upp á borðið með skipulegum hætti hvað gerðist í hruninu, draga til ábyrgðar þá fjármála-, embættis- og stjórnmálamenn sem ábyrgð eiga að sæta, heimta inn það fé sem hægt er að fá upp í skuldir sem við höfum að vísu fæst til stofnað en verðum samt að standa á öll skil. Við þurfum að endurhugsa stjórnsýslu og skipulag í stofnunum okkar, setja lýðræði og gagnsæi í staðinn fyrir klíkur og klön.

Við þurfum líka hið bráðasta að komast áfram í áfallsferlinu: Yfir reiðistigið og gegnum þunglyndið þangað til samfélagið nær þokkalegri sátt við sjálft sig og getur sinnt því hlutverki að búa borgurunum tækifæri til frjórrar lífsnautnar – og til þess verðum við á einhverjum stað í þessu ferli að geta sameinast um að endurskoða gildismat okkar, fleygja á haugana ýmsu hugmyndalegu fylgigóssi góðærisklikkunarinnar og sækja í hugmyndastrauma samtíðar og í arfinn frá áum og eddum þau gildi sem geta reynst veganesti til frambúðar – nú er ég næstum farinn að tala einsog forsetinn en meina þetta samt: Hella forsjá, heiðarleika, nægjusemi og samhjálp í þjóðarsálarkokteilinn með Ég elska þig stormur og Upp með taflið, ég á leikinn.

Yðar einlægur er núna að lesa yfir þýðingu á ágætri bók sem kemur út í haust um loftslagsvána – og við það verk finnst manni vandi Íslendinga þrátt fyrir allt ekki afar fyrirferðarmikill. Framtíðarforsagnir – eftir bara 15–20 ár – eru þannig að líka hér á Íslandi blasa við okkur fleiri brýn úrlausnarefni en að taka til eftir vitleysuna. Maður þarf satt að segja stundum að harka af sér.

Tvö óskyld fyrirbæri – bankahrunið á Íslandi og loftslagsváin um alla jörðina – en sameinast þó í einum punkti. Hvort tveggja krefst mikilla fórna, fjár, vinnu, hugvits – og frá hvorutveggja vill mannskepnan helst komast sem allra lengst – en hvorugu verkefninu völdum við nema 1) standa saman, og 2) læra að hugsa upp á nýtt.

Þessi dægrin virðast ýmsir alþingismenn uppteknastir af því í Icesave-málinu að sitja ekki uppi með Svartapétur eftir undanfarin hróp og köll. Ég vona samt að þeir skilji hvað það skiptir miklu máli að við losnum við blóðtappann og förum að undirbúa nýja tíma.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.8.2009 - 11:08 - 17 ummæli

Hvað það verður veit nú enginn

Nýjasta nýtt í Icesave-málinu er mat Hagfræðistofnunar Háskólans á útreikningum Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins. Matsskýrslan er kynnt í sumum miðlum sem „svört“ skýrsla, en þar segir þó ekki nema það sem allir vissu: Óvissa er veruleg um afdrif Icesave-skuldanna, annarsvegar af því við vitum ekki hvað mikið kemur inn frá þrotabúi Landsbankans, og hinsvegar vegna þess að erfitt er að spá um hagvöxt, fólksfjölgun og viðskiptajöfnuð næstu fjórtán ár.

Höfundar matsskýrslunnar telja að fyrri skýrslugerðarmenn hefðu átt að setja fram einskonar sviðsmyndir þar sem endurgreiðslur væru tengdar spám um ýmsa hagþætti („varasamt að styðjast um of við tiltekin grunndæmi þegar meta á áhættuna“). Þetta væri fróðlegt en manni sýnist örðugt að segja fyrir nema afar almennt um þessa þætti, því annars væri hætt við að stjórnmála- og áhugamenn veldu sér bara þá sviðsmynd sem væri í bestu samræmi við fyrirframskoðanir þeirra sjálfra um greiðslugetuna.

Ég staldra hinsvegar við þá gagnrýni Hagfræðistofnunar að Seðlabanki og fjármálaráðuneyti hafi ekki reiknað inn í dæmið afleiðingar Icesave-skuldanna sem um er fjallað – fyrst og fremst að menn hafi verið of bjartsýnir á fólksfjölgun. Þetta vitum við ekki – og auðvitað er hætt við að það grípi um sig vonleysi og uppgjöf ef fram heldur sem horfir. Sumir stjórnmálamenn virðast raunar líta á það sem hlutverk sitt að tala fólk sem hraðast úr landi – til dæmis og einkanlega formaður Framsóknarflokksins. Höfundar matsins segja þó í niðurstöðum að reynslan bendi til þess „að áhrif hagsveiflu á fólksflutninga séu marktæk en ekki stórvægileg“. Munurinn á ástandinu nú og í fyrri kreppum eða lægðum sem í minni standa hér er þó sá að kringum 1990 og 1970 var lægð á Íslandi en gott ástand í grannlöndunum – nú er hinsvegar víðast illt í ári.
 
Athyglisverð niðurstaða Hagfræðistofnunar er þessi:

„Hvað varðar greiðslubyrði afborgana og vaxta ræðst hún mjög af aðgengi að erlendu lánsfé á þeim tíma sem endurgreiðslurnar eiga sér stað. Ólíklegt er að afgangur af ríkisrekstri verði svo mikill sem gert er ráð fyrir í greinargerð fjármálaráðuneytisins. Það ætti ekki að koma að sök verði aðgengi að fjármagni tryggt þegar fram líða stundir þar sem hægt yrði að endurfjármagna greiðslurnar. Engu að síður er ljóst að miðað við breytingar í forsendum sem ekki eru ólíklegar getur greiðslubyrði af lánunum orðið þungbær ef aðgangur að erlendum fjármagnsmörkuðum er takmarkaður á endurgreiðslutímanum.“

En aðgangur að erlendum fjármagnsmörkuðum ræðst einmitt mjög af því hvernig við afgreiðum Icesave-málið!

Já eða nei

Mér sýnist búið að segja allt sem sagt verður um einstaka þætti Icesave-samninganna. Það eru í raun og veru ekki nema tveir kostir í stöðunni – og báðir illir einsog í öðrum Íslendingasögum: Að hafna samingunum eða samþykkja þá, hugsanlega með formúleringum frá þinginu sem þyngja pólitíska pundið í endurskoðunarákvæðinu.

Það er varla raunhæft að fá „leiðrétt“ eitt eða tvö atriði samninganna af því þau séu óréttlát eða tilteknir spekingar telji þau á svig við lög. Samningar af þessu tagi eru einfaldlega gerðir á mörgum „frontum“ og eftir að ákveðnu jafnvægi er náð við samningsgerðina breyta menn ekki heildarstöðunni heldur þurfa að draga lið sitt aftur á einu svæði skákborðsins ef þeir vilja sækja fram annarstaðar. Bretarnir munu til dæmis hafa lagt á það mikla áherslu að tryggja jafnræði krafna, sem Ragnar Hall vakti á mikla athygli, vegna þess að íslenskir lögfræðingar þeirra bentu þeim á að hér væri lagaóvissa um þetta. Hættan við að biðja um „leiðréttingu“ á þessu er sú að þá séu teknir upp aðrir þættir samningsins sem okkur eru í vil, svo sem lánstíminn eða vextirnir – eða endurskoðunarákvæðið, sem með núverandi orðalagi og tengslum við Brussel-viðmiðin gefur færi á útleið ef illa fer, einkum ef Íslendingar eru orðin ESB-þjóð eftir nokkur misseri.

Þessvegna er það rétt hjá Guðbjarti Hannessyni í Kastljósi í gær að hér geta þingmenn og almenningur allur varla gert annað en að bera saman afleiðingarnar af því að samþykkja samningana og afleiðingarnar af því að hafna þeim.

Hvað fólksflótta varðar er líka þar mikill efi: Kannski flytjast einhverjir frekar til Noregs eða Ástralíu ef samningarnir eru samþykktir. En hvaða áhrif hefur það á útflutning fólks – og hugsanlega heimkomu Íslendinga ytra – ef Icesave-ruglið heldur áfram og við komumst aldrei úr sporunum til að endurreisa efnahagslífið og bæta samfélagið?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.8.2009 - 09:42 - 9 ummæli

Runnu á rassinn!

(s)Kaupþing rann á rassinn með lögbannið og merkilegheitin, og þar sitja bankaleiðtogarnir nú öllum til aðhláturs – urðu að gefast upp fyrir almennri andstöðu við varðstöðu bankastjórans, skilanefndarinnar og bankaráðsins við þá leyndarveröld sem var.

Þetta var líka eitthvað það vitlausasta sem bankinn gat gert í stöðunni! Vissulega eru í lekaskjalinu miklu fleiri en almenning varðar um – því ákveðinn lágmarkstrúnaður verður að ríkja í samskiptum banka og viðskiptamanns rétt einsog hjá lækni eða lögfræðingi. Og það er alltaf galli við leka að við vitum sjaldnast af hvaða hvötum lekið er: Er lekarinn að hugsa um landsins gagn og nauðsynjar eða er lekinn partur af einhverskonar valdabaráttu eða uppgjöri þar sem ekki er sögð öll sagan?

Í nútímasamfélagi er það einmitt hlutverk góðra fjölmiðla að vinsa úr og skila til almennings sæmilegri heildarmynd úr upplýsingunum sem lekið er. Lögbannið kom einmitt í veg fyrir að fjölmiðlar gætu þetta. Kaupþing uppskar einsog það hafði til sáð, tortryggni, óróa, fjandskap – en fyrirtæki og einstaklingar á lekalistanum sem ekkert hafa til saka unnið verða fyrir ádeilu og óþægindum sem líklegt er að traust fjölmiðlaumfjöllun hefði hlíft þeim við.

Hvar var Mogginn?

Leiðari Moggans fjallar um þetta í dag. Þar er réttilega gagnrýnd bankaleynd á kostnað almannahagsmuna. En hvað gerði Mogginn sjálfur? Hann setti ekki Agnesi eða aðrar stjörnur í málið að skýra fyrir lesendum hvað þetta merkti allt saman og hvaða lærdóm mætti draga af – heldur þegir í dag þunnu hljóði um Kaupþingsmálið. Nærtækasta skýringin er því miður að Moggi hafi orðið hræddur við hótanir bankans í garð annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins.

Nema hér hafi gætt samúðar í garð þeirra sem urðu fyrir lekanum? Enn er margt á huldu um björgunarleiðangur Glitnis hins nýja fyrir blaðið á kostnað almennings, enda engri lánabók verið lekið í þeim banka.

Að siga

Rétt hjá Blaðamannafélaginu, fréttamönnum RÚV, Álfheiði, Björgvini, Katrínu og öðrum sem hafa tjáð sig: Eftir þetta þarf að endurskoða bankaleyndarákvæði í lögum til að tryggja að þau gangi ekki á almannahagsmuni.

Annað sem þarf að gera eftir lekalögbannið er að taka til í Kaupþingi, eign íslensku þjóðarinnar. Þar geta ekki haft forustu menn með hugarheim í ætt við þau ummæli Finns Sveinbjörnssonar frá 2008, fyrir hrun, að það eigi að „siga lögfræðingum á fjölmiðla sem [fara] með fleipur um bankann“.

Lögbannsdellan er reyndar þriðja skrýtna málið sem forusta Kaupþings lendir í á skömmum tíma. Fyrst var uppgjöf hlutabréfaskulda við háttsetta bankastarfsmenn, að ráði innanhúslögfræðings sem reyndist eiga ólítilla hagsmuna að gæta. Síðan fréttist af bankanum í ráðslagi við Björgólfsfeðga um helmingun skuldar sem þeir tóku hjá Kaupþingi til að kaupa Landsbankann. Og svo setja þeir lögbann (hjá sýsluföðurnum góða!) á að Ríkisútvarpið fjalli um upplýsingar sem fyrir liggja á netinu.

(Eva Joly: les collusions d’intérêt et le fonctionnement clanique des institutions.)

Ábyrgð

Skilanefndin kann að hafa það sér til afsökunar að hún starfar fyrir kröfuhafana, og við höfum í sjálfu sér ekkert yfir henni að segja. Bankastjórinn starfar hinsvegar í umboði bankastjórnar sem fulltrúar okkar á alþingi kusu – og bera að lokum á alla ábyrgð.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.8.2009 - 12:19 - 18 ummæli

Takk, Eva

Íslandsgrein Evu Joly í nokkrum merkum Evrópublöðum er snjöll pólitísk ádrepa á tregðu ýmissa helstu leiðtoga í Evrópusambandsins við að yfirgefa fagnaðarboðskap hins óhefta markaðar og koma á regluverki sem tryggir að almenningur verði ekki leiksoppur glæfra-kapítalista einsog og gerst hefur undanfarið um alla Evrópu og raunar heiminn – en alveg sérstaklega á Íslandi.

Hún ávítar Breta og Hollendinga fyrir óbilgjarnar kröfur á hendur Íslendingum, segir að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið fólskuleg árás á varnarlausa smáþjóð af heimapólitískum ástæðum, telur að Evrópusambandsforustan hefði átt að skipta sér af samningunum og fullyrðir að forseti framkvæmdastjórnarinnar, Portúgalinn Baroso, hafi brugðist vegna þess að hann eigi stöðu sína undir Bretum. Þá flokkist afgreiðsla AGS í síðustu viku undir fjárkúgun.

Eva Joly lætur hinsvegar ekki einsog Íslendingar séu einber fórnarlömb. Stjórnvöld og stofnanir á Íslandi bera umtalsverða ábyrgð, segir hún, og í hruninu hafi ekki hjálpað til „hagsmunaárekstrar og klíkuskapur í stjórnkerfinu“ (mun sterkara á frönskunni: les collusions d’intérêt et le fonctionnement clanique des institutions).

Hún leggur ekki til neina sérstaka lausn á vandamálum Íslendinga en krefst þess að fjármálastarfsemi verði mótaður skýr evrópskur lagarammi, og að alþjóðasamfélagið komi sér upp reglum til að bregðast við hörmungum einsog hér standa enn yfir.

Takk, Eva.

Villigötur

Þeir eru hinsvegar á nokkrum villigötum sem í nánast úrvinda umræðu hérmegin landsteina hafa hampað grein Evu sem ávísun á að við eigum ekki að borga Icesave eða gera einhverskonar aðsúg að Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu.

Eva segir sjálf að hún skrifi grein sína ekki sem ráðgjafi saksóknara eða á vegum Íslendinga, og það er rétt. Hún þekkir málin auðvitað vegna afskipta sinna af eftirmálum bankahrunsins en greinina skrifar hún fyrst og fremst sem evrópskur stjórnmálamaður, fulltrúi Franskgrænna á Evrópuþinginu.

Og einsog stundum hendir bestu menn við stjórnmálaskrif lætur Eva ekki smámuni draga úr áhrifamættinum. Þjóðin „ræður alls ekki við að greiða“ skuldir sínar (allar sumsé, Icesave og allt hitt), segir Eva án þess að orðlengja það frekar (þetta er raunar ekki eins afdráttarlaust á frönskunni: dont elle n’a pas les moyens de s’acquitter). Upphæð innstæðutryggingarinnar er ekki aðeins um 20 þúsund evrur heldur 50 og 100 þúsund evrur, segir Eva, sem er nokkuð ónákvæmt, því kröfur umfram 20 þúsund eru ekki gerðar á íslenska tryggingarsjóðinn heldur þrotabú bankans. Og Eva tilfærir skuldina vegna Icesave í heild sem 4 milljarða evra – en sleppir öllum peningum á móti úr eignasafninu, þar sem mat skilanefndarinnar er 75%.

Þetta sýnir ágætlega að Eva Joly er í raun ekki að skrifa um Icesave heldur um þá endurskoðun fjármálareglna sem leiðtogar ESB-þjóða hafa lofað en ekki bólar mikið á.

Með þeirri endurskoðun eigum við Íslendingar að fylgjast afar nákvæmlega, því þar í grennd gæti málstaður okkar styrkst síðarmeir í Icesave-málinu. Nýtt regluverk kynni að hjálpa okkur bæði við nýjar viðræður ef áætlanir standast ekki um greiðslugetu og hugsanlega einnig til endurskoðunar ef regluverkið er á skjön við samningana við Hollendinga og Breta og atburðarásina sem til þeirra leiddi. Þá stæðum við vissulega sterkari sem ESB-þjóð, einsog Elvíra Mendes hefur bent á. Mér sýnist reyndar sá svarti gamli senuþjófur Uffe Elleman-Jensen vera að segja okkur eitthvað svipað í Berlingi undanfarið.

Það sem við okkur blasir er hinsvegar að eiga við Icesave-samningana á næstu vikum – og hefðum átt að vera löngu búin. Grein Evu Joly gefur okkur engar vísbendingar um hvernig það verði best gert, en sýnir að samþykkt frumvarpsins um ríkisábyrgð á skuldir Tryggingarsjóðsins á alþingi merkir ekki endilega að málinu sé lokið af okkar hálfu.

Icesave-málið er öðrum þræði – aðalþræðinum kannski – pólitískt og siðferðilegt, ekki bara viðskiptalegt og lögfræðilegt. Þessvegna átti strax að kynna þann málstað sem við þó höfðum á alþjóðavettvangi, ekki síst evrópskum. Við það hafa stjórnmálamenn verið linir, sérstaklega fyrstu mánuðina þegar mest reið á. Það er þessvegna mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga árnaðarmenn í evrópskum stjórnmálum. Einn þeirra er nú Eva Joly á Evrópuþinginu. Þá skiptir máli að þakka fyrir – en forðast að misskilja, mistúlka, misnota.

Skaupþing

Aðrir viðburðir helgarinnar: Ég er yfirleitt nokkuð mis-uppnæmur af bloggaranum Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni, en nýja merkið er snilldarlegt!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.8.2009 - 20:28 - 9 ummæli

Traust, trúnaður, Kaupþing

„Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings og sé brot á þeirri vernd sem bankaleynd á að veita viðskiptamönnum. Mikilvægt er að traust og trúnaður ríki milli fjármálastofnana og viðskiptavina.“

Sannarlega rétt. Ég er í viðskiptum við Kaupþing – og þætti ekkert sérlega þægilegt að þau viðskipti væru á netinu, þótt fáum fyndust þau sérlega merk.

Spurningar vakna hinsvegar um samband okkar viðskipta-„vinanna“ við bankann eftir síðustu tíðindi – þar sem ekki einungis koma í ljós furðufréttir um lán gamla bankans þegar hann var á leiðinni á hausinn, heldur einnig að nýi bankinn berst einsog brjálaður að stöðva þegar útleknar fréttir um þessi lán – í staðinn fyrir að skýra út af hverju þeim hefur verið haldið leyndum í tíu mánuði.

Er annars hægt að kalla þessa fýra sem tæmdu gamla Kaupþing viðskiptavini? Eru þeir kannski enn að fá lán hjá Nýja Kaupþingi?

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma – áður var það Björgólfalánið – sem yfirmenn hins svokallaða nýja Kaupþings haga sér einsog þeir vinni fyrir gömlu fjárglæframennina en ekki almenning á Íslandi.

Þeir eru hættir að njóta trausts.

Þeir heita: Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri, Hulda Dóra Styrmisdóttir stjórnarformaður, Auður Finnbogadóttir stjórnarmaður, Erna Bjarnadóttir stjórnarmaður, Drífa Sigfúsdóttir stjórnarmaður og Helga Jónsdóttir stjórnarmaður.

Heimildir

Svo er rétt að allir sem skrifa um málið gefi upp slóðina á Wikileak, og hér – ennþá – er umfjöllun Vísis.is/Stöðvar tvö.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.7.2009 - 18:26 - 37 ummæli

Til hamingju, Ísland

Til hamingju, Ísland, söng Silvía Nótt  – í fullkominni 2007-sannfæringu um að eigin frami jafngilti þjóðarheill. Nú ættu hinir hatrömmu andstæðingar samninganna um Icesave-málið að syngja fyrir okkur svipaðan söng – því þeir hafa vissulega unnið góðan áfangasigur.

Tafir við að gera út um Icesave valda því að endurreisnin dregst, krónan fellur, fjárfestar halda að sér höndum, kröfuhafar hika við að taka þátt í bankarekstri, vandi fyrirtækja og heimila framlengist, atvinnuleysi eykst, lífskjör versna.

En forustumönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefur tekist að koma ríkisstjórninni í vanda með því að standa heiftúðugir gegn tilraunum til að leysa mál sem þeir sjálfir bera á mesta ábyrgð.

Með dyggri aðstoð Liljanna í VG, sem nú hafa afrekað að spilla bæði hagsmunum þjóðarinnar og trúverðugleika flokks síns sem landstjórnarafls.

Til hamingju, Ísland.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.7.2009 - 09:59 - 15 ummæli

Hneykslið á Hjarðarhaganum

Sjónvarpið komst í feitt í gær: Jóhanna Sigurðardóttir er komin í frí! Meðan Róm brennur!

Fríið fer að vísu fram ekki langt frá stjórnstöðinni, nefnilega heima hjá sér á Hjarðarhaganum, og Jóhanna er daglega á fundum um brýn úrlausnarefni – en leyfir sér þó að vera í fríi – og þarmeð ekki í viðtölum við Sjónvarpsfréttir þegar þar er kallað. Svo koma dálkahöfundar í blöðum og skeytasendarar á bloggi: Forsætisráðherrann í fríi – hvílík lausatök! hvílík léttúð!

Meðal samherja er Jóhanna reyndar fræg fyrir að taka sér nokkurnveginn aldrei frí – og ætlast líka til þess af öðrum að þeir skili fullri vinnu og vel það. Þar vaka gildin úr gamla samfélaginu – kannski frá ömmu Egilsdóttur? – vinnusemi, ábyrgð, nægjusemi.

Nú hafa stjórnmálamenn í fremstu víglínu hinsvegar verið að næstum allan sólarhringinn samfellt frá því október þegar kreppan skall á, og þarf engum að finnast skrýtið að einhverjir þeirra noti tækifærið í þinghléinu rétt fyrir verslunarmannahelgi til að heilsa upp á fjölskylduna.

Jóhanna í fríi. Ekki nema það þó! – Sarkozy Frakklandsforseti datt um helgina flatur í ræktinni og er nú kominn í þriggja vikna frí – og fær þó sýnilega æðiber í rass alla þá stund að ekki suða á honum sjónvarpsvélarnar. Pólitískur leiðtogi Svía um þessar mundir, Friðrik Reinfeldt, er sem betur fer öðruvísi náungi en Sarkó, en ég hef fyrir satt að tilraunir til að koma á fundi þeirra Jóhönnu vegna ESB-umsóknarinnar hafi strandað á því að forsætisráðherra sænska konungsríkisins sé farinn í skerjagarðinn … í frí.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins, Sjónvarpshluti, fékk sitt viðtal um örlögþrungin AGS-mál við fjármálaráðherrann sem málið heyrir undir. Ráðherrann svaraði greiðlega að vanda og sagði um málið allt sem hægt var í gærkvöldi – og það er alger óþarfi á Sjónvarpinu að ráðast að Jóhönnu fyrir að taka sér nokkra dagsparta til að vökva blómin og passa ömmubörnin.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.7.2009 - 21:47 - 21 ummæli

Finnum út hvað hann meinar

Mikið skil ég Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að spyrja um framhald á ráðherradómi Jóns Bjarnasonar eftir yfirlýsingar hans í dag. Reyndar talaði hann líka þannig um stuðningsmenn ESB-aðildar um daginn að maður skilur ekki hvað hann er yfirhöfuð að gera í ríkisstjórn með slíku fólki.

Að sinni er spurningin sem Jón þarf að svara þó ekki sú hvort hann ætlar að vera ráðherra lengur eða skemur heldur sú

hvort ummæli hans um að fresta ESB-viðræðum, daginn áður en ráðherraráð Evrópusambandsins kemur saman á fund þar sem umsóknin er á dagskrá,

merkja

að Jón Bjarnason ætlar sjálfur að fylgja einhverskonar frestunarstefnu í ráðuneyti sínu

þvert á vikugamla yfirlýsingu Jóns Bjarnasonar um að staðið yrði faglega að undirbúningi aðildarviðræðnanna í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Það væri sannarlega skemmdarverk gegn stefnu stjórnar og þings. Ella er rétt að Jón Bjarnason tali bara  eins og honum sýnist.

Annað:

Jón Bjarnason er ekki öflugasti forustumaður VG og margir hafa litið svo á að ráðherradómur hans væri tímabundinn. Þegar „atvinnuráðuneytin“ sameinuðust yrði stokkað upp í ríkisstjórninni, með afar óljósum afleiðingum fyrir núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þessi orðrómur er auðvitað ekki þægilegur fyrir Jón Bjarnason.

Nú þegar Steingrímur Jóhann orðinn realó er komin upp ofurlítil leiðtogakreppa fúndó-megin í VG, og menn svipast um eftir mótvægi. Ekki er víst að Jón eigi möguleika á að taka þar forystu, en auðvitað er ljóst að ekki væri hægt að láta hann taka pokann sinn ef það mætti túlka sem einhverskonar undanlátssemi við Samfylkinguna.

Það kynni einmitt að vera einn tilgangurinn með þeim „loftfimleikum til heimabrúks“ sem Þórunn Sveinbjarnardóttir talar um í ágætum pistli hér á Eyjunni.

Í þessari stöðu er örugglega skynsamlegast fyrir Samfylkingarmenn að bíta ekki á agnið, heldur láta VG eftir að ráða fram úr vanda VG.

Ábyrgð flokkanna tveggja er mikil frá í vor. Nú er að sýna að menn séu hennar verðir.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.7.2009 - 10:12 - 14 ummæli

En hvað viljið þið gera?

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir andstöðu Sjálfstæðisflokksins við Icesave-samningana. Í gær var lína formannsins sú að samninganefndin hefði samið af sér. Í Sjónvarpsfréttum vildi hann samt engu svara um það hvað Sjálfstæðisflokkurinn vildi gera í málinu:

Bjarni: Við munum aldrei fallast á þessa samninga einsog þeir liggja fyrir þinginu óbreyttir.

Jóhanna Vigdís: Hvað viljið þið gera?

Bjarni: Ja, við viljum einfaldlega að, við höfnum því, við höfnum því algerlega að íslenska ríkið taki á sig, á þeim skilmálum sem um er að ræða í þessum samningum, þessar gríðarlegu ábyrgðir. Við teljum að menn hafi samið af sér í fjölmörgum atriðum. 

Sumsé: Afstaða Sjálfstæðisflokksins á þinginu er að fallast ekki á samningana. Stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu er að Íslendingar hafni samningunum. Punktur.

Úr þessu gerir hin glúrna Lára Hanna Einarsdóttur svo ágætt grín á síðunni sinni: hér.

Hinn mikli línudansari

Það er annars ekki alveg óvænt afstaða hjá Bjarna að halda því fram að samninganefndin hafi samið af sér, þótt hann vilji ekki segja til um hvað svo á að gera. Formaður Sjálfstæðisflokksins er ekki í góðri stöðu til að taka undir þá hressilegu og anarkísku draumóra að borga ekki. Formaður Sjálfstæðisflokksins getur heldur ekki bent á „dómstólaleiðina“ vegna þess að hann var fram til 1. febrúar hluti af  stjórnarmeirihluta sem hafnaði þeirri leið, og flutti um það fræga ræðu sem formaður utanríkismálanefndar þegar alþingi samþykkti að fara í viðræður.

Hinsvegar getur formaður Sjálfstæðisflokksins svarið af sér alla ábyrgð á sjálfri samninganefndinni og tekið almennt undir allskyns gagnrýni á samningatextann:

„Það er að koma upp núna, síðast í þessari viku, ábendingar, og í síðustu, um einstök svona lagaleg útfærsluatriði sem menn virðast hafa klúðrað í samningaferlinu. Þannig að við teljum það einfaldlega ekki koma til greina að fallast á þá beiðni ríkisstjórnarinnar sem hún hefur teflt hér fram, að veita ríkisábyrgð fyrir slíkum samningi.“ (BBen í Útvarpsfréttum, sama viðtal.)

Svo er rétt að taka eftir litlu lýsingarorði í fyrstu setningu formannsins: „… einsog þeir liggja fyrir þinginu óbreyttir.“ Formaður Sjálfstæðisflokksins á erfitt með að sveigja flokkinn mjög langt frá þeirri línu Samtaka atvinnulífsins og annarra forystumanna í atvinnulífi, í viðskiptum og á vinnumarkaði, að þetta mál verði að klára – þótt það sé frekar létt gestaþraut að ímynda sér samninginn bærilegri í ýmsum greinum.

Formaðurinn telur sig þurfa að leika þann línudans að halda uppi ekki miklu óvægnari stjórnarandstöðu en Sigmundur Davíð, og vonar auðvitað enn að Icesave sprengi stjórnina, sem aldrei hefur verið líklegt og er heldur ólíklegra nú en undanfarið – en formaðurinn þarf líka að sýna lágmarks-ábyrgð og má þrátt fyrir allt ekki fara um of á svig við hagsmuni atvinnurekstrar og viðskiptalífs.

„… óbreyttir.“ Næstu daga býr Sjálfstæðisflokkurinn til einhverskonar skilyrði fyrir stuðningi sínum við Icesave-málið. Þau verða þannig orðuð að vel hljómi í eyrum þjóðar með stolt sitt sært eftir atburðina að undanförnu, en líka þannig útbúin að stjórnarliðar geti engan veginn á þau fallist. Sjálfstæðisflokkurinn veifar síðan skilyrðum sínum en „hafnar“ Icesave, og þarf aldrei að segja hvað hann sjálfur vill gera.

Hjá því þarf formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir alla muni að komast.

 

PS: Gott blogg um Icesave og stjórnkerfið eftir Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur hér á Eyjunni!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur