Íslandsgrein Evu Joly í nokkrum merkum Evrópublöðum er snjöll pólitísk ádrepa á tregðu ýmissa helstu leiðtoga í Evrópusambandsins við að yfirgefa fagnaðarboðskap hins óhefta markaðar og koma á regluverki sem tryggir að almenningur verði ekki leiksoppur glæfra-kapítalista einsog og gerst hefur undanfarið um alla Evrópu og raunar heiminn – en alveg sérstaklega á Íslandi.
Hún ávítar Breta og Hollendinga fyrir óbilgjarnar kröfur á hendur Íslendingum, segir að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið fólskuleg árás á varnarlausa smáþjóð af heimapólitískum ástæðum, telur að Evrópusambandsforustan hefði átt að skipta sér af samningunum og fullyrðir að forseti framkvæmdastjórnarinnar, Portúgalinn Baroso, hafi brugðist vegna þess að hann eigi stöðu sína undir Bretum. Þá flokkist afgreiðsla AGS í síðustu viku undir fjárkúgun.
Eva Joly lætur hinsvegar ekki einsog Íslendingar séu einber fórnarlömb. Stjórnvöld og stofnanir á Íslandi bera umtalsverða ábyrgð, segir hún, og í hruninu hafi ekki hjálpað til „hagsmunaárekstrar og klíkuskapur í stjórnkerfinu“ (mun sterkara á frönskunni: les collusions d’intérêt et le fonctionnement clanique des institutions).
Hún leggur ekki til neina sérstaka lausn á vandamálum Íslendinga en krefst þess að fjármálastarfsemi verði mótaður skýr evrópskur lagarammi, og að alþjóðasamfélagið komi sér upp reglum til að bregðast við hörmungum einsog hér standa enn yfir.
Takk, Eva.
Villigötur
Þeir eru hinsvegar á nokkrum villigötum sem í nánast úrvinda umræðu hérmegin landsteina hafa hampað grein Evu sem ávísun á að við eigum ekki að borga Icesave eða gera einhverskonar aðsúg að Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu.
Eva segir sjálf að hún skrifi grein sína ekki sem ráðgjafi saksóknara eða á vegum Íslendinga, og það er rétt. Hún þekkir málin auðvitað vegna afskipta sinna af eftirmálum bankahrunsins en greinina skrifar hún fyrst og fremst sem evrópskur stjórnmálamaður, fulltrúi Franskgrænna á Evrópuþinginu.
Og einsog stundum hendir bestu menn við stjórnmálaskrif lætur Eva ekki smámuni draga úr áhrifamættinum. Þjóðin „ræður alls ekki við að greiða“ skuldir sínar (allar sumsé, Icesave og allt hitt), segir Eva án þess að orðlengja það frekar (þetta er raunar ekki eins afdráttarlaust á frönskunni: dont elle n’a pas les moyens de s’acquitter). Upphæð innstæðutryggingarinnar er ekki aðeins um 20 þúsund evrur heldur 50 og 100 þúsund evrur, segir Eva, sem er nokkuð ónákvæmt, því kröfur umfram 20 þúsund eru ekki gerðar á íslenska tryggingarsjóðinn heldur þrotabú bankans. Og Eva tilfærir skuldina vegna Icesave í heild sem 4 milljarða evra – en sleppir öllum peningum á móti úr eignasafninu, þar sem mat skilanefndarinnar er 75%.
Þetta sýnir ágætlega að Eva Joly er í raun ekki að skrifa um Icesave heldur um þá endurskoðun fjármálareglna sem leiðtogar ESB-þjóða hafa lofað en ekki bólar mikið á.
Með þeirri endurskoðun eigum við Íslendingar að fylgjast afar nákvæmlega, því þar í grennd gæti málstaður okkar styrkst síðarmeir í Icesave-málinu. Nýtt regluverk kynni að hjálpa okkur bæði við nýjar viðræður ef áætlanir standast ekki um greiðslugetu og hugsanlega einnig til endurskoðunar ef regluverkið er á skjön við samningana við Hollendinga og Breta og atburðarásina sem til þeirra leiddi. Þá stæðum við vissulega sterkari sem ESB-þjóð, einsog Elvíra Mendes hefur bent á. Mér sýnist reyndar sá svarti gamli senuþjófur Uffe Elleman-Jensen vera að segja okkur eitthvað svipað í Berlingi undanfarið.
Það sem við okkur blasir er hinsvegar að eiga við Icesave-samningana á næstu vikum – og hefðum átt að vera löngu búin. Grein Evu Joly gefur okkur engar vísbendingar um hvernig það verði best gert, en sýnir að samþykkt frumvarpsins um ríkisábyrgð á skuldir Tryggingarsjóðsins á alþingi merkir ekki endilega að málinu sé lokið af okkar hálfu.
Icesave-málið er öðrum þræði – aðalþræðinum kannski – pólitískt og siðferðilegt, ekki bara viðskiptalegt og lögfræðilegt. Þessvegna átti strax að kynna þann málstað sem við þó höfðum á alþjóðavettvangi, ekki síst evrópskum. Við það hafa stjórnmálamenn verið linir, sérstaklega fyrstu mánuðina þegar mest reið á. Það er þessvegna mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga árnaðarmenn í evrópskum stjórnmálum. Einn þeirra er nú Eva Joly á Evrópuþinginu. Þá skiptir máli að þakka fyrir – en forðast að misskilja, mistúlka, misnota.
Skaupþing
Aðrir viðburðir helgarinnar: Ég er yfirleitt nokkuð mis-uppnæmur af bloggaranum Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni, en nýja merkið er snilldarlegt!