Fimmtudagur 23.7.2009 - 09:50 - 19 ummæli

Glæpur Verhagens

Óvinur Íslands númer eitt heitir núna Maxime Jacques Marcel Verhagen og er utanríkisráðherra í Hollandi. Það sem herra Verhagen vann til óhelgi sér var að tilkynna blaðamönnum að Hollendingar yrðu tregir í samningataumi um Evrópusambandsaðild Íslendinga ef Icesave-málið yrði ekki klárað. Þar með gerði hann það sem ekki má: Að tengja Icesave við aðra þætti í efnahags- og alþjóðasamskiptum Íslendinga nú um stundir.

Össur varð hvumsa – því hinn kurteisi Hollendingur hafði hljómað allt öðruvísi í símann fyrr um daginn, og nú verður Maxime Jacques Marcel að passa sig því að Össur er ekki árennilegur ef hann reiðist. Steingrímur Jóhann kom fokvondur í sjónvarpsfréttir, og Árni Þór taldi ummælin „óheppileg“ og er orðinn miklu diplómatískari en yfirdiplómatinn. Stjórnarandstæðingar glottu auðvitað, því innanhússpólitískar yfirlýsingar Verhagens í Hollandi koma sér fyrir innanhúspólitík Bjarna og Sigmundar Davíðs á Íslandi.

Það er sjálfsagt að mótmæla ósmekklegum hótunum hollenska utanríkisráðherrans. Að formi til á umsóknin um Evrópusambandið ekkert skylt við þetta vandræðamál vegna Icesave-skulda ríkistryggðra útrásarvíkinga.

Á hinn bóginn þarf enginn að verða hissa á Verhagen. Orð hans eru einfaldlega fyrirboði þess sem vænta má ef íslenskir ráðamenn – ráðherrar og alþingismenn – bera ekki gæfu til að beita skynseminni í Icesave-málinu. Og þar er Evrópusambandsumsóknin ein ekki undir, því þokkalega farsæl lausn í því guðsvolaða leiðindamáli er lykill að sjálfri endurreisninni.

Glæpur Verhagens er eftir allt saman sá helstur að segja upphátt það sem aðrir tauta í hljóði um Íslendinga og Icesave – um ESB-aðild, lánveitingar, bankarekstur, traust og ímynd.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.7.2009 - 14:25 - 8 ummæli

En hvað segir Árni Matt?

Þjarkið um Icesave hefur nú færst inn á vettvang lögfræðinga í fullnusturétti – sérfræðinga í gjaldþrotum – og við hin stöndum eiginlega bara og horfum á. Fyrst kom Ragnar Hall, svo Eiríkur Tómasson, síðan Ástráður Haraldsson og Ása Ólafsdóttir, Eiríkur aftur í morgun, og þessar skylmingar hljóta að halda áfram næstu daga.

Viðurkennt skal að á þessu sviði er þekking yðar einlægs frekar takmörkuð – en mér sýnist þó að ekki sé verið að deila um bókstaf laganna eða hvernig hann hefur umbreyst í úrskurði og réttarvenjur heldur um túlkun án stuðnings af fordæmi eða fræðilegri umfjöllun: Hvort hinn frægi Tryggingarsjóður hafi við setningu neyðarlaganna fengið svipaðað réttarstöðu og Atvinnuleysistryggingasjóður við tilteknar aðstæður þótt ekkert standi beinlínis um það í lögbókinni.

Þetta er að minnsta kosti svona ekki alveg venjuleg lagadeila, einsog til dæmis má sjá af þessari setningaruppbyggingu hjá prófessor Eiríki í morgun: „Þegar … , þá finnst mér það rökrétt að …“

Undir er mikið fé – ef Ragnar og Eiríkur hafa rétt fyrir sér um að Svavar og samninganefndin hafi beinlínis gert mistök og samið af sér – ja, þá er úr vöndu að ráða, og menn verða væntanlega að senda út bón um nýjar samningaviðræður af því höfðum áður svo vitlausa samningamenn.

Deilur Ragnars og Eiríks við Ástráð og Ásu eru örugglega afar fróðlegar fyrir áhugamenn um fullnusturétt en mér finnst samt rökrétt að fyrsta spurningin sé þessi:

Var jafnstaða kröfuhafa gagnvart búinu mál sem samninganefndin samdi sérstaklega um við Hollendinga og Breta – eða var þetta ein af forsendum samningsgerðarinnar, sem ekki var til umræðu í samningaviðræðunum?

Ef jafnstaða allra kröfuhafa (þ.e. þeirra sem hafa forgang) var ein af forsendum samningsins skiptir litlu máli hver niðurstaða verður af rökræðum lögfræðinganna í Fréttablaðinu. Þá er sú staða grundvöllur samningsins og ekki um að ræða neinskonar mistök eða vanþekkingu samninganefndarinnar.

Þessvegna þurfum við eiginlega að vita þetta frá þeim sem gerst þekkja til, allra helst frá ábyrgðarmönnum málsins þegar ákveðið var að ganga til samninganna, Árna Mathiesen fjármálaráðherra og ráðuneytisstjóra hans, Baldri Guðlaugssyni, og þeim öðrum sem komu við sögu – neyðarlaganna, sameiginlegu viðmiðanna frá Brussel og hinnar frægu nóvemberviðbótar við AGS-yfirlýsinguna, þar sem þáverandi fjármálaráðherra og þáverandi seðlabankastjóri kvittuðu undir það að Íslendingar tryggðu innstæðueigendum og lánardrottnum málsmeðferð sem yrði „sanngjörn, jöfn og án mismununar“ (e. fair, equitable and non-discriminatory) í samræmi við gildandi lög.

Það er erfitt að lesa þessa klausu öðruvísi en sem yfirlýsingu um jafnstöðu allra kröfuhafa gagnvart þrotabúinu, óháð búsetu eða upphæð.

En hvað segir Árni Matt?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.7.2009 - 14:43 - 8 ummæli

Góðar fréttir

Einhverntíma hefðu manni ekki fundist það féleg tíðindi að tveir af þremur helstu bönkum Íslendinga væru á leiðinni í erlenda meirihlutaeigu. Lengi skal manninn reyna …

Góðar fréttir af bönkum

… en þetta eru sannarlega góðar fréttir, að erlendir kröfuhafar gangi líklega til samninga um að breyta kröfum sínum í hlut og eignist meirihluta í Kaupþingi og Íslandsbanka. Þar með leita þeir arðs í íslenskum atvinnurekstri í staðinn fyrir að heimta mat sinn strax og engar refjar – hitt skiptir ekki síður máli að með þessu hefðu öflugir aðilar í öðrum löndum skyndilega beinan hag af endurreisninni og viðgangi íslenskra fyrirtækja. Vera má að náin kynni sem með þessum hætti fengjust af atvinnulífi hér gætu leitt til frekari erlendra fjárfestinga í öðrum rekstri en hinni eilífu stóriðju. Ef þetta gengur upp væru það líka góðar fréttir að til áhrifa komist í íslenskum bankaviðskiptum menn sem fyrst og fremst hafa áhuga á að reka fjármálafyrirtæki á Íslandi en ekki að eignast hálfan hnöttinn og komast á forsíðuna hjá Forbes.

Það skiptir auðvitað miklu að þetta séu almennilegir venjulegir kapítalistar. Við viljum enga vogunarvíkinga.

Það er líka góð niðurstaða í bili að einn bankanna verði áfram í höndum ríkisins. Reyndar virðist orðinn þokkalegur samhljómur um að það liggi ekki á fyrir ríkið að losa sig við hlutafé í bönkunum, jafnvel þótt allt fari á besta veg. Fyrir kemur þrátt fyrir allt að menn læra af reynslunni.

Góðar fréttir af ESB 

Einsog meirihluti að baki ESB-umsókn sýnir.

„Góðar“ fréttir af Icesave? 

Svo er Icesave-málið erfiða á dagskrá í vikunni. Þeir Ragnar Hall og Eiríkur Tómasson hafa gert við samningana athugasemdir sem stendur upp á stjórnvöld að svara, en okkur sem ekki höfum próf í gjaldþrotarétti finnst í svipinn heldur ólíklegt að íslenska samninganefndin hafi verið svona vitlaus og „samið af sér“ eins og þeir félagar halda fram.

Að þeim málum slepptum hef ég ekki sömu trú á því og félagi Guðbjartur Hannesson að stjórnarandstaðan fáist til að styðja Icesave-frumvarpið, jafnvel með einhverjum fyrirvörum. Þar hafa menn einfaldlega tekið þá ákvörðun að vera á móti, og fyrir utan augljósar efnislegar ástæður – því þetta hefur aldrei verið einfalt – finnst þeim Bjarna og Sigmundi Davíð þægilegast næstu ár að vera alsaklausir af þessum leiðindum. Það verður þá svo að vera. Hinsvegar er sjálfsagt að alþingi hafi skoðun á málinu og það gæti styrkt málstað okkar síðar meir að alþingi féllist á ríkisábyrgð fyrir sitt leyti með sérstakri tilvísun til hinna sameiginlegu viðmiða sem ýmsum finnst vanta í samningstextana og voru forsenda samningsgerðar af hálfu alþingis í nóvember.

Athugasemdir, skilyrði, fyrirvarar, eða hvað menn vilja kalla það – þetta er allt til bóta meðan ekki er hætta á að sjálfir samningarnir spillist. Það má ekki gerast. Björgunarstörf og upphaf endurreisnar hafa tekið miklu lengri tíma en nokkur hélt, og enn bíða úrlausnar fyrirtæki og heimili. ESB fyrir helgi og bankarnir nú eru góðar fréttir. Nýir tímar á leiðinni. Höldum því striki.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.7.2009 - 14:24 - 12 ummæli

Það tókst!

Það var naumt – en það tókst! einsog Dóra segir í barnasjónvarpinu. Naumt um tillögu Bjarna og Þorgerðar, en þegar þingmenn hættu að deila um form og þurftu að taka afstöðu til málsins sjálfs voru tölurnar aðrar, enda er veruleg samstaða um umsókn bæði meðal stjórnmálamanna og í þjóðarsálinni.

Nú verður farið strax af stað, og það er mikilvægt að sem allra flestir taki þátt í samningunum, með ráðslagi, í umræðu, með rannsóknum og kynningu. Ef vel tekst til getur umsóknarferlið orðið einn helsti hornsteinn endurreisnarinnar – ef við höfum ekki bara undir efnahagsstærðir og peningarök heldur lítum líka í spegil og skoðum sjálfsmynd okkar, gildi og  vegferð undanfarin ár. Ég er ekkert sérlega hrifin af frammistöðu Birgittu Jónsdóttur þessa dagana, en eitt sagði hún gott í frægri ræðu um ESB-umsókn, að við ættum ekki bara að horfa á það sem við getum fengið út úr Evrópusambandinu heldur athuga líka það sem við höfum fram að færa.

VG – efnir loforð annarra

VG hefur auðvitað verið í undarlegri stöðu í þessu blessaða umsóknarmáli. Umsókn var ákveðin við stjórnarmyndunina – í ljósi þess ekki síst að upp úr kjörkössunum kom þingmeirihluti með umsókn. Þrjú framboð höfðu haft umsókn á stefnuskránni, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin, og allir vissu um verulegan áhuga hjá mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þegar þetta fólk hljóp mestallt frá til að reyna að fella stjórnina frekar en bjarga landinu – þá reyndi á vinstrigræna sem nánast þurftu að taka að sér að efna kosningaloforð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Þórs Saari og félaga í gömlu góðu hentistefnunni.

Þeir sem stóðust þessa raun í VG eru menn að meiri, en það má heldur ekki gleyma þeim Framsóknarmönnum og Borgurum sem ákváðu að orð skyldu standa: Guðmundi, Siv, Þráni og Birki Jóni. Í þessum hópi er líka einn Sjálfstæðismaður, Ragnheiður Ríkharðsdóttir. 

Því miður snerust þessar atkvæðagreiðslur ekki nema að litlu leyti um Evrópusambandið og þjóðarhagsmuni Íslendinga heldur um flokkana og um ríkisstjórnina. Og vegna þess að forystumenn stjórnarandstöðunnar ákváðu að sækja að ríkisstjórninni vann hún í dag góðan sigur, sem gæti átt eftir að reynast henni afar mikilvægur. Björninn er þó ekki unninn fyrr en Icesave-málið er í höfn í næstu viku.

Þjóðarhagur, ekki fjölskyldurifrildi

Fyrst og fremst er dagurinn í dag – 16. júlí 2009 – merkisdagur í þjóðarsögunni. Það er hafinn fyrsti áfangi í ferð sem gæti skapað okkur nýjan grunn í efnahagslífi, alþjóðamálum, menningarefnum.

Við höfum aldrei verið afar samferða Íslendingar, og hver stórákvörðunin af annarri hefur hér verið tekin eftir hávaðarifrildi með svartagallsrausi, svikabrigslum og heimsendaspám. Upphaf ESB-umsóknarinnar varð engin undantekning, og kannski er þetta bara þjóðarsálin með góðu og illu.

Reynum nú samt að vanda okkur í framhaldinu, gleyma öllu svekkelsi og standa saman. Nú verða fjölskyldurifrildin að víkja fyrir þjóðarhag: Næstu missirin erum við á stóra sviðinu. Svo kjósum við öll um famtíðina.

Til hamingju.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.7.2009 - 09:28 - 21 ummæli

Venjulegur stjórnmálaflokkur í venjulegri stjórnarandstöðu

Hvað er meira gamaldags í pólitík en að taka eitt mál í gíslingu til að ná fram vilja sínum í öðru máli? Og hvað er meiri hentistefna í pólitík en að finna sér á nokkrum dögum tylliástæður til að skipta um margyfirlýsta afstöðu í stórmáli til að koma andstæðingum sínum illa og vekja á sér athygli?

Hver stundar svona pólitík? Gömlu refirnir í fjórflokknum? Kannski.

Allavega ekki fólkið með geislabauginn úr Borgarahreyfingunni, eða hvað:

,,Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildarsamningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf. Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði.“ — Þór Saari 24. apríl 2009.

En nú er þetta breytt. Kannski betur heima setið en af stað farið: Það tók ekki nema tæpa þrjá mánuði fyrir hreyfingu fólksins af Austurvelli að verða að venjulegum gamaldags stjórnmálaflokki í stjórnarandstöðu.

Sic transit gloria mundi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.7.2009 - 13:53 - 25 ummæli

Fyrsta orðið

Þjóðin á ekki bara að hafa síðasta orðið um Evrópusambandsaðild, heldur líka fyrsta orðið, segir Ásmundur Einar Daðason alþingismaður.

Já – og það orð var upp kveðið í alþingiskosningunum 25. apríl þegar skapaðist tvennskonar meirihluti á alþingi, meirihluti norrænu velferðarstjórnarinnar annarsvegar og hinsvegar meirihluti þeirra flokka sem höfðu á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja samninginn síðan undir þjóðaratkvæði. Þetta voru Samfylkingin, Borgarahreyfingin og Framsóknarflokkurinn.

Einmitt af því þessi síðarnefndi meirihluti var fyrir hendi var sá einn uppi fyrir VG að semja um aðildarumsókn í stjórnarmyndunarviðræðunum – enda ljóst öllum sem vildu vita Samfylkingin mundi ekki fara í stjórn og gæti ekki farið í stjórn án aðildarumsóknar. (Hér og hér má sjá hvað yðar einlægur sagði um þetta fyrir stjórnarmyndun en eftir kosningar).

Nú kann að vísu að vera að einhverjir Framsóknarmenn í popúlíska Sigmundararminum láti af fyrri stefnu til að freista þess að sprengja stjórnina – en slíka hentistefnu stjórnarandstæðinga eiga stjórnarliðar einmitt að standa af sér. Stóra stundin fyrir Ásmund Einar og aðrar frjálsræðishetjur í VG og víðar rennur upp þegar samninganefndin snýr aftur, og þjóðin á síðasta orðið.

Svo þarf að skipuleggja samningaviðræðurnar þannig að þjóðin eigi allskyns milliorð – að utanríkisráðherra, ríkisstjórn, samninganefnd og alþingi, jámenn og neimenn og kannskimenn, séu í stöðugu sambandi við hagsmunaaðila og áhugahópa í samfélaginu með upplýsingaflæði og samráði, meðal annars á skipulegum opnum fundum um allar hliðar máls. Með því móti verður lokakafli ESB-ferilsins einfaldari, sársaukaminni og markvissari, hvort sem þjóðin segir já eða nei.

Hugmyndin um að hafa sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn – sem hvergi hefur gerst í 21 umsóknarlandi frá 1973 til 2004 – hefur hér kviknað í þremur flokkum sem redding út úr ágreiningi og innanflokksvandræðum, fyrst hjá Framsókn, sem hætti við og vildi sækja um strax, svo hjá VG, sem hætti líka við þessa hugmynd í vor, og loks hjá Sjálfstæðisflokknum sem annars hefði líklega klofnað á flokksþinginu í mars þegar Bjarni var kosinn.

Hugmyndin er ekki góð – vegna þess að enginn veit hvað er verið að kjósa um, og vegna þess að ef umsókn yrði felld mundum við aldrei vita hvað hefði verið í boði. Galli á hugmyndinni er líka sá – bæði fyrir fylgismenn og andstæðinga aðildar en einkum fyrir þjóðina í heild – að niðurstaðan „já“ gæti veikt stöðu okkar í samningunum sjálfum. Það er einfaldlega ólíklegt að þjóðin samþykki fyrst að sækja um aðild og felli síðan sjálfa aðildarsamningana, og þetta vita þeir sem sitja hinumegin borðsins.

Annars er skemmtilegt að sjá einmitt þá sem aldrei hafa ljáð máls á almennri atkvæðagreiðslu borgaranna – um annað en hunda og brennivín – berjast svo hatrammlega fyrir hinu beina lýðræði að þeir vilja hafa það tvöfalt. Nánast þjóðaratkvæði um að hafa þjóðaratkvæði. Af hverju var þá, ágæti Sjálfstæðisflokkur, ekki hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin? Og hversvegna mátti alls ekki hafa flugvallaratkvæðagreiðsluna í Reykjavík? Af hverju var ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um EES á sínum tíma þrátt fyrir áleitinn stjórnarskrárvafa? Eða Efta enn fyrr? Og er úr vegi að spyrja Sjálfstæðismenn líka um herinn og Nató? þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla hefði haft mikið að segja fyrir sálarlíf þjóðar og stjórnmálamanna hvernig sem farið hefði. Hefði þá kannski átt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfa umsóknina eða viðræðurnar um EES, Efta, her og Nató? Um Icesave strax í nóvember og svo aftur í sumar?

Sannleikurinn er auðvitað sá að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla um þjóðaratkvæðagreiðslu er því aðeins í umræðunni að forystu Sjálfstæðisflokksins vantaði klæði til að bera á vopnin innandyra. Þeir tímar eru hinsvegar liðnir að leikslok í þjóðlífinu ráðist af vopnaviðskiptum í Valhöllinni við Bolholt.

„Fyrsta orðið“ átti þjóðin kosningunum í vor. Síðasta orðið á þjóðin líka – í atkvæðagreiðslu eftir aðildarsamningana – kannski haustið 2010. Þá skrifum við undir á Hrafnseyri við Arnarfjörð hinn 17. júní 2011, á tveggja alda afmæli hinnar djörfu sjálfstæðishetju og praktíska þjóðvinar, skjalavarðarins og íslenskufræðingsins Jóns Sigurðssonar.

😉

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.7.2009 - 09:22 - 27 ummæli

Þeirra eigin orð

Góður félagi sendi mér þessar tilvitnanir um Evrópusambandsaðild eftir nokkrum Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum í tilefni dagsins:

 

FRAMSÓKNARFLOKKUR

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:

„Afstaðan er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru.“ (Á Viðskiptaþingi. Frétt í Fréttablaðinu 14. mars 2009)

Sigmundur Davíð sagðist sjá fyrir sér að það yrði verkefni nýrrar ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. (Á flokksfundi. Frétt í Fréttablaðinu 19. mars 2009.)

Birkir Jón Jónsson:

„Ég er hlynntur því að það verði farið í viðræður við Evrópusambandið, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, líkt og landsfundur okkar hefur samþykkt.“ (Fréttaviðtal, visir.is, 5. maí 2009.)

Siv Friðleifsdóttir:

„Ég er Evrópusinni og ég tel eðlilegt að þjóðin kveði upp úr um það hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki.“ (Fréttaviðtal, visir.is 4. nóvember 2008.)

Guðmundur Steingrímsson:

„Það verður að hlusta á kall tímans. … Við hlustuðum ekki. Og nú gerir núið kröfu um ákvarðanir, um stefnu, upplýsingar og síðast en ekki síst: Að stærsta hagsmunamál þjóðarinnar – framtíðargjaldmiðillinn og aðild að ESB – sé sett upp á borðið og um það kosið.“ (Grein í Fréttablaðinu 15. nóvember 2008.)

Eygló Harðardóttir:

„Hefja þarf undirbúning aðildarviðræðna við Evrópusambandið til að fá niðurstöðu um hvort  hagsmunum Íslendinga sé best borgið þar.“ (Pistill á heimasíðu Eyglóar, hér, 22. janúar 2009.)

 

SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR

Bjarni Benediktsson:

„… ég tel að í gjaldmiðilsmálum sé enginn kostur jafn sterkur og evran með ESB-aðild í stað krónunnar. … Ég er talsmaður þess að við tökum afstöðu til Evrópusambandsaðildar.“ (Viðtal í Fréttablaðinu 21. mars 2009.)

„Margir segja að við fáum betri samninga í viðræðum við Evrópusambandið en mín sannfæring segir til um. Mitt svar við því er að ég er tilbúinn að láta á það reyna því ég óttast ekkert í þessu ferli.“ (Viðtal í Viðskiptablaðinu 21. mars 2009.)
 
„Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi kalla á að þjóðin öll taki í kjölfar aðildarviðræðna [við ESB] ákvörðun um þetta mikilvæga mál. Ræður þar úrslitum að halda ber á hagsmunum Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu með það að leiðarljósi að sem víðtækust sátt og samstaða takist um niðurstöðuna.“ (Grein eftir Bjarna og Illuga Gunnarsson í Fréttablaðinu 13. desember 2008.)

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir:

„Við verðum að halda áfram að tala um Evrópumálin hvort sem það er evruaðild með tvíhliðasamningum við Evrópusambandið eða Evrópusambandsaðild.“ (Hádegisfréttum Stöðvar 2, 24. september 2008.)

„Þetta gerist alltaf þegar umræðan um ESB tekur á loft. Þá er bent á aðrar lausnir. Auðvitað er sjálfsagt að skoða þær en ég held að ef við ætlum að hverfa frá þeirri peningamálastefnu sem nú er þá sé það eðlilegt að við leitum inn í Evrópusambandið.“ (Viðtal í Fréttablaðinu 1. nóvember 2008.)

„Mér finnst ekkert ólíklegt að við ákveðum að fara í aðildarviðræður með ákveðnum forsendum og þá náttúrulega fyrst og fremst með hagsmuni okkar í sjávarútvegi og landbúnaði að leiðarljósi.“ – Fréttamaður: Er það það sem þú vilt? Þorgerður Katrín: „Já. Ég verð nú að segja það að miðað við það sem maður er að viða að sér frekari upplýsingum um, að þá bendir allt til þess, og ég tel það vera rétta skrefið, að fara í aðildarviðræður undir þessum formerkjum.“ (Viðtal í kvöldfréttum RÚV-Útvarps 16. desember 2008.)

… Nú væru aðstæður allt aðrar og mikilvægt væri að flokksmenn veittu nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins umboð á næsta landsfundi til aðildarviðræðna við ESB. „Við verðum að fá skýr svör,“ sagði Þorgerður. Hún sagði að tvíþætt vandamál myndi leysast með aðild að ESB: „Peningamálastefnan og gjaldmiðillinn og ekki síður orðspor okkar og viðskiptavildin. Getum við verið ein eða er betra fyrir okkur að vera í samstarfi við aðrar þjóðir?“ (Á Viðskiptaþingi. Frétt í Morgunblaðinu 12. mars 2009.)

Ólöf Nordal:

„Ísland getur ekki verið útí vindinum, svona eitt … EES-samningurinn er ekki nægjanlegt skjól. … Ísland hefur verið að einangrast og sagan sýnir okkur að Íslandi hefur ekki vegnað vel þegar það er einangrað.“ (Viðtal í Markaðnum, Fréttablaðinu 20. desember 2008.)

„Það dettur engum í hug að útiloka aðild að sambandinu til langs tíma og satt að segja held ég að það sé frekar tímaspursmál en hitt hvenær við stöndum frammi fyrir þessari ákvörðun.“ (Viðtal í Fréttablaðinu 28. mars 2009.)

Einar K. Guðfinnsson:

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setur sig ekki upp á móti því að gengið verði til viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Á málþingi sem Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, stóð fyrir í dag sagði Einar að hann myndi ekki útiloka þennan kost. Einar hefur verið andsnúinn aðild að Evrópusambandinu en sagði í dag að bankahrunið setti málið í nýtt ljós. (Á Heimssýnarfundi. Frétt í RÚV-Útvarpi 11. janúar 2009.)

Ragnheiður Ríkharðsdóttir:

Enginn þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem DV talaði við í gær tók eins afdráttarlausa afstöðu með aðildarumsókn og þjóðaratkvæðagreiðslu og Ragnheiður Ríkharðsdóttir: „Annað er ekki í stöðunni eins og ástatt er.“ (Evrópuúttekt í DV 15. desember 2008.)

„Ég er ein þeirra sem er fylgjandi því að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið, að kannaðir verði kostir og gallar þess sambands fyrir íslenska þjóð. Það verði síðan lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að þjóðin geti sjálf tekið ákvarðanir um örlög sín. Það er það sem skiptir máli. Ég get líka upplýst hér og nú svo að það fari ekki á milli mála að ég er sjálf fylgjandi aðild að ESB, það er ekkert flókið. Það er enginn holur hljómur í þeirri skoðun og það er ekki holur hljómur í þeim sem segja svo í Sjálfstæðisflokknum. Við sem viljum þessa leið segjum það upphátt og erum ekki að fela eitt eða neitt í þeim efnum.“ (Í umræðum á alþingi 17. desember 2008.)

Illugi Gunnarsson:

„Ég hef áður lýst yfir þeirri skoðun að þjóðin þarf að taka afstöðu í þessu máli og ég stend við hana. Það er engin leið fram hjá því og það verður ekki gert öðruvísi en með aðildarumsókn.” (Á fundi Alþjóðamálastofnunar HÍ 30. apríl 2009.)

„Ef mönnum finnst betra að fá sérstakt umboð til að fara í viðræðurnar [með þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn] þá geri ég engar athugasemdir við það, en í sjálfu sér held ég að það sé engin sérstök nauðsyn á því. Hin leiðin [þ.e. sækja um og hafa svo atkvæðagreiðslu um samning] er hreinlegri af því að þá erum við að kjósa um eitthvað sem við vitum hvað er.“ (Viðtal í Fréttablaðinu 2. janúar 2009.)

Jón Gunnarsson:

„Ég tel að niðurstaðan hafi að sumu leyti verið óheppileg, hversu langt var gengið að hafna aðild [á landsfundi Sjálfstæðisflokks].“ (Viðtal í hádegisfréttum Bylgjunnar 26. apríl 2009.)

 

„Þeirra eigin orð“ hét velheppnaður áróðursbæklingur úr kalda stríðinu sem ég á uppi í hillu. Hann gáfu Heimdellingar út og notuðu eingöngu tilvitnanir í andstæðinga sína, sem þá voru auðvitað „kommarnir“. Nú passaði aftur þessi góði titill.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.7.2009 - 12:38 - 20 ummæli

Nær ekki nokkurri átt

Það nær ekki nokkurri átt að fallast á tilboð Björgúlfanna um að borga tæpan helming af skuld sinni við Kaupþing. Mælir ekki með stjórnendum Kaupþings að hafa látið sér detta þetta í hug – nema þá ekki séu öll kurl komin til grafar. Rétt að það gerist þá ekki seinna en í gær, því hér virðist allt á hreinu, fyrrverandi bankaeigendurnir sjálfir á ábyrgðum, ef ekki næst fé hjá öðrum má fara í hinn. Og lánið fengið í einum banka til að kaupa annan – sem við hin héldum að hefði fengist fyrir bjórgróða í Austurvegi!

Vissulega þurfa bankarnir frelsi til athafna og allir eru sammála um að reyna að halda uppi fullri fagmennsku þótt fulltrúar eigenda – almennings – séu kosnir í bankaráðin á alþingi.

Þetta er ekki svoleiðis mál. Nú eiga stjórnmálaflokkarnir allir og stjórnarflokkarnir sérstaklega að gera bankaráðsmönnum og bankastjóra grein fyrir því að nýi bankinn verður að innheimta alla þessa skuld – eða segja af sér ella.

Ef ég þekki Jóhönnu rétt er hún búin að þessu fyrir sitt leyti.

Enda nær þetta sumsé ekki nokkurri átt – og meira að segja á undanförnum ólgutímum er leitun að frétt sem hefur jafn-illilega ofboðið réttlætiskennd almennings.

 

Viðauki um fjögurleytið:

Bankinn sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem sagt er að engar ákvarðanir hafi verið teknar. Þar segir líka þetta:

,,Í máli sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum hafa engar ákvarðanir um afskriftir verið teknar. Bankinn ítrekar að í hverju máli er unnið eftir ítarlegum verklagsreglum og að lögð er mikil áhersla á sanngjarna málsmeðferð öllum til handa.“

Stjórnendur Kaupþings verða að skilja að hér er ekki um að ræða neinskonar almenna viðskiptavini Kaupþings sem við eigi hinar ýtarlegu verklagsreglur þar sem áhersla er lögð á ,,sanngjarna málsmeðferð“. Sú ,,sanngjarna málsmeðferð“ sem bankastjórnin er að velta fyrir sér er einmitt ekki sanngjörn þegar litið er yfir sögu hruns og útrásar og tekið tillit til hins mikla fjölda sem nú á um sárt að binda vegna glæfra og mistaka fjármála-, embættis- og stjórnmálamanna.

Útaf athugasemdum er rétt að taka fram að ég legg enga fæð á Björgólfsfeðga. Frekar öfugt – er ágætlega málkunnugur þeim eldri, fyrrverandi aðaleiganda bókaforlagsins Eddu, og heilsa hinum á götu. Pabbinn á sér merkilega sögu og hefur menningarlegan metnað, við erum víst frændur af Snæfellsnesinu, og þetta eru þar að auki KR-ingar. En hér er ekki um að ræða persónulega vild eða óvild. Þeir eiga bara að borga skuldir sínar. Einkum og sér í lagi þessa.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.7.2009 - 11:52 - 22 ummæli

Þór Saari og botnlaus hræðsluáróður

 

 

Ein athugasemdanna sem bárust við síðasta pistil, um Parísarklúbbinn og Lilju Mósesdóttur, var frá Þór Saari alþingismanni sem einmitt velti fyrir sér fréttum vikunnar hjá Halla Thorst á laugardaginn. Þór finnst pistill minn vera hluti af „botnlausum hræðsluáróðri … fyrir ICESAVE“ en nýjasta nýtt í þeirri herferð sé að „Samfylking og hluti VG“ (til dæmis ég og Huginn Freyr Þorsteinsson, líklega hér) noti Parísarklúbbinn sem áróðurstæki „með því að segja að allir sem séu á móti ICESAVE samningnum vilji ganga í hinn s.k. Parísarklúbb“. Icesave-málið hafi ekkert með Parísarklúbbinn að gera, „og hugsanleg niðurfelling skulda þjóðarbúsins eru slíkir smáaurar í buddum nágrannalandanna að þeim fyndist örugglega ekki taka því að gera úr því mikið mál“.

 

Skýring Þórs á Icesave-samkomulaginu er síðan þessi: „Hins vegar hafa Bretar og Hollendingar nýtt sér til hins ýtrasta þennan áhuga ríkisstjórnarinnar á að ganga í ESB og nota það að sjálfsögðu sem skiptimynt til að ná sér niður á Íslendingum, sem jú, með dyggum stuðningi ríkisstjórnar sem einmitt Samfylkingin átti aðild að, svindluðu rækilega á breskum og hollenskum sparifjáreigendum.“

 

Það er að segja groddakenningin um Icesave sem „aðgöngumiða“ Samfylkingarinnar inn í Evrópusambandið. Þú líka, Borgarahreyfing?

 

Lilja og Parísarklúbburinn, taka tvö

 

Ég var nú eiginlega búinn að setja sjálfan mig í frí frá Icesave-málinu – frumvarpið er komið í þingnefnd og í bili búið að segja nokkurnveginn allt sem hægt er um það að segja – en:

 

Parísarklúbburinn er ekki mættur í umræðuna af mínum völdum eða Hugins Freys Þorsteinssonar heldur af því Lilja Mósesdóttir og fleiri kynntu hann til sögu, meðal annars í Vikulokaþættinum á laugardaginn. Ég er sammála Þór Saari um það að Icesave kemur Parísarklúbbnum lítið við – og í Morgunblaðsgrein í gær tekur Lilja á vissan hátt undir þau viðhorf.

 

Þar leiðréttir hún líka ummæli sín frá því á laugardag, vill ekki lengur tala við Parísarklúbbinn, að minnsta kosti ekki strax, heldur setjast niður með kröfuhöfum – ef í ljós kemur að í nánd sé „greiðsluþrot þjóðarbúsins“. Í Morgunblaðsgreininni virðist Lilja raunar komin að þeirri niðurstöðu að samþykkja Icesave-samninginn ef hann leiðir ekki til „greiðsluþrots þjóðarbúsins“. Það er önnur afstaða en á laugardaginn, og ég tek undir með Lilju: Ef Icesave leiðir til „greiðsluþrots þjóðarbúsins“ er langbest að hætta þrasi og gefa sig strax fram við kröfuhafa, Parísarklúbb eða hverja þá aðra í heiminum sem kynnu að vilja hjálpa okkur með það sem jafngildir nauðasamningum eða greiðsluaðlögun hjá fyrirtækjum og heimilum. Ég sé hinsvegar enga leið til að komast sérstaklega undan Icesave-málinu – og auglýsi enn eftir því að Lilja – eða Þór – skýri hvernig þau ætla að sleppa við þær kröfur, og hvernig kröfuhafar, Parísarklúbbur eða aðrir eiga að líta framhjá þeim í einhverskonar þjóðréttarlegri syndaaflausn.

 

Getum við borgað?

 

Nú er það svo að forystumenn í ríkisstjórn, þar á meðal forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðherrar, bankastjóri Seðlabankans, leiðtogar í atvinnulífi báðumegin borðs og margir helstu fræðimenn telja ekki hættu á greiðsluþroti, að Icesave-skuldum meðtöldum. En til þess er meðal annars umfjöllunin í þingnefndunum þremur um Icesave-málið að ganga úr skugga um þetta.

 

Fólk sem ég heyri í hristir hausinn yfir prósentutali Lilju og miklu fleiri úr AGS-skýrslum, 150 eða 250%. Þumalputtareglur séu sjálfsagðar í þessum fræðum einsog öðrum en sjálf greiðslugetan skeri úr, ekki skuldarfjárhæðin þótt ógnarleg sé. Þar standi Íslendingar þokkalega vel að vígi, einsog sýnt er í greinargerðinni með ríkisábyrgðarfrumvarpinu (pistill hér).

 

Verði niðurstaðan sú að þjóðarbúsgreiðsluþrot sé ekki yfirvofandi – þá höfum við engu að síður endurskoðunarákvæðið sem miðast við stöðumat AGS frá í nóvember, og það er ekki fráleit hugmynd hjá Eiríki Bergmann að alþingi setji að auki einhverskonar almennan fyrirvara (hér), væntanlega í nefndaráliti, sem styrki stöðu stjórnvalda hér ef allt fer á versta veg.

 

Þór Saari – af fingrum fram?

 

Lilja hefur skýrt sína afstöðu, nú eða færst til í afstöðu. Afstöðu Þórs er erfiðara að skilja. Hann sagði í þættinum á laugardaginn að það ætti að fresta Icesave-málinu, og líka fresta ESB-málinu, þótt hann vildi reyndar sækja um aðild að ESB. Við hefðum fullar hendur þótt ekki bættist þetta við. Þar á meðal væri sá vandi að krónan er ónýt, sagði Þór, – en samt eigum við sumsé ekki að ræða að við ESB og Seðlabanka Evrópu.

 

Í athugasemdinni til mín kemur svo að auki að „hugsanleg niðurfelling skulda þjóðarbúsins“ sé „smáaurar í buddum nágrannalandanna“ sem þau mundu ekki „gera úr … mikið mál“. Þannig að við eigum að fara fram á niðurfellingu skuldanna – en fresta Icesave og gera hvorki okkur né umheiminum neina grein fyrir því hvert við stefnum í gjaldmiðilsmálum? Og af hverju ætti umheimurinn að fallast á það? Af því við erum svo sérstök og einstæð og sæt? Og svo mikil undantekning?

 

Annaðhvort eru þetta draumórar, eða þá Þór Saari félagi minn og þúsundanna af Austurvelli er farinn að tala af fingrum fram – orðinn venjulegur óábyrgur stjórnmálamaður að hlaupa þangað sem hann heldur að fylgið sé að finna.

 

Hlusta á Elvíru

 

Borgarahreyfingin hefur þó hingað til gert sitt til að málið félli ekki í hinar venjulegu íslensku skotgrafir stjórnar og stjórnarandstöðu. Hreyfingin hefur meðal annars kallað til umræðunnar Evrópuréttarfræðinginn Elviru Méndez Pinedo, kennara við HÍ, sem skilaði um daginn merkri skýrslu um Icesave frá sjónarhóli ESB-réttar. Úr niðurstöðum hennar má lesa að Icesave-samningarnir væru líklega aðrir ef Íslendingar væru Evrópusambandsþjóð og hefðu getað nýtt sér ýmis atriði ESB-réttarins. Fyrir alþingismann sem vill fresta ESB-umsókn meðan verið sé að leysa málin er tólfti niðurstöðupunktur Elvíru einkar fróðlegur:

 

„Þá er ljóst að Ísland hefði sem umsóknarríki um aðild að ESB sterkari stöðu til að sækja um fjárhagsaðstoð og lán frá Evrópusambandinu. Viðræður við ESB um fjárhagsaðstoð yrðu eðli málsins samkvæmt talsvert auðveldari ef íslensk stjórnvöld sýndu vilja til að ganga til samstarfs við sambandið hver svo sem úrslitin yrðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

 

Það sé einmitt snjallræði fyrir Íslendinga að sækja um. En hitt er auðvitað rétt hjá Þór Saari ef honum líst ekki á ESB-aðild – að Ísland kemst hvorki þangað né nokkuð annað ef stefnan er núna strax tekin á að gefast upp og reyna við „hugsanlega niðurfellingu skulda þjóðarbúsins“.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.7.2009 - 11:08 - 12 ummæli

Lilja á Signubökkum

Lilja Mósesdóttir var í Vikulokaspjalli á laugardaginn og lagði þar til að við höfnuðum Icesave-samkomulaginu og færum síðan að tala við Parísarklúbbinn um skuldastuðning. Lilja er einn af þeim alþingismönnum VG sem hafa lýst verulegum efasemdum um Icesave-samkomulagið – en fleiri efasemdarmenn hafa að undanförnu ímyndað sér Parísarklúbbinn sem einhverskonar lausn undan Icesave og AGS. Paris, c’est une blonde / qui plaît à tout le monde.

Í Parísarklúbbnum koma saman fulltrúar 19 auðugustu ríkja veraldar undir forsæti fjármálaráðherra Frakka og ráða ráðum sínum um afdrif hinna skuldugustu. Það eru eðli málsins samkvæmt þriðjaheimsþjóðir, og það lýsir kannski vel skelfingunni eftir hrunið að menn skuli nú feimnislaust setja Íslendinga í þennan flokk.

Í Parísarklúbbnum er hvert tilvik metið fyrir sig en þó eru í megindráttum farnar fimm leiðir. Ein er kennd við Napólíborg og er ætluð ríkjum úr hópi hinna allra snauðustu, önnur kennd við Köln og ætluð ríkjum sem bæði teljast langsnauð og þungskuldug, en hin þriðja sem samið hefur verið um í Alpabænum Evian á við ríki sem eru svo illa stödd að hvorki Napólí- né Kölnarleiðin duga. Enn er svo til hólf fyrir ríki sem hafa lent í náttúruhamförum, langvinnri borgarstyrjöld eða álíka hörmungum. Þrátt fyrir allt á Ísland varla heima í þessum hópi. Það yrði minnsta kosti upplit í París ef við bæðum um að fara þessar leiðir, þjóð þar sem 40 þúsund manns skulda 115 milljarða í gjaldeyri fyrir 70 þúsund bílum.

En þetta eru undantekningarleiðirnar. Lilja og félagar eru væntanlega að hugsa um hefðbundna aðstoð við ríki sem leita til Parísarklúbbsins. Hún felst í nýskipan lána, lánalengingu og góðum vaxtakjörum og miðast við að skulduga ríkið greiði skuldir sínar að lokum. Tilbrigði við þetta (Houston-leiðin) er að ríkið greiði skuldirnar í sjóð sem er nýttur til uppbyggingar í ríkinu eða að lánardrottnar stofni með skuldagreiðslunum fyrirtæki sem standi fyrir einhverskonar þjóðþrifum í skulduga ríkinu en greiði eigendunum arð.

Það er athyglisvert fyrir Íslendinga að skilyrði fyrir því að fá slíka aðstoð hjá Parísarklúbbnum er að skulduga ríkið sé í samstarfi við … Alþjóða-gjaldeyrissjóðinn, sem votti um vandann og vilja þjóðarinnar til að losna úr honum.

Tíðindi eru það þó varla fyrir Lilju Mósesdóttur hagfræðing að meðal hinna nítján fulltrúa á fundum Parísarklúbbsins eru fjármálaráðherrar … Hollands og Stóra-Bretlands. En ákvarðanir í klúbbnum verða ekki teknar nema einum rómi. Og þannig fór um þá sjóferð sem Lilja ætlaði að fara með okkur eftir að hafa hafnað Icesave-samkomulaginu. Ça c’est Paris!

Tökum svo líka eftir því hvernig Parísarklúbburinn hjálpar – nema í algeru neyðarástandi á þriðjaheimskvarða: Með lánum á sæmilegum kjörum til langs tíma. Sem við erum að fá frá AGS, Norðurlandaríkjum og svo framvegis, þar á meðal Hollendingum og Bretum út af Icesave. Eða með því að stofna með skuldunum sjóð eða fyrirtæki í ríkinu sjálfu, en þá Houston-leið hafa menn verið að reyna hér með því að kröfuhafar ytra verði hluthafar í nýju bönkunum.

Hvað vill þá Lilja? Hafna Icesave og fara til Parísar að ræða áfram við Hollendinga og Breta? Um sömu aðstoð hjá Parísarklúbbnum og við höfum samið um við AGS og grannþjóðir – með sömu skilyrðum og á sömu forsendum?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur