Já, það átti að koma strax, en nú er það komið og sjálfsagt að þakka fyrir: Icesave-samningarnir eru á netinu (Ísland.is), með greinargóðum skýringum, og þar eru líka svör við algengum spurningum um samninginn, og þar er umfjöllun um eignasafn Landsbankans, bæði frá endurskoðunarstofunni bresku (sem vann sitt mat fyrir sveitarfélögin þar) og frá skilanefnd Landsbankans. Samningana sjálfa þarf svo að þýða á íslensku, en það hlýtur að vera í gangi. Og þá er að athuga málið.
Ég nenni ekki í lánapakkana en hef enga ástæðu til að draga í efa það mat að þeir kynnu að duga fyrir 75–95% samningsupphæðarinnar. Kynnu að duga, stendur hér, því um það getur enginn fullyrt neitt núna. Þetta eru hinsvegar „forsendur“ samninganna (Svavar Gestsson), og ég tek fullt mark á því: Að í fyrsta lagi hafi íslenska samninganefndin gert samninginn á þeim forsendum að þrír fjórðu fjárins að minnsta kosti kæmu af eigum bankans, í öðru lagi hafi Bretar og Hollendingar treyst því að þurfa ekki að standa í að innheimta alla þessa milljarða af Íslendingum – samtals 0,3 milljónum manna – og í þriðja lagi sé þetta það sem fyrst og fremst er átt við í endurskoðunarákvæðinu þegar rætt er um greiðsluþol Íslendinga – það verði samið upp á nýtt ef þessar forsendur bregðast.
Sjálfstæð þjóð
Herdís Þorgeirsdóttir – ég hef vanið mig á að hlusta alltaf þegar hún talar – spyr í Fréttablaðsgrein í gær af hverju Hollendingar og Bretar hafi ekki bara einsog sjálfir tekið að sér eignasafn bankans, og þá væntanlega samið við okkur um restina, 170 milljarða eða þá upphæð aðra sem hefði gengið af eftir nákvæmt en snúið mat.
Svarið sýnist mér í grunninn vera einfaldlega það að í samningunum er gert ráð fyrir því að Íslendingar séu sjálfstæð þjóð sem gengst við skuldbindingum sínum. Ábyrgðin er klárlega Íslandsmegin (ef menn fallast á annað borð á að málið komi okkur við – meira um það seinna) – og af því leiðir að Íslendingar sjá sjálfir um eignasöluna, sem þeir hafa til heil sjö ár, hagnist á því ef bjartsýnustu spár ganga eftir, tapi á því ef illa gengur.
Annað svar er auðvitað að ef Hollendingar og Bretar hefðu átt að taka slíka áhættu hefðu þeir varla verið til viðræðu um þau kjör sem um samdist, hvorki um vexti né lánstíma, og sennilegast ekki um sjálft lánið sem þeir hefðu væntanlega sagt Svavari að sækja sér á hina gaddfreðnu almennu alþjóðlegu lánamarkaði. Eða til Rússa og Írana.
Pólitísk staða
Og ef tapið verður of mikið? Það er auðvitað milljón-dollara-spurningin. Þá kemur til álita greinin um endurskoðun samnings (16. grein í breska samningnum, 15. í hollenska) – sem fallist skal á ef „greiðsluþol“ Íslendinga (e. sustainability of the debt) hefur eftir sjö ár versnað verulega frá því sem nú eru líkur á. Það á AGS að meta. Menn kvarta yfir því á blogginu og á þinginu að þetta sé ekki klárara, að það skuli ekki vera settar niður upphæðir eða prósentur, eitthvert hámark. Það er ágæt aðfinnsla, en mér sýnist líka nokkuð gott svar hins nafnlausa skýranda á Íslandi-is við spurningu um hver samningsstaða Íslendinga yrði í slíku tilviki: „Flókin, en þá ættum við að hafa stuðning alþjóðasamfélagsins.“ Menn gleyma því nefnilega um of að þessir samningar eru pólitískir, með góðu og illu. Pólitísk staða okkar nú er afleit, og í því ljósi er sennilega rétt að hrósa happi yfir útkomunni. Fari allt á verri veg er pólitísk staða okkar í kringum 2016 alveg örugglega betri.
Það reddaðist ekki
Þetta er gríðarlegt fé – mann sundlar. Héldum við kannski öll í sameiningu að Icesave og svo framvegis væri allt saman vondur draumur – að það hlyti að reddast? Að einhverjir í útlöndum hlytu að eyða málinu? Að Íslendingar væru á einhverskonar undanþágu í hörðum heimi alþjóðafjármála af því við erum svo lítil og sæt? Út á Björk og Völuspá og Bláa lónið?
Niðurstaða einsog ég hef vit til: Icesave-samningarnir eru í lagi miðað við það sem við mátti búast. Kostirnir eru fyrst og fremst lánstíminn, þegar færi gefst á að koma eignum í verð og borga lánið niður. Því má ekki gleyma (þótt maður skammist sín aðeins) að Íslendingar borga ekki krónu umfram lágmarksupphæðina, og bara einstaklingunum, ekkert til sveitarfélaganna, líknarsamtakanna eða fyrirtækjanna. Það er líka kostur að þriðji aðili skuli fenginn til að meta endurskoðunarþáttinn. Menn gleðja sig við að tala illa um AGS, sem er skiljanlegt í ljósi sögunnar. Gleymum því þó ekki að annarsvegar á sjóðurinn heiður að verja eftir að hafa tekið að sér tilsjón með Ísalandi, og hinsvegar á hann hagsmuna að gæta – við megum varla verða svo blönk að geta ekki heldur borgað AGS-lánið!
Svo má endalaust velta fyrir sér vaxtaprósentu, breskum dómstólum og svo framvegis – en mér sýnast skýringar um þetta fullnægjandi.
Að veði: Heiðurinn
Gagnrýnendur hafa blásið mikinn út af veðsformúlum í samningunum en gæta sín ekki á því að hér er ekki um að ræða venjulegt íslenskt bankalán þar sem húsið er undir ef á bjátar – af því að samningarnir byggjast öðrum þræði á pólitískum forsendum er veðið líka pólitískt, og felst einkum í orðspori íslenska ríkisins á alþjóðavettvangi, í lánstrausti hins opinbera og íslenskra einkaaðila, og í heiðri íslensku þjóðarinnar. Um eiginleg veð á íslenskan bankakvarða er varla að ræða, þótt eflaust mundu hollensk og bresk stjórnvöld gera allt sitt til að ná einhverju upp í skuldina ef Íslendingar brygðust. Aðalrefsingin yrði líklega sú að lánamarkaðir mundu lokast í áratugi eða aldir og allt alþjóðasamstarf spillast.
Þegar við borguðum ekki
Það hefur gerst áður – í upphafi kreppunnar miklu. Fræðimaður um þau efni telur að vandræðagangur kringum fall Íslandsbanka 1929 – þegar hér hófust miklar umræður urðu um að „borga ekki“ hafi lokað á Íslendinga erlendum lánamörkuðum í mörg ár og gert að verkum að kreppan stóð lengur hér en víðast í nágrenninu, og lauk varla fyrren með hernáminu (skrifaði um þetta hér í vor).
„Dómstólaleiðin“
Eftir er stór spurning: Átti að gera samninginn eða fara „dómstólaleiðina“? Gallinn við þessa spurningu að hún er í þáskildagatíð. Út á hvað gengur dómstólaleiðin? Einsog ég skil talsmenn hennar er kjarninn sá að engin formleg ríkisábyrgð er á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, og íslenskum stjórnvöldum því ekki skylt að bæta innstæðueigendum tjón umfram það sem sjóðurinn sjálfur stendur undir. – Já, en þessi rök eru því aðeins tæk að allir sitji við sama borð! Þá hefðu innstæðueigendur hjá Landsbankanum, bæði á Íslandi og í útibúunum í Bretlandi og Hollandi, átt að fá borgaða nákvæmlega sömu upphæð, og þá miklu lægri upphæð en nemur lagalágmarkinu (um 3 milljónum) af því sjóðurinn átti ekki pening til að borga öllum lágmarkið.
Dómstólaleiðin varð bæði lagalega torsótt og siðferðilega óverjanleg strax og íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn og alþingi, ákváðu að ábyrgjast allar innstæður á reikningum Landsbankans á Íslandi (og Glitnis og Kaupþings) við upphaf kreppunnar í október 2008. Hvort þetta átti að gera er annað mál – það var gert.
Aftur að grein Herdísar: Vel má vera rétt hjá henni að Hollendingar og Bretar (og önnur ESB-ríki, og þá líka Danir og Svíar og Norðmenn) hafi brugðist yfirlýstri virðingu fyrir réttarríki og mannréttindum, og fyrirheitum sínum við stofnun Evrópusambands og -ráðs, með því að „kúga fámenna þjóð“ til samninga, en hafna „dómstólaleiðinni“.
Ég skil þetta þannig að stjórnvöld í London og Amsterdam hafi fyrst og síðast tekið ákvörðun um að verja einsog og unnt var hagsmuni sparifjáreigenda – helstu undirstöðu fjármálakerfisins. Það sem íslensk stjórnvöld ætluðu sér var líka að verja hagsmuni sparifjáreigenda og grundvöll bankaviðskipta – en bara á Íslandi. Kannski á bara að gera siðferðilegar kröfur til fjölmennra þjóða?
Búsáhöld og næstu verkefni
Ég hlýddi ekki kalli Harðar Torfasonar nú á laugardaginn að koma og mótmæla á Austurvelli. Þó var ég tíður gestur þar í haust, kom fram að stjórnarskiptum sautján laugardaga af átján, minnir mig, og það var andlát nákomins sem hindraði Austurvallarför þetta eina skipti í vetur. En núna fór ég ekki. Vil einfaldlega ekki að þingið hafni Icesave-samningunum. Klára málið og snúa sér að næsta verki.
Auðvitað gnísta menn tönnum. Þetta er ekki mér eða þér að kenna! Við megum hinsvegar ekki missa okkur í æsing og hávaðarifrildi. Höfum hreinlega annað að gera. Nú þarf að taka á afleiðingum hrunsins einsog menn. Ná þeim peningum sem hægt er af „óreiðumönnunum“, – verja heimilin, börnin og þá sem veikast standa – skipuleggja sókn í atvinnumálum á nýjum grænum forsendum – endurnýja grunngildin í samfélaginu – berjast fyrir lýðræði og almannaþátttöku í umræðum og ákvörðunum – sjá til þess að skuldir fjárglæframanna falli aldrei aftur á almenning – tala saman um framtíðina. Og berja í búsáhöldin þegar ráðamenn gera vitleysur.
Icesave hinsvegar – þar er ekkert annað að gera.