Föstudagur 3.7.2009 - 13:06 - 21 ummæli

Hver er hlynntur Icesave?

Hef í sjálfu sér engar efasemdir um að könnun Gallups um Icesave (hér bráðum) endurspegli afstöðuna í samfélaginu til Icesave-málsins en er samt efins um niðurstöðuna. Ég tel – eins þeir vita sem hafa fylgst með þessum pistlum undanfarið – að það sé ekkert annað í stöðunni en að samþykkja Icesave-samningana. En er ekki þarmeð „hlynntur“ Icesave. Heiðarlegasta svarið við svona spurningu væri kannski að svara henni ekki.

Þessvegna efast ég um að í skoðanakönnun um Icesave sé hægt að greina á milli annarsvegar andstöðu við sjálfa samningana sem sendinefnd Svavars Gestssonar náði við Breta og Hollendinga, og hinsvegar andúðar fólks á Icesave-hneykslinu almennt og eðlilegri óbeit svarenda á því að þurfa að borga þessar skuldir sem fjárglæframenn stofnuðu til en lélegir embættismenn og vondir pólitíkusar gáðu ekki að.

„Ertu hlynntur eða andvígur samkomulaginu?“ var spurt í könnun Gallups/Capacents, og í sjálfu sér er ekki hægt að gera stórkostlega athugasemd við orðalagið. Kannski hefði þó verið nær að setja svarendur í spor alþingismanna: Já, nei eða hjáseta við frumvarpinu um ríkisábyrgðina? Með því hefði verið kallað nákvæmar eftir afstöðu til málsins einsog það blasir við okkur núna, og niðurstöður hefðu líklega orðið aðrar.

Held að málið liggi nokkurnveginn þannig hjá þjóðinni að 99,9% hafi afstöðuna „Helvítis fokking fokk“ en 0,01% sé flúinn úr landi undan DV-forsíðum, illu auga og rauðri málningu.

Þegar þessi afstaða er greind nánar kemur í ljós að um 2/3 til 3/4 telja óumflýjanlegt að samþykkja samningana. Tæpur fjórðungur er á móti og vill bara eitthvað annað. Og nokkur hundruð manns í trúnaðarstöðum hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki vona umfram allt að þeim takist að fella ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.7.2009 - 14:18 - 21 ummæli

Landsliðið í verkfall?

Alveg rétt, Jón Baldvin, að reiði almennings er réttlát. Af hverju eigum við að borga fyrir ævintýri auðkýfinga og fjárglæframanna? Kapítalistarnir eiga að höndla með sína eigin peninga (að svo miklu leyti sem þau auðæfi eru annað en þjófnaður, takk Proudhon) en ekki setja þjóðskrána í pant (takk Einar Már). Allt verður að reyna til að ná illa fengnu fé aftur til þjóðarinnar, Ragna Árnadóttir og Eva Joly. Víkingasveit til Tortólu með nýju TF-Sif?

Það er líka rétt hjá Kristni H. Gunnarssyni í Speglinum í gær að þingmenn geta einfaldlega ekki tekið þá áhættu að fella Icesave-samningana. Það má sífellt deila um einstök ákvæði en ákaflega fátt bendir til að samningarnir fengjust teknir upp og enn færra bendir til að nokkuð annað kæmi út úr því fyrir okkur en óvinsældir og orðalagsbreytingar. Ekki má svo gleyma því að Hollendingar og Bretar kynnu þá að vilja endurskoða samninginn sér í vil. „Það gæti allt eins farið svo að við fengjum verri samning,“ sagði Sleggjan.

Flotann á Ermarsund?

Nú kemur það auðvitað fyrir að menn hafna samningum sem forystumenn hafa skrifað undir. Það hefur oft gerst í kjaraátökum – og þá er farið aftur í viðræður að reyna að ná fram endurbótum, annaðhvort sömu forystumenn eða einhverjir sem félagarnir treysta betur.

Þegar kjarasamningur er felldur í félögum verkalýðshreyfingarinnar eru menn líka alveg klárir á hvað það kostar. Það verður að setja afl á bakvið samningamennina, með samstöðu inn á við, áróðri gagnvart almenningi og traustum tengslum við bandamenn. Og félagarnir verða að vera reiðubúnir til átaka, sem að lokum geta leitt til verkfalls, þar sem hver og einn er klár á því að þegar verkfallssjóðinn þrýtur getur komið að því að menn þurfa sjálfir að herða ólina. Baráttan getur líka bitnað á fjölskyldunni. En menn láta sig hafa það ef málstaðurinn er góður.

Þeir sem nú berjast fyrir því innanþings og utan að Icesave-samningarnir verði felldir þurfa ekki aðeins að segja okkur hvað þá tæki við í samskiptunum við útlönd, heldur líka hvaða afl þeir ætlast til að við setjum bakvið nýjar kröfur.

Förum við í verkfall? Hættum við að selja Hollendingum og Bretum fisk? Stöðvum við álviðskipti við hollensk og bresk fyrirtæki? Neitum við fólki af þessu þjóðerni að ferðast um landið? Eða setjum við þessar þjóðir í almennt samskiptabann? Engar íslenskar myndir í hollenskum bíóum? Landsliðið í fótbolta ekki í Amsterdam eða á Wembley? Látum kannski flota Landhelgisgæslunnar lóna í Ermarsundinu?

Eða telja menn vænlegt að hefja nú áróðursherferð meðal almennings í Hollandi og Bretlandi til styrktar málstað okkar? Eða reyna aftur að leita bandamanna meðal stjórnvalda í ríkjunum á Efnahagssvæði Evrópu? Ég vil ekki draga úr neinum kjark, en sýnist að þessar leiðir séu því miður ekki færar.

Pólitískir samningar

Veikleiki samninganna er fyrst og fremst einn, og alveg augljós: Enginn veit hvers virði eignasafn Landsbankans er í raun og veru. Úr því verður ekki skorið fyrr en það selst. Menn geta látið sig dreyma um að einhverjir aðrir hefðu tekið þessa áhættu, en það varð ekki og gat aldrei orðið.

Gegn þessum veikleika kemur endurskoðunarákvæðið – ef við getum ekki borgað verður samið aftur við Hollendinga og Breta eftir fimm til sjö ár. Þvert á ýmsar mannvitsbrekkur sýnist mér betra í þessu endurskoðunarmáli að nota viðmiðun við stöðuna í nóvember, einsog gert er í samningunum, en að festa niður einhverja prósentu af landsframleiðslu eða annarri hagstærð. Slíkum skilmálum hefði væntanlega fylgt lánslenging eða krafa um ákveðin veð.

Samningarnir eru pólitískir. Ef afborganirnar verða okkur ofviða hefur það pólitískar afleiðingar. Og staða okkar verður örugglega betri og svigrúmið meira eftir fimm ár en nú.

Svipaða sögu má segja um veðin sem menn hafa mikið um rifist. Það er betra að gefa tryggingar í hæfilega óljósum eignum íslenska ríkisins (erlendis mínus sendiráð, ekki hér nema eftir úrskurð íslensks dómstóls) en að nefna til ákveðnar eignir, fasteignir, bankareikninga eða hlutabréf, einstök fyrirtæki. Það yrði sérstök pólitísk ákvörðun með pólitískum afleiðingum ef bresk eða hollensk stjórnvöld ætluðu að notfæra sé veðákvæðin. Ef eitthvað handfast væri sett að veði – þá væri hinsvegar tiltölulega einfalt að leggja á það eign sína.

Að æpa upp fylgið

Í dag eru hróp og köll frá Alþingishúsinu. Skoðanakönnun gærdagsins hefur aukið Bjarna og Sigmundi sjálfstraust, og Icesave, eitt mesta alvörumál síðari áratuga, er að lenda í hefðbundnum skotgröfum stjórnar og stjórnarandstöðu. Afar íslenskt – og nú ætla tapararnir í síðustu og næstsíðustu kosningum, fulltrúar ríkisstjórnanna 1995 til 2007, að æpa upp fylgið.

Í því skyni segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins að samningarnir séu einsog eftir tapað dómsmál. En hver skyldi hafa sagt þetta um „dómstólaleiðina“ á alþingi 28. nóvember síðastliðinn?:

„Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum. Ef menn ætla að fara að taka þann slag verða menn líka að vera tilbúnir til að tapa því máli ef á það mundi reyna. Þeir sem tala fyrir því að þá leið hefði átt að velja eru auðvitað tilbúnir til að gera það eftir á vegna þess að þeir geta gefið sér það í umræðunni að við hefðum sigrað þá lagaþrætu. Það er fínt að gera það í dag vegna þess að það liggur fyrir að sú leið verður ekki farin, en eru þeir hinir sömu þá tilbúnir til að fallast á að við mundum taka herkostnaðinn af þeirri ákvörðun ef niðurstaðan yrði okkur í óhag? Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt. … Þegar heildarmyndin er skoðuð tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli.“

Svarið er hér.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.7.2009 - 09:08 - 15 ummæli

Samgöngubætur, ekki samgöngumiðstöð

Kristján L. Möller samgönguráðherra hlýtur að endurskoða ákvörðun sína um forgangsröð í samgöngumálum.

Verkefnin Vaðlaheiðargöng og samgöngumiðstöð í Vatnsmýri eru einfaldlega ekki brýnustu framkvæmdir í samgöngumálum á þessari stundu, og það sér öll þjóðin þótt yfirlýsingar af þessu tagi kunni að þykja karlmennska í einhverjum kjördæmum.

Þessi hugmynd um nýja samgöngumiðstöð hefur alltaf verið skrýtin – bæði í ráðuneytinu og í borgarapparatinu í Reykjavík. Framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni er enn í járnum og einkennileg ráðstöfun að byrja að byggja áður en það mál er afgreitt. Enda augljóst að einlægur áhugi landsbyggðarþingmanna og landsbyggðarráðherra á þessari miðstöð sprettur af ást þeirra á flugvellinum: Byggja samgöngumiðstöð til hægt sé að benda á fjárfestinguna þar sem röksemd fyrir flugvöllinn. Áhuga borgarfulltrúa í Reykjavík á þessu fyrirbrigði er mér hinsvegar óskiljanlegur.

Hvernig sem menn hugsuðu þetta í fyrra og hittifyrra eru núna aðrir tímar, einsog félagi Möller hlýtur að vera búinn að átta sig á. Nú er ekki lengur hægt að kasta peningum yfir hvern vandann af öðrum heldur verður að hugsa út hverja krónu með vísindalegri nákvæmni til að litlir peningar nýtist sem allra best.

Ég skal ekkert um Vaðlaheiðargöngin segja. Hér á höfuðborgarsvæðinu vitum við hinsvegar að núna er árið 2009, ekki 2007, og gamla Umferðarmiðstöðin endist enn nokkur ár. Flugstöðin líka. Vegakerfið á svæðinu hefur hinsvegar ekki fylgt þróuninni síðustu áratugi, vegna þess að landsbyggðin svokallaða hefur þurft að fá sitt – og samt er það núna þannig að samgöngumál kringum höfuðborgina ættu að vera aðaláherslan í fimm kjördæmum af sex: Í Reykjavík norður og suður og kraga, Norðvesturkjördæminu hinumegin við Hvalfjarðargöngin og í stóra Suðurkjördæminu þar sem fjórir fimmtu búa í skreppifjarlægð frá höfuðborginni.

Ágæti Kristján – við viljum raunverulegar samgöngubætur, ekki þessa bjánalegu samgöngumiðstöð.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.6.2009 - 17:50 - 30 ummæli

Halló! Náum okkur niður …

Þá er komið frumvarpið um Icesave og með því greinargerð sem hlýtur að vera ein af hinum ítarlegri í þingsögunni, næstum fjörutíu síður plús samningarnir á íslensku. Og ekki nema von.

Bíð enn eftir leyndarskjölunum en mesta athygli í geinargerðinni sjálfri vekur kaflinn um skuldina og greiðslur ríkissjóðs fram til 2023. Þvert á það sem haldið hefur verið fram verður greiðslubyrði ríkissjóðs nokkuð jöfn öll þessi ár af því að við byrjum að borga af Icesave um þær mundir sem aðrar skuldir fara að léttast. Sjálf Icesave-skuldin er svo ekki nema fjórðungur heildarskulda. Þetta verður ekki skemmtilegt – en er ekki hérmeð rétt að hætta að tala um að einhver sé að „selja Íslendinga í ánauð“ (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson).

Í greinargerðinni er Icesave-skuldin nú metin 705 milljarðar ef 75% fást úr þrotabúinu (varfærna matið). Eftir sjö ár, þegar fyrst á að borga, verður skuldin 415 milljarðar. Vextir hafa bæst við en búið að greiða niður höfuðstólinn með eignasölu frá þrotabúinu. Ice-sleivið nemur svo í átta ár frá tæpum 4 prósentum af landframleiðslu (VLF*) niðrí tæp 3.

13% í sjö ár – 8% eftir það

Greiðslur næstu sjö ár af skuldum öðrum en Icesave (erlendar skuldir mínus AGS-tengd lán plús vextir af innlendum skuldum) nema sennilega um 13% af VLF, misjafnt núna eftir árum og hrikalega mikið 2011 sem er skynsamlegt að jafna út. Eftir sjö ár er reiknað með að það hafi grynnkað verulega á þessum skuldum.

Þarnæstu átta ár, á Icesave-tímanum, fara greiðslur af öðrum skuldum fyrst niðrí 8% af VLF og enda 2023 í 2,6%.

Með Icesave-afborgunum eru heildargreiðslurnar þessi átta ár því mun minni en á fyrra tímabilinu, byrja 2016 í 11,6% af VLF, eru eftir sex ár komnar í 8% og enda 2023 í 5,3% – eru að meðaltali rúm 8 prósent á móti 13 sjö árin á undan.

Þetta sést miklu betur í töflum og myndum í greinargerðinni – en meginmálið er: Við getum þetta ef ekki verða sérstök slys – og kannski verður þetta ekki mikið verra en það sem við þekkjum sem komumst til vits fyrir frjálshyggju, Davíð og tíma hins eilífa góðæris. Einkum ef það tekst að ná einhverjum peningum í viðbót af fjárglæframönnum.

Engar gleðifréttir. Staðan verður einsog og í gamla daga, verulegur hluti hverrar skattkrónu fer í að borga skuldir, sífelldir erfiðleikar að ná saman fjárlögum, hærri skattar – og við eigum lengi eftir að minnast októberhrunsins 2008, óreiðumanna, útrásarævintýra og glapsýnna stjórnmálaforingja. Munum svo líka að við höfum tækifæri á tækifæri ofan í nýsköpun og framþróun í atvinnumálum á nýjum grænum tímum. Getum minnkað sveiflur og bætt kjör með ESB og evru. Engar árar í bát!

Billegt

Það greiðsluþol sem Indefence-menn óskuðu meðal annarra eftir er komið í geinargerðinni – og gefur nokkuð aðrar niðurstöður en Helgi frændi Áss Grétarsson gerði ráð fyrir í Iðnó í gærkvöldi. Drápsklyfjar má mín vegna kalla þennan ferlega skuldapakka allan saman sem frjálshyggjan og hrunið skilja eftir sig – en halló, kæru landar! Náum okkur niður. Það er of billegt að Jóhanna, Steingrímur og Gylfi séu ‚að selja okkur í ánauð‘ með hinu óhjákvæmilega samkomulagi um Icesave.

*) Hvaða VLF? Þurfti aðeins að hafa fyrir að finna það út: Efnahagsspá Seðlabankans í maíhefti Peningamála (hér, sjá viðauka 1); spáin fyrir 2011 framreiknuð fyrir hvert ár til og með 2023 miðað við 2,2% hagvöxt á ári og líklega fjölgun íbúa. Skilst að svona sé þetta gert í ámóta framtíðarspám – en hér getur auðvitað allt farið af stað, bæði upp og niður. Enn er óvissan veruleg, einsog segir í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Það er erfitt að spá, einkum um framtíðina.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.6.2009 - 23:09 - 15 ummæli

Kaupfriður

Fór heim af borgarafundinum um Icesave í Iðnó um tíuleytið – þar kom ekki mikið fram nýtt, og deilan er eiginlega komin í sjálfheldu. Nokkuð hefur dregið úr hugmyndunum um „að borga ekki“ eða fara „dómstólaleiðina“ – en þeir í Indefence vilja í staðinn semja upp á nýtt.

Jamm. Og svo aftur upp á nýtt ef þeir samningar eru heldur ekki nógu góðir? Og ef við fengjum nú að skulda þetta í íslenskum krónum – þá gætum við kannski samið upp á nýtt ef gengið verður óhagstætt? – – Já, þetta er útúrsnúningur, en í samningnum eru einmitt ákvæði – afar óvenjuleg – um nýja samninga ef illa gengur!

Indefence-hópurinn hefur staðið sig vel – vel menntaður, klár og hugmyndaríkur „stráka“-hópur tekur sig til og heldur uppi orðstír Íslendinga þegar ráðamenn ráða ekki neitt við neitt – og á síðan sinn þátt í því að stjórnvöld leggja fram öll gögn til að þjóðin geti lagst yfir þau. En þegar staðreyndir eru fram komnar verður líka að taka mark á staðreyndum.

Svo hélt Einar Már Guðmundsson góða ræðu, sem hafði að vísu þann ókost að hún var ekki um Icesave-málið sem fundurinn var um. Einar Már er eiginlega orðinn soldið einsog sóknarprestur úti á landi. Það tilheyrir að hann sé hafður til að segja eitthvað þegar eru viðburðir, skólaslit, nýr vegur, félagsheimilið eignast píanó — hópurinn hlustar í andakt, og síðan fara menn að gera það sem til stóð að gera.

Víkverjar og Gautar

Það stendur ekki hvað Víkverjar – í héraðinu við Óslóarfjörð utanverðan – keyptu af íbúum handan Elfar þar sem nú stendur Gautaborg, en Snorri segir frá því að í skærum Ólafs konungs Haraldssonar við nafna sinn og starfsbróður í Uppsölum hafi sá hinn digri maður bannað allan flutning úr Víkinni upp á Gautland, „bæði síld og salt“.

Seinna hittir Ólafur svo Rögnvald höfðingja í Vestra-Gautlandi og jarl Svíakonungs, og þeir ræða með sér þessa deilu, og voru sammála um að „hvorumtveggjum, Víkverjum og Gautum, var hin mesta landsauðn í því að eigi skyldi vera kaupfriður milli landa“.

Að lokum kemst á friður milli konunganna. Og rofnar síðan aftur, enda þurfti hinn digri sitt píslarvætti til að verða dýrlingur Noregs og ármaður vestnorrænna Kristsmanna við Guðshirð. Og er samstundis úr þessari sögu.

Kaupfriður. Er það ekki einmitt málið sem Icesave-samningurinn snýst um í okkar erfiðu stöðu – til að forðast landsauðn ?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.6.2009 - 15:59 - 3 ummæli

Gjástykki: Virkja hvernig?

Nýkominn úr helgarferð með Landvernd á jarðhita- og eldfjallaslóðir Þingeyinga – fengum úrvalsveður, einkum fyrri daginn, sól og aðeins andvara, og nyrðra er maður einsog kominn annað: Allt er gróið á þingeysku heiðunum, meiraðsegja lú-pínan verður fögur, og margvísleg fogl dvelja ferðalang: Þrestir tístandi, andaskari kvakandi, svanir svífandi, himbrimar íbyggnir horfandi og hugsandi, jaðrakön uppfljúgandi, spóar við tjaldskörina hoppandi og vellandi, hálfísaðir rjúpnakarrar ropandi, máríátlur úr hreiðrinu ámannfljúgandi.

Við fórum annarsvegar á Þeistareyki og hinsvegar kringum eldana frá því fyrir þrem-fjórum áratugum norðan Mývatns, yngstu hraun aldarfjórðungsgömul – og ég hafði ekki komið þetta áður nema rétt að Kröfluvirkjun í mýflugumynd. Þarna er sannarlega stórkostlegt og spillti ekki fyrir gott samferðarfólk og frábærir leiðsögumenn, Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og sjálfur Ómar Ragnarsson auk heimamanna, þar á meðal Sigfúsar Illugasonar, eins Hlíðunga, og Hjördísar Finnbogadóttur bónda við Sandvatn sem reyndar taldist ferðalangur að forminu til.

Þeistareykir – kurteisi áskilin

Ég ætla að geyma ferðasöguna – enda yrði hún löng! – en af því þetta var öðrum þræði pólitískt ferðalag er niðurstaðan þessi:

Svæðið kringum Þeistareyki – að því leyti sem hægt er að greina þetta í sundur – er meiriháttar með hverum sínum, útsýni mikilli, fallegum gróðri, jarðfræðiminjum og ferðamöguleikum, þar á meðal í Vítin í dyngjunni Þeistareykjabungu sem við komumst ekki í þetta sinn fyrir sköflum. Þar eru nú blásandi rannsóknarholur, tvær afar háværar, og virkjun á leiðinni, þótt enn eigi eftir að bíta úr nálinni með sameiginlegt umhverfismat. Bakki verður sjálfsagt aldrei að álveri en vera má að smærri og „sætari“ stóriðja uppvekist til að nýta feikilega orku á Þeistareykjasvæðinu. Þá skiptir öllu að fara smekklega að og huga að víðtækari hagsmunum en megavöttunum. Það er til dæmis skrýtið að sjá hvernig hinum frægu framkvæmdaraðilum hefur dottið í hug að éta sig beint inn í Bæjarfjallið á einum stað rétt við veginn. Fyrirhugað stöðvarhús er þó langt frá sjálfu hverasvæðinu, og nú eru verkfræðingar og arkitektar farnir að vanda sig með pípulagnir og frágang mannvirkja (sjá t.d. áætlanir OR um Hverahlíð).

Mannvist undir Bæjarfjalli verður með nokkuð öðrum hætti nú en fyrrum þegar búið var á Þeistareykjum, fram á 18. öld, en við skulum vona að virkjunin heppnist vel og nýtist Þingeyingum og Íslendingum. Enda sé farið fram af fullri kurteisi við landið og eftirkomendurna. Og við týsfjólurnar í túnunum milli jarðhitalitanna við sjóðandi og spýjandi hveri.

Gjástykki – ekki meir!

Áætlanir um virkjunarframkvæmdir í og við Gjástykki eru hinsvegar sérkennileg uppáfynding á 21. öld. Annað getur maður ekki hugsað við kolsvartan hraunjaðarinn – hvort sem hann lítur út einsog hárbeitt víggirðing með eggjagrjóti eða útflatt grjótdeig undan tröllahöndum – þar rifjar Sigmundur einmitt upp þá lýsingu í útlöndum frá 12. öld að íslensk hraun geti verið einsog steinlagt stræti. Við fórum næstum því hringinn um nýju hraunin, sáum yfir þau í heild vestan og austan, við norðurhluta hraunanna og frá Leirhnúki þar sem er kominn mikill ævintýrastígur fyrir ferðamenn – og Ómar sýndi okkur bæði staðinn þar sem fram fer „sköpun Íslands“ – leyndarmál sem við látum snillinginn sjálfan um að upplýsa – og eyðisvæði austan hraunanna sem hann kennir við ferðina til Mars! Sigmundur jarðfræðingur benti okkur svo á hvernig svæðið allt segir söguna frá Þingvöllum með nýjum og sérstæðum hætti – víðáttumikil askja myndast fyrir 20 þúsund árum í mikilli sprengingu og byrjar svo að gliðna sundur í landrekinu – en upp koma stöðugt ný hraun og fylla upp í gjána. Ferðamönnum sem vilja ímynda sér virkjunarframkvæmdir er hægur leikur að skoða Kröfluvirkjun og flytja hana í huganum norður á við – þangað sem hún er reyndar þegar byrjuð að teygja sig með ryðguðum blástursháfum fyrir ofan Víti.

Þeir eru reyndar byrjaðir – tvær holur við veginn í hrauninu norðanverðu – en nú þarf umhverfismat til frekari framkvæmda, þökk sé meðal annars Össuri Skarphéðinssyni fyrrverandi iðnaðarráðherra.

Ómar Ragnarsson spyr reyndar ekki hvort það eigi að virkja í Gjástykki, heldur hvernig eigi að virkja. Því hér háttar svo til að ein auðlind liggur ofan á annarri auðlind, einsog félagi Dofri segir stundum, og ekki er hægt að virkja þær báðar. Mér sýnist að þessari spurningu þurfi ekki að svara. Hraunasvæðið norðan Mývatns er fjársjóður, fyrir okkur, fyrir börnin okkur og fyrir heiminn, og honum á ekki að vera falur fyrir baunadisk.
Sjálfsagt mál er hinsvegar að hafa atvinnu af verndun þessa dýrmætis, kynningu og beina allskyns – græða  og ekki seinna vænna að ríkið, heimamenn og fjársterk fyrirtæki, innlend sem erlend, taki sig saman um Eldfjallaþjóðgarð Þingeyinga.

Ekki fleiri jarðýtur í Gjástykki, takk.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.6.2009 - 13:07 - 66 ummæli

Indefence, Æs-seif og valkosturinn

Jóhannes Þ. Skúlason, einn Indefence-manna, heiðraði yðar einlægan með athugasemd (hér, neðarlega) við pistli frá í byrjun viku um Icesave, og bað um svar. Það er sjálfsagt. Ég get auðvitað ekki svarað öllu og sumt afgreiddum við í sjálfum athugasemdadálknum, en hér eru örstuttar hugleiðingar um flesta af punktum Jóhannesar:

1) „Ísland fær ekki nema 53% af andvirði eigna Landsbankans (hitt rennur til annarra kröfuhafa).“

– Já, þetta er rétt, en það kemur Icesave-samningunum bara ekkert við. Kröfur allra innstæðueigenda – heima og úti, ofan og neðan lágmarks – urðu að forgangskröfum í þrotabú bankanna, á sama hátt og til dæmis launakröfur eða lífeyrisiðgjöld, með neyðarlögunum 7. október í haust. Þeir kröfuhafar sem 47% eignanna „renna til“ (Hollendingar og Bretar sem áttu meira en lágmarkið) hefðu átt sínar kröfur og sótt þær hvernig sem Svavar hefði samið eða samið ekki um Icesave, með því að vísa einfaldlega á lög nr. 125 frá 2008, 3. grein. Einmitt athugasemdir af þessu tagi frá upplýstum mönnum einsog Jóhannesi Þ. Skúlasyni sýna að það skiptir afar miklu máli í deilunni um Icesave að halda ágreiningnum við það sem menn greinir á um, en láta annað víkja.

2) „Öll áhætta af samningnum fellur á Ísland.“

– Það er einmitt vaninn þegar samið er um lán. Áhætta lánveitandans er sú að lántakinn borgi ekki og gegn þeirri áhættu tryggir hann sig með ábyrgðum og allskyns vanskilaformúlum. Hér er hinsvegar endurskoðunarákvæði sem Jakob R. Möller segir óvenjulegt í samningum af þessu tagi (enn hefur enginn mótmælt þeim orðum lögmannsins). Í því er gefinn kostur á að aðilar deili „áhættunni“ – gangi að samningaborði á ný ef staða lántakans versnar verulega frá þeim horfum sem við blöstu þegar lánið var tekið. Ef þannig fer ræður pólitísk staða Íslendinga töluverðu um málalyktir, og að vissu leyti er opið pólitískt endurskoðunarákvæði af þessu tagi engu síðra en endurskoðun sem miðast við tiltekna fjárhæð, hlutfall af landsframleiðslu o.s.frv. Það fer eftir því hverju hefði verið hægt að ná fram, en þar hefur væntanlega verið á brattann að sækja.

3) „Ekki hafa verið birtir útreikningar á greiðsluþoli ríkisins sem sýnir svart á hvítu að Ísland geti greitt skv. samningnum eða sú efnahagsspá til 15 ára sem þó hlýtur að hafa legið honum til grundvallar.“

– Það er rétt. Nú stendur upp á ríkisstjórnina og Seðlabankann að sýna þetta einsog hægt er, að minnsta kosti hvaða lágmarks-kennitölur þarf í hagkerfinu til að við getum staðið undir greiðslunum. En af hverju til 15 ára? Þótt Icesave-lánið eigi að borga upp á átta árum eftir sjö ára tímabil án afborgana hefur engu verið slegið föstu um raunverulegan greiðslutíma. Í samningunum er meðal annars gert ráð fyrir að hægt sé að borga allt lánið hvenær sem er ef hagstæðari kjör bjóðast annarstaðar. Hluti slíkra kjara gæti einmitt verið að hafa lánstímann lengri. – Best er auðvitað að geta borgað þetta allt á tilsettum tíma og helst miklu fyrr vegna vaxtanna. Allra mikilvægust fyrir Seðlabankann og ríkisstjórnina eru þó fyrstu sjö árin – að gera sér grein fyrir stöðunni fram að hugsanlegri endurskoðun.

4) „Ekki hefur verið sýnt fram á hvernig Íslendingar eiga að standa skil á 36 milljörðum í erlendum gjaldeyri árlega til að eiga fyrir vaxtagreiðslum.“

– Mér er ekki ljóst hvað þessi athugasemd frá Jóhannesi merkir nákvæmlega, en tek eftir að hún hefur komið víða fram að undanförnu. Vextirnir eru ekki greiddir fyrren með fyrstu afborgun árið 2016 og þarf því engan gjaldeyri til að borga þá þangað til. Enginn veit nákvæmlega hvað þeir verða miklir árið 2016 eða síðar því ekki er enn ljóst hvað fæst fyrir eignir Landsbankans eða hvenær. Mér sýnist aðal-áhyggjumál Jóhannesar þó vera að við eigum ekki gjaldeyri til að borga vextina (og lánið sjálft), samanber viðskiptajöfnuð síðustu ára og áratuga – en til þess meðal annars er einmitt verið að opna lánalínur við Alþjóða-gjaldeyrissjóðinn, hin norrænu ríkin, Rússa, Japana, Þjóðverja og svo framvegis. Vanti gjaldeyri er hann tekinn þar út og þau gjaldeyrislán borguð síðar, sem ætti að vera yfirstíganlegt ef til er fjármagn í innlendu fé. Þetta eru því óþarfar áhyggjur sem ekki á að flækja með þetta flókna álitaefni.

5) „Ekki hefur verið sýnt fram á hvernig Íslendingar eiga að fara að því að greiða þetta lán ef neyðarlögin standast ekki umfjöllun dómstóla (enginn fyrirvari er í samningnum um þetta).“

– Rétt. Einsog Gylfi Magnússon sagði í Kastljósi í fyrrakvöld er þá fleira undir en Icesave: Ef neyðarlögin halda ekki erum við sannarlega í djúpum skít. Og héldum þó að við hefðum þegar kynnst því fyrirbæri. En er þá ekki einmitt komin upp sú staða sem gert er ráð fyrir í endurskoðunarákvæðinu?

Áhrif „viðmiðanna“

Ágreiningur okkar Jóhannesar spratt ekki síst af því áliti hans í Austurvallarræðunni á laugardag að „samningsmarkmið Íslendinga [væru] þverbrotin“ – vegna þess að í Icesave-samningunum sæi engan stað viðmiðanna frægu frá í nóvember, sem stundum eru kennd við Brussel. Með þeim lofuðu íslensk stjórnvöld að semja um Icesave og láta „dómstólaleiðina“ eiga sig, gegn því að sérstakt tillit yrði tekið til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“.

Ég benti á greinargerð Jakobs Möllers, og taldi að þessara viðmiða sæi einmitt stað í samningunum á þrennan veg: Með lánstímanum og einkum greiðslufresti í 7 ár, með óvenjulegu ,pólitísku’ endurskoðunarákvæði, og með heimild til kostnaðarlausrar inná- eða uppgreiðslu hvenær sem væri, sem lögmaðurinn telur einnig óhefðbundið ákvæði í slíkum samningum. Við þetta má bæta því að Íslendingum er auðvitað í hag að fá lánið hjá Hollendingum og Bretum sjálfum en þurfa ekki að leita inn á gaddfreðna alþjóðlega lánamarkaði.

Þá er ótalinn sá árangur samkomulagsins um viðmiðin frá í nóvember sem eðli málsins samkvæmt kemur ekki fram í lánasamningunum um Icesave, nefnilega að þeir samningar voru forsenda lánanna frá AGS, frá Norðurlandaríkjum og öðrum væntanlegum lánveitendum. Þau lán eru óhjákvæmilegur áfangi við að „gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt,“ og bjóðast okkur einsog áður er rakið ekki síst til að geta lokið Icesave-kaflanum.

Valkostur Silju Báru

Við eigum enn eftir að fá gögn um Icesave, frekara mat á Landsbankaeignum og það yfirlit um greiðsluþol og efnahagshorfur sem Jóhannes réttilega óskar eftir.

Mín niðurstaða er þó sú sama og í lok pistilsins um greinargerð Jakobs Möllers:

Treystum við okkur til að klára dæmið svona? Með þeirri óvissu sem vissulega er um eigur og haghorfur – en í því trausti að pólitísk og siðferðileg staða okkar verði betri eftir 5–7 ár ef allt fer á verri veg.

Eða viljum við sparka þessari taflstöðu í loft upp og byrja upp á nýtt? – sem Jóhannes í Indefence staðfestir í athugasemdum sínum að mundi hafa „erfiðar afleiðingar fyrir Ísland í skammtímanum“. Tek undir það með honum að við vitum ekki hversu erfiðar. Finnst samt ekki líklegt að Hollendingar og Bretar séu til í nýjan samning nema þá með einhverjum minniháttar orðalagsbreytingum eftir mikla eftirgangsmuni. Og held að dómstólaleiðin núna sé bara hefðbundin stjórnarandstaða – að vísu óábyrgari en ég man eftir úr lýðveldissögunni, þar sem þó er af nógu að taka. Grunar að „valkosturinn“ sé eitthvað svipaður því sem Silja Bára Ómarsdóttir hefur eftir breskum kunningja sínum:

„Auðvitað er valkostur. Ef þið viljið lifa við lífskjör eins og þau voru fyrir 100 árum, eða kannski eins og Albanía á áttunda eða níunda áratugnum, þá getið þið sleppt því að borga. Þið getið lokað landamærunum, vitandi það að þið fáið ekki krónu í lán frá neinum í ansi mörg ár, og lifað á því sem þið framleiðið sjálf. Fólk gleymir oft að þetta sé valkostur.“

Tek svo undir með Silju Báru:

„Þetta er auðvitað valkostur. Bara ekki sá sem ég kýs.“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.6.2009 - 10:42 - 12 ummæli

Álfyrirtækin skili svindlgróðanum

Fréttablaðið segir frá því að meðal spekúlanta með íslensku krónuna síðan gjaldeyrishöftin voru sett séu fyrirtækin Alcoa Fjarðaál og Alcan á Íslandi. Þau kaupa krónur erlendis þar sem þær eru ódýrar í staðinn fyrir að nota gengi Seðlabankans – og stuðla með þessu að sífelldri lækkun krónunnar sem torveldar endurreisn viðskipta- og atvinnulífs á Íslandi.

Seðlabankinn virðist loksins hafa gripið álfyrirtækin tvö (Norðurál er saklaust) með buxurnar niðrum sig, og svarið var að þau hafi mátt þetta – hafi haft undanþágu til gjaldeyrisviðskipta erlendis. En ekki til að hagnast!, segir Sveinn Seðlabankastjóri – það var ekki ætlast til að álfyrirtækin notuðu undanþágu vegna stærðar og umsvifa til að vinna gegn anda laganna og klárum þjóðarhagsmunum.

Gróði fyrirtækjanna af þessum viðskiptum hefur ekki verið „gefinn upp“ – en Fréttablaðið telur hann um það bil 1,65 milljarða miðað við heilt ár. Það gæti með lauslegum reikningi verið rúmur milljarður miðað við átta mánuði frá neyðarlögum.

Alcan á Íslandi – Straumsvíkurverið – hefur nú lofað bót og betrun og ætlar að hætta braskinu. Enn heyrist ekkert í forráðamönnum Alcoa á Reyðarfirði um framhald gjaldeyrisviðskipta á erlendri grund, hvorki forstjóranum Tómasi Má Sigurðssyni né Ernu Indriðadóttur, framkvæmdastjóra samfélags- og upplýsingamála.

Löglegt – svo? Auðvitað eiga stjórnvöld að heimta að fyrirtækin tvö greiði þennan milljarð aftur til baka með afsökunarbeiðni til þjóðarinnar. Einmitt núna meðan blóðugur niðurskurður og skattheimta stendur sem hæst. Gætum kannski notað milljarðinn til að létta aðeins á vaxtabyrðinni vegna Icesave?

Gaman að því annars hjá Alcoa að bæði forstjórinn og framkvæmdastjórinn tengjast stjórnmálum og stjórnvöldum náið og eiga því að hafa haft allar forsendur til að gera sér grein fyrir siðferðilegri ábyrgð sinni við spekúlasjónirnar: Tómas Már er kvæntur alþingismanninum Ólöfu Nordal, Sjálfstæðisflokki, en Erna var frambjóðandi í 10. sæti Samfylkingarinnar á Norðausturlandi við síðustu kosningar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.6.2009 - 18:08 - 24 ummæli

Sjálfsagðir hlutir frá Jakobi Möller

Ice-save, Ice-slave, Æs-seif: Mér finnst sjálfsagt að menn æsi sig yfir Icesave og ennþá sjálfsagðara að fara nákvæmlega í alla sauma á samningnum – þetta eru örugglega mesta skuldabréf Íslandssögunnar, og við eigum öll eftir að finna vel fyrir þessu í buddunni og í skertri almannaþjónustu jafnvel þótt hinar bjartsýnni spár rætist.

Einmitt þessvegna er mikilvægt að víkja frá allskyns misskilningi og ýkjum sem geta spillt samræðu um svona alvarlegt mál – og þessvegna er ný álitsgerð Jakobs R. Möllers um Icesave-samningana einkar kærkomið.

Þótt Jakob sé landsliðsmaður í lögum getur hann auðvitað ekkert upplýst um eitt helsta álitamálið – hvað þarf að borga mikið. það skiptir öllu að geta lækkað höfuðstólinn sem fyrst til að minnka vaxtabyrði, segir hann bara, því það er ekki hans að meta eignasafn Landsbankans. Góð yfirlýsing annars hjá Helga Hjörvar sem formanni viðkomandi þingnefndar að aðrir en skilanefndin  meti eigur Landsbankans. En mat á mat ofan gefur okkur þó enga vissu um niðurstöðuna.

Hefðbundin ákvæði

Jakob fjallar hinsvegar um þau lögfræðiatriði sem menn hafa rekið hornin í undanfarna daga – og meðal annars talið ógna sjálfu fullveldi þjóðarinnar. Niðurstaða hans er sú að þau séu flest í hefðbundnum dúr í lánasamningi af þessu tagi – en gagnrýnir einstök ákvæði sem hefðu mátt vera okkur hagfelldari.

Ýmsir hafa talað langt mál um ábyrgðirnar sem Íslendingar setja að veði með ákvæðinu þar sem ríkið afsalar sér „friðhelgi“ (eða „griðhelgi“ í þýðingu Magnúsar Thoroddsens) – og spurt hvort þá verði gengið að sendiráðunum, vegakerfinu eða Alþingishúsinu. Svar Jakobs er að ekki sé hætta á þessu, hér sé ekki átt við þær eignir ríkisins erlendis eða heima sem því eru svo að segja nauðsynlegar til að gegna hlutverki sínu sem ríki (Vínarsamningur og Lúganósamningur). Venjulegar eignir sem meta megi til fjár og ekki varða hlutverk ríkisins, svo sem fatabúð í Regent Street, kynnu hinsvegar að vera í hættu ef illa fer.

Jakob bendir líka á að Seðlabankaeigur ytra séu undanþegnar þessu afsali samkvæmt breskum lögum. Hann segir „óþægilegt“ að hafa þetta afsal í samningunum og að betra hefði verið „að komast hjá því“ – en það sé hinsvegar „gjörsamlega ábyrgðarlaust að láta sem í því felist sérstök skerðing fullveldis“.

„Afsal fullveldisréttar íslenska ríkisins“

Í ræðu á Austurvelli á laugardag (hér) mótmælti Jóhannes Þ. Skúlason meðal annars þessari grein fyrir hönd Indefence-hópsins. Hér væri um að ræða „afsal fullveldisréttar íslenska ríkisins“ sem hljómar hérumbil einsog þarmeð hætti íslenska ríkið frá 1918 eða 1874 að vera til. Þetta er auðvitað ekki svona. Hinsvegar er það ekki satt nokkuð algengt í lánaviðskiptum að lántakinn þurfi að setja eignir sínar að veði fyrir skilvísri greiðslu. Það má líka vera nokkuð til í því að skuldir, einkum miklar skuldir, skerði með ýmsum hætti fullveldi manna og félaga sem þeir stofna til. Það má líka orða það þannig að maður bindist lánardrottni sínum heldur óljúfum böndum. Þessvegna var það draumur flestra í gamla íslenska bændasamfélaginu að skulda engum neitt – kannski einmitt af því þá voru allir uppfyrir haus í langvinnum skuldum.
Veð í eigum íslenska ríkisins reyna Hollendingar og Bretar ekki að sækja fyrr en í stútfulla hnefana. Það yrði harla óskemmtilegt fyrir þá að ganga að okkur með þeim hætti, bandalagsþjóð með ýmsum hætti og vinaþjóð. Hinsvegar yrði enn óskemmtilegra fyrir Íslendinga að lenda í slíkum hremmingum, eða þurfa á fjóra fætur til að komast undan þeim. Þessvegna liggur veð Hollendinga og Breta ekki fyrst og fremst í þessum eignum, sem engar eru tilteknar, heldur fyrst og fremst í orðpori Íslendinga og heiðri Íslands. Sem ætti að vera nokkurs virði hjá varðveislumönnum Eddukvæða: Deyr fé.

Jakob kippir sér heldur ekki upp við það samningsákvæði í bæði breska og hollenska samningnum að mál sem kunna að rísa skuli háð á grunni breskra laga, og segir það alvanalegt um slíka samninga – meðal annars íslenska lánasamninga „um áratuga skeið“. Það sé líka fráleitt að það skerði fullveldi Íslendinga að erlendur dómstóll hafi lögsögu. Hann hefði þó talið heppilegra að fá til þess alþjóðlegan gerðardóm, einsog samninganefnd okkar muni hafa reynt en ekki náð fram.

Ákvæði um jafna meðferð kröfuhafa eru hefðbundin, segir Jakob, og einnig vanefndarákvæði um að allt lánið falli í gjalddaga við alvarleg vanskil. Mönnum bregður við að lesa þetta í samningunum um svona mikið fé – en við ættum kannski að bera þetta saman við smáa letrið í húsnæðis- og heimilislánunum okkar? Rétturinn er í þessum tilvikum einkum hjá lánardrottninum, samkvæmt eðli máls. Það er hlutskipti skuldarans.
Þá telur lögmaðurinn telur vextina sem við höfum barmað okkur yfir „ekki tiltakanlega háa miðað við lánasamning til 15 ára“.

Endurskoðunarákvæðin: Engin dæmi

Kosti við samningana telur Jakob Möller hinsvegar tvenna þegar borið er saman við svipuð lán: Heimild til innágreiðslu án aukakostnaðar, og ákvæðin um hugsanlega endurskoðun.

Heimild til innágreiðslu „er mjög mikilvæg“ og „mun hagkvæmari lántaka en almennt gerist í lánasamningum“. Þessi heimild er auðvitað eitt af helstu grundvallaratriðum samninganna af því hún gefur færi á að lækka vaxtabyrðina feikilega ef vel gengur.

Um endurskoðunarákvæðið – sem margir hafa gagnrýnt fyrir að þar vanti nákvæmar tölur eða hlutfallsmark einhverskonar af landsframleiðslu eða fjárlögum – segir svo þetta í greinargerð Jakobs R. Möllers: „Ég þekki engin dæmi þess að í lánasamningum (andstætt viðskiptasamningum) séu ákvæði um endurskoðun vegna þess að aðstæður hafi breytzt lántaka verulega í óhag“.

Í ræðu Jóhannesar Indefence-manns á Austurvelli var talið að í Icesave-samningnum sæi engan stað hinna frægu „viðmiða“ sem stundum eru kennd við Brussel. Með þeim hétu íslensk stjórnvöld (ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar) að semja um Icesave, og láta „dómstólaleiðina“ eiga sig, gegn því að sérstakt tillit yrði tekið til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“.

Í Icesave-samningunum – eins mikið hundsbit og þeir auðvitað eru – koma viðmiðin frægu einmitt fram í þeim ákvæðum sem Jakob einkum hrósar: Í hagstæðara endurskoðunarákvæði en hinn reyndi lögmaður þekkir dæmi um, í heimild til kostnaðarlausrar innágreiðslu hvenær sem er, og í þriðja lagi sem Jakob nefnir ekki af því að snertir ekki lagahliðina, í lánstímanum, þessum sjö árum sem gefast til að koma eignunum í betra verð.

Hvað hélt Jóhannes Þ. Skúlason – og hinn ágæti Indefence-hópur sem stóð sig svo vel í haust þegar ráðamenn voru í tómu tjóni hér í haust – eiginlega að viðmiðin hafi falið í sér? Að skuldin yrði felld niður?

Kóngar allir hreint

Það verður ekkert sérlega auðvelt að vera „kóngar allir hreint“ hér á landi næstu ár og kannski áratugi. Bætum ekki á með þrasi um sjálfsagða hluti. Og marga þeirra skýrir Jakob Möller einkar vel.

Icesave-samningarnir snúast sýnist mér fyrst og fremst um þetta:

Treystum við okkur til að klára dæmið svona? Með þeirri óvissu sem vissulega sveipar eigurnar – 75% 83% 89% 95% eða eitthvað allt annað eftir langvarandi kreppu – en í því trausti að pólitísk og siðferðileg staða okkar verði betri eftir 5–7 ár ef allt fer á verri veg.

Eða viljum við sparka þessari taflstöðu í loft upp og byrja upp á nýtt? – sem Jóhannes í Indefence viðurkennir að mundi hafa „erfiðar afleiðingar fyrir Ísland í skammtímanum“.

Þeir sem hallast að því viðhorfi þurfa þá að lýsa því fyrir okkur hversu erfiðar þær afleiðingar yrðu. Hvernig skárstar? Hvernig verstar?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.6.2009 - 14:31 - 97 ummæli

Icesave – ekkert annað að gera

Já, það átti að koma strax, en nú er það komið og sjálfsagt að þakka fyrir: Icesave-samningarnir eru á netinu (Ísland.is), með greinargóðum skýringum, og þar eru líka svör við algengum spurningum um samninginn, og þar er umfjöllun um eignasafn Landsbankans, bæði frá endurskoðunarstofunni bresku (sem vann sitt mat fyrir sveitarfélögin þar) og frá skilanefnd Landsbankans. Samningana sjálfa þarf svo að þýða á íslensku, en það hlýtur að vera í gangi. Og þá er að athuga málið.

Ég nenni ekki í lánapakkana en hef enga ástæðu til að draga í efa það mat að þeir kynnu að duga fyrir 75–95% samningsupphæðarinnar. Kynnu að duga, stendur hér, því um það getur enginn fullyrt neitt núna. Þetta eru hinsvegar „forsendur“ samninganna (Svavar Gestsson), og ég tek fullt mark á því: Að í fyrsta lagi hafi íslenska samninganefndin gert samninginn á þeim forsendum að þrír fjórðu fjárins að minnsta kosti kæmu af eigum bankans, í öðru lagi hafi Bretar og Hollendingar treyst því að þurfa ekki að standa í að innheimta alla þessa milljarða af Íslendingum – samtals 0,3 milljónum manna – og í þriðja lagi sé þetta það sem fyrst og fremst er átt við í endurskoðunarákvæðinu þegar rætt er um greiðsluþol Íslendinga – það verði samið upp á nýtt ef þessar forsendur bregðast.

Sjálfstæð þjóð

Herdís Þorgeirsdóttir – ég hef vanið mig á að hlusta alltaf þegar hún talar – spyr í Fréttablaðsgrein í gær af hverju Hollendingar og Bretar hafi ekki bara einsog sjálfir tekið að sér eignasafn bankans, og þá væntanlega samið við okkur um restina, 170 milljarða eða þá upphæð aðra sem hefði gengið af eftir nákvæmt en snúið mat.

Svarið sýnist mér í grunninn vera einfaldlega það að í samningunum er gert ráð fyrir því að Íslendingar séu sjálfstæð þjóð sem gengst við skuldbindingum sínum. Ábyrgðin er klárlega Íslandsmegin (ef menn fallast á annað borð á að málið komi okkur við – meira um það seinna) – og af því leiðir að Íslendingar sjá sjálfir um eignasöluna, sem þeir hafa til heil sjö ár, hagnist á því ef bjartsýnustu spár ganga eftir, tapi á því ef illa gengur.

Annað svar er auðvitað að ef Hollendingar og Bretar hefðu átt að taka slíka áhættu hefðu þeir varla verið til viðræðu um þau kjör sem um samdist, hvorki um vexti né lánstíma, og sennilegast ekki um sjálft lánið sem þeir hefðu væntanlega sagt Svavari að sækja sér á hina gaddfreðnu almennu alþjóðlegu lánamarkaði. Eða til Rússa og Írana.

Pólitísk staða

Og ef tapið verður of mikið? Það er auðvitað milljón-dollara-spurningin. Þá kemur til álita greinin um endurskoðun samnings (16. grein í breska samningnum, 15. í hollenska) – sem fallist skal á ef „greiðsluþol“ Íslendinga (e. sustainability of the debt) hefur eftir sjö ár versnað verulega frá því sem nú eru líkur á. Það á AGS að meta. Menn kvarta yfir því á blogginu og á þinginu að þetta sé ekki klárara, að það skuli ekki vera settar niður upphæðir eða prósentur, eitthvert hámark. Það er ágæt aðfinnsla, en mér sýnist líka nokkuð gott svar hins nafnlausa skýranda á Íslandi-is við spurningu um hver samningsstaða Íslendinga yrði í slíku tilviki: „Flókin, en þá ættum við að hafa stuðning  alþjóðasamfélagsins.“ Menn gleyma því nefnilega um of að þessir samningar eru pólitískir, með góðu og illu. Pólitísk staða okkar nú er afleit, og í því ljósi er sennilega rétt að hrósa happi yfir útkomunni. Fari allt á verri veg er pólitísk staða okkar í kringum 2016 alveg örugglega betri.

Það reddaðist ekki

Þetta er gríðarlegt fé – mann sundlar. Héldum við kannski öll í sameiningu að Icesave og svo framvegis væri allt saman vondur draumur – að það hlyti að reddast? Að einhverjir í útlöndum hlytu að eyða málinu? Að Íslendingar væru á einhverskonar undanþágu í hörðum heimi alþjóðafjármála af því við erum svo lítil og sæt? Út á Björk og Völuspá og Bláa lónið?

Niðurstaða einsog ég hef vit til:  Icesave-samningarnir eru í lagi miðað við það sem við mátti búast. Kostirnir eru fyrst og fremst lánstíminn, þegar færi gefst á að koma eignum í verð og borga lánið niður. Því má ekki gleyma (þótt maður skammist sín aðeins) að Íslendingar borga ekki krónu umfram lágmarksupphæðina, og bara einstaklingunum, ekkert til sveitarfélaganna, líknarsamtakanna eða fyrirtækjanna. Það er líka kostur að þriðji aðili skuli fenginn til að meta endurskoðunarþáttinn. Menn gleðja sig við að tala illa um AGS, sem er skiljanlegt í ljósi sögunnar. Gleymum því þó ekki að annarsvegar á sjóðurinn heiður að verja eftir að hafa tekið að sér tilsjón með Ísalandi, og hinsvegar á hann hagsmuna að gæta – við megum varla verða svo blönk að geta ekki heldur borgað AGS-lánið!

Svo má endalaust velta fyrir sér vaxtaprósentu, breskum dómstólum og svo framvegis – en mér sýnast skýringar um þetta fullnægjandi.

Að veði: Heiðurinn

Gagnrýnendur hafa blásið mikinn út af veðsformúlum í samningunum en gæta sín ekki á því að hér er ekki um að ræða venjulegt íslenskt bankalán þar sem húsið er undir ef á bjátar – af því að samningarnir byggjast öðrum þræði á pólitískum forsendum er veðið líka pólitískt, og felst einkum í orðspori íslenska ríkisins á alþjóðavettvangi, í lánstrausti hins opinbera og íslenskra einkaaðila, og í heiðri íslensku þjóðarinnar. Um eiginleg veð á íslenskan bankakvarða er varla að ræða, þótt eflaust mundu hollensk og bresk stjórnvöld gera allt sitt til að ná einhverju upp í skuldina ef Íslendingar brygðust. Aðalrefsingin yrði líklega sú að lánamarkaðir mundu lokast í áratugi eða aldir og allt alþjóðasamstarf spillast.

Þegar við borguðum ekki

Það hefur gerst áður – í upphafi kreppunnar miklu. Fræðimaður um þau efni telur að vandræðagangur kringum fall Íslandsbanka 1929 – þegar hér hófust miklar umræður urðu um að „borga ekki“ hafi lokað á Íslendinga erlendum lánamörkuðum í mörg ár og gert að verkum að kreppan stóð lengur hér en víðast í nágrenninu, og lauk varla fyrren með hernáminu (skrifaði um þetta hér í vor).

„Dómstólaleiðin“

Eftir er stór spurning: Átti að gera samninginn eða fara „dómstólaleiðina“? Gallinn við þessa spurningu að hún er í þáskildagatíð. Út á hvað gengur dómstólaleiðin? Einsog ég skil talsmenn hennar er kjarninn sá að engin formleg ríkisábyrgð er á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, og íslenskum stjórnvöldum því ekki skylt að bæta innstæðueigendum tjón umfram það sem sjóðurinn sjálfur stendur undir. – Já, en þessi rök eru því aðeins tæk að allir sitji við sama borð! Þá hefðu innstæðueigendur hjá Landsbankanum, bæði á Íslandi og í útibúunum í Bretlandi og Hollandi, átt að fá borgaða nákvæmlega sömu upphæð, og þá miklu lægri upphæð en nemur lagalágmarkinu (um 3 milljónum) af því sjóðurinn átti ekki pening til að borga öllum lágmarkið.

Dómstólaleiðin varð bæði lagalega torsótt og siðferðilega óverjanleg strax og íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn og alþingi, ákváðu að ábyrgjast allar innstæður á reikningum Landsbankans á Íslandi (og Glitnis og Kaupþings) við upphaf kreppunnar í október 2008. Hvort þetta átti að gera er annað mál – það var gert.

Aftur að grein Herdísar: Vel má vera rétt hjá henni að Hollendingar og Bretar (og önnur ESB-ríki, og þá líka Danir og Svíar og Norðmenn) hafi brugðist yfirlýstri virðingu fyrir réttarríki og mannréttindum, og fyrirheitum sínum við stofnun Evrópusambands og -ráðs, með því að „kúga fámenna þjóð“ til samninga, en hafna „dómstólaleiðinni“.

Ég skil þetta þannig að stjórnvöld í London og Amsterdam hafi fyrst og síðast tekið ákvörðun um að verja einsog og unnt var hagsmuni sparifjáreigenda – helstu undirstöðu fjármálakerfisins. Það sem íslensk stjórnvöld ætluðu sér var líka að verja hagsmuni sparifjáreigenda og grundvöll bankaviðskipta – en bara á Íslandi. Kannski á bara að gera siðferðilegar kröfur til fjölmennra þjóða?

Búsáhöld og næstu verkefni

Ég hlýddi ekki kalli Harðar Torfasonar nú á laugardaginn að koma og mótmæla á Austurvelli. Þó var ég tíður gestur þar í haust, kom fram að stjórnarskiptum  sautján laugardaga af átján, minnir mig, og það var andlát nákomins sem hindraði Austurvallarför þetta eina skipti í vetur. En núna fór ég ekki. Vil einfaldlega ekki að þingið hafni Icesave-samningunum. Klára málið og snúa sér að næsta verki.

Auðvitað gnísta menn tönnum. Þetta er ekki mér eða þér að kenna! Við megum hinsvegar ekki missa okkur í æsing og hávaðarifrildi. Höfum hreinlega annað að gera. Nú þarf að taka  á afleiðingum hrunsins einsog menn. Ná þeim peningum sem hægt er af „óreiðumönnunum“, – verja heimilin, börnin og þá sem veikast standa – skipuleggja sókn í atvinnumálum á nýjum grænum forsendum – endurnýja grunngildin í samfélaginu – berjast fyrir lýðræði og almannaþátttöku í umræðum og ákvörðunum – sjá til þess að skuldir fjárglæframanna falli aldrei aftur á almenning – tala saman um framtíðina. Og berja í búsáhöldin þegar ráðamenn gera vitleysur.

Icesave hinsvegar – þar er ekkert annað að gera.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur