Laugardagur 20.6.2009 - 09:45 - 10 ummæli

Jónmundur, forysta og von

„Fólk kallar eftir forystu og vill fara að sjá vonarglætu, einhver ljós fyrir endanum á göngunum,“ segir Jónmundur Guðmarsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Klemens Ólaf Þrastarson í Fréttablaðinu í dag. Jónmundur telur að þetta hafi núverandi ríkisstjórn hafi ekki megnað að veita fólki.

Ræða í alla enda

Klemens Ólafur tekur Jónmund á orðinu og spyr hann um ESB og evru, sem sumir segi að sé eina vonarglæta ríkisstjórnarinnar. Þá kemur þessi stefnumótun:

„Ég hef sögulega séð verið andvígur aðild. Ég held að við höfum verið vel sett í þessu tvíhliða fyrirkomulagi, EES. Við gátum stundað verslun og viðskipti án þess að fórna fullveldi eða auðlindum. Þetta taldi ég mjög góða skipun mála. Nú getur verið að umhverfið hafi breyst, nú finnst mér ekkert að því að menn ræði þetta í alla enda. En það verður að gera á grundvelli hagsmunamats og af yfirvegun og skynsemi. Ekki vera heittrúa með eða á móti. Við þurfum að setjast yfir þessa hagsmuni og skoða hvað tapast og hvað vinnst með aðild.“

Ekki á stuttum tíma

En þið hafið ekki gert það, segir blaðamaðurinn, og Jónmundur samsinnir:

„Það var auðvitað mikil umræða á landsfundinum og í aðdraganda hans, og með ákveðinni niðurstöðu. Þannig að það má vel segja að við höfum allavega tekið eitthvert skref fram á við. En þetta eru hlutir sem verða ekki afgreiddir á stuttum tíma.“

Spurning sem þarf að svara

Klemens Ólafur heldur áfram og spyr nú um samfylgd flokksins við atvinnurekendur í ESB-málinu: Allt atvinnulífið nema sjávarútvegurinn talar um aðild. Það hlýtur að vera erfitt fyrir flokkinn að vita að hann framfylgir annarri stefnu en atvinnulífið vill. Er ekki brýnasta verkefnið að komast að skýrri niðurstöðu?

Og Jónmundur leggur fram sín viðhorf til þessa úrlausnarefnis:

„Jú, þetta er náttúrlega spurning sem þarf að svara.“

Kemur til álita sem möguleiki

Sérðu annað svar en ESB? spyr Fréttablaðið, og nú horfir hinn nýi framkvæmdastjóri vítt og of vítt um veröld hverja:

„Hitt svarið er náttúrlega að við göngum ekki inn. En atvinnulífið og samfélagið er í mikilli gerjun og við munum ekki finna neina skjóta lausn á þessu máli. ESB hlýtur að koma til álita sem möguleiki, en menn verða líka að gera sér grein fyrir því að það kunna að vera aðrir möguleikar, sem koma sér betur þegar til lengdar lætur.“

Halda áfram, en kannski ekki

Og þá er komið að boðskap framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins um stöðu peningamála eftir dýpstu kreppu í Íslandssögu síðustu alda:

„Auðvitað er það líka möguleiki að halda áfram eins og við höfum gert óbreytt. Við græddum ekkert sérstaklega mikið á því að skipta um mynt í dag. Við getum notað krónuna, í það minnsta fram að þeim tímapunkti að við sjáum að það sé hyggilegt að taka upp annan gjaldmiðil, eins og evruna.“

Segir ekkert sjálfur

Og hinn farsæli bæjarstjóri á Seltjarnarnesi telur rétt að fara varlega þegar kemur að tengslum þessa ágæta gjaldmiðils við aðild að Evrópusambandinu:

„Menn hafa svo deilt um hvort upptaka hennar þýddi að við þyrftum að fara í aðildarviðræður en ég skal ekkert segja um það sjálfur.“

Forysta og von

Fróðlegt viðtal, því Jónmundur er ráðinn sem pólitískur framkvæmdastjóri en ekki ,tæknilegur’ og á að stika út leiðina fram á við fyrir flokk og þjóð ásamt félögum sínum þremur í fylkingarbrjóstinu, Bjarna, Illuga og Sigurði Kára. Það er ánægjulegt að sjá að þar er svo sannarlega boðið upp á bæði von og forystu þegar kemur að helstu viðfangsefnum íslenskra stjórnmála og samfélags á okkar tímum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.6.2009 - 23:07 - 32 ummæli

„Ekki gefið upp“

Einn algengasta setningin í vonglöðum viðskiptafréttum hins gengna góðæris var sú að upphæðin – fyrir vænan skammt af hlutabréfum, söluhagnaður fyrir meirihluta í fyrirtæki, verð á nýjum banka, flugfélagi, tuskubúðakeðju í útlöndum, ensku knattspyrnufélagi, greiðslan fyrir kvöld með Elton John, þjónustu fylgikvenna á snekkjum, þóknun fyrir setu í bankaráðum eða ábatasöm nefndarstörf hjá ríkinu, að ekki sé minnst á peninginn í orkusamningum við álfyrirtæki – væri – „ekki gefin upp“.

Þegar hinn jakkaklæddi hafði látið þetta út úr sér hætti fréttamaður að spyrja heldur þagnaði svo sem væri verið að þylja faðirvorið og svo fylgdu nokkrar sekúndur af mikilvægri þögn: Þá átti maður einsog að spenna greipar og hugsa með andakt til launhelga viðskiptalífsins þar sem upp sprettur afl þeirra hluta sem gera skal.

Þetta gilti bæði um einkabransann (sem reyndist með orðum Einars Más hafa sett þjóðskrána að veði) og um opinber fyrirtæki og stofnanir nema þær sem þurfti beinlínis að upplýsa um samkvæmt leiðinlegum lögum. Muniði eftir heilagri vandlætingu útvarpsstjóra og félaga á ohf. þegar fyrst var spurt um launa- og bifreiðakjör yfirmanna?

Nú á þetta að vera liðið. Blaðamenn eru hættir að sætta sig við ekki-gefið-upp-svarið frá þeim sem enn hjara af athafnamönnum, og stjórnvöld verða að fara að venja sig á hina nýju siði. Stjórnmálamenn og embættismenn.

Í samningaviðræðum hérlendis og erlendis verða fulltrúar íslenska lýðveldisins einfaldlega að gera grein fyrir því í upphafi að eftir hrunið þurfi þeir að leggja fram fyrir íslenskan almenning alla þætti hugsanlegs samkomulags. Sama hver „venjan“ er hingað og þangað.

Og þegar samningum er lokið á að leggja þetta fram alltsaman undireins og ekki bara þegar búið er að þráspyrja eftir upplýsingunum og farnar af stað tröllasögur um fé og skilmála og byrjað að leka í miðlana því sem einhverjum finnst henta.

IceSave-samningana strax á netið, öll hliðarskjöl, allar forsendur, alla útreikninga. Strax.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.6.2009 - 12:43 - 13 ummæli

Og nú vinna á mér smádjöflarnir

Gunnar I. Birgisson hættur sem bæjarstjóri í Kópavogi, og þá væntanlega í pólitík fyrir fullt og allt. Það held ég sé rökrétt – en lýsir ekki mikilli staðfestu hjá félögum hans í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sem hafa horft uppá aðfarir hans allan tímann, tekið þátt í leiknum og dáðst að stjórnunarstíl Gunnars og vinnubrögðum. Nú er sá gamli fyrir, þetta er orðið óþægilegt, hann skemmir fyrir flokknum. Þá sameinast litlir karlar gegn meistara sínum: Og nú vinna smádjöflar á mér, sagði Sturla Sighvatsson á Örlygsstöðum.

Doktor Gunni, einsog sumir samflokksmannanna kalla hann í spaugi – en þó með virðingu, því doktor er hann vissulega! – er auðvitað íslenskur höfðingi allra alda: Einráð frekjudolla sem myndar um sig net með ríkidæmi, greiðum, skömmtun og skömmum, ryðst áfram þangað sem hann ætlar sér án tillits til nokkurs í nágrenninu, lítur á lýðræðið sem æfingu í liðsafnaði og auglýsingatækni á fjögurra ára fresti, telur hagsmuni sína og vina sinna (og fjölskyldu!) jafngilda almannahag, nennir ekki veseni með bókhald og stjórnsýslulög og siðareglur.

Já, hann byggði upp Kópavog í góðærinu, með þeim afleiðingum að húsin í nýju hverfunum standa hvert ofan í öðru, alltaf þriðjungi fleiri en í áætluninni frá skipulaginu og tveimur hæðum hærri en á fyrstu teikningunni. Iðnaðarhöfn komin við Skerjafjörð en með almennri uppreisn tókst að stöðva þungaflutninga í íbúðarhverfunum á Kársnesinu. Skuldastaðan eftir kreppuna með því versta á svæðinu. Ætli þar liggi ekki einhverstaðar hinar raunverulegu ástæður fyrir brottför bæjarstjórans. Það er að minnsta kosti holur hljómur í siðferðilegum skyndipredikunum Framsóknarforkólfanna. Hver er aftur bæjarritari þarna?

Ég kynntist Gunnari á þinginu, vann í menntamálanefnd þegar hann var þar formaður – og það var svo sannarlega engin skemmtiferð: Nefndarformaðurinn leit svo á að hér værum við í léni sínu og skyldum sitja og standa samkvæmt sérstökum samningum við hann og því sem væri búið að ákveða inni í Flokknum, og þetta nefndarstarf breyttist smám saman í skærustyrjöld þar sem ýmsum veitti betur. Deilur úr menntamálanefnd bárust iðulega inn í þingsalinn og út í fjölmiðlana, og þar féllu stór orð. Mig minnir að eftir einhverjar skammir úr ræðustól hafi Gunnar Birgisson lagt til að það yrði borgað undir Mörð Árnason á námskeið í mannasiðum – sem ég féllst á fúslega með því skilyrði að doktorinn yrði notaður til sýnikennslu. Skelfilegur maður að vinna með. Rusti. Dóni. Valdakall. Gam-al-dags íhald.

En svo tilheyrði líka að þegar loksins náðist samkomulag eða skilningur, þá hélt það einsog hægt var. Einsog í Sturlungu – eða á Sikiley.

Og eftir allt saman var erfitt að láta sér líka verulega illa við karlinn – hann hefur þennan undarlega hlýja sjarma gegnum líkamsskapnað sinn og hyldjúpan bassann: Maður trúir því nokkrar sekúndur að þrátt fyrir allt hljóti að vera gott að búa í Kópavogi. Að minnsta kosti þurfi að vera til einhverskonar verndar- og varðveislusvæði fyrir þvílíkt exemplar af mannskepnunni – kannski í nánd við skógarbjörninn og nashyrninginn.

2007 er búið og mikill öldungur að velli lagður handan lækjar. Þá skulum við svo sannarlega vona að atlögunni að Gunnari Birgissyni fylgi raunverulegur ásetningur í bæjarstjórnarmeirihlutanum í Kópavogi um siðlega stjórnsýslu og lýðræðisleg vinnubrögð.

Annars standa bara eftir smádjöflarnir.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.6.2009 - 10:39 - 22 ummæli

Hjáseta um landráðin?

Eftir hin stóru orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um IceSave-málið er niðurstaða miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins í Keflavík einungis sú að styðja ekki samninginn. Upphafsorð samþykktarinnar benda til þess að hluti þingflokks Framsóknar hyggist sitja hjá í atkvæðagreiðslu um IceSave-málið á þinginu:

„Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins, haldinn í Keflavík 13. júní 2009, skorar á þingmenn flokksins að greiða ekki atkvæði með samningi um uppgjör vegna ICESAVE-skuldbindinga Landsbankans, á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.“

Miðstjórnarfundurinn sættir sig þar með við að þingmenn flokksins sitji hjá um samninginn, þótt

allt [bendi] til að [samningurinn] muni leiða til stöðnunar eða hnignunar næstu árin og svo verði skuldirnar óviðráðanlegar þegar þar að kemur (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í fréttum RÚV 13. júní),

þótt

með samkomulagi íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda um Icesave-innlánsreikningana sé verið að taka vonina af fólkinu í landinu. Stórauknar skuldir veiki gengi krónunnar og hætt sé við stórauknum fólksfjölda úr landi (pressan.is, haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundinum 13. júní),

þótt

Nú [ætli] íslenska ríkið … og skuldsetja sig verulega nema hvað í stað innistæðueigenda er verið að skuldsetja alla Íslendinga og setja efnahagslega framtíð þjóðarinnar í hættu (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í Eyjubloggi 8. júní, undir fyrirsögninni „Fávísi og blekkingar“),

og þótt

með samkomulagi sem undirritað var í nótt um Icesave skuldbindingarnar svokölluðu … sé verið … að selja Íslendinga í ánauð (visir.is, haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarfloksins, 7. júní).

Stöðnun, hnignun, óviðráðanlegar skuldir, fólksflótti úr landi og Íslendingar í ánauð með samningi sem „jaðrar við landráð“ (Eygló Harðardóttir) – og svo á bara að sitja hjá?

??

???

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.6.2009 - 20:14 - 18 ummæli

Meiriháttar efnahagsráðgjöf

Í fréttum Stöðvar tvö (og á Vísi) fáum við að heyra að það sé ekkert vit að leggja á nýja skatta. Þá eigi fólk ennþá erfiðara í kjölfar kjaraskerðingar með gengisfalli og dýrtíð að ekki sé talað um skerta atvinnu – og fyrirtækin þoli auðvitað ekkert. Í staðinn á að skera niður hjá ríkinu. Þetta var í helstinu

Heimildarmaðurinn var Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður, fyrrverandi efnahagsráðgjafi og bankastjóri. Og svo er rætt við hann í fréttatímanum í garðinum heima hjá sér, og hann endurtekur það sem áður sagði. Svona hagstjórn sé einsog fyrirtæki sem hættir að selja og bregst við með því að hækka verðið á vörunni.

Meðan áheyrendur eru að melta þessa samlíkingu byrjar hagfræðingurinn að tala um niðurskurðinn og fram kemur að margt megi skera niður. Hann nefnir að vísu ekkert sem á að skera niður, en …:  „Ég held að það sé hægt að spara og skera niður á sumum stöðum en við megum alls ekki ganga nærri velferðarkerfinu það er segja mennta-, heilbrigðis- og tilfærslukerfinu.“

Ergo: Gatið er 20–25 milljarðar (40 segir TÞH). Tryggvi Þór Herbertsson vill engar nýjar tekjur í ríkissjóð heldur á að skera niður fyrir þessum milljörðum. En alls ekki með því að „ganga nærri“ menntamálum, heilbrigðisþjónustu og bótum.

Hvar þá? Meinar hann landbúnaðinn? Vegaframkvæmdir? Umhverfisrannsóknir og náttúruvernd? Fangelsin kannski? Eða er þetta hefðbundinn popúlismi um sendiráð og ferðalög ráðherra? Af hverju segir Tryggvi Þór okkur ekki bara frá því sem Sjálfstæðisflokkurinn vill núna skera niður en lét eiga sig í átján ár meðan ríkisútgjöld uxu sem aldrei fyrr?

Hér er til fróðleiks nýsmíðuð stefna Sjálfstæðisflokksins um ríkisrekstur, úr greinargerð við efnahagstillögur flokksins: Verðlaun í boði fyrir þann sem skilur hvar á að afla 20-40 milljarða með niðurskurði:

,,Ljóst er að leita þarf allra leiða til að hagræða í ríkisrekstrinum. Sú vinna verður erfið og þar hlýtur allt að vera undir. Skynsamlegt er að leita breiðrar samstöðu um forgangsröðun og það er fagnaðarefni hve ábyrgt aðilar vinnumarkaðarins nálgast þetta verkefni. Haft verði að leiðarljósi við þær aðgerðir að auka hagkvæmni þar sem því verður við komið, t.d. með sameiningu ríkisstofnana. Einnig verður nauðsynlegt að auka tekjutengingar og draga úr tilfærslum. Brýnt er að hagræðing í opinberri þjónustu verði útfærð með þeim hætti að skorið verði hlutfallslega minna niður í velferðarkerfinu og í málaflokkum sem tengjast kjarnastarfsemi hins opinbera, svo sem heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og löggæslu en meira á öðrum sviðum, t.d. í utanríkisþjónustunni.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.6.2009 - 13:06 - 23 ummæli

Kóað með Kristjáni

Hingað kom í síðustu viku fólk frá Greenpeace og sagði Íslendingum þær fréttir að fyrir útflutningsvöruna hvalkjöt væri enginn markaður þar sem á að selja hana, nefnilega í Japan.

Afgreiðsla fjölmiðla á þessum tíðindum var ansi mikið 2007. Fulltrúar samtakanna héldu blaðamannafund í Reykjavíkurhöfn og frá honum var auðvitað sagt víðast hvar. Flestum fréttamannnanna hugkvæmdist svo það snjallræði að tala við „hinn“ aðilann í málinu, Kristján Loftsson í Hval hf. Þeir sem í hann náðu – sumum nægði að hafa reynt – höfðu eftir honum að þetta væri bara venjuleg lygi úr Grænfriðungum, nema hvað að nú þyrfti náttúrlega að efla markaðsstarf í Japan eftir langt hlé. Einn fréttamaður (allavega, hef ekki rannsakað nákvæmlega alla miðla) tók upp símann og hringdi í japanska hvalkjötskaupandann, viðskiptafélaga Hvals hf., sem var helsti heimildarmaður Greenpeace-manna. Sá vildi ekkert tjá sig við íslenska fjölmiðla. Og þarmeð var málinu lokið.

Nú verður að taka fram að einmitt um þetta leyti bar IceSave-fréttirnar sem hæst. og kannski komst fátt annað að á ritstjórnunum. Samt voru vinnubrögðin alveg í stíl við flestar fyrri fréttir af hvalveiðiævintýrum okkar – gagnrýnisaugun lögð á hilluna, fréttaflutningur í anda Gísla Einarssonar um káta karla, kóað með Kristjáni.

IceSave, já – en hvalveiðarnar eru hættuspil sem líka varða þjóðarhag, og markaðirnir í Japan eru úrslitaatriði í málinu –  sagði ekki ég eða Árni Finnsson heldur Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra þegar hann ákvað veiðarnar í janúarlok. Hvar eru sölusamningar Hvals hf. við Japana?

Sinnuleysi fjölmiðla er hér sérlega skaðlegt vegna þess að hjá stjórnvöldum er farið með allar upplýsingar um hvali einsog hernaðarleyndarmál – sem meira að segja þingmönnum gengur afar treglega að fá að vita um. Ég spurði til dæmis á þingi í vor um ýmsa þætti hvalveiðimálanna, eftir stjórnarskipti, og fékk eins lítil svör úr sjávarútvegsráðuneytinu og hugsanlegt var. Við spurningu um það hve mikill hluti hvalsins væri nýttur, og hver væri skipting afurða í kjöt, rengi, mjöl og lýsi, voru svör ráðherrans þessi: „Ráðuneytið hefur ekki þessar upplýsingar. Bent er á að leita þeirra hjá fyrirtækinu Hval hf. eða Hrefnuveiðimönnum ehf.“ Ég hef ekki enn orðið við ábendingunni, hvað sem síðar verður – en ætli „ráðuneytið“ mundi svara svona þinglegri fyrirspurn um hákarlaveiðar eða geitaslátrun?

Tryggingafé?

Menn sem þekkja til á þessu sviði klóra sér reyndar í kollinum og skilja lítið í Kristjáni Loftssyni að ætla enn að stefna fé sínu á glæ með þessum hætti – fyrir utan öll þau hundruð milljóna sem hafa oltið í sjóinn úr almannasjóðum vegna hvalveiðanna og kynningar erlendis á hinum svokallaða málstað Íslendinga. Síðast heyrði ég þá kenningu að Kristján hefði keypt sér tryggingu við rekstrarstöðvun í hvalnum og þyrfti endilega að komast af stað til að láta stoppa sig. Og hafi hingað til haldið sér uppi með svipuðu tryggingafé. Þessa sögu sel ég sirka jafndýrt og ég keypti hana – en það er eðlilegt að menn leiti annarra skýringa en í venjulegum viðskiptahagsmunum á þessari ævintýramennsku Kristjáns, með fullu samþykki sjávarútvegsráðherra fyrri aldar og þessarar. Eða hvað, VG?

Hvalveiðiráðið

Kristján er annars seinn af stað í hvalavertíðina miklu sumarið 2009, sem átti að skapa „á þriðja hundrað störf“. Sjálfsagt er ýmis undirbúningsvandi – ekki getur núna verið skortur á vinnuafli til veiða og vinnslu? Kannski finnst honum ekkert verra að hefja á ný hagnaðarveiðar á stórhveli einmitt rétt eftir miðjan mánuð. Alþjóða-hvalveiðiráðið kemur saman á árlegan fund sinn í Madeira 22. júní (aðalfulltrúarnir, vísindamenn löngu sestir niður syðra), og upphaf veiða um það leyti mundu örugglega skemma meira fyrir málamiðlunartillögum til að koma ráðinu úr sinni frægu pattstöðu – alger hvalfriðun á miklum hluta heimshafanna en leyfa veiðar á ný á strandsvæðum til innanlandsneyslu. Það er víst ekki í samræmi við íslenska málstaðinn.

Evrópusambandið

Þá er mikið keppikefli fyrir Kristján og aðra Sanna Íslendinga að koma í veg fyrir aðildarumsókn að Evrópusamabandinu. Innganga mundi nefnilega þýða sjálfkrafa gildistöku tilskipunar ESB um búsvæði (habítat) dýra þar sem hvalir eru einfaldlega friðaðir í heild sinni í viðkomandi viðbæti.

Einsog um margar aðrar ESB-reglur gildir hér að það má reyna að semja sig á svig við þær í aðildarviðræðum. Það gengur örugglega ekki með stórhvalaveiðar, en í samningi Norðmanna 1995 var hinsvegar undanþága fyrir hrefnuveiðar á strandsvæðum, sem hugsanlegt væri að reyna að ná í samning okkar. En það er sjálfsagt heldur ekki í samræmi við íslenskan málstað.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.6.2009 - 20:33 - 19 ummæli

Hlýðum Evu strax

Það kann að vera kostnaðarsamt að fjölga sérstökum saksóknurum og öðru starfsliði við rannsókn bankaglæpa. Og það kann að vera óþægilegt í litla kunningjasamfélaginu að koma frá ríkissaksóknara í nánum tengslum við einn þeirra sem rannsaka þarf.

Íslendingar hafa hinsvegar ekki efni á öðru en að klára þessa rannsókn eins vel og hægt er. Meðal annars vegna þess að út úr henni gætu fengist peningar! – en fyrst og fremst til þess að fullnægja réttlætinu einsog kostur er. Ráðamönnum nú og áður verður heldur ekki fyrirgefið að hafa ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að upplýsa málin.

Eva Joly hefur nú lagt til að ríkissaksóknarinn verði settur af – eða verði að minnsta kosti ekki yfirmaður þeirra sem annast rannsóknina, og stungið uppá ákveðnu skipulagi við rannsóknarstörfin. Þar á meðal að sýslumanninum af Skaga verði sparkað upp á við en fengnir alvörumenn í saksóknarastörfin.

Einhverjum finnst þetta sjálfsagt bölvuð frekja í Evu Joly. Þá er rétt að minna á að hún er einmitt að gera það sem henni er borgað fyrir: Að gefa ráð.

Við eigum strax að hlýða Evu Joly. 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.6.2009 - 18:10 - 32 ummæli

Of seint að vera svartsýnn

Þetta var mögnuð mynd í sjónvarpinu í gær og á skilið meira umtal en hún hefur fengið hér ennþá –kannski af því við Íslendingar höfum alltaf um eitthvað annað að hugsa en það að náttúran sé orðin ónáttúruleg og að framtíð mannkyns sé í hættu.Til dæmis um Ísland-Holland … ?

Magnaðast var kannski þegar maður var kominn með hausinn niðrí maga og farið að langa í bara eitthvað annað en þennan óþægilega sannleika – þá sneri sögumaður myndarinnar við blaðinu og sagði manni hinsegin til syndanna –nú þyrfti að vaka og vinna: Það er of seint að vera svartsýnn.

Of seint …

Það eru kannski ekki beinlínis helgispjöll en þó að minnsta kosti eitt mjög stórt epli annarsvegar og og litlar appelsínur hinsvegar að líkja saman loftslagsbreytingunum og IceSave-málinu. En þar gildir líka þetta, ágætu bölsýnismenn, haushengjarar, stóryrðabloggarar, svardagahetjur og landráðaákærendur: Það er of seint að vera svartsýnn.

Ef til vill kom einhverntíma til greina að fara í mál. Þótt við hefðum fundið til þess vettvang og málstað voru lyktir þó sennilega of óljósar til að taka áhættuna af að missa stuðning grannþjóða og AGS.

Ef til vill var gerlegt að borga ekki. Við hefðum sjálfsagt komist upp úr einangruninni að lokum. Kannski um miðja öldina?

Ef til vill hefði verið hægt að finna meira fé hjá „óreiðumönnunum“.  Verið að reyna núna en átti auðvitað að byrja strax í október. Það tók þrjá mánuði bara að koma upp þessu embætti sérstaks saksóknara og ekkert fór að gerast fyrren Eva Jolie kom hingað að skoða Gullfoss, Geysi og Björk.

Og ef til vill hefði verið hægt að komast hjá því að borga reikningseigendum í IceSave krónu umfram  þessar þrjár milljónir eða hvað það nú er sem tryggingasjóðurinn miðast við. Það hefði þá þurft að hugsa áður en Íslendingum var lofað að innstæður þeirra í bönkunum yrðu ekki skertar.

Ef til vill. Og þó held ég í raun og veru ekki.

Núna er hinsvegar of seint að vera svartsýnn. IceSave-ákvörðunin er í raun tekin strax í upphafi kreppunnar. Hún er staðfest í þingsályktunartillögu í desember með atkvæðum Samfylkingarmanna og þingmanna Sjálfstæðisflokksins. VG og Pétur Blöndal voru á móti en Frjálsyndir og Framsóknarmenn sátu hjá, þar á meðal hin prúðlynda Eygló Harðardóttir. Síðan var farið að semja með þessu umboði.

… að vera svartsýnn

Við áttum varla annars úrkosti – það er alveg rétt. En skoðum samninginn – því þar eru þrátt fyrir allan blótsyrðaflauminn engin landráð og ekkert skuldafangelsi. Við borgum 5,5% vexti, sem eru erfiðir, en ekki drápsvextir. Það er því miður óraunhæft að bera þá saman við skammtímavexti núna í Evrópu, hvað þá íslenska húsnæðisvexti. Við – eða réttara sagt tryggingasjóðurinn – fáum lán hjá Hollendingum og Bretum, sem ekki er sjálfsagt. Það losnar auðvitað um eigurnar  – og strax er hægt að setja upp í þetta eitthvert Landsbankafé. Það sem skiptir svo mestu máli eru afborgunarlaus sjö ár. Ekki af því greiðslurnar frestist í sjálfu sér, þótt það sé kostur fyrir skítblanka þjóð, heldur af því að á þessum árum gefst tími til að koma eignunum í betra verð en annars hefði verið hægt. Nú er talað um meiri eignir en margir bjuggust við, þessvegna er áríðandi að vinna tíma – enginn í útlöndum er að kaupa mjög mikið nákvæmlega núna.

HFF

Þetta er auðvitað helvítis fokking fokk. En það er bara of seint að vera svartsýnn. Horfum á þann ávinning sem í þessu felst og reynum að taka saman höndum um að koma okkur út úr þessu án þess að fara á límingunum. Af því að ef við förum á límingunum verður þetta aldrei annað en sífellt og eilíft helvítis fokking fokk.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.6.2009 - 21:03 - 53 ummæli

IceSave: Hættuleg hystería

 

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar á þingi og nú síðast í Kastljósi við væntanlegum IceSave-samningum eru hysterísk – og hættuleg.

Löngu var ljóst að við áttum engan annan kost en að semja um þessar skuldir. Hinn kosturinn var að segja sig úr lögum við umheiminn og útiloka samfélagið um leið frá erlendu lánsfé, hefðbundnum viðskiptum og almennum áhrifum í áratugi. Sennilega hefði EES-aðild okkar meðal annars verið í hættu – og það er kannski sú fjöður sem er orðin að fimm hænum í þeirri frábæru kenningu að hér sé ríkisstjórnin að greiða einhverskonar aðgöngu-„gjald“ inn í ESB. Sem er að öðru leyti einhver hin lágkúrulegasta  í langri og leiðinlegri sögu landráðabrigsla í íslenskri pólitík.

Samningurinn virðist vera skárri en við mátti búast. Vextirnir eru erfiðir en plúsinn er auðvitað sjö ára greiðslufrestur, og á meðan eru líkur á að miklu meira náist af Landsbankaeignum uppí skuldina en flestir héldu.

Hinsvegar er þetta sannarlega svakalegt og hrikalegt og óskaplegt – og hefur verið alveg síðan í október í fyrra.

Magnandi svörun

Forvígismenn stjórnarandstöðuflokkanna – líka Borgarahreyfingarinnar því miður – virðast hafa lokast inn í stemmingu sem stundum kemur upp í alþingishúsinu og minnir á hávaðann á börum borgarinnar að kvöldi til: Tónlistin er hávær í hátölurunum,  fruss í kaffivélinni og umferðarniður fyrir utan – gestirnir verða að tala hærra til að yfirgnæfa hávaðann sem aftur þýðir að á næstu borðum þurfa menn líka að hækka róminn og fyrstu gestirnir brýna röddina og á þarnæsta borði er byrjað að æpa. Svona ferli heitir einmitt „magnandi svörun“ í loftslagsbreytingafræðum.

Hystería stjórnarandstöðunnar stafar meðal annars af magnandi hávaðasvörun – en sprettur líka af pólitískri spekúlasjón, sem er það hættulega – nú þegar einmitt þarf að hefja sig upp fyrir flokkshagsmuni.

Einar Ben: Þegar býður þjóðarsómi / þá Bretland eina sál.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.6.2009 - 15:36 - 12 ummæli

Áfram veginn

Man eftir þessari tilfinningu frá því í eldgamla daga, að eignast  nýtt hjól, spenna og stolt og svo örlítill kvíði – er það af réttri stærð, virka bremsur og (nú) gírar, fer það nógu hratt …

Ég var að rifja upp á leiðinni austan úr Erninum (sem einusinni var lítil búð á Spítalastígnum, stórveldið var Fálkinn við Laugaveginn) að fyrsta hjólið sem ég fékk eða man eftir allavega hét Mifa – var ekki alveg viss en mundi svo að það tengdist alltaf tónstiganum sem stimplaði sig inn á svipuðum tíma: do re mi fa …

Á Möwe gegnum lífið

Og var örugglega þýskt, austurþýskt minnir mig, og nú hef ég gúgglað það: „Mifa Fahrrad“ – og í ljós kemur að auðvitað eru Mifa-hjólin enn á fullu, heita að vísu ekki í höfuðið á nótunum heldur eru framleidd í Mitteldeutsche Fahrradwerke AG, sem virðast eiga heima í bænum Sangenhausen mitt á milli Magdeburg og Erfurt – einmitt í suðvesturhluta gamla Austur-Þýskalands. Svona man maður – þetta var rautt og ágætt og traust hjól – en samt ekki eins flott og DBS-hjólin og hvað þau nú hétu öll, og það þótti verulegur galli að hafa það austurþýskt. Ég málaði samt aldrei yfir merkið einsog Þórarinn í kvæðinu. Hjólið í kvæðinu var Möwe og ég gúgglaði það líka og þau eru núna framleidd í Osnabrück í Saxlandi og alls ekki austurþýsk einsog ég hélt. <Sjá athugasemdir!> Kannski skáldið hafi ruglast og hafi átt Mifa? Eða ég hafi ruglast og blandi saman tilfinningum hans og mínum? Allavega rennum við tveir á Möwe gegnum lífið.

Trek 3900

Þetta var annars hvorki Mifa né Möwe sem ég renndi mér á vestur með Miklubrautinni heldur amerískt Trek-hálffjallahjól, týpa 3900 sem er hærra en síðasta Trekkið og þarmeð betra og tíuþúsundkalli dýrara líka, en hjólakallarnir á Hverfisgötunni segja að þeir sem alltaf eru á hjóli eigi að vera á þokkalega góðum hjólum, og kaus að líta svo á að nú hefði forsjónin verið að verki að lyfta mér hærra í mannfélagsstiganum, sumsé úr Trek 3700 í 3900, og spara mér einsog í staðinn ljós fram í ágúst og sleppti bjöllunni … Ég viðurkenni: Í og með stafaði spandansinn af því að 3700-gerðirnar voru svo ljótar, ein skærblá og önnur svona eitthvað hipp-hopp-abstrakt, og þriðja rauð og hvít einsog Valsbúningur. Það eru takmörk fyrir því á hverju maður getur látið sjá sig, en það var ást við fyrstu sín þegar ég var leiddur að mosagræna 3900-Trekknum, látlausum en karlmannlegum glæsigrip sem sýnir að hér knýr hjólhest gáfum gæddur smekkmaður sem velur aðeins það besta.

Steluþjófar

Að forsjónin hafi staðið að þessum kaupum er kannski í það djarfasta, en hljómar að minnsta kostu betur en hinn sári sannleikur – sem er sá að gamla góða Bláni var stolið í síðustu viku. Yðar einlægur kom hjólandi á tiltekna knattspyrnukrá í Skólavörðuholtinu að horfa á úrslitin í Meistarakeppninni og þegar sá leikur var farsællega yfirstaðinn með verðskulduðum sigri minna manna frá Katalóníu og víðar – þá var gripurinn horfinn og hvorki eftir af honum tangur né tetur, ekki einusinni lásinn sem ég hef þó við svipaðar aðstæður séð skilinn eftir sundurskorinn til minja. Ekkert, hvað sem ég gáði oft. – Ferlegt að láta stela frá sér hjóli, og ennþá verra að láta eyðileggja fyrir sér þetta prýðilega skap sem sigur Börsunga hafði framkallað í bland við niðurlægingu  montrassanna frá Manchester.

Að stela reiðhjóli var á sokkabandsárum mínum einhver svakalegasti glæpur sem fremjast kunni. Lúalegt og níðangurslegt og hinir seku örugglega ógæfumenn í níunda lið. Og þetta finnst mér enn – það er ótrúlega ljótt að stela hjóli. Ég trúði því heldur varla að það hefði gerst, heldur hlyti læsingin að hafa verið biluð og einhver fengið það lánað niður Skólavörðustíginn – en það var hvergi að sjá heldur næstu daga og kom því miður ekki gangandi sjálft heim til sín.

Lög og regla

Svo tilkynnir maður þetta til löggunnar, og er sagt að skoða hjólabirgðirnar þeirra í Borgartúnsporti, en þar er auðvitað ekkert, enda komast hjólhestar því aðeins þangað að einhver borgari hafi nennt að hringja og benda löggunni á hjól sem eru orðin til ama við staur eða grindverk. Og löggan getur víst ekkert gert – nema senda tryggingunum skýrsluna – en þaðan fæst bara skitirí.

Það er víst alltaf verið að stela hjólum – en samt kannast enginn við svartamarkað með hjól, og notuð hjól eru ekki seld nema út af öruggum verkstæðum – og varla eru þjófarnir sjálfir að sporta sig sjálfir á stolnum hjólum um bæinn. Þetta er skrýtið – en þeir hjá Erninum halda að hjólunum sé stolið upp í gám og flutt til útlanda. Þá finnst manni kannski að löggan ætti að tékka á farmskýrslunum … Og er í huganum kominn í Fimm fræknu-leik við að finna steluþjófana. Örugglega aðkomumenn!

Bíta á jaxlinn

Nú – skógareldur gegnir víst mikilsverðu og merkilegu hlutverki í vistkerfinu – eyðir öllu sem á vegi verður til að nýtt líf vaxi og dafni. Sjálfsagt má jafna hjólaþjófum saman við skógareldinn. Kannski má líka jafna banka- og útrásarþjófum og svo vondum stjórnmálamönnum saman við skógareldinn. Allavega dugar ekki að steyta hnefana framan í þá sem eru stungnir af.

Heldur bíta á jaxlinn og kaupa sér Trek 3900. Mosagrænt. Með góðum lás.

Áfram veginn.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur