Þriðjudagur 2.6.2009 - 09:47 - 12 ummæli

Einsleit Fréttablaðsfrétt

Mér fannst gott hjá Katrínu Jakobsdóttur að setja niður vinnunefnd um hlutverk Ríkisútvarpsins, og mér fannst líka snjallt að í henni væri fagfólk úr ýmsum áttum en ekki stjórnmálamenn eða viðskiptafræðingar.

Samkvæmt frétt frá menntamálaráðuneytinu á þessi hópur að „skoða hlutverk almannaútvarps í þjóðfélaginu“ og á að leggja niðurstöður hans til grundvallar við nýjan þjónustusamning ráðuneytisins/ríkisins við Ríkisútvarpið.

Nú er sannarlega kominn tími til að meta ohf.-breytingarnar um árið og áhrif þeirra á RÚV og á ljósvakavettvanginn heild. Og það er einmitt rétt aðferð hjá Katrínu að byrja á að athuga hvernig RÚV stendur sig sem almannaútvarp.

„Einsleit nefnd“

Og bregður þá svo við að Fréttablaðið finnur út að í nefndinni sitji ómögulegt fólk og komi aðeins „úr einni átt: Annaðhvort úr Vinstri-grænum eða Ríkisútvarpinu sjálfu nema hvort tveggja sé“ segir í frétt (hér http://vefblod.visir.is/index.php?s=3120&p=75489) með fyrirsögninni „Einsleit nefnd um RÚV“.

Fréttablaðið finnur út að af sjö nefndarmönnum séu sex fyrrverandi starfsmenn Ríkisútvarpsins, þar á meðal Sigtryggur Magnason, formaður nefndarinnar, þá væntanlega með því að eiga konu sem vissulega vinnur hjá RÚV, og Þorbjörn Broddason prófessor, væntanlega af því hann sat í fyrndinni í útvarpsráði og á auðvitað bróður sem vinnur á fréttastofunni.

Þar að auki segir Fréttablaðið okkur að „flestir“ nefndarmenn, „ef ekki allir“ tengist VG „með einum eða öðrum hætti“. Um þær tengingar er okkur hins vegar ekkert sagt. Ég veit ekkert – en finnst samt líklegt að Sigtryggur aðstoðarmaður sé í VG. En þau Þorbjörn, Laufey Guðjónsdóttir, Sigríður Árnadóttir, Ágúst Þór Árnason, Hallmar Sigurðsson og Kristín Helga Gunnarsdóttir? Eru þau í VG? Eða hver er tengingin? Eiga þau maka í VG? Eða bróður?

 „Sérstök skipan“

Kannski þarf Fréttablaðið ekki að slá rökum undir þessa fullyrðingu. Það hefur nefnilega fengið til liðs við sig mikinn stóradóm um pólitísk tengsl kringum Ríkisútvarpið, sjálfa Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. „Skipanin er sérstök,“ segir gamli menntamálaráðherrann og Rásar-tvö-stjórinn, „og maður veltir því fyrir sér hvort auka eigi pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu með skipan þessarar nefndar.“ Soldið fyndið frá einmitt henni.

Hvað Fréttablaðinu gengur til er óljóst. Eina athugasemd er vissulega hægt að gera við bakgrunn  og reynslu nefndarmanna, þá að innanhússþekking þeirra af öðrum fjölmiðlum en Ríkisútvarpinu er takmörkuð. Kannski var það meiningin hjá „jakobi“ sem fréttina skrifar samkvæmt netfangsmerkingu. En mátti ekki koma því á framfæri án þess að skrá nefndarmenn á einu bretti í VG – og búa til glæp úr því að eiga maka og bræður?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.5.2009 - 09:50 - 17 ummæli

Svo sannarlega ferlegt

Já, alveg rétt hjá Tryggva Þór Herbertssyni og öðrum hrópendum: Ferlegt. Mikil hækkun á bensíni og víni og tóbaki, og kemur svo beint inn í vísitöluna og hækkar afborganir af skuldunum meðan kaupið (hjá þeim sem hafa fulla vinnu, þ.e.a.s.) aðallega rýrnar. Vont fyrir allt venjulegt fólk, og líka ákaflega gamaldags álögur: bús og bensín.

Svo er þetta bara byrjunin – það má búast við meiri skattahækkunum á haustþinginu, örugglega hækkaður fjármagnstekjuskattur og sjálfsagt einhver hækkun á venjulega tekjuskattinum, og meiri vörugjöld. Kannski virðisaukaskatturinn líka, þótt hann sé næstum hvergi hærri? Og svo útsvarið og fasteignagjöldin hjá sveitarfélögunum. Þetta er bara tekjuhliðin, svo er samdráttur í gjöldum: Sár niðurskurður útum allt í fjárlögunum.

Við hverju bjuggumst við? Og hvað leggur Tryggvi Þór Herbertsson til í staðinn? Enga nýja skatta og gjöld? Bara niðurskurð? Kannski heldur hann ennþá – einsog í Kastljósi í haust – að skuldirnar séu bara plat af því við græðum svo mikið á vöxtunum af AGS-láninu?

Því miður. Nú er bara að bíta á jaxlinn – en við gerum líka kröfur um árangur við endurreisnina. Jóhanna, Steingrímur og Gylfi eiga að skýra af hverju það gengur svona illa að hnýta slaufu á uppgjör gömlu bankanna, og hvað er eiginlega um að vera í stjórnum hinna nýju. Almenningur er reiðubúinn að hlusta á vondar fréttir – það eina sem hann vill ekki er að láta halda sér frá öllum tiltækum upplýsingum um stöðu og horfur.

Einsog sést af nýju álögunum er það nefnilega almi blessaður sem borgar að lokum fyrir öll hádegisverðarboðin í góðærinu og bankabólunni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.5.2009 - 13:03 - 11 ummæli

Lásu þeir ekki tillöguna sína?

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru skráðir flutningsmenn tillögunnar um að utanríkisnefnd alþingis hugsi um ESB-málið til 31. ágúst.

Framsóknarmennirnir virðast ekki hafa lesið tillöguna. Þeir samþykktu á flokksþingi í vor að Íslendingar „hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið“. Já, já – með allskonar skilyrðum og á grundvelli „samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs“ og svo framvegis, en klárlega „hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið“.

Tillagan (hér) er hinsvegar um að undirbúa „mögulega umsókn“. Og þegar niðurstaðan liggur fyrir – sem gæti orðið 31. ágúst – þá á haustþing að ákveða „næstu skref, þ.e. hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið eða eftir atvikum hvort ákvörðun þar um skuli borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu“.

Möguleikarnir eftir „undirbúninginn“ eru semsé þrír samkvæmt tillögunni:

1. Að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
2. Að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
3. Að ganga ekki til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Ekki alveg kosningastefnan um að Íslendingar „hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið“ – ??

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.5.2009 - 11:10 - 9 ummæli

Skrýtið réttindafélag

Óska velfarnaðar karlmanninum Andrési Inga Jónssyni sem nú tekur við af Silju Báru Ómarsdóttur sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í stjórn Kvenréttindafélags Íslands.

Ha? Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í stjórn KRFÍ? Er það virkilega þannig að stjórnmálaflokkarnir tilnefni menn í þessa stjórn? Ansi er þá orðið skrýtið réttindafélag úr hinni fornu súffragettusveit Bríetar Bjarnhéðinsdóttur!

Ég vissi þetta ekki, og taldi mig þó eldri en tvævetur í félagsmálum – hélt að þarna væri við stjórnarkjör reynt að gæta jafnvægis í pólitík einsog víða tíðkast í almennum félagasamtökum innan um aðrar jafnvægiskúnstir – en að flokkarnir eigi fulltrúa í stjórnum sjálfstæðra félaga kemur á óvart, að ekki sé talað um réttindafélag sem að minnsta kosti stundum hafa verið einhverskonar baráttusamtök á hendur kerfinu og karlveldinu.

Og hver tilnefnir í stjórn KRFÍ? Formenn flokkanna? Kvennasamtök flokkanna? Ráðakonur flokkanna? Kjörmenn eða kardínálar – og þá hverjir/hverjar?

Vill ekki einhver forystumaður í félaginu – eða flokkunum – skýra þetta betur fyrir okkur sakleysingjunum sem héldum að Kvenréttindafélag Íslands væru frjáls félagasamtök?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.5.2009 - 15:03 - 3 ummæli

Ótti, eymd og hótanir

Sannarlega eftirtektarvert að sveitarstjórar og sveitarstjórnarmenn eru ekki allir undir hælnum á LÍÚ eða útgerðareigendum í byggðarlaginu – þeir Grímur Atlason í Dölum, áður Bolungarvík, og ekki síður Ómar Már Jónsson á Súðavík eru harðorðir í Fréttablaðinu í dag (hér) eftir mikla áróðursherferð LÍÚ, Sjálfstæðisflokksins og ýmissa sveitarstjórna undanfarnar vikur gegn fyrningarleiðinni.

Ómar telur að háttalag sveitarstjórnarmanna kunni að stafa af hótunum frá útgerðarfyrirtækjunum: „Ég undrast viðbrögðin og velti því fyrir mér þegar ég heyri henni andmælt af slíku offorsi að sveitarstjórnarmenn kunni að vera undir pressu frá útgerðarmönnum um að standa vörð um þeirra hag því annars selji þeir aflaheimildirnar í burtu.“

Aðrir velta fyrir sér ályktunum frá sveitarstjórnum sem einmitt hafa þá reynslu að útgerðarfyrirtæki – á staðnum eða fjarri – selja eða flytja aflaheimildirnar í burtu. Þar á meðal er Ísafjarðarkaupstaður með bæjarstjórann og Eyjarpennann Halldór Halldórsson fremstan í flokki, greinilega búinn að steingleyma Guggunni góðu. Ætli Grímur Atlason hafi ekki einmitt haft þvílík dæmi í huga þegar hann segir lítið öryggi „að nær allt atvinnulíf eins sveitarfélags velti á geðþótta eins útgerðarmanns“.

Ótti

Þeir eru núna í fyrsta sinn í tuttugu ár hræddir – við að missa úr höndum sér „eignina“ sem þeir töldu sig hafa tryggt. Eignarhugmyndin er orðin þeim svo inngróin að í Mogganum um helgina líkti einn þeirra fyrningarleiðinni við það að smámsaman væri ráðist inn á heimili fjölskyldu og tekið af henni eitt herbergi í einu þar til ekkert yrði eftir. Hlutdeild í heildarafla – sem veitt er ókeypis en tímabundið samkvæmt lögum sem tiltaka að nytjastofnar séu sameign þjóðarinnar – er í huga sægreifans orðin einsog stofan í einbýlishúsinu.

Eymd

Skuldsetning fyrirtækja í sjávarútvegi er sögð vera þvílík að mörg fyrirtækjanna væru gjaldþrota ef að þeim væri gengið af hörku. Önnur hinsvegar ekki. Um þetta eru því miður ekki heimildir, heldur ekki um ástæður fyrir þessum miklu skuldum. Nema menn vita um þyrlu Magnúsar Vinnslustöðvarkonungs í Eyjum (sjá góða mynd hjá Teiti!), þar sem bæjarstjórinn hrópar auðvitað hvað hæst. Við þurfum að fá betri skýringar á þessari stöðu. Þar á meðal hvað hvert þeirra um sig á af ‚upprunalegum‘ kvóta. Og hverjar tekjur fyrirtækjanna hafa verið af viðskiptum við leiguliða.

Hótanir

Og nú skal verja vígið. Ráðið er að æsa til uppþota á landsbyggðinni, með óbirtum skýrslum, hálfkveðnum vísum og óbeinum hótunum – koma í uppnám taugaslökum sveitarstjórnarmönnum sem þurfa í kosningar að vori, og hræða þingmennina, sérstaklega landsbyggðarfulltrúa stjórnarflokkanna. Þó eru það einmitt landsbyggðarþorpin sem hafa þurft að líða á tímum gjafakvótans og sægreifanna. Þaðan hafa peningarnir einkum verið teknir til að stofna tuskubúðir í kringlum og smárum, breyta útgerðarhlut í hlutabréf í bönkunum, nú eða bara í sumarhús á Spáni.

Þessvegna er gott að sjá í Fréttablaðinu að sumstaðar eru menn úti á landi enn með öllum mjalla.

Og svo óvissan – í 26 ár

Hinsvegar er rétt hjá mönnum einsog Elliða Vignissyni í Eyjum að óvissa um reglur og rekstrargrunn er ekki góð fyrir neina atvinnustarfsemi. Sú óvissa hefur því miður verið fyrir hendi í sjávarútvegi allt frá því kvótakerfið varð til í frumvarpsformi árið 1983 – í rúman aldarfjórðung. Nú er loksins pólitískur möguleiki á breytingum sem lengi hafa notið meirihluta meðal þjóðarinnar. Þessvegna eiga útgerðarmenn, sjómenn, verkafólk og aðrir haghafar í sjávarútvegi – sem er sama og allt Ísland – að taka höndum saman um nýjan grundvöll sem byggist á réttlæti og skynsemi, sem tryggir mannréttindi á borð atvinnufrelsi, og sér til þess að bæði hagnist eigendur sjávarauðlindarinnar og nýtendur hennar, þjóðin og sjósóknararnir. Hinn mikli kostur fyrningarleiðarinnar – til dæmis í útgáfu Jóhanns Ársælssonar (hér) – er einmitt sá að eytt er óvissu um eignarhald kvótans og gjald fyrir hann, einhverja mikilvægustu þætti í rekstrargrundvelli sjávarútvegsfyrirtækis.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.5.2009 - 14:04 - 23 ummæli

ESB og herinn … Munurinn

Ég er sammála forseta Íslands: Við eigum að gera allt sem hægt er til að komast hjá því að kljúfa þjóðina í tvær fylkingar sem standa hvor á móti annarri gráar fyrir járnum í marga áratugi. Ekki endurtaka í deilum um ESB þau átök um hersetuna sem við erum loksins laus við.

Hef reyndar sagt þetta lengi sjálfur – sem „hægfara“ Evrópusinni hér fyrrum – að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið nema góður meirihluti styðji málið og svo sé í pottinn búið að andstæðingar og efasemdarmenn hafi haft öll tækifæri hugsanleg til upplýsingar, umræðu og athugasemda.

Í þessu sambandi er reyndar merkilegt að í bæði hin fyrri skipti þegar deilur urðu um aðild Íslendinga að evrópskum samstarfssamtökum leið ekki á löngu þar til hatrömm andstaða nánast gufaði upp og bæði stjórnmálamenn, forystumenn í atvinnulífi og allur almenningur héldu áfram á þeirri braut sem mörkuð hafði verið. Þetta gerðist bæði eftir Efta-aðildina 1970, og svo eftir gildistöku EES-samninganna 1994. Fyrri átök um Evrópumál skildu því ekki eftir sig nein þau mein í þjóðarsálinni sem herseta og Natóaðild ollu.

Kannski vegna þess að í bæði skiptin var um að ræða einskonar málamiðlun? EFTA varð niðurstaðan í lok sjöunda áratugarins og höfðu þó kviknað hugmyndir nokkrum árum áður (Gylfi Þ.) um að ganga í þáverandi EBE. Og Evrópska efnahagssvæðið virtist á sínum tíma vera svipaður kostur fyrir þá sem vildu njóta góðs af sameiginlegum Evrópumarkaði án þess að gangast undir Rómarsamninginn.

Núna er hinsvegar ekki í boði neinskonar málamiðlun. Næstu missiri, og reyndar frekar mánuði, er það annaðhvort Evrópusambandið með stefnu á evruna sem kontrapunkt í endurreisninni, eða þá ekki Evrópusambandið og einhverjar allt aðrar forsendur að baki nýju Íslandi, forsendur sem enginn efasemdarmanna um ESB hefur viljað gefa út. Annaðhvort af því þeir hafa ekki hugmynd um hverjar þær geti verið – eða vegna þess að þeir vilja ekki segja okkur frá þeim: Margra ára gjaldeyrishöft og afleit lánskjör á fjármálamörkuðum, beinn eða óbeinn ríkisrekstur helstu fyrirtækja, háir skattar, viðvarandi atvinnuleysi.

Það má ekki ýkja samlíkingu milli hermálsins og Evrópusambandsins. En á sínum tíma tókst heldur engin málamiðlun um herinn – þótt andstaða við hersetuna kæmi auðvitað í veg fyrir fleiri herstöðvar, umsvif og áhrif en oft stóð til bæði vestanhafs og hér í stjórnarráðinu. Sum mál eru einfaldlega ekki þannig að um þau náist málamiðlun með því að krafa eins um hundrað og annars um núll endi í 50. Annaðhvort er her eða ekki her. Annaðhvort er fljót virkjað eða ekki virkjað. Annaðhvort ESB eða ekki ESB – ónýt króna eða traust evra.

Hinn hægfara Evrópusinni gat fyrir kreppu leyft sér þá skoðun að ekki skipti öllu máli hvort ESB-aðild yrði samþykkt árinu fyrr eða síðar. Mestu skipti að ferðin yrði örugglega farin og að sem flestir vildu vera með. Núna er hinsvegar ekkert til lengur í Evrópumálum sem heitir hægfara.

Í tilefni af ágætum ábendingum forseta Íslands er þó rétt að benda á mikilvægan mun hermálsins annarsvegar og ESB-aðildar hinsvegar.

Ákvarðanir um hersetuna eftir stríð, 1946, 1948 eða 1951, um Nató-aðild 1949 – og um alla skipan þessara mála alveg fram að tilkynningunni 15. mars 2006  – voru teknar án þess þjóðin væri spurð. Sjálfur herverndarsamningurinn var samþykktur á þingmannafundi þar sem andstæðingarnir voru ekki boðaðir, atkvæði greidd um Nató-aðildina með táragasið í vitum þings og þjóðar.

Um Evrópusambandsaðild á að kjósa. Eftir vel undirbúnar samningaviðræður sem eiga að vera eins gagnsæjar og hægt er tökum við okkur til og ræðum niðurstöðuna góða stund – tvo til þrjá mánuði? – þannig að allar raddir komist að og bæði jámenn og neimenn fái aðstoð af almannafé við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Svo úrskurðar meirihluti kjósenda, og hvor sem niðurstaðan verður er líklegast að hún standi óbreytt heilan eða hálfan mannsaldur.

Þetta er mikill munur. Lýðræðið er nefnilega ekki bara skársta aðferð sem til er við að stjórna löndum. Það er líka eina góða leiðin til að taka erfiðar ákvarðanir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.5.2009 - 09:40 - 8 ummæli

Réttlæti, skynsemi, ESB

Einsog Jóhann Ársælsson fyrrverandi alþingismaður hefur bent á – margoft – er ómögulegt að ganga í Evrópusambandið án þess að hafa leyst deiluna um eignarhald sjávarauðlindarinnar.

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar, stendur í 1. grein laga um stjórn fiskveiða frá 1990, en í nokkrum áföngum – fyrst og fremst framsalinu í sömu lögum 1990 og veðsetningu kvótans 1997 – hefur hinn raunverulegi eignarréttur að verulegu leyti verið afhentur útgerðarmönnum.

Þetta er bæði ranglátt og óskynsamlegt. Ranglætið er augljóst, vitleysan liggur í því að það fyrirkomulag er miklu skilvirkara fyrir atvinnugreinina að þeir sæki sér veiðiheimildir sem vilja veiða, borgi eigandanum, þjóðinni, fyrir þær sanngjarnt gjald og geti aukið eða minnkað við sig eftir hentugleikum – í stað lénsveldis og leiguliðabúskapar, og í stað sífellds fjárstreymis úr greininni þegar útgerðarmenn eða erfingjar þeirra flytja sig í Kringluna eða til Spánar eða í næstu bankastjórn.

Nú eða aldrei

Kerfið hefur verið óþolandi allan tímann frá 1984 en nú verður að hefjast handa við breytingar. Annarsvegar vegna þess að hvorugur kvótaflokkurinn er lengur í ríkisstjórn heldur hafa stjórnarflokkarnir fengið þingmeirihluta með nokkurnveginn samhljóða sjávarútvegsstefnu. Hinsvegar vegna þess að við getum illa gengið í Evrópusambandið án þess að tryggja áður raunverulega þjóðareign sjávarauðlindarinnar.

Þegar Íslendingar gengu í EES náðist sú undantekning í samninginn að erlendir menn mættu ekki festa fé sitt í útgerð og fiskvinnslu. Fyrir þessari undantekningu var barist eingöngu út af kvótakerfinu, enda heimskulegt fyrir greinarnar að geta ekki leitað fjár utan landamæra nema lánsfjár með vöxtum. Að vísu búum við ekki við eins hreinar línur nú og ætla mætti – menn þekkja bæði óbeina erlenda hlutafjáreign í kvótafyrirtækjum, meðal annars í gegnum olíufélög, og svo það að fyrirtæki hafi fengið erlend bankalán með veði í eignum sínum, þar á meðal kvótanum. En undantekningarákvæðið stendur samt í EES-samningunum og veitir þar ákveðna vörn.

Það er augljóst að svona bann yrði ekki samþykkt í aðildarviðræðum við ESB, nema þá í mesta lagi sem aðlögunarákvæði nokkur ár. Ef við göngum ekki frá þessum málum áður blasir þessvegna við að eftir ESB-aðild leiti útgerðarfyrirtæki sér erlendra hluthafa sem þannig „eignast“ hlut í kvóta fyrirtækisins. Það gerist þá sem enginn vildi – eða hvað? – að fiskimiðin fara bakdyramegin úr íslenskum höndum – og til hvers voru þá unnin þau stríð sem miðaður er við íslenskur hetjuskapur á síðustu öld?

Bara ef lúsin íslensk er …

Nú má segja sem svo að það skipti litlu hvort sægreifarnir eru inn- eða útlendir ef þjóðin glutrar nytjastofnum sjávar úr eigu sinni. Rétt hjá Hannesi Hafstein, það er ekki þannig að „bara ef lúsin íslensk er / er þér bitið sómi“ – einsog þeim finnst stundum í VG. Á hinn bóginn kemur svo það að eins djöfullegt og það hefur verið að eiga við íslenska sægreifa í þessu máli, þá flækist það um allan helming þegar sægreifaveldið verður orðið samevrópskt.

Það er þessvegna rétt hjá Jóhanni Ársælssyni: Við sem viljum aðild að ESB verðum að leggja áherslu á að leysa þetta mál strax. Til þess er ágæt aðferð, fyrningarleiðin, og sem málamiðlun við blessaða útgerðina – sem nú reynir í örvæntingu að efna til uppþota á landsbyggðinni – er í góðu lagi að fresta greiðslu veiðigjalds þangað til fer að rofa til í efnahagsmálum. Eru fyrirtækin ekki hvort eð er í gjörgæslu hjá ríkisbönkunum?

Réttlæti, skynsemi og ESB – það eru ástæðurnar þrjár fyrir veiðigjaldi og fyrningarleið við fiskveiðistjórnun.

Og raunar bendir margt til þess að þetta hafi LÍÚ fundið út fyrir löngu. Að þrálát andstaða sambandsins við Evrópusambandsaðild stafi einmitt af því að þeir sjá að kvótamálið yrði að leysa fyrir inngöngu. Draumurinn um einkaeign kvótans sé hin raunverulega fyrirstaða, ekki margfræg fiskveiðistefna ESB eða bírókrasían hræðilega í Brussel.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.5.2009 - 21:05 - Rita ummæli

Góður dagur

Þeir voru arfaslappir í fyrri hálfleik, sérstaklega eftir Fjölnismark uppúr þurru – þá klikkuðu allar sendingar og vörnin úti að aka og við máttum þakka fyrir að vera bara einu marki undir í hálfleik. En einsog Kiddi Jóns sagði spekingslegur eftir hlé þá er allt í lagi að vera lélegur í fyrri hálfleik ef menn skora í seinni hálfleik, og það var gert með glans, fyrst Björgólfur og svo Jónas fyrirliði, bæði mörkin eftir fallegt samspil. Prinsinn mættur – tveir svartir í liðinu! – og Gummi Ben kominn aftur hress og kátur. Góður dagur á Meistaravöllum.

Og veðrið

Og ekki síðri á Hótel Sögu fyrir leik. Nú er að standa sig, en það má líka leyfa sér að vera bara glaður svolitla stund: 

Starri í Garði var góður trúmaður á vinstristjórnir, þótt þær væru nokkuð mistækar á hans tímum (þá þurfti alltaf að hafa Framsókn alltaf með!) og ennþá hefur ekki verið kveðið fegur um ríkisstjórnir en Starri orti eitt vonglatt vor:

Sól um daga, dögg um nætur,
dýrin fyllast.
Vinstristjórnin varla lætur
veður spillast.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.5.2009 - 07:52 - 21 ummæli

Ó, ó

Ó, ó! Er maðurinn ekki örugglega með íbúðarlán líka? Er ekki  rétt að færa það niður um 20%? Eða  láta erlendan kröfuhafa borga það einhvern veginn? Getur ekki  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson — eða þá Guðmundur Steingrímsson — hjálpað þessu aumingjans fórnarlambi?

http://www.visir.is/article/20090502/FRETTIR01/163733883

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.5.2009 - 08:43 - 61 ummæli

Játningar hins útstrikaða, og fleira

Magnús Siguroddsson var um daginn óhress með blogg hér á síðunni um ákveðinn pólitíkus og taldi að ég ætti að líta mér nær: „Þú bloggar ekkert um 656 útstrikanir sem þú fékkst í síðustu alþingiskosningum.“ En nú er einmitt komið að því, svona meðan við bíðum eftir nýrri ríkisstjórn.

Menn sem taka þátt í stjórnmálum eiga að íhuga útstrikanir þegar þær eru svona margar, taka mark á þeim og reyna að finna út hvaða skilaboð felast í þeim. Og ég fékk margar útstrikanir, frá um 5% af kjósendum, og þeim fækkar ekkert þótt viðkomandi hafi ekki náð kjöri, þótt útstrikanir hafi aldrei verið fleiri, þótt tveir aðrir frambjóðendur á mínum lista í Reykjavík norður hafi verið strikaðir oftar út.

Ég finn fernskonar skýringar á þessum 656 útstrikunum.

Í fyrsta lagi umhverfispólitík. Ég greiddi einn Samfylkingarmanna atkvæði gegn Helguvíkursamningnum á þinginu í vor (Þórunn sat hjá) þegar ég var þar sem varamaður, og sat auðvitað undir ásökunum um að vilja ekki að fólk hefði vinnu og svo framvegis. Ég lét þar líka í ljós miklar efasemdir um hvalveiðiákvörðun Einars K. Guðfinnssonar og hvalveiðiviðbrögð Steingríms J. Sigfússonar þegar hann varð ráðherra – þótt ég vissi vel að slíkar efasemdir væru ekki fallnar til skyndivinsælda. Umhverfismenn hafa átt nokkuð á brattan að sækja í kreppunni, þá skapast eftirspurn eftir töframönnum sem draga uppúr hattinum framkvæmdir og atvinnu og erlendar fjárfestingar, en þolinmæði minnkar gagnvart framtíðarlausnum og hægari en öruggari skrefum í atvinnumálum.

Í öðru lagi vinstrisvipur: Fræðimenn og álitsgjafar eru sammála um að margir þeirra sem áður kusu Samfylkinguna hafi nú farið yfir á VG, en Samfylkingin fengið í staðinn Evrópusinnuð atkvæði frá Sjálfstæðisflokknum – einsog „að láni“. Slíkir kjósendur vilja ýmsir gefa til kynna þeir séu ekki „venjuleg“  S-atkvæði, og nota til þess útstrikunina. Með réttu eða röngu er yðar einlægur oft talinn til vinstri í Samfylkingunni, og það álit styðst vissulega við pólitíska ferilsskrá þar sem ekki fer mikið fyrir dáleikum hans og Sjálfstæðisflokksins.

Í þriðja lagi er svo einfaldlega það að mörgum líkar misjafnlega við persónuna Mörð Árnason einsog hún birtist á vettvangi stjórnmála og fjölmiðla. Og til þess hafa menn fullan rétt. Það stafar meðfram af göllum þess sem um er rætt, sem oft fer ekki varlega, er málglaður og stundum stóryrtur úr hófi fram, getur virst – eða verið – hrokafullur í fullvissu sinni um ágæti málstaðarins, og ætti sannarlega að kunna sér það hóf í ræðu og riti að meiða ekki persónur þótt hitni í málefnakolunum. Í fyrri kosningum hefur yðar einlægur líka fengið talsvert af slíkum útstrikunum, og veit upp á sig skömmina.

Í fjórða lagi kunna svo að koma sérkennilegar innanflokksástæður sem ég átta mig ekki á til fulls. Ég stóð mig ekki vel sjálfur í prófkjörinu en varð þá líka var við ákveðinn andróður án þess að geta fest á honum hendur. Þegar uppstillingarnefnd tók svo til starfa skapaðist þar skrýtinn samblástur sem að lokum beindist gegn mér í þessu blessaða varamannssæti, og ég þurfti í restina að taka verulega á með góðri hjálp margra félaga minna til að verja við frágang listans þann árangur sem þó hafði náðst í prófkjörinu. Vel má vera að í kosningunum sjálfum hafi þetta skuggabox haldið áfram, eins ófagurt og það nú var — og er?

Enn ein skýring sást í bloggi rétt eftir kosningarnar, sú að útstrikanir á mig hafi verið varnarviðbragð stuðningsmanna Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur þegar ljóst varð síðustu daga fyrir kosningar að hún mundi verða mjög útstrikuð. Að það væri sniðugt að jafna út áhrif af straumnum gegn Steinunni með því að strika út manninn fyrir neðan. Þetta er auðvitað rugl, orðið til útaf fréttum um íhaldið í Suðurkjördæmi þarsem stuðningsmenn Árna Johnsens eiga að hafa beitt ámóta brögðum. Auðvitað kunna einhverjir vinir Steinunnar að hafa hugsað þessu líkt og einstaka maður látið það eftir sér í kjörklefanum, en að fólk hafi skipulagt svona held ég enganveginn, og veit að minnsta kosti að sjálf kom Steinunn Valdís hvergi nærri.

Voilà! Ef þessi greining er í námunda við raunveruleikann – þá ætti ég bara að vera stoltur af umhverfispartinum. Skilja kjósendurna sem komu inn úr hægrikuldanum, og fyrirgefa þeim. Vera hugsi yfir innansveitarkrónikum og skyggnast um gáttir allar áður gangi fram. Og horfa auðmjúkur í spegil vegna útstrikana sem teljast dómur um persónu, fas eða framgöngu.

Og verð ég þó í miðri þeirri auðmýkt að minna á að ómuletturnar hefjast með því að brotin eru egg. Og sá sem hræðist fjallið og einlægt aftur snýr … og svo framvegis. En maður á svo sannarlega að vanda sig. Hvernig sem þetta nú allt saman veltist.

Meiri játningar

Að þessum játningum loknum er rétt að taka fram að ein ástæða er allavega ekki fyrir þessum 656 útstrikunum – að ég hafi fengið prófkjörsstyrki frá FL og Baugi. Svoleiðis styrkir eru reyndar teljandi á fingrum annarrar handar í mínu tilviki, af því ég hef forðast eftir megni að fá fé til þessa annarstaðar en úr eigin vasa. Í prófkjöri 2003 fékk ég samt 200 þúsund krónur, um fimmtung af þáverandi útgjöldum frambjóðandans, að gjöf frá góðum félaga úr KR. Og þegar prófkjörið 2007 var búið kom til mín guðfaðir minn, þekktur eðalleikari hér í bæ, viðurkenndi að hin kristilega leiðsögn hefði verið nokkru minni en lofað var forðum, og taldi svo upp úr veskinu sínu tuttugu fimmþúsundkalla. Ég bara horfði á hann og hélt í mér vatninu. Svo hefur pabbi stundum rétt mér pening einsog í gamla daga, og auðvitað hefur ýmis önnur hjálp verið framreidd af hlýhug og elskusemi þótt ekki sé í beinhörðum peningum.

Styrkirnir – og borgarstjórnin

Viðurkenni að ég var hissa vikuna fyrir kosningar á milljónastyrkjunum sem fólk hafi fengið, þar á meðal flokksfélagar mínir og keppinautar í prófkjörum Samfylkingarinnar, og finnst þeir eiginlega ekki siðlegir. Þetta er auðvitað búið núna og verður vonandi aldrei meir, en þessi skuggi eltir fólkið áfram í pólitíkinni, og líka flokkinn þess og aðra frambjóðendur, einsog sást hjá okkur núna.

Rétt hjá Helgu Völu: Við í Samfylkingunni þurfum að hreinsa þessi styrkjamál alveg út fyrir næstu kosningar.

Ekki síst vegna þess að næstu kosningar eru sveitarstjórnarkosningar, og það hlýtur að vekja athygli okkar í Reykjavík hvað margir af þeim sem voru í fréttum vegna styrkja koma einmitt úr borgarstjórn Reykjavíkur: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Björn Ingi Hrafnsson, Helgi Hjörvar. Er þetta tilviljun? Eða er samgangur stjórnmálamanna og peningavalds kannski nánari í sveitarstjórnum en á þinginu? Án þess að saka neinn um neitt eru sveitarstjórnirnar öðruvísi en þingið að því leyti að þar fer sama fólkið með löggjafarvald og framkvæmdarvald, og margar ákvarðanir í sveitarstjórnum snerta hagsmuni verktaka og viðskiptamanna ýmiskonar miklu beinna en atkvæðagreiðslur á alþingi. Er það tilviljun að hinir ofantöldu hafa allir komið við sögu hjá stórfyrirtækjum borgarinnar, veitum og höfn?

Þið íhugið þetta – og ég held svo áfram með mína sex hundruð fimmtíu og sex … 😉

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur