Laugardagur 29.9.2012 - 17:14 - FB ummæli ()

Ilmur frá Norður-Afríku

Það er mikið ævintýri að koma til framandi lands og leggja nýja jörð undir fætur sér. Sérstaklega þegar menningin er mjög ólík því sem við eigum að venjast, gróður, dýralíf og veðurfar sömuleiðis. Þar sem þarfasti þjóninn er múlasninn sem skiptir sköpum í fjöllunum. Kaktusar og ilmandi ávaxtatré og kryddjurtir.

Við hjónin heimsóttum Atlasfjölin í Marokkó nú um daginn og gengum þar um dali og fjallgarðana umhverfis Toubkal og reyndum síðan við hæsta tindinn í Norður-Afríku sem er í 4267 metra hæð. Reynsla sem verður uppspretta ýmissa frásagna á næstunni. Þar sem viðhorfin til náttúrunnar og lífsins hafa enn einu sinni breyst í mínum huga og áleitnar spurningar vaknað  um ágæti okkar eigins menningarheims. Eins hvernig umhverfið mótar okkur stöðugt sem manneskjur og menningin fylgir síðan á eftir, oft á tvíræðan hátt.

Stundum er líka gott að geta snúið við blaðinu í einum vettvangi og kíkt inn í aðra sögu en okkar eigin og sem kemur okkur alltaf við, fyrr eða síðar. Ekki síst þegar við viljum meta okkar eigin vegferð í lífinu í samanburði við aðra. Á ferðalaginu um framandi heima.

Heimurinn logar hins vegar í allskonar erjum og stríðsátökum sem við eigum oft erfitt  með að skilja. Allir samt aðeins tilbúnir að fórna litlu til að verja sína hagsmuni. Hagsmuni sem síðan skipta aðra miklu meira máli á hinum manneskjulega mælikvarða. Í afkomu, menntun og lífsbjörginni og gríðegur mismunur ríkir. Ekki síst þegar horft er til Afríku og þar sem alltof margir eiga um sárt að binda.Marokkó er sennilega evrópskari en flest ríki Afríku og fátæktin þar í engum samanburði við fátækustu þjóðirnar. Þar sem arabíska vorið kom aldrei og hjá þjóð sem vill vera vinveitt vesturlandsbúum. Mín stuttu  kynni af þessari Afríkuþjóð sem býr við múhameðstrú, er auðvitað heldur ekki tilefni til að gefa neina endalega mynd af samanburðinum við vesturlönd, heldur er aðeins tilraun til að lýsa upplifun minni af þjóð, sem mér þykir nú mjög vænt um. Þjóð sem býr á margan hátt í miklu harðbýlara landi til sjávar og sveita en við eigum að venjast í dag, en við könnumst vel við á annan hátt fyrir ekki svo löngu síðan. Ekki síst í Atlasfjöllunum þar sem ég dvaldist með íslenskum ferðafélögum mínum, Berbum og múlösnunum. Þar sem tengingin er einfaldlega venjulegur Íslendingur sem gerir fátt skemmtilegra en að ganga á fjöll og skynja eittvað annað en það hverdagslega. Úr hverju við erum og hvert við stefnum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Föstudagur 7.9.2012 - 22:59 - FB ummæli ()

Safran og vanilla

Hvað slær þennan titil út? Reyndar var frábær þáttur í ríkissjónvarpinu nýlega sem á í raun þennan titil og þar sem rætt var um þessar tvær kryddtegundir í sögulegu samhengi. En ég fæ hann lánaðan nú til að ræða um krydd sem vekur hjá manni sérstaka skynjun og tilfinningar og sem ef til vill má heimfæra á vissan hátt hvar bestu lífsgæðin er að finna.

Veraldleg gæði eru margskonar en leika misvel við skynfærin okkar og drauma. Gull og gersemar eru ef til vill það sem flestir ágirnast hvað mest í hversdagslegum heimi. Dauðir glansandi hlutir sem svo sannarlega geta glatt augað, en þó ekki síður hvað þessir hlutir standa fyrir í fjárhag talið og flestir miða flest sitt við. Gott krydd kryddar hins vegar lífið og tilveruna á allt annan hátt. Innri skilningarvit með hjálp bragðlaukanna og lyktarskynsfruma. Mörg hver eru auk þess afar holl, m.a. vegna sinna afoxandi eiginleika. Verja okkur jafnvel fyrir ótímabærri öldrun litninganna og gegn krabbameinum. Auk þess gleðja þau okkur í hversdagsleikanum og kalla jafnvel fram ljúfar endurminningar.

Reyndar er hreint safran talið jafngilda verðmætum gulls í þyngd sinni talið. Notað jafnvel sem skiptimynnt á öldum áður, ekki ósvipað og svarta gullinu, piparnum, bara miklu verðmætara. Vanillan hins vegar, var lengi vel óþekkt nema meðal ákveðinna frumbyggja í Mexikó og þeirra fjársjóður. Sem var nátengt trúarbragðasögunni og hjátrú. Talin m.a. tákngerfingur og uppspretta ástarinnar, en sem stundum er forboðin.

Ilmur og bragð hafa þannig alltaf staðið okkur nærri. Sem ásamt sjón og heyrn auðvelda okkur líka öll tjáskipti. Tengt lífsbaráttunni, ástinni og til að geta notið flesta daga. Allskonar skynjun sem er nátengd hverri annarri og magna oft hvora aðra upp. Lyktarlaus maður er þannig hálf bragðlaus maður. Nokkuð og sem getur gerst í einni svipan, í slysi með höfuðhöggi. Jafnvel öðruvísi neikvæðum tjáskiptum sem gerast stundum okkar á milli.

Safran minnir mig persónulega mest á ilmandi páskabollur sem þetta séstaka krydd á svo sterkan þátt í að skapa. Sem síðan smjörið okkar eitt getur fullkomnað. Gular eins vorsólin og sóleyjarnar. Hátíðleikinn fullkomnaður í heimilisbakstri með börnunum með hjálp krydds sem lifir með manni alla ævi. Vanillan hins vegar fyrir tilbrigði hversdagsleikans og maður vill gera dagamun. Baka vöflur með vanillusykri eða bjóða upp á vanillurjómaís með krækiberjasósu. Eða skreppa í kvöldökutúr í ísbúðina, til að breyta góðri kvöldstund í ennþá betri stund. Oft gleymum við þannig í umræðunni um erfiðleika lífsins, hvað einfaldir en ekki endilega sjálfsagðir hlutir skipta okkur miklu máli. Hlutir sem áður þóttu jafnvel luxsus en sem hurfu síðan með tímanum í hversdagsleikann. Hlutir sem engu að síður geta verið þeir unaðslegustu í lok lífsins. Jafnvel síðasta óskin.

Í lita hverfinu í Stokkhólmi þar sem dóttir mín býr ásamt eiginmanni og barnabörnum eru götur nefndar sem höfða til skynjunar okkar og viðhorfa til náttúrunnar, eins og Sólfagragatan sem fær mig alltaf til að brosa þegar ég líta á götuskiltið. Eins í höfuð ávaxtanna sem hljóta alltaf að vekja upp jákvæð viðhorf til heilsunnar, svo sem Eplagatan og Peruvegur. Í Kaupmannahöfn þar sem sonur minn býr ásamt sinni fjölskyldu er hinsvegar sjálfu kryddinu gefið hærra undir höfuð í götuheitum og sem iljar mann á annan hátt, en sem þættu sennilega hallærisleg götuheiti á sögueyjunni Íslandi. Pipargarður og þar skammt frá Sinnepsvegur. Heima hefur samt yngri dóttir mín Mýrarnar og Túnin.

En kryddið er margskonar, og menn hafa mismunandi smekk fyrir því. Sumir vilja líka matinn meira kryddaðann en aðrir. Stundum er krydd lífsins líka annað en hið viðurkennda krydd sem kitlar bragðlaukanna og nefið. Ekki síst allar góðu endurminningarnar um ævina. Ástarinnar sönnu, þegar við njótum stundarinnar hvað best, en gleymum tímanum. Allra stundanna meðal okkar nánustu og börnunum sem eru okkur alltaf kærust. Safran og vanilla í hinni raunverulegu mynd.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Þriðjudagur 4.9.2012 - 13:33 - FB ummæli ()

Kreppan í kroppnum

Hvað gerist þegar sálin er brotin og langþreyttur líkaminn er búinn að fá meira en nóg? Þegar einskonar hrun verður innra með okkur og við fáum ekki alltaf skilið, en skiljum þó. Hver ertu duldi djöfull?, spyrjum við þá gjarnan okkur sjálf.

Vefjagigt (fibromyalgia) er sállíkamlegur sjúkdómur í vöðvum, stoðkerfinu almennt og taugakerfinu, án vefrænnar eða sýnilegrar bólgu. Vefjagigt er talin hrjá 3-6% jarðabúa, oftast ungar konur. Þar sem sársaukaskynið er brenglað vegna truflana í taugaboðunum. Verstu verkjapunktarnir eru oft á dæmigerðum stöðum og samhverfir í hliðum líkamans, í herðum, hnakka, öxlum, olnbogum, utanverðum mjöðmum og innan á hnjám. Oft fylgir síþreyta og svefntruflanir. Sumir vilja jafnvel meina að sjúkdómurinn einkennist fyrst og fremst af trufluðum svefni og þegar líkaminn vaknar óhvíldur alla morgna. Heilkenni sem vara mánuðum og jafnvel árum saman, nema reynt sé að vinna gegn orsökunum í tíma. Mikið álag, ekki síst á nútímakonuna er talin ein helsta skýringin á hvað vefjagigtin er algeng nú á dögum. Álagsgigt, þrálátar vöðvabólgur og verkir sem herja á konur í blóma lífsins og þær eiga að vera upp á sitt besta.

Vöðvahnútarnir er stífir og aumir en án vefrænna bólgubreytinga. Einbeitingaskortur, ristilkrampar og höfuðverkir eru algengar kvartanir með vöðvaverkjunum. Geðræn einkenni, depurð og kvíði blandast síðan oft inn í sjúkdómsmyndina. Reyndar er oft erfitt að átta sig á hvort kemur á undan, eins og með hænuna og eggið. Passleg hreyfing, góð næring og a.ö.l. heilbrigður lífsstíl eru allir sammála að sé nauðsynlegustu þættirnir í forvörnum og bata. Sumir þurfa að leita sér sálfræðiaðstoðar vegna fyrri áfalla, jafnvel frá því í æsku sem aldrei var unnið úr á sínum tíma. Angist sem liggur djúpt í iðrum sálar og beina. Jafnvel geðlæknishjálpar og lyfjameðferðar við hæfi. Bólgueyðandi lyf duga hins vegar skammt, og því verkjalyf gjarnan of mikið notuð. Sjúkdómurinn vefjagigt með öllum fylgikvillunum er þannig ein algengasta ástæða örorku kvenna í dag. Sem endurspeglar miklu alvarlegri þjóðfélagsböl undir niðri og sem því miður virðast allt of algeng í okkar samfélagi í dag.

Annarskonar vefjagigt, fjölvöðvagigt (polymyalgia eða polymyalgia rheumatica, polymyositis) á ekkert skylt við þá fyrri (vefjagigtina) en sem rétt er að minnast á í þessu samhengi vegna algengs hugtakaruglings og þar sem greining og meðferð er mjög ólík. Fjölvöðvagigtin er algengust hjá eldri konum (yfirleitt eftir 50 ára aldur, meðalaldurinn um 70 ára). Eins og í vefjagigtinni eru vöðvaverkir og þreyta fyrstu einkennin. Fjölvöðvagigtin hellist hins vegar yfir hratt á aðeins nokkrum vikum með oft alvarlegri fylgikvillum og jafnvel vefjabreytingum í mörgum líffærum.

Fjölvöðvagigtin er þannig sjálfsofnæmissjúkdómur þar sem ónæmiskerfið ræðst gegn eigin bandvef. Orsök sem tengist sjúklegum viðbrögðum í ónæmiskerfinu, eins og þegar um er að ræða marga aðra alvarlega gigtarsjúkdóma. Aðal einkennin auk vöðvaverkja sem eru mest í herðum, öxlum og mjöðmum er mikill styrðleiki á morgnana. Sumir fá jafnvel flensulík einkenni og hitavellu og margir missa hratt þyngd. Einkennandi er mikið máttleysi í stærstu vöðvum útlimanna, í lærum og herðum þannig að að standa upp úr stól getur reynst þrautinni þyngri. Um 15% sjúklinganna fá risafrumuslagæðabólgu (giant cell arteritis) sem er náskild en svæsnari bandvefsgigt. Hættulegt ástandð sem getur truflað blóðflæðið í höfðinu. Sjónin getur verið í hættu. Risafrumuslagæðabólgan greinist síðan best með vefjasýni úr utanáliggjandi æð yfir gagnaugum sem oft er þykknuð og aum. Því miður eru ekki til neinar sértækar gigtarprufur í blóði til að greina fjölvöðvagigt og risafrumuslagæðabólgu, en sökkið er hátt, yfirleitt yfir 60 mm/klst. og sem gefur þannig sterkar grunsemdir (oft hærra en 80 ef um risafrumslagæðabólgu er að ræða). Fjölvöðvagigtin svar vel lágskammta sykursterum, (Prednisólón) og brennur oftast upp á einu til tveimur árum, en hærri skammta þarf við risafrumuslagæðabólgu sem er þrálátari.

Um daginn setti ég eldri konu á sterakúr vegna grunns um fjölvöðvagigt. Að hún myndi svara meðferðinni vel næstu 2-3 daganna var í raun besta tryggingin að sjúkdómsgreining mín væri rétt. Lækning sem að sumu leiti líkist kraftaverkalækningu, þar sem viðkomandi fær aftur stigið á fætur og fær horfinn þrótt og liðleika. Þar sem eftirleikurinn er síðan nokkuð auðveldur. En því miður er slíkri lækningu ekki fyrir að fara hvað vefjagigtina áhrærir, með allar sínar óljósu sállíkamlegu skýringar og jafnvel sterar virka ekki frekar en vatn. Og á kraftaverk trúi ég ekki. Sjúkdómur sem engin ein lækning er til við, enda er sálin alltaf miklu erfiðari viðureignar en holdið. Sjúklingahópur sem tekur ómældan tíma að sinna í heilsugæslunni. Leita þarf til fjölþættrar meðferðar, sjúkraþjálfunar, lífstílsbreytinga með stuðningi, starfsþjálfunar og endurhæfingar. Margir sem búnir eru eða við það að missa vinnuna. Stór hópur í okkar þjóðfélagi í dag sem sýndur er lítill skilningur og er jafnvel atvinnutengdur. Fólk á besta aldri sem ætti að geta þjónað atvinnulífinu og þjóðarbúinu miklu lengur og betur, ef rétt er að málum staðið.

En það er sama hvað gigtin heitir, góð næring, hvíld, hreyfing og félagslegt öryggi eru allt lykilatriði í meðferð og bata, bæði fyrir sál og líkama. D-vítamínið og kalkið fyrir vöðvana og beinin má heldur ekki vanta og svo auðvitað lýsið okkar og omega fitusýrurnar. Sem eins og flest annað gott á rætur að rekja til sólarinnar og hafsins þaðan sem við erum upprunnin.

Félagslegar aðstæður, sállíkamleg einkenni og bætur.

Ábyrgð heilsugæslunnar í starfsendurhæfingu.

Þraut ehf. „Hágæðaþjónusta fyrir fólk með vefjagigt og tengda sjúkdóma í þeim tilgangi að auka lífsgæði þeirra og færni til daglegra athafna, auka skilvirkni innan heilbrigðiskerfisins í mati og meðferð sjúklinga og draga úr beinum og óbeinum heilbrigðiskostnaði vegna þessara sjúkdóma.“

VIRK, starfsendurhæfingasjóður samtaka atvinnulífs og stéttarfélaga.  „Meginmarkmið að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum.“

Annað tengt efni: Fibromyalgia pain takes toll on everyday life.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 30.8.2012 - 21:18 - FB ummæli ()

„Verðbólgan“ í apótekinu

Nýlega var mér bent á mikinn verðmun á lausasölulyfinu Voltaren geli og sem er ætlað til útvortis notkunar á undirliggjandi bólgur, hér á landi og í Danmörku. Túba (50 grömm) sem keypt var fyrir nokkrum dögum í Danmörku (m.a. með íslenskum leiðbeiningum) kostaði 758 ísl. kr (37 kr danskar), en sama túba hér á landi kostar 2.079 kr. Etthundraðgramma túba kostar hér 3.815 kr., en 1.598 (78 krónur danskar) í Danmörku. Munurinn er vel yfir 100%.

Það er umhugsunarvert hvað álagningin er oft há hér á landi á lausasölulyfjum sem fólk reynir að bjarga sér með án þátttöku hins opinbera. Þegar fólk leitar sér beint hjálpar í apótekið. Á sama tíma og hvatt er til minni lyfjanotkunar á gigtartöflum til inntöku og sem sýnir sig geta verið varsöm meðferð til lengdar og mikið var fjallað um í sumar. Gigtarlyf sem við samfellda notkun getur átt þátt í þróun hjarta- og æðasjúkdóma. Þess vegna og minni aukaverkana er gelið umtalaða mikið vinsælla nú en áður, enda virkar það ágætlega ef grunnt er á bólguna. Ekki hins vegar þegar bólgan liggur djúpt, ekkert frekar en á sjálfa verðbólguna sem er jú þjóðarmein númer eitt og öllu er kennt um og engin lyf eru til gegn.

Flestir þurfa hins vegar stundum að gripa til lausasölulyfja eins og t.d. veikra verkja- og bólgulyfja. Ekki síst þegar sú meðferð getur komið í veg fyrir ótímabærar læknisheimsóknar og sparað ríkinu ávísanir á dýrari lyf. Þegar ríkið borgar oft meiripartinn í kostnaðinum að lokum. Óeðlilega há verðlagning á lausasölulyfjum í apótekunum er ósanngjörn, sem kemur ekki síst niður á barnafjölskyldum og gömlu fólki. Reyndar á öllum heimilum í landinu. Eitt augnablik datt mér í hug umræðan nú um okurvexti smálána í þessu sambandi. Þar sem vextirnir einir geta reyndar farið upp í 150%, en sumir hafa samt orðið að treysta á, í neyð sinni á Íslandi í dag.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.8.2012 - 13:15 - FB ummæli ()

Hvíta efnið sem drepur

Mikið er rætt um offitu þessa daganna. Ofþyngd og offita í vestrænum ríkjum er mest vegna ofneyslu á sykri. Þar sem umframinntaka á brennsluefni leiðir til fitusöfnunar að lokum og til sykursýki. Sennilega er samt ekkert efni jafn algengt að valda ótímabærum dauða að lokum og sykurinn gerir í dag. Sé hans neytt í of miklu magni, í of langan tíma eins og oft vill verða. Helsta orsök heilbrigðisgrýlu 21 aldar.

Mikil neysla sykurs veldur oft líka ákveðinni fíkn, í stöðugt meiri sykur og meira en líkaminn ræður við með góðu móti, ekkert ósvipað og önnur fíkniefni gera og þegar um ásókn í vímu er um að ræða. Að lokum gefur brisið sig, vöntun verður á insúlíni sem stjórna á magni sykurs í blóðinu og líkaminn verður auk þess ónæmari gegn áhrifum þess. En samt sjáum við aðeins toppinn á ísjakanum í dag, enda eru tífalt fleiri taldir vera með byrjunarstig sykursýki en sem vitað er um í dag.

Mestar áhyggjur ber auðvitað af hafa af hratt vaxandi ofþyngd barna og unglinga, sem að mestu leiti tengist aukinni neyslu sykraðra drykkja í dag, auk þess sem drykkjan leiðir einnig til meiri neyslu sælgætis og aukabita með, yfir daginn og langt fram á kvöld. Alls drekka Íslendingar um 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári hverju og innbyrða að meðaltali sem samsvar allt að 1 kíló af hreinum sykri á viku, töluvert meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Sumir einstaklingar neyta auðvitað minna sykurs, en aðrir miklu meira.

Í hverjum 500 ml. Coca Cola gosdrykk er sykurmagn sem samsvarar 27 sykurmolum eða  54 grömmum af hreinum sykri. Ekki er óalgengt að sumir unglingar drekki allt að 2 lítra á dag, sem samsvarar neyslu á 216 grömmum af hreinum sykri. Burt séð frá öðrum óhollum og örvandi efnum eins og coffein, sem gos- og orkudrykkir kunna að innihalda og mikið hefur verið til umræðu að undanföru. Sem er mikið meira magn en ráðlagt er að hámarki, dreift yfir heilan sólarhring (36 grömm fyrir karla, 20 gr. fyrir konur og 12 gr. fyrir börn) samkvæmt ráðleggingum manneldisráða.

Í Bandaríkjunum stefnir helmingur þjóðarinnar í að verða of þungur og fjórðungur allt of  feitur (Þyngdarstuðull > 30) á næstu árum. Tuttugu og fimm prósent 65 ára og eldri eru þegar komnir með annars konar sykursýki, sem er hár blóðsykur (diabetes mellitus) og líkaminn er hættur að ráða við þann sykur sem neytt er. Sjúkdómur sem síðan veldur öðrum orsökum frekar, alvarlegustu sjúkdómum samtímans. Má þar nefna hjarta- og æðasjúkdóma, nýrnabilun, heilablóðföll, blindu og lífshættulegar sýkingar. Við Íslendingar virðumst næst í röðinni, en samkvæmt nýjustu upplýsingum eru um 60% fullorðinna þegar of þungir og um þriðjungur barna.

Einn sykraður gosdrykkur á dag eykur hættu á að fá hjartaáfall um 20% samkvæmt nýlegri rannsókn sem birtist Circulation, tímariti bandarísku hjartasamtakanna, AHA og nær til yfir 40.000 karla sem fylgt var eftir í yfir 20 ár. Áhættan mælist þegar tekið hefur verið tillit til annarra þekktra áættuþátta svo sem þyngdar, kólesteróls, reykinga og sykursýki. Ein lítil dós af sykruðum gosdrykk (36 gr.) er þannig talin getað hækkað blóðsykur það snögglega að það hafi áhrif á meingerð kransæðasjúkdómsins sérstaklega og sem annars myndi þróast hægar. Algengustu hjartaáföllin er bráð kransæðastífla, hjartadrep og hjartabilun sem leitt getur til dauða.

Mestar áhyggjurnar ber auðvitað að hafa af yngsta fólkinu og sem erfa á landið, sérstaklega ef við lítum á hraða þróun þyngdaraukningar í þeim aldurshópi og sem er í takt við mikið aukna sykurneyslu hér á landi. „Næringarefni“ sem var sjaldséð hér áður fyrr og gegnir engu mikilvægu hlutverki í fæðu mannsins og sem fer beint út í blóðið. Ólíkt því sem annars góður kolvetnisríkur matur gerir og sem er mikilvægur í fæðusamsetningunni. Það hlýtur að vera á ábyrgð foreldra og forráðamanna að takmarka neyslu sykurs meðal barna, og sem getur leitt til sykurs- og matarfíknar síðar auk ýmissa alvarlegra sjúkdóma. Þegar ungt fólk fær sjúkdóma gamla fólksins. Mestu munar um óhóflega neyslu sykraðra gosdrykkja í dag.

Ungur nemur, gamall temur og það gera börnin sem fyrir þeim er haft, segir í gömlum málsháttum. Og jafnvel þótt börn séu ekki of þung í dag, að þá kann mikil sykurneysla að leiða til óhóflegrar þyngdaraukningar síðar. Sykurneysla dregur auk þess úr löngun í holla fæðu. Eins er það staðreynd, og mikið hefur verið til umræðu, að sýrustig flestra gosdrykkja er fyrir neðan allt, allt nema helst blásýrunnar og étur glerung tanna auðveldlega. Sykurinn fóðrar síðan tannsýklana ágætlega.

Risastórar neytendapakkningar, 2 lítra gosflöskur, jafnvel í kippum, leiða auðvitað til meiri neyslu. Ósanngjarnt er í þessari umræðu að sleppa alfarið að minnast á mikið sykurmagn í mjólkurafurðum okkar, sem innihalda sykur sem er allt að 15% af þyngd vörunnar. Það er annars merkilegt að markaðurinn skuli alltaf fá að ráða öllu, jafnvel þegar í óefni er komið. Nema ef sett eru ný lög og nýir skattar. Önnur lönd hafa reyndar hækkað sykurskatta og sett lög um hámarksstærðir á gosflöskum. Aðgerðir sem er viðleitni yfirvalda í hverju landi að mæta vandanum og sem er ekki síður þörf að gera hér á landi. Þannig hafa líka flest lönd nú sett viðvörunarmerki á tóbaksvörur og sem benda á að tóbakið getur drepið. Sama á við með mikla sykurneyslu til lengdar og sem er ávanabindandi.

Er ekki kominn tími til að íslensk yfirvöld bregðist við þeim alvarlega heilbrigðisvanda sem mikil ofneysla sykurs stefnir þjóðfélaginu í? Almenningur á Íslandi í dag ræður greinilega ekki frekar við þennan vanda en ýmsan annan. Ekkert fyrirbyggjanlegt og jafn alvarlegt heilbrigðisvandamál er jafn brýnt að leysa sem fyrst. Matarfíkn, sem er annað vandamál og nátengt, verður líka miklu viðráðanlegra ef sykurinn kyndir ekki stöðugt undir þá fíkn líka. Það er ekki nóg að fara í ræktina og hamast og láta sem ekkert hafi gerst, þótt öll hreyfing sé auðvitað góð og nauðsynleg. Leysa þarf vandann þar sem hann á rætur, í neysluvenjum okkar og barnanna.

Saga sykurneyslu Vísjá RÚV, 10.09.2012

Reykjavík síðdegis 28.08.2012, Skaðleg áhrif sykurs

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/04/20/hin-illkleifu-fjoll-nordursins/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/03/14/hjartaafoll-og-gosdrykkja-karla/

http://www.cbsnews.com/video/watch/?id=7403942n

Dr. Robert Lustig, prófessor við Kalíforníuháskóla í San Francisco ræðir við Jóhönnu Vilhjálmsdóttur á Sjónvarpsstöðinni INN um offitu og frúktósann í unna sykrinum sem hann segir vera ávanabindandi eitur.

http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2011/02/08/godir-islendingar/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/03/24/ertu-epli-eda-pera/

http://www.guardian.co.uk/society/2013/feb/18/doctors-soft-drinks-tax-obesity

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.8.2012 - 22:08 - FB ummæli ()

Húð, flúr, fár og skömm

Sjö ásæður fyrir því að fá sér ekki tattooÍ dag er í tísku að ungt fólk fá sér húðflúr (tattoo), og reyndar alveg upp fyrir miðjan aldur. Heilu handleggirnir eru húðflúraðir í öllum regnbogans litum og munstrum. Jafnvel heilu bökin og bringurnar ásamt flestum öðrum viðkvæmari líkamspörtum. Mikil aukning hefur orðið í að fólk fái sér húðflúr hér á landi á síðustu árum, eins og reyndar annars staðar í hinum vestræna heimi. Í Bandaríkjunum hefur aukningin verið gífurleg, eða úr 14% 2008, í 21% á þessu ári og sem nálgast þá að fjórði hver fullorðinn sé kominn með húðflúr.

Segja má að húðflúrið sé þannig orðið einhverskonar tákn okkar samtíma, sjálfsdýrkunar og ímyndaðs frelsis. Á sama tíma er mikið fjallað um, ekki síst af sama fólki, um hætturnar sem okkur stafar af mengun hverskonar í okkar nánasta umhverfi. Kemískum efnum, þungmálmum og litarefnum. Ekkert síður höfum við flest áhyggjur af loftmenguninni svo sem díoxinmengun, auk mengun PFC efna í matvælum og höfunum og sem ég hef áður fjallað nokkuð ítarlega um. Á sama tíma og tugprósent af yfirborði líkamans er húðflúrað með allskonar litarefnum sem við vitum lítið hvað innihalda og sem standast ekki neinar heilbrigðiskröfur sem gerðar eru til íhluta, í okkur og á. Eins og t.d. fyrir lyf, hjúkrunarvörur eða aðrar lækningavörur.

Í vetur var okkur reyndar líka tíðrætt um annarskonar aðskotaefni sem tengjast íhlutum í brjóst kvenna og jafnvel undir húð sumra karla. Brjóstaimplöntin svokölluðu sem innihéldu að því er haldið var saklaust iðnaðarsílikon. Eins önnur lögleg implönt sem endast tugfalt skemur en áður var talið og þar sem skelin smá saman hverfur á nokkrum árum og enginn veit hvað verður um í líkama kvennanna. Sem svo Sýking, út frá húðflúri Úr NEJM greininnisannarlega er ekki að fullu vitað hvaða varanlegar afleiðingar hefur, enda hverfur ekkert sporlaust í líkamanum. Til að kóróna allt, sýna síðan nýjar kannanir nú að yfir helmingur fullorðins fólks skammast sín fyrir gamla tattooið og óskar þess heitast að hafa aldrei látið flúrað sig og fúlað á sínum tíma. Sem allt kostaði auk þess mikla peninga og ekki síður ef á að laga eftir á.

Lengi hafa læknar varað við húðflúrinu af heilsufarsástæðum. Eins þar sem erfitt eða ómögulegt getur verið að fjarlægja eða lagfæra illa farin listaverkin síðar og þegar angistin nagar inn að beini. Einnig þar sem oft virðist líka vakna ákveðin fíkn hjá viðkomandi að halda áfram og bæta við fleiri og fleiri myndum. Jafnvel yfir meiripart líkamans sem þá er orðinn oft eins og eitt stórt misheppnað listasafn. Enginn segir þó fullum fetum að „listaverkin“ séu ekki oftast vel unnin í byrjun, myndirnar jafnvel stundum skoplegar og sem fá mann til að brosa. Auk þess tengjast myndirnar og textinn tilfinningum þeirra sem myndirnar bera, en sem síðan breytast með tímanum. Óhreinindin við húðflúrsaðgerðina sjálfa og hugsanlegt smit með nálum er þó það sem flestir hafa mestar áhyggjur af. Eins ákveðnum litum sem vitað er að geta verið skaðlegri en aðrir og innihalda meira blý og jafnvel kopar (rauði liturinn) og ýmiss hugsanleg krabbameinsvaldandi efni (t.d. polycyclic aromatic hydrocarbons (PAHs).

2011-0906tattooinkssfcÍ grein sem birtist í  hinu virta læknatímariti NEJM í gær og unnin var af bandaríska landlæknisembættinu (CDC), eru rakin tugir smittilfella vegna húðflúrs í New York og þar sem sýking varð í húð með gráu litarefni sem notað var til húðflúrsins. Bakterían Mycobacterium chelonae sem er skyld berklabakteríunni gömlu er talin orsökin og olli ljótum þrálátum sýkingum í húð sem gekk illa að meðhöndla (sjá mynd að ofan) með sýklalyfjum, auk hættu á útbreiddari sýkingu um allan líkamann. Ósótthreinsað vatn sem notað er til að þynna litina er helst kennt um, en sýkingarnar mátti alls rekja til a.m.k. 4 framleiðenda. Ákveðin fylki haf því nú sett fram kröfu um, að aðeins megi nota sterilt vatn til þynningar á litunum við framleiðsluna. Auk þess skoðar nú bandaríska landlæknisembættið og lyfja- og matvælaeftirlitið (FDA), hvort ekki ætti að auka kröfurnar um innflutning og framleiðslu litarefna til húðflúrsnotkunar og sem hingað til hafa aðeins fallið undir regluverk um snyrtivörur. Sannarlega tilefni til að vera einnig mikið betur á varðbergi hér á landi, og að gerðar verði meiri hreinlætiskröfur um efnin sem notuð eru í dag. Eins og með önnur efni og lyf sem eru okkur ætluð, í okkur og á, og efni sem þekja geta jafnvel meiripartinn af okkur í framtíðinni ef áfram heldur sem horfir.

7 góðar ástæður til að fá sér ekki húðflúr

http://www.nejm.org/doi/full/10.1056/NEJMoa1205114?query=TOC

http://www.nejm.org/doi/full/10.1056/NEJMp1206063?query=TOC

http://health.usnews.com/health-news/family-health/articles/2008/07/25/the-dangerous-art-of-the-tattoo

http://www.dailymail.co.uk/health/article-2032696/Now-tattoos-cancer-U-S-regulator-probes-fears-inks-contain-carcinogenic-chemicals.html

http://www.environmentalhealthnews.org/ehs/news/2011/tattoo-inks-face-scrutiny

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 21.8.2012 - 11:04 - FB ummæli ()

Varúð, háþrýstingur!

Vegna umræðunnar um vægt hækkaðan blóðþrýsting og hvar meðferðamörkin nákvæmlega liggja og fram kom í viðtali við Jóhann Ágúst Sigurðsson, prófessor við Heimilislæknisfræði HÍ í Fréttablaðinu í gær, vil ég fá að leggja nokkur orð í belg og vísa jafnframt í ársgamlan  pistil minn um efnið, Háþrýstingur og hættumörk. Rétt er samt að benda strax á, að ekki er ástæða fyrir nokkurn mann að hætta á blóðþrýstingsmeðferð sem hann er á fyrir, og sem haldið hefur blóðþrýstingnum niðri. Frekar að ræða meðferðina almennt við lækninn sinn við næsta tækifæri. Því allur háþrýstingur skiptir máli, líka þótt hann sé ekki mjög hár og umdeilt sé nú hvar nákvæmlega meðferðamörkin liggja. Eins hvernig hann er mældur, hæ. eða vi. megin, heima og að heiman. Eins reyndar í heilbrigðiskerfinu sjálfu þar sem víða kraumar undir niðri og oft er óljóst hvar mörkin liggja.

Sennilega verður nú meira rætt um í framtíðinni hvenær tímabært er að grípa til lyfjameðferðar við vægum háþrýsting hjá mönnum án annrra einkenna um hjarta- og æðasjúkdóma og áður en lífstílsbreyting hefur verið reynd þar sem það á við. Til að ná sem ásættanlegastum árangri til lengri tíma litið. Þegar lægri mörkin liggja á bilinu 90-99 mmHg og/eða efri mörkin á bilinu 140-159 og ítarlegustu rannsóknirnar sýna að ávinningur lyfjameðferðar er takmarkaður. A.m.k. þegar til skemmri tíma litið og sem niðurstöðurnar ná yfir (5 ár). Hvað sem samt öllum lágmörkum líður varðandi gagnsemi hugsanlegrar lyfjameðferðar, er sjálfsagt að leggja enn meir upp úr ráðleggingum um heilbrigðari lífsstíl og sem örugglega mun gagnast flestum. Þegar þyngdin er of mikil og töluvert vantar upp á daglega hreyfingu.

http://visir.is/lyf-ekki-alltaf-besti-kostur-gegn-of-haum-blodthrystingi-/article/2012120829986

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/05/16/hathrystingur-og-haettumork/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/09/02/erfidara-ad-sanna-thad-goda-en-slaema/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Föstudagur 17.8.2012 - 14:13 - FB ummæli ()

Stórir áfangar og lítil skref

Göngur á ókunnugum slóðum er mitt uppáhald, ekki síst til að geta séð landið frá nýjum og ólíkum sjónarhól. Þegar tindarnir á fjöllunum reynast upphafið að nýju ævintýri og heimurinn tekur á sig nýjar myndir. Ég man vel daginn 21. júlí 1969 þegar ég var í sveit og fréttir bárust um alla heimsbyggðina að Ameríkani (Neil Armstrong) væri búinn að stíga fyrstur manna á tunglið. „Yfirgengileg“ vísindalegt afrek í öðrum heimi, sem sannaði hverjir væru fremstir og bestir. Að minnsta kosti í mínum huga þá. Lítið fyrir geimfarann, en stórt fyrir mannkynið eins og sagt var. Varla nokkur feilnóta og framúrskarandi skýrar myndir teknar, þessu öllu til sönnunar. Væntingar um framhaldið voru líka miklar og menn spáðu jafnvel lífi á reikisstjörnunni Mars sem þyrfti að finna.

Ég hef alltaf viljað getað trúað mannkynssögunni, þótt margsannað sé að lygar hafi verið notaðar til að gæta þjóðaröryggis og efnahagslegra hagsmuna af ýmsum toga gegnum aldirnar. Pólitískra hagsmuna sem ná yfir allt annað, og réttlæta að sannleikurinn nái ekki fram að ganga, fyrr en þá ef til vill löngu síðar. Um mikilvægi þýðingar Bandaríkjamanna á tunglgöngunni fyrir ímynd sína efast enginn. Hvað ef síðar hefði komið í ljós að tunglgangan væri sviðsett í áróðurstilgangi og sem sumir hafa jafnvel haldið fram, allt til dagsins í dag? Hvað hefðu Bandaríkjamenn verið tilbúnir að fórna miklu til að ekki kæmist upp um leyndarmál sem breytt hefur gangi sögunnar? En sannleikurinn er oft lyginni líkust og oft höfum við líka séð heimsmyndina hrynja þegar hann verður okkur loks ljós.

Ef maður hugsar samt í dag, hve ófullkomið mannlífið er í mörgum löndum og hvað tæknin hjálpar okkur oft lítið, hlýtur tunglgangan fyrir hálfri öld að virka hálf fjarstæðukennd. En nú berast aftur myndir utan úr geimnum, frá vitbílnum Curiosity á Mars sem fáir efast um að séu sannar. Af sandi, urð og grjóti sem er alls ekki frábrugðið því íslenska. Sagan ein sker hins vegar endalega úr um mikilvægi ferðanna, eins og um ferðir sjósiglingaþjóðanna á öldum áður. Jafnvel ferðir forfeðra okkar, því án þeirra værum við ekki til sem þjóð.

Ofurtrú á framfarir, tæknina og ókannaða heima er okkur sennilega í blóð borin, ásamt hetjudýrkun hverskonar. Samsvörun við nútíðina eru önnur hátæknivísindi, ekki síst á heilbrigðissviði. Kraftaverk t.d. með tilkomu nýrra bólusetninga og framfara á skurðlækna- og gjörgæslusviðum. Þar sem margir geta þurft að vera tengdir tækjum og tólum á allt annan hátt en geimfararnir voru á sínum tíma. Eins meiri skilningi á tengslum genanna okkar og umhverfi sem mestu máli skiptir. Oft hættir okkur þannig að gleyma grunninum og því sjálfsagðasta, sem kostar auk þess miklu minna.

Heimurinn okkar er allavega ekki svarthvítur eins og á tunglinu, eða gulur eins og á Mars, heldur grænn, hlýr og kunnuglegur ef betur er að gáð, jafnvel í öllum regnboganslitum og við horfum vel í kringum okkur. Mannleg samskipti byggja þannig á árþúsunda þróun í litlum skrefum, ekki þeim stóru. Líka hvernig við yfir höfuð komumst af sem lítil þjóð, oft í harðbýlu landi. Heilsugæsla í dag byggir á þeirri þróun svo og félagsleg hjálp og sálgæsla. Mikilvægasti þátturinn í þróun menningar okkar og lista.

Skilningur á mikilvægi hreyfingar er í dag lítil nærvísindi, en sem skiptir allt mannkynið miklu máli. Sem ásamt aðgangi að hollri fæðu, góðu vatni og hreinu lofti tryggir best líkamlega heilsu. Nokkuð sem Íslendingar eiga nóg af, en sem hreyfa sig allt of lítið og fitna nú um hóf fram. Miklu mikilvægari vettvangur vísinda fyrir okkur í dag en nokkur skref á tunglinu eða ökutúr á Mars. Sem samt blæs í okkur trú á vísindin og eykur bjartsýni á mátt mannsins um ókomna framtíð.

En mikilvægi litlu skrefanna eru að minnsta kosti sönn hjá hverju og einu okkar og á þau vísindi getum við alltaf treyst. Hátíðin Menningarnótt og Reykjavíkurmaraþonið er til marks um mikilvægi þessara skrefa, í okkar eigin lífi. Þar sem frelsið, gleðin og hreystin eru í fyrirrúmi. Líka til að minnast mikilvægi göngu þjóðarinnar gegnum aldirnar og sameiginlegs menningararfs okkar allra.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni

Fimmtudagur 9.8.2012 - 18:14 - FB ummæli ()

Undir yfirborðinu

Það hefur ávalt verið talinn mikill ósiður að gera smátt sem stórt í sundlaugarnar og sem eru okkar þjóðarstolt um land allt. Sömu sundlaugar og sundfólkið æfir síðan oft í, á kvöldin og um helgar. Jafnvel þótt klórinn nái að heft vöxt örveira sem borist geta með óvæntum úrgangi, í takmörkuð magni, og sem aðallega hefur hingað til mátt vænta frá yngsta fólkinu. En nú að því er virðist líka frá eldra fólki.

Nýverið greindi fyrrverandi landsliðskona Bandaríkjanna í sundi, Carly Geehr, frá því að nær allir keppendur á Ólympíuleikunum í London ættu það til að létta á sér, á meðan þeir eru í sundlauginni. „Sem sundmaður þá þarftu að sætta þig við að synda í þvagi.” Undir þetta tók margfaldur ólympíumeistari í sundi Michael Phelps við bandaríska dagblaðið Wall Street Journal í síðustu viku. „Þegar við erum í lauginni í tvo tíma (á æfingum væntanlega), þá förum við sjaldnast upp úr til að pissa”„Ég held að allir pissi í sundlaugina,” sagði bandaríski sundkappinn. Fullyrðingar sem þassar eru mjög athyglisverðar og í takt við umræðuna um ofuræfingar afreksíþróttafólks þar sem öllum öðrum fyrrum viðmiðum er oft fórnað. En hvað með íslenska sundfólkið og almenningssundlaugarnar okkar?

Öldin er sem sagt önnur samkvæmt upplýsingum um þvaglát fullorðins fólks í sundlaugar í dag og að auka þurfi klórmagnið til að sporna geng hættu á sýkingum saurgerla og ýmissa veira. Mikið meiri smithætta er enda frá fullorðnu fólki en ungum börnum hvað þetta varðar og sumar veirur viljum við vera alveg laus við að eiga á hættu að gleypa. Til eru litarefni til nota í sundlaugavatn sem lita upp vatnið þegar nítursambönd úr þvagi losna. Til að aðrir sjái og geti þá forðað sér. E.t.v. þarf nú að ræða hvort þörf er á slíkum litarefnum í sundlaugarnar okkar?

Við kennum börnum okkar nokkra góða mannasiði. Að þvo sér um hendur fyrir máltíðar og eftir klósettferðir er mikilvægur hluti af þeirri kennslu, lærdómur sem endast á út allt lífið, hugsunarlaust. Eins þvoum við okkur vel áður en við förum í sundlaugarnar. Gamalt orðatiltæki segir að við pissum heldur ekki í skóinn okkar sjálfviljug. Sama er auðvitað með þvaglát í sundlaugarnar okkar sem við eigum öll að fá að njóta jafnt.

http://www.ruv.is/frett/ras-2/varasamt-ad-pissa-i-laugina

http://www.examiner.com/article/too-many-people-urinate-public-swimming-pools-which-destroys-the-chlorine?cid=rss

http://www.dv.is/skrytid/2012/8/6/phelps-eg-held-ad-allir-pissi-i-sundlaugina/

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/einn-af-hverjum-fimm-pissar-i-laugina-vitum-af-thessu-segir-vaktstjori-sundhallarinnar

http://www.dailymail.co.uk/news/article-2152700/One-FIVE-adults-urinate-swimming-pools-70-dont-shower-diving-in.html

http://blog.swimator.com/2012/04/swimming-and-medical-infections-dangers.html

http://www.sciencedaily.com/releases/2008/02/080219161946.htm

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir

Föstudagur 3.8.2012 - 01:53 - FB ummæli ()

Í báðar áttir undir sumarsól

Oft þegar ég geng meðfram Vesturlandsveginum á fögrum sumardögum um helgar, verður mér hugsað um ferðafólkið á vegum landsins og umferðaröryggisins. Framhjá þjóta óteljandi bílar af öllum stærðum á skömmum tíma. Í mörgum bílanna er bara einn ökumaður en í öðrum heilu fjölskyldurnar sem eru á ferð á vit ævintýranna í fagurri íslenskri náttúru. Líka rútur fullar af erlendu eða innlendu ferðafólki og svo þungaflutningabílar með langa tengivagna. Stundum í röðum svo minnir á járnbrautalestar erlendis. Sumir eru síðan jafnvel með heilu hýbýlin aftaníhangandi og sem eru margfalt stærri en bílarnir sjálfir og breiðari.

Sumir ökumenn eru að flýta sér meira en aðrir, eru jafnvel þreyttir og syfjaðir en keyra engu að síður hratt miðað við aðstæður og umferðina á móti. Þar sem ekkert skilur á milli annað en þunnur loftveggur. Hvinurinn frá bílunum er mikill, sérstaklega þegar stórir bílar mætast en sem síðan rennur saman í eina nútímasímfóníu eða skulum við segja óþægilegan hljómfoss með tilbrigðum af járni, stáli og orku sem ásamt gúmíinu eitt getur skapað. Á vegspottanum þetta korter sem ég geng áður en ég vík frá út í hina einu sönnu náttúru og kyrrð. Sennilega nokkuð hundruð manns á faralds“fæti“ án þess að vita nokkuð hvert af öðru. Flestir í bílunum eru örugglega að hugsa sitt eða eru að tala saman. Misalvarlega hluti eins og gengur og sem mig varðar auðvitað ekkert um. Samt finnst mér sem utanaðkomandi, og sem ég er í þessu tilviki, að mér komi öryggi náungans við. Eins og reyndar alls staðar annars staðar í samfélaginu. Bilið á milli bílanna okkar er heldur oft ekki langt og við horfum jafnvel í augu þess sem á móti kemur. Öðruvísi samskipti okkar á milli og sem tilheyrir aðeins umferðinni okkar.

Við erum, held ég, öll með svipaðar þarfir og hugsum í raun ótrúlega svipað. Aðeins mismunandi eftir stað og stund hverju sinni. Um fjölskylduna, vinnuna og áhugamálin. Allt þarf að tvinnast saman svo lífsgatan verði greið. Hún er samt mishröð ferðin og vegurinn misgrýttur. Slys geta orðið líka á á þeirri leið. Náttúran er sem betur fer oftast á sínum stað lítið breytt, Furðu nálægt okkur svo við ættum að geta leitað til hennar auðveldlega. Til að fá frið og ró. Sálarró og hvíld sem nútímamanninum vantar sennilega mest af öllu í hinum vestræna heimi. Þar sem hraðinn og stressið er alltaf að aukast, líka í umferðinni. Friður og hamingja er þannig stundum aðeins eins og hillingar, ekki síst fyrir þá sem fara sér allt of hratt í lífinu.

Sumir eru þolendur meðan aðrir eru gerendur í umferðarslysunum. Oft enn eitt formið af ofbeldi sem við beitum hvort annað, en sem skráð eru sem umferðarslys. Fórnarlömb umferðaslysanna eru síðan hundruðir, fullorðnir jafnt sem börn. Margir slasast alvarlega og örkumlast á einn eða annan hátt. Á einu augabragði breytast aðstæður þúsunda manna og sem síðan eiga um sárt að binda. Fjölskyldur, nánir vinir og samstarfsfélagar þekkja þessa sögu vel og enginn veit hver verður næsta fórnarlamb. En það eru margir sem geta lágmarkað þessa tölu vegna slysa af hugsunarleysi, glannaskap eða jafnvel áfengis- og vímuefnaneyslu undir stýri.

Nú er stærsta ferðamannahelgin gengin í garð. Þar sem oft hvít lína skilur á milli lífs og dauða ef óvarlega er farið. Framúrakstur er hættulegasti hlutinn í öllum akstri, á oft þröngum íslenskum þjóðvegum. Þar sem akreinarnar eru aðeins tvær, ein í sitthvora áttina og aðstæður oft ekki góðar. Þar sem hraðinn er oft mikill miðað við aðstæður og höggið sem kemur, ef að árekstri verður, margfaldast með hraða bifreiðanna. Að lenda þannig í árekstri við jafnþungan bíl sem kemur beint á móti á sama hraða, jafgildir árekstri á steinvegg á helmingi meiri hraða, eða á allt að 180 km/klst. Á hinum sameiginlega vegi okkar allra.

Sjá aðra umfjöllun:

http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/08/04/their-sem-aka-of-haegt-og-mynda-bidrod-ekki-sidur-haettulegir-en-their-sem-aka-of-hratt/

http://www.dv.is/frettir/2012/8/5/enn-morg-daudaslys/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn