Sunnudagur 23.12.2018 - 22:34 - 11 ummæli

Er ekki hægt að breyta skrifstofuhúsi í hjúkrunarheimili?

Í fréttum RUV í kvöld kom fram einkennnilegt viðhorf heilbrigðisráðherra til byggingamála svona almennt.

Hún hélt því nánast fram að ekki væri hægt að byggja hjúkrunarheimili aldraða öðruvísi en það væri gert frá grunni.

Þetta sagði hún um tillögu, virturstu, stærstu og einnar elstu þjónustustofnunnar á Íslandi fyrir aldraða, um að breyta skrifstofuhúsi sem er rúmlega fokhelt í nútímalegt hjúkrunarheimili fyrir aldraða í frétt RÚV.

En Hrafnista og Heilsuvernd hafa lagt fram þá hugmynd í minnisblaði að breyta fokheldu skrifstofuhúsi við Urriðahvarf, miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, í fyrsta flokks hjúkrunarheimili fyrir 150 – 175 aldraða.

Þessu hafnar ráðherrann á þeirri forsendu að það sé nánast ekki hægt. Hjúkrunarheimili þurfa að vera í húsum sem eru hugsuð sem slík frá byrjun.

Fréttamaður RÚV spurði þá hvort það væri rangt hjá Hrafnistu og forstjóra þess að þetta tæki styttri tima en að byggja nýtt heimili?

Ég geri ráð fyrir því já,“ svaraði ráðherrann Svandís Svavarsdóttir alveg hiklaust.

Þeir sem þekkja til svona mála, þar á meðal Hrafnista, vita að þetta er líklega ekki rétt og vilja skoða málið. Þeir vita að vel er mögulegt að breyta skrifstofúhúsnæði á borð við stórhýsið við Urriðahvarf í fullkomið nútímalegt hjúkrunarheimili fyrir minna fé en það kostar t.a.m.  að breyta gömlum mygluðum byggingunum á Landspítalalóðinni í fullkomið nútíma hátæknisjúkrahús svo dæmi sé tekið og ráðherrann stefnir að.

Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistu sagði í fréttum í gær að honum þætti viðhorf ráðherra miður því að í rauninni snerist þeirra beiðni um það að þar sem þau eru vön að hanna hjúkrunarheimili og reka þau, þá væru þeirra hugmyndir að fara í það af fullum krafti að leggjast yfir það að skoða hvort þetta væri framkvæmanlegt og kostnað og annað slíkt. En ráðherra taldi þetta ekki þess virði að skoða, þrátt fyrir það neyðarástand sem nú ríkir í málaflokknum.

Það sem gerir þessa frétt sérstaka er að stefnt er að þvi af sama ráðuneyti að breyta um 66 þúsund fermetrum af illa förnu og gölluðu húsnæði á Landspítalalóðinni í fullkomið hátæknisjúkrahús fyrir upphæð sem áætluð er um 200 þúsund krónur á fermeterinn!

Hefði ekki þurft að hugsa það dæmi „frá fyrsta degi og frá grunni“ og byrja á nýjum stað á nýju sjúktrahúsi?

Þarna skýtur nokkuð skökku við.

+++

Það vita það allir að það er hægt að breyta starfssemi flestra húsa í nánast hvað sem er. Þetta er alltaf verið að gera allstaðar og hefur verið að gerast um allan heim um aldir. Við þekkjum hér í Reykjavík að íbúðum er verið að breyta í skrifstofuhús og skrifstofuhúsum í hótel og hótelum í heilsugæslustöðvar og heilsugæslustöðvum aftur í íbúðir. Þetta er alþekkt og oft hagkvæmt. Í þessu Urriðahvarfsmáli er munurinn sá að húsið er bara fokhelt og ekki þarf að byrja á niðurrifi vegna breyttrar starfssemi þar.

Maður velti fyrir sér þekkingu, reynslu og víðsýni ráðgjafa ráðherrans þegar hlustað var á þessa frétt.

+++

Efst er mynd úr fréttatima RÚV frá því í kvöld.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Jón Gunnarsson

    Þessu er öllu stjórnað af embættismönnum. Ráðherrar gera bara það sem þeim er sagt. Þannig hefur það verið síðustu 10 ár.

  • Þetta hús er kjörið fyrir hjúkrunarheimili- frábært útsýni og góða dagsbirta sem lýsir húsið upp að innan-

  • Hjúkrunarheimili eru sjúkrastofnanir. Ég held að enginn komist inn á hjúkrunarheimili nú á dögum sem er ekki algjörlega farinn að kröftum og heilsu og helst kominn á tíræðisaldur. Þetta er fólk sem þarfnast mikillar umönnunar og það er mikill barningur að fá starfsfólk á svona stofnanir. Ég er ekki 100% sannfærð um að það sé svo einfalt mál að innrétta stóra glerjaða hússkrokka (sem voru hugsaðir sem skrifstofuhúsnæði) þannig að það náist optimum nýting fyrir svona starfsemi, hvorki er snýr að sjúklingum né starfsfólki.

  • Ásmundur

    Hver á þetta hús? Er það í eigu banka í eigu ríkisins eftir gjaldþrot byggingaraðila/eiganda? Er útséð um að það nýtist eins og áætlað var í upphafi nú þegar kreppan er löngu liðin? Er ekki ástand hússins slæmt eftir að hafa staðið autt allan þennan tíma?

  • Hilmar Þór

    Það má kannski túlka þessa afstöðu ráðherrans sem einhverskonar genetiska andstöðu við einkaframtakið. Honum hugnast ekki einkaframkvæmd á heilbrigðissviðinu sem þetta frumkvæði Hrafnistu er.

    Annað sem vekur athygli er að ráðherran skilur ekki að það eru mikil tækifæri sem felast í því að breyta húsum svo þau geti mætt nýjum nútímaþörfum og jafnvel tíðarandanum. Þetta á auðvitað við fullbúin hús og ekki síður hús sem eru í byggingu.

    Þetta skilningsleysi hefur haft í för með sér niðurrif margra ágætra húsa undanfarin nokkur ár í Reykjavík. Húsa sem vel hefði mátt aðlaga að nýju skipulagi og nýjum þörfum.

  • Sigtryggur

    Þessi afstaða ráðherrans er ekki góð. Henni ætti að vera ljóst það neyðarástand sem ríkir í málaflokknum og á að taka því fagnandi þegar einkaaðili vill skoða þetta tækifæri. Skömm er af þessu og öllum byggingamálim ráðuneytisins á Landspítalalóðinni.

  • dori speed

    Þessi síða poppar ekki upp stax. Það þarf að fara í fyrri fæslur til þess að finna hana. Það er slæmt vegna þess að færslan er mjög góð!

  • Sælir

    Það er ekkert að marka þennan ráðherra. Þessi bygging er tilvalin fyrir þessa notkun. Bara að byrja ,það er málið.

  • Og svo hræðast grey börnin jólaköttin í dag.

  • Það er of algengt að stjórnmálamenn tjái sig um hluti sem það hefur ekkert vit á. Þarna hefði hún þurft að vitna í nafngreinda sérfræðinga. Þetta er ótrúlega billegt hjá Svandísi. Sömu ráðgjafarnir eru sennilega þarna á ferð og ráðlögðu henni og öllum hinum ráðherrunum í Landspítalamálinu!

  • Nefnið einn ráðherra sem er að gera góða hluti fyrir Ísland.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn