Þriðjudagur 03.12.2019 - 16:11 - Rita ummæli

Laugarnestangi – náttúra, minjar og fegurð á válista

Laugarnestangi – náttúra, minjar og fegurð á válista

Laugarnestangi er á náttúruminjaskrá og nýtur hverfisverndar í aðalskipulagi“ stendur í bréfi frá Þórólfi Jónssyni deildarstjóra náttúru og garða dagsettu 27. nóvember 2018. Bréfið er til umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur og inniheldur álit embættismannsins á fyrirhugaðri landfyllingu í þágu Faxaflóahafna við tangann. Í bréfinu gagnrýnir Þórólfur umhverfisskýrslu VSÓ um svæðið fyrir ónákvæma lýsingu á umfangi landfyllingarinnar og vanmat á afleiðingum hennar fyrir landslagið og ásýnd þess sem og á Laugarnestanga sem verndar- og útivistarsvæði. Þórólfur vitnar í samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Minjastofnunar ríkisins frá 25. ágúst 2016 um verndar­áætlun fyrir Laugarnestanga sem byggir á greiningu á gildi svæðisins í þjóðarsögunni sem og fyrir náttúruunnendur og útivistarfólk okkar tíma.

„Minjasvæðið á Laugarnestanga er eitt fárra svæða innan marka þéttbýlis Reykjavíkurborgar þar sem hægt er að upplifa nokkuð heildstætt menningarlandslag sem segir söguna alla frá því stuttu eftir landnám og til dagsins í dag. Þar er að finna sýnilegar leifar bæjarhóls og kirkjugarðs auk minja um hjáleigubúskap og sjósókn sem og óraskaðar beðasléttur. Saman mynda þessar minjar menningarlandslag búsetu sem reiddi sig bæði á fiskveiðar og landbúnað.

Náttúrufarið á Laugarnestanga gerir svæðið einstakt í Reykjavík þar sem hægt er að horfa yfir nesið og út í Viðey án truflunar frá mannvirkjum nútímans. Mikilvægt er að halda í þetta merkilega menningarlandslag, samspil náttúru og minja, sem er hvergi að finna annars staðar í Reykjavík.“

Þetta er brot úr samkomulaginu sem undirritað er af borgarstjóra Degi B. Eggertssyni og Kristínu Huld Sigurðardóttur, forstöðumanni Minjastofnunar. Aðeins tveim og hálfu ári frá undirskrift æðstu embættismanna um einstætt gildi svæðisins tóku skipulagsyfirvöld í Reykjavík ákvörðun um að hunsa samkomulagið með breytingu á aðalskipulagi og útgáfu á framkvæmdaleyfi til Faxaflóahafna í mars og apríl í ár.

Laugarnes og Viðey kallast á

Umhverfisskýrsla VSÓ var síðast uppfærð 14. febrúar 2019. í lokaskýrslunni er augljóslega ekkert tillit tekið til gagnrýni Þórólfs Jónssonar, deildarstjóra náttúru og garða, og þar með ekki heldur til lykil­atriða í samkomulagi borgarstjóra og forstöðumanns Minjastofnunar sem snerta tengslin milli Laugarnestanga og Viðeyjar. Landfyllingin er aðeins talin hafa „óveruleg neikvæð áhrif“ vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á henni. Halda mætti að höfundar skýrslunnar og skipulagsyfirvöld hafi aldrei horft yfir til Viðeyjar frá Laugarnestanga, svo miklu skilningsleysi á samhengi náttúru, minja og sögu lýsir mat þeirra. Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja eru með elstu steinhúsum á landinu, reist seint á 18. öld. Þessar dýrmætu byggingar standa á tilkomumesta bæjarstæði Viðeyjar og snúa að Laugarnesi. Laugarnes og Viðey kallast á í gegnum aldirnar. Um leið og skrifstofuhúsnæði og skemmur rísa á hinni nýju landfyllingu verður órofa samhengi sögunnar slitið og byrgt fyrir fegursta útsýni sem enn er völ á á norðurströnd Reykjavíkur. Það er hneyksli að borgarstjórn og skipulagsyfirvöld skuli ekki hafa efnt til opinberrar umræðu um jafn stórfellda röskun á svæði sem er á náttúruminjaskrá, áður en til framkvæmdanna kom.

++++

Að neðan er ljósmynd sem sýnir uppfyllinguna eins og hún var fyrir rúmum mánuði. Þarna sést glöggt hvernig útsýnið af Tanganum út í Viðey er skert. Myndin er tekin af greinarhöfundi.

++++

Greinin að ofan birtist í Fréttablaðinu 28. nóvember s.l. Þetta er merkileg grein eftir Steinunni Jóhannesdóttur, leikara og rithöfund, um landfyllingu við Laugarnestanga og aðalskipulagsbreytingu hennar vegna.

Það hefur ekki verið mikil umræða um þessa aðalskipulagsbreytingu þó hún sé afar mikilvæg og slæm í sjálfri sér. Umræðan var nánast engin þar til Steinunn vakti athygli á málinu.

Fyrir því liggja nokkrar ástæður.

Í fyrsta lagi vegna þess að þetta varðar ekki einkahagsmuni og svo hitt að breytingin var í kynningu frá 21. desember 2018 til 1. febrúar 2019. Þetta var auglýst í aðdraganda jóla og áramóta þegar fólk hafði um annað að hugsa. Meiriháttar breyting á útivistarsvæði var kynnt í svartasta skammdeginu. Ég sem fylgist vel með vissi ekki af þessu á kynningartímanum. Þetta fór framhjá mér.

Skipulagsyfirvöld þurfa að brjóta odd af oflæti sínu og kynna skipulagsmál betur. Kalla eftir athugasemdum. Finna markhópinn og virkja hann. Þau eiga að virkja borgarana til samstarfs og taka öllum athugasemdum fagnandi, þakka fyrir þær, gera málamiðlanir og taka tillit til þeirra þegar það á við. Átta sig á því að lýðræðið er ekki einungis virkt á kjördegi, heldur alltaf þegar tækifæri gefst. Það er skipulagsyfirvöldum ekki til framdráttar að skella skollaeyrum við framlagi áhugasamra borgara, sem vilja vel eða fela auglýsingar í myrkrinu og jólaauglýsingaflóðinu eins og í þessu tilfelli. 

Ef grannt er skoðað óskar enginn eftir þessu raski. Þeir sem kynnt hafa sér málið vilja þetta ekki. Minjastofnun vill þetta ekki. Þetta er ekki sérstaklega aðkallandi fyrir höfnina þó hún sé alltaf tilbúin að talka á móti grjóti. Hinsvegar var þetta mikið hagsmunamál fyrir byggingu Landspítalans við Hringbraut sem þurfti að losna við nokkur hundruð þúsund rúmmetra af grjóti vegna framkvæmdanna þar. Þarna var hægt að losna við grjótið með örfárra kílómetra akstri í stað þess að aka því tugi kílómetra upp í Bolöldur eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Hagsmunir Landspítalans virðast þarna teknir fram yfir hagsmuni borgarbúa, eins og oft áður.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn