Laugardagur 29.02.2020 - 19:56 - Rita ummæli

„Stefnumörkun Reykjavíkurborgar í byggingarlist“.

 

Stefnumörkun Reykjavíkurborgar í byggingarlist – in memoriam

Það eru áratugir síðan menn fóru að hafa áhyggjur af því að gengið væri á staðaranda Reykjavíkur með nýjum byggingum og nýjum skipulagsákvörðunum. Hugtakið „staðarandi“ var reyndar ekki til þá, en festi sig í málinu fyrir svona 10 árum.

Það eru rétt 15 ár síðan Þorvaldur S. Þorvaldsson borgararkitekt í Reykjavík og áður skipulagsstjóri til áratuga, kallaði saman hina færustu sérfræðinga til þess að semja drög að „Stefnumörkum Reykjavíkurborgar í byggingarlist“. Þetta er stórmerkilegt skjal sem ærið tilefni er til Þess að minna á.  Vegna kjarkleysis eða viljaleysis stjórnmálamanna má segja að þessi vinna hafi í hita og þunga dagsins gleymst niðri í skúffu allan þennan tíma sem liðin er. En samt ekki alveg. Í kjölfarið, árið 2007, var gefin út Menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð á vegum Menntamálaráðuneytisins sem virðist byggð á drögum borgarinnar um sama efni. Þar gaf hugmyndin um stefnumörkun í byggingarlist endanlega upp öndina. Liklega sérstaklega og annarsvegar vegna þess að þetta var á vegum menntamálaráðuneytisins í stað ráðuneyta skipulags- og umhverfismála og hinsvegar vegna þess að ekkert var platformið til þess að fylgja málinu eftir og veita byggingariðnaðinum það aðhald sem stefnt var að. Menningarstefnan var andvana fædd.

Ef stefna borgarinnar í byggingarlist hefði verið samþykkt á sínum tíma liti margt eflaust öðruvísi út í skipulags- og umhverfismálum í Reykjavík. Þá hefði Umhverfis- og skipulagsráð séð um eftirfylgnina. Nú er nánast enga stefnu að finna þó ymprað sé á henni á víð og dreif í aðalskipulaginu AR2010-2030.

Stefna er frá því 21. febrúar 2005 tók ekki bara á staðarandanum og meginmarkmiðum stefnunnar heldur einnig á leiðum til þess að framfylgja henni. Lögð var áhersla upplýsingu og að byggingarsagan sé læsileg í umhverfinu. Þá er mikill þungi lagður á fræðslu almennings og þáttöku hans í umræðunni og ákvarðanatökunni. Þetta hefur allt verið lagt til hliðar þannig að staðarandi borgarinnar, einkum innan Hringbrautar, hefur verið skertur og aðkomu almennings í umræðunni og ákvarðanatöku nánast fyrir borð borin. Allstaðar eru mál vanreifuð af borgurunum, sem haldið er utan umræðunnar og deilur spretta upp allstaðar í kjölfarið eins og dæmin sanna.

++++

Ég leyfi mér að birta hér einn kafla úr drögum hópsins sem kom að þessum merkilegu stefnumörkun í byggingarlist sem borgarstjórn þyrfti að dusta rykið af og klára. Það er kafli sem heitir „Byggingararfurinn“.

„Reykjavík er ung borið saman við höfuðborgir Evrópu en sýnileg byggingarsaga hennar spannar þó tvær og hálfa öld. Að auki eru í miðborg Reykjavík minjar sem tengjast á óyggjandi hátt sögnum Landnámu og Íslendingabókar um upphaf byggðar norrænna manna í landinu. Minjar borgarinnar spanna því allt söguskeið þjóðarinnar.

Byggingar hvers tímabils og minjar frá eldri tímaskeiðum endurspegla ótal þætti þess samfélags sem þær eru sprottnar úr. Hvert skeið á sér listrænt tjáningarform, byggingartækni, byggingarefni, félagslega skírskotun o.s.frv. Hvert gamalt hús og hver bæjarhluti ber þannig í sér vitnisburð um framvinduna frá upphafi sínu til okkar daga. Gömul hús og hverfi eru því þegar best lætur læsilegar og sannverðugar heimildir um margslungna atburði í fortíð þess samfélags sem þau tilheyra.

Á ferðalögum um framandi slóðir sækjast flestir eftir að koma í borgir eða á staði sem eiga sér langa sögu og þar sem margvísleg mannvirki eru til vitnis um gengna tíma. Sögulegur bakgrunnur sem endurspeglast í bæjarmyndinni og einstökum byggingum er áhugaverður, hann er upplýsandi, fræðandi, örvandi. Að öðru jöfnu má fullyrða að því meira sem hægt er að lesa úr umhverfinu um sögulega þróun þess þeim mun áhugaverðara sé það jafnt fyrir íbúa sem gesti.

Borgin hefur í þessum skilningi sögulega vídd sem gefur henni ómetanlegt gildi. Sögulegt innihald verður aldrei mótað af einum vilja eða stefnu, hvorki einstaklings né samfélags heldur er það fólgið í margbrotnum vitnisburði um þá framvindu tímans sem hefur átt sér stað. Það verður heldur aldrei endurskapað ef það hefur af einhverri ástæðu glatast. Söguleg vídd umhverfisins er því mjög dýrmæt. Í henni eru óafturkræf verðmæti sem okkur ber skylda til að gæta vandlega.

Byggingarlistarstefna Reykjavíkurborgar felur í sér ákvörðun um að borgaryfirvöld ætli að gæta þess að sögulegt innihald borgarinnar haldist sem skýrast og að hús og hverfi borgarinnar beri þróun hennar sem greinilegast vitni. En um leið og það er gert verður að gæta að möguleikum borgarinnar og hinna ýmsu borgarhluta til að þróast og byggjast upp í takt við nýja tíma og nýjar áherslur“.

++++

Í drögunum er borginni skipt upp í 10 borgarhluta og lagt til að hverfisráð fái meiri völd og að nálægð við borgaranna stuðli að meiri áhrifum þeirra á næsta umhverfi sitt. Það er kallað eftir virkara lýðræði og þáttöku almennings.  Í praxis hefur þetta gengið í þveröfuga átt. Dæmi um það er að hverfisráð Vesturbæjar sem var með skrifstofur og fundarherbergi við Hjarðarhaga var flutt út úr borgarhlutanum fyrir nokkrum misserum og heitir nú hverfismiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Ég veit ekki hvort hverfisráð eru lengur til. Um tíma boðaði hverfisráð Vesturbæjar reglulega til, fróðlegra og skemmtilegra funda, með íbúunum. Nú er allt í felum fyrir borgurunum og stjórnsýslan fer í fýlu ef einhverjir andmæla einhverju, menn hoppa ofan í skotgrafirnar og forherðingin tekur völdin.

Í vinnuhópnum sem skilaði umræddum drögum 21. febrúar 2005 voru:

Þorvaldur S. Þorvaldsson borgararkitekt, formaður

Anna Margrét Guðjónsdóttir, skrifstofu borgarstjóra/borgarritara

Dagný Helgadóttir, Fasteignastofu

Guðmundur Pálmi Kristinsson, Fasteignastofu

Hjörleifur Stefánsson, Arkitektafélagi Íslands

Margrét Leifsdóttir, skipulagsfulltrúa

Ólöf Örvarsdóttir, skipulagsfulltrúa

Pétur H. Ármannsson, Listasafni Reykjavíkur

Pjetur Stefánsson, Bandalagi íslenskra listamanna.

Til vara:

Ágústa Kristófersdóttir, Listasafni Reykjavíkur

Dennis Jóhannesson, Arkitektafélagi Íslands

++++

Efst er mynd af nýrri göngugötu í miðborg Reykjavíkur þar sem tveir, líklega erlendir ferðamenn eru að flandra um splunkunýja einsleita götuna.  Þarna eru helstu kennileiti og tengsl við staðaranda miðborgar  Reykjavíkur rofin. Akkúrat það sem ferðamennirnir eru komnir hingað til þess að sjá og upplifa sjest hvergi. Helstu kenningar um hönnun göngugatna eru víðs fjarri. Þessi hús bera ekki einkenni gatna þar sem er gert ráð fyrir gönguhraða fólks heldur hraða bílaumferðar. Þannig virðast götumyndirnar einsleitar, langar og leiðinlegar. Jarðhæðirnar eru tugir metra á lengd  og einsleitar þvert á það sem eru einkenni miðborgarinnar og fræðin mæla með. Húsin bera einginn einkenni gömlu bygginganna í Kvosinni eða staðaranda hennar. Öll skynsamleg prinsipp eru rofin. Og nú á að byggja eitthvað álíka aðeins vestar á hafnarsvæðinu við Miðbakka og Vesturbugt.  Líklegt er að stefnumörkun Reykjavíkurborgar í byggingarlist hefði haft þarna áhrif til betri vegar hefði hún hlotið brautargengi á sínum tíma. En það er ekki orðið of seint.

 

Uppbrot húsa, breytilegar húsahæðir og húsagerðir eru eitt af einkennum miðborgarinnar og forsenda fyrir aðlaðandi göngusvæðum. Þessi mynd er tekin suður Pósthússtræti.

Húsin hægra megin eru ný og hærri en þau sem eru til vinstri og eru gömul. Þarna spilar gamalt og nýtt saman. Sólin flæðir um götuna, sem hefur alla burði til þess að verða aðlaðandi og eftirsótt göngusvæði. Bilið milli húsanna í syðri götulínu skiptir þarna líka máli sem hleypir sólinni inn á götuna og opnar sýn inn í bakgarða. Þetta er eitthvað sem oft er látið eiga sig þegar svokölluð randbyggð nítjándu aldar, er hugmyndin.

 

 

Að ofan er skýringarmynd úr nýrri bók eftir David Sim sem eflaust er til í bokasafni Umhverfis- og skipulagssviðs. Skýringarmyndin sýnir greiningu á eldra hverfi borgar í Evrópu þar sem formmál borgarhlutans er skilgreint í fáum strikum. Ekki ósvipað skilgreiningu Dagnýjar Helgadóttur og Guðna Pálssonar arkitekta um staðaranda Kvosarinnar frá 1986, sem gerð var í tengslum við deiliskipulagið þar á þeim tíma. Bókin heitir „Soft City“ og er einskonar framhald af bók Jan Gehl sem heitir „Byer for mennesker“.  Í „Soft City“ er fjallað um heppilegar húsagerðir á göngusvæðum og hina mjúku borg fyrir fólk. Þarna er lögð áhersla á að götuhliðar séu stuttar og húsahæðir og húsagerðir mismunandi. Opið er frá götu inn í innigarða randbyggðarinnar. Lítið sem ekkert  er byggt inni í randbyggðinni, þvert á það sem hefur verið gert á Brynjureit og víðar í Reykjavík að undanförnu, og skapast þar innigarðar með tækifæri til útivistar á sólríku svæði.  Sumstaðar er lagt til að byggð sé ein hæð um allan innigarðinn til þess að koma fyrir starfssemi sem þarf mikla húsdýpt eða fyrir bílageymslur. Þannig verða húsin einni hæð lægri inni í garðinum en við götuna og sólin nær betur niður á útivistarsvæðið. Bókin kom út síðla árs 2019 og fjallar um nútíma borgarskipulag í litlum skala fyrir litlar borgir. Þar er tekið á PPS götum (pedestrian priority streets) þar sem bílar eru leyfðir en gangandi hafa forgang eins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn