Aðalsteinn Snorrason arkitekt, skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið í sumar þar sem hann fjallaði um “Arkitektafyritækin” og starfsumhverfi þeirra á krepputímum.
Áður voru þetta “arkitektastofur” sem reknar voru af einstaklingum, einum eða fleirum, sem höfðu ákveðið viðhorf til byggingalistarinnar.
Stofurnar höfðu ákveðna nálgun hvað varðar verkefnin og af niðurstöðunum mátti oftast sjá sterk “höfundareinkenni”.
Höfundareinkennin voru yfirleitt svo sterk að kunnáttumenn sáu strax á verkunum hver hafði hannað hvað.
Auðvitað voru stofurnar fyrirtæki þegar kom að bókhaldi, Hagstofunni, fyrirtækjaskrá o.þ.h. En þetta voru fyrst og fremst skapandi vinnustofur þar sem byggingalist var framin.
Eigum við ekki að leggja “arkitektafyrirtækjunum” og endurvekja “arkitektastofurnar” þar sem vinna 2-10 starfsmenn.
Er ekki tími stóru arkitektafyrirtækjanna með 20-60 starfsmönnum liðinn. Voru þeirra dagar ekki taldir haustið 2008 eða fyrr?
Ég hef þá tilfiningu að það séu ekki mörg verkefni arkitekta hér á landi sem 5-10 manna arkitektastofur geta ekki sinnt svo sómi sé að.
Stórar arkitektastofur og verkfræðistofur geta líka skapað vanhæfi á ýmsum sviðum í litlu þjóðfélagi eins og hugsanlega hefur gerst með stóru lögfræði- og endurskoðunarfyrirtækin undanfarið.
Fyritæki eru vinnustaðir þar sem framleidd er vara, seld þjónusta eða hlutirnir afgreiddir með hagnaði að markmiði. Oftast skilgreina forsvarsmenn fyrirtækja sig sem bissnissmenn.
Arkitektar vinna samkvæmt siðareglum og metnaði sem á oft ekki samleið með bisnisshugsjóninni. Þeir skilgreina sig sem arkitekta, en ekki bisnissmenn, þó arkitektúr geti verið góður bissniss.
Listamenn skilgreina sig ekki sem fyrirtæki. Svo dæmi sé tekið af J.K.Rowling sem ritaði Harry Potter bækurnar. Hún skilgreinir sig sem rithöfund þó hún eigi fyrirtæki, sem stofnað er til þess að halda utan um rekstur sem veltir miljörðum. Sama má segja um tónskáld, leikara og myndlistarmenn; Paul McCartney, Brad Pitt eða Ólaf Elíasson. Þeir skilgreina sig ekki sem fyritæki.
Myndin að ofan sýnir einn afkastamesta arkitekt síðustu aldar, Le Courbusier, við störf.
Sæll Magnús Orri Einarsson og þakka þér fyrir gott innlegg í umræðuvettvanginn á bloggsíðunni, sem Hilmar Þór Björnsson stendur fyrir. Ánægjulegt að fá skýringuna á transaction. Þú orðar einmitt kjarnann vel um það, sem við Hilmar höfum verið að fjalla um: Tilhneiginguna til að gera utanumhaldið að aðalatriði í stað innihaldsins, inntaksins, verskins sjálfs.
Ég held að þú sért að „ráðast“ á rangan mann Björn. Ég er á þínu bandi með það að „small is Beautiful“ í þessum efnum og verk minni stofa eru oft betri og hagkvæmari þ.e. meira notagildi og betri nýttni.
Við vitum báðir að opinberir aðilar eru farnir að gera meiri kröfur til utanumhalds og pappírsvinnu en verksins sjálfs og ég held að við vitum báðir af hverju. Ég ætta ekki að svara þessu með byggingareglugerðina og ISO enda sé ég vel kaldhæðnina í þessu.
Transaction cost er enska heitið á því sem kallast viðskiptakostnaður á Íslensku (varð að nota orðabók til að finna gott Íslenskt heiti) og snýr að því að fækka milliliðum og fyrirtækjum (samningum) í keðju þeirri sem myndar verkefnið. Þetta gerist td. með fækkun fyrirtækja og þar með stækkun þeirra. Menn eru svo sem ekki á eitt sáttir með það hvort þetta sé til bóta en opinberir aðilar hafa frekar verið að feta þessa braut.
Annars ættla ég bara aftur að óska þér til hamigju með þessa vefsíðu og góðar umræður á henni. Það var virkileg þörf á þessu framtaki.
Skólabróðir minn á námsárum mínum á listakademíunni í Kaupmannahöfn, vandvirkur mjög og reglumaður í alla staði, tjáði mér eitt sinn að hann hefði fyrstur arkitekta í Danmörku fengið ISO vottun. Þrátt fyrir það heldur hann sig enn við að vera með fámenna arkitektastofu og er enn jafn vandvirkur og fyrr. Og hann er með stór verkefni á dönskum mælikvarða alveg eins og litlar stofur hafa verið með stór verkefni á íslenskum mælikvarða hingað til, þótt verkefnisstaða þeirra íslensku hjá ríki og sveitarfélögum hafi breyst til hins verra af ótilgreindum og óskýrðum ástæðum. Ég er viss um að hann hjálpaði mér að komast inn í ISO, en efast um að það bætti eða breytti arkitektúrnum eða útfærslur hjá mér frekar en ISO vottanir hafa gert hjá honum. Ég efast samt ekki um að hann hafi krossað við á réttum stöðum á ISO tékklista. Og hvað transaction cost varðar gæti ábyggilega einhver okkar fjölmörgu fjármálamanna með víðtæka reynslu á erlendri grundu hjálpað með transaction cost, þótt ég reyndar eigi eftir að gera upp við mig , hvort ég bæði þá um að sjá um það, ef svo bæri undir. Það er meðal annars þetta sem ég átti við með orðunum tæknileg hindrun og bábilja á blogginu. Kannske gæti Magnús, sem gaman væri að vita hvaða eftirnafn hefði, hjálpað mér í þessum efnum? Gaman væri að gera úttekt á byggingum fortíðar, hverjar hefðu fengið ISO vottun og hverjar ekki. Hefði t.a.m. Laugarnesskóli fengið ISO vottun? Er þá byggingareglugerð óþörf og bara ISO komið í staðinn? Allt er óbreytt í þeim skóla frá upphafi, nema vibygging, sem arkitektarnir Hjördís og Dennis teiknuðu, og innrétting öll eins og verið hefði gerð í gær. Var ekki bara vel að verki staðið og góð fagmennska viðhöfð bæði hjá arkitekti, verkfræðingi, iðnaðarmönnum, verktaka, byggjanda, skólayfirvöldum og án herra/frú ISO?
Sælir Hilmar og Björn,
Það er rétt hjá ykkur að það er hægt að stofna til samvinnu fleirri fyrirtækja en ég er hræddur um að það sé ekki vel liðið af verkkaupum og það á eftir að verða enn verr liðið í framtíðinni. Þarna spila inn í kröfur um gæðakerfi og td. ISO vottanir sem samrýmast illa því sem þið eruð að setja fram. Líka það sem kallast „transaction cost“ og er því miður eitthvað sem bara eykst með aukun kröfum um utanumhald nema að liðunum í keðjuni sé fækkað (= stór fyrirtæki, janvel bæði með arkitekta og verkfræðinga).
Ég tek það samt skýrt fram að lítil stofa með hugsjón ætti að vera betri en stór-teikninga-framleiðsla eins og þetta vill stundum verða (mín persónulega skoðun).
Það er alls ekki mælikvarði á getu í arkitektúr hversu stór arkitektastofa er. Einyrkinn hefur skilað ekki síðri verkum en „fleiryrkinn“ jafnt á Íslandi sem í Danmörku , þar sem ég þekki til. Það er t.a.m. engin samsvörun í verðlaunasætum arkitektasamkeppna eða í gæðum bygginga og skipulags , jafnt deili- sem aðalskipulags , stórra eða smárra, hvort einn eða fleirri arkitektar standi að þeim. Þetta er auðvelt að sannreyna með því að huga að hverjir eru arkitektar að hvaða mannvirkjum eða skipulagi. Ágæt sýning er núna Kjarvalsstöðum af og með verkum Högnu Sigurðardóttur, arkitekts, sem hollt er að skoða. Að hampa mannmörgum arkitektastofum á kostnað þeirra minni er ekkert annað en tæknileg hindrun og bábilja.
Á tölvu- og internetöld er enn minni þörf á mannmörgum arkitektastofum en áður, þar sem einyrkjar eða „fleiryrkjar“ geta sótt sér aukavinnukraft á báða bóga eftir því sem þörf krefur.
Sæll Magnús og þakka þér hrósið.
Mín stofa telst lítil en hefur samt teiknað hús í Namibíu, Danmörku og haft með umsvifamikil verk í Skotlandi að gera.
Ég er sannfærður um að stærðin sé ofmetin. Ef 5-10 manna stofa ræður ekki við eitthvað verk þá er bara að stofna til samvinnu.
Það hefur reynst vel eins og dæmin sanna.
Fín bloggsíða hjá þér en í þessu verð ég að vera ósammála þér. Þekki vel til í þessum bransa og staðan er sú að það verður að sækja sér verkefni erlendis til að lifa af í þessu á Íslandi sem og mörgu öðru. Litlar stofur gera það ekki en litlar stofur geta veitt þeim stærri mikið aðhald með því að sýna fagmennsku í verki.
Þetta sjáum við hjá td. Dönum en þeir eiga nokkur stór fyrirtæki í þessum bransa sem ganga vel á alþjóðavettvandi en það drepur ekki minni stofur.
Gallinn sem við erum að fást við er sá sami allstaðar og það er kostnaður og fá eins marga m2 fyrir eins lítið og hægt er því þá er hægt að græða sem mest.
Þarna eiga skipulagsyfirvöld að koma inn í því það er ekki raunhæft fyrir arkitaktin að stoppa stóran „kúnna“ þegar hann er í ham, þá er bara að fylgja með.
Arkitektar geta því miður ekki verið sérlega stoltir af verkum síðustu ára. Fyrirtækjareksturssjónarmiðið hefur verið alls ráðandi. Hvernig má breyta því?
Hilmar!
Ég verð nú að segja að mér finnst þessi bloggsíða vera alveg til fyrirmyndar og góður vettvangur fyrir mig og aðra ofurviðkvæma fagurkera til þess að fá útrás fyrir uppsafnaða frústrasjón sem maður upplifir við að búa í henni Reykjavík og upplifa hvernig er komið fram við hana blessaða.
Hafðu þökk fyrir 🙂