Fimmtudagur 23.09.2010 - 13:19 - 24 ummæli

“Bílar eru ljótir, margir saman”

normal[1]

Því hefur verið haldið fram að bílar geti verið fallegir hver fyrir sig. Það er að segja þegar þeir standa einhversstaðar og aðrir bílar hvergi nærri. Til dæmis úti í ósnortinni náttúrunni. Þetta vita þeir sem selja bíla. Bílar eru gjarna auglýstir þannig.

Hinsvegar er fólk sammála því að bílar séu ekki fallegir þegar þeir eru margir saman. Og mikill fjöldi bíla smitar ljótleikanum á umhverfið sem verður óaðlaðandi. Þetta er að vissu marki staðhæfing sem er studd af atferlisrannsóknum sem sýna að gangandi og hjólandi fjölgar þar sem bílum hefur verið úthýst.

Þórður Ben Sveinsson myndlistarmaður hélt því fram að Ármúlinn í Reykjavík væri ljótasta gata í Evrópu. Þetta sagði hann fyrir rúmum 20 árum.

Gatan þótti ekki ljót vegna húsanna sem stóðu við hana heldur vegna þess að breidd götunar og húsahæðir gáfu fyrirheit um að eitthvað svæði væri afgangs fyrir fólk eða gróður. En svo er ekki. Það olli listamanninum vonbrigðum. Allt svæðið milli húsanna er fyllt með bílum. Þarna eru bílar út um allt.

20 árum síðar endurtók sagan sig eins og engin reynsla hefði safnast í sarpinn. Við Borgartúnið stendur röð skrifstofubygginga í alþjóðlegum stíl og svo „vegasjoppa“. Byggingarnar standa sperrtar uppúr bílastæðaflæminu sem gerir allt umhverfið óaðlaðandi. Þetta er auðvitað skipulagsafglöp sem virðast gerð með fullri vitund og vilja allra þeirra sem að standa, skipulagsyfirvalda, húsbyggjenda og ráðgjafa þeirra.

Þessi einkabílavæðing og það rými sem henni er skapað er ótrúleg. Það er óskiljanlegt að Reykjavíkurborg skuli skipuleggja sig þannig að forsenda fyrir búsetu þar sé að íbúar hafi einkabíl til afnota. Þessi stefna er bæði forneskjuleg og óskynsamleg.

Dæmi um skipulagsleysið er að stærstu matvöruversanir vesturborgarinnar eru staðsettar á hafnarsvæði út í Örfirisey  og kallar því á einkabíl vilji maður versla í matinn, eins og það sé valkostur.

Það er fullyrt að í engri borg í heimi séu jafn margir bílar á hverja 1000 íbúa og í Reykjavík  Það hefur komið fram opinberlega að Reykjavík er eina höfuðborg norðurlandanna þar sem fleiri bílar eru á hverja þúsund íbúa innan hennar en í hinum dreifðu byggðum landsins.

Hinsvegar er rétt að árétta að það er ekkert á móti því að fólk hafi einkabíl til umráða en hann á ekki að vera forsenda fyrir búsetu í borginni frekar en mótórbátur eða vélsleði!!

Það tekur langann tíma að snúa af þessari stefnu.  Sigrún Helga Lund sagði í Kastljósi RUV í gær að þessu þyrfti að breyta. En það tæki tíma. Þetta væri eins og að snúa fullhlöðnu 300 þúsund tonna olíuskipi. Það gerir maður ekki á einu augnabliki. Ég vil bæta því við að skipulagsyfirvöld máttu vita hvert stefndi strax uppúr 1960 og áttu fyrir löngu að vera búin að taka í stýrið.

Slóðina að umfjöllun Kastljóss er að finna hér:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4544935/2010/09/22/1/

Biladrasl

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Örnólfur

    Ofurgnóttarárin fyrir hrun voru ár bíladýrkunar og endalaus var innflutningur alls konar afbrigða úr bílaflórunni. Áhugalausir á eldri drossíum, í góðum gír, voru litnir vorkunnaraugum og fengu líka stundum glósur.
    Kristalgljándi svartir ofurjeppar, í forgrunni þrívíddarteikninga, stungu oft fyrst í augu, eins og þeir væru trygging fyrir því að um magnaða og vandaða hönnun væri að ræða. Það var t.d. magnað sjá skærrauðan -Ferrari- í forgrunni fjarvíddarteikningar af félagslegri byggingu.
    Í útsýnisflugi yfir Borgarlandinu, með svissneskum kollega í sólskinsblíðu og logni, merlaði saman á hafflötinn og bílahafsflötinn (bónuðu bílaþökin) í Borgartúninu. Svissarinn hafði orð á því hve þetta væri skondin sjón. Mörgum bílaáhugamanninum hefði fundist þetta undurfögur sjón.

  • Það er hægt að taka smáu skrefin fyrst og auka jafnræði samgöngumáta. Við HR var byggt bílastæði fyrir 300 milljónir og lagður vegur fyrir 500 milljónir (skv. fjárhagsáætlun). Lífstíll bílaeigenda við þann skóla var niðurgreiddur um 800 milljónir á einu bretti. Þeir launa það með því að leggja bílunum upp á grasflatirnar næst skólanum.

    Nú er búið að teikna nýjan framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Í forsendunum þar er gert ráð fyrir fjölda bílastæða m.a. í bílastæðahúsi. Bílastæðin þar munu skv. því kosta einhverja hundruð milljóna. Það verður niðurgreiðslan til lífsstíls bílaeigenda þar á bæ. Hann á að rísa í miðbæ Mosfellsbæjar sem er gert ráð fyrir að verði skipulagður með bílastæðum á hverri lóð sem umkringja hvert einasta hús. Og það jafnvel þótt notkunartími bygginga skarast ekki og hægt væri að samnýta bílastæði fyrir mismunandi byggingar í miðbænum.

  • Göturnar vestan Elliðaáa eru fullar af einkabílum. Það komast ekki fleiri slíkir fyrir á svæðinu. Ég tek undir með þeim sem telja að þétta þufi byggðina í vesturhluta borgarinnar. Það er ekki hægt með öllum þessum bílum nema að flugvöllurinn víki. Bíllinn tekur um 50% af landrýminu. Hin leiðin er að þrengja að einkabílnum auka þjónustu almannasamgangna og skapa “borgarumhverfi”. Gísli Marteinn og fl. hafa bent á að byggja íbúahverfi á “efri hæðum” í Skeifunni. Góð hugmynd sem má framkvæma ef bílum fjölgar ekki. Þarna yrði góð byggð í næsta nágrenni við atvinnusvæðin í Múlahverfinu og Sundahöfn með aðgang að góðum útivistarsvæðum í Laugardal, Fossvogsdal og Elliðaárdal. Þarna er hægt að byggja íbúðahús fyrir nokkur þúsund manns. En það er ekki hægt að bæta tilsvarandi álagi á gatnakerfið með sömu stefnu í samgöngumálum. Þótt gaman sé að fara á bílasýningar þá er stefnan hér í borginni í samgöngumálum kolröng.

    Guðrún Bryndís misskilur eitthvað. Það er ekki verið að tala um að “losa Reykjavík við einkabílinn”, Það er verið að tala um að hætta að gefa honum allan þennan forgang. Hinsvega er það rétt hjá henni að óhjafnvægið í landnotkuninni vegur þungt og stuðlar að eukinni umferð. LSH vegur mjög þungt í þeim efnum og nú er á að fara að byggja hann á röngum stað.

  • Guðrún Bryndís

    Við gerð skipulags Reykjavíkur er eins og menn og konur hafi verið að flýta sér, uppbygging íbúabyggðar er í austurborginni þar sem borgin getur stækkað landfræðilega, en ‘þétting byggðar’ hefur verið í vesturborginni. Vegakerfi borgarinnar annar ekki þessari umferð, það eru allt að fjórum sinnum fleirri bílar að aka í sömu átt á háannatímum og háannatíminn býr yfir því lögmáli að lengjast.
    Það má snúa þessari þróun við með því að byggja upp atvinnustarfsemi fyrir austan Elliðaár, þ.e. að flytja atvinnu nær úthverfunum og minnka þannig umferð. Ártúnshöfðinn er staðsettur nærri landfræðilegri borgarmiðju, þar er plássfrek starfsemi eins og bílasölur, steypustöðvar, geymslusvæði borgarinnar og smáiðnaður. Það væri hægt að byrja á því að byggja nýjan Landspítala þar, það minnkar álag á vegakerfið og flytur spítalann nær notendum (sjúklingum og starfsmönnum-sem eru stærstu hóparnir). Metnaðarfull uppbygging með þéttingu byggðar má bíða, nú er tækifæri til þess – loksins.
    Ég dreg í efa að fólk vilji losa Reykjavík við einkabíl vestan Elliðaáa, það er þróunin sem fólki lýst ekki á. Það er verið að kæfa borgina í umferð með ójafnvægi í skipulagi og það er þróun sem borgarbúa vilja sjá stöðvaða. Jafnvægi felst í því að hafa val á ferðamáta og að þurfa ekki að ferðast milli hverfa oft á dag til þess að sinna þörfum fjölskyldunnar.

  • Heimir H. Karlsson

    Sæl Öllsömul.

    Ef margir bílar eru ljótir saman, hvers vegna eru þá stórar bílasýningar svona vel sóttar ?
    Ekki er ókeypis inn á þær, nema bílasýningu Fornbílaklúbbsins á Hafnarbakkanum í Reykjavík 17. júní ár hvert.

    Varðandi ljótleika borga, þá finnst mér að arkitekt ætti að líta sér nær.
    Það var fagmenntað fólk sem skipulagði, þ.e. kom með tillögur að þeirri byggð sem er í höfuðborginni núna.
    Skoðið yfirlitsmyndir, til dæmis kynningarljósmyndir í túristabæklingum af borgum í öðrum skandinavískum löndum, t.d Noregi eða Færeyjum.
    Hver er munur á þeim löndum og sambærilegum ljósmyndum frá höfuðborgasvæði Íslands ?
    Mér finnst vanta heidarsvip hérlendis, það sem einkennir hérlendis er kraðak eða stefnuleysi, sem reyndar getur líka verið stefna út af fyrir sig.
    Mér finnst það persónulega ekki fallegt.

    Ég bý í Hafnarfirði, og þar eru allir, líka arkitektar, sammála um, að nýjasta og dýrasta byggingasamsafnið sé mistök. Á ég þá við blokkirnar við Hafnarbakkan í Hafnarfirði. Ekki passa þær við hús í gamla vetsurbænum.

    Svipuð stefna var uppi á Eyrarbakka fyrir nokkrum áratugum, ekki var leyfilegt að byggja hús í sama stíl, þegar eldra brann, þá átti að byggja hús í nútímalegum stíl. (sbr. hús byggt við Eyrargötu)
    Sem betur fer var síðar horfið frá þeirri stefnu, gömul hús gerð upp, og ný hús látin samvara sér við gömlu byggðina.

    Varðandi einkabílinn og allt það neikvæða umtal sem hann má vera fyrir, þá hefur fólk val.
    Svo framarlega sem fólk hefur líkamlega og búsetulega getu til þess.
    Þú ræður hve mikið þú ert tilbúin að greiða fyrir að eiga bíl eða bíla, eða ekki.
    Hvernig ferðafrelsi viltu og þarftu ?
    Getur þú notað aðra ferðamöguleika en einkabíl, ertu með líkamlega getu til þess ?
    Er allt saman þitt eigið val, og einnig nátengt búsetu, vinnu og fleiri þáttum.
    Þú býrð ekki bíllaus á Eyrarbakka og ert sjálfbjarga.

    Ég hef aldrei getað samsvarað mig þeim kostnaðartölum sem meðaltalsrekstur á einkabíl á að kosta.
    Á mínu heimili eru 6 bílar, og erum við 2 í heimili. Fjórir fornbílar og tveir brúksbílar.
    Brúksbílarnir kostuðu undir 100 þúsund krónum í innkaupum hvor.
    Bæði reiðhjólin mín kostuð meira, hvort þeirra fyrir sig.
    Brúksbílarnuir eru engar druslur, Subaru og Nissan Primera með öllu, báðir með fullnaðarskoðun og í fullkomnu lagi.
    Þeir eru 13 0g 14 ára gamlir.
    Ég ek um 5 þúsund kílómetra á ári.
    Við erum einfaldlega ekki tilbúin að greiða nema ákveðna upphæð í rekstur brúksbíla, og getum það eflaust ekki.
    Að vera bílaus krefts ákveðinna fórna, en það kostar líka sitt að eiga einkabíl.

    Óskráð regla varðandi einkabílinn er, að allir bílar eru fyrir, nema þinn eiginn. Líkt og auglýst er í útvarpi, allir eru asnar í umferðinni nema þú.

    Varðandi það, að byggja dreifðari byggð, þar sem allir hafa dagbirtu, sól, yl og staðarprýði.
    Einhvernvegin þarf að koma vöru og þjónustu til þessarar byggðar, og ekki geta allir unnið innan sama byggðarlags, þar af leiðir, ferðalög einstaklingsins, og þau geta eki öll farið fram með almenningssamgönum eða reiðhjóli.

    Þegar kemur að ferðamáta og umræðu um einkabílinn, vinsamlegast verið raunsæ. Annað skaðar umræðuna um valmöguleika tengda örðum ferðamátum.

    Að lokum, Hilmar Þór, er fegurð afstæð ?
    Þykir öðrum fagurt sem flestum þykir ljótt ? Er fegurð háð tíma ?

    Kveðja,
    Heimir H. Karlsson.

  • Hilmar Þór

    Það er freistandi að taka undir svar Helgu við spurningu Árna.

    Í starfi mínu hef ég tekið eftir því að helsti steinn í götu þéttingar vestan Elliðaáa er ekki flugvöllurinn svo dæmi sé tekið. Steinninn er einkabíllinn og rýmisþörf hans og krafan um bílsatæði á hverja íbúð eða vinnustöð.

    Einkabíllinn gerir það líka að verkum að fjarlægð til þjónustu, skóla og vinnustaða er meiri en ella.

    Það er hægt að þétta byggðina verulega og þannig að allir hafi góða dagsbirtu, skjól, leiksvæði og allskonar yndislegheita ef einkabíllinn hefði ekki þann forgang sem honum hefur verið veittur.

    Er ekki kominn tími til að segja við húseigendur og landeigendur vestan Elliðaáa: Byggið eins mikið og þið getið svo framarlega sem allir hafa dagbirtu, sól, yl og staðarprýði. Byggið heilsusamleg hús allstaðar þar sem það er hægt. Við viljum bara ekki fjölga bílastæðum.

    Þá tekur atburðarrásin völdin, þjónustan færist aftur inn i hverfin og almenningssamgöngur aukast.

    Má ekki velta þessu fyrir sér.

  • Helga Guðmundsdóttir

    Eitt af svörunum við spurningu Árna er að heimila mikla uppbyggingu vestan Elliðaáa og banna fjölgun bifreiðastæða og stoppa afkastagetu gatnakerfisins til umferðar fyrir einkabíla. Setja tolla og gjöld á notkun einkabíla vestan Elliðaáa. Það eru margar leiðir til að taka í stýrið á olíuskipinu, en allar róttækar.
    Og í samræmi við það á að kyrrsetja flugvölinn þar sem hann er. punktur.

  • Árni Ólafsson

    Stóra spurningin er: Hvernig er hægt (eða er yfirleitt hægt) að lagfæra bæjarmynd bílaborgarinnar þannig að borgarumhverfið verði það gott/fallegt/aðlaðandi/hentugt að áhugavert verði að fara ferða sinna um það öðru vísi en í prívatbíl?
    Sú borg sem búið er að byggja verður ekki hótinu skárri þótt byggð verði draumabyggð í Vatnsmýrinni. Raunhæfar lausnir óskast.

  • Í fjölmiðlum í gær og í dag hefur umræðuefni færslunnar verið á dagskrá víða eins og komið hefur fram i kommentum hér að ofan.

    Í aðalfréttatíma RUV kl 19.00 í kvöld segir Reynir Jónsson framkvæmdastjóri BS að götur séu ekki hannaðar fyrir almenningssamgöngur! Hér er slóð á fréttina:

    http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547111/2010/09/24/8/

    Er ekki kominn tími til að þeri sem bera ábyrgð svari fyrir sig?

  • Samúel Torfi Pétursson

    „Á hann sér ekki stuðningsmann einhversstaðar annarstaðar en í bílaiðnaðinum sjálfum?“

    Bíddu bara þangað til prófað verður að þrengja að einkabílnum af einhverju viti

  • Menn fara hér víða um sviðið og drepa á mörgum álitaefnum. Það eru fleiri vinklar á þessu máli en ég gerði mér grein fyrir.

    Það sem undrar mig mest er þó það að það virðist sem það vanti talsmenn fyrir einkabílavæðinguna. Einkabíllinn á sér málsbót þó svo að ég hafi leyft mér að vera nokkuð ferkantaður í innlegginu. Það var meira gert til þess að prófókera þá sem eru fylgjandi einkabílnum sem aðalsamgöngutæki í borgum og fá þá til þess að láta álit sitt í ljós.

    En það tjáir sig ekki nokkur maður þeim megin í umræðunni.

    Ætli einhver sem eitthvað hefur að segja í ákvarðanatökunni taki eftir þessu?

    Er einkabíllinn í borgum kannski að syngja sinn svanasöng? Á hann sér ekki stuðningsmann einhversstaðar annarstaðar en í bílaiðnaðinum sjálfum. Og kannsi olíufélögunum.

    Er svo komið að í hjarta sínu vilji allir vera lausir við einkabílinn sem aðalsamgöngutæki í borgum?

  • “Hinsvegar er rétt að árétta að það er ekkert á móti því að fólk hafi einkabíl til umráða en hann á ekki að vera forsenda fyrir búsetu í borginni frekar en mótórbátur eða vélsleði”

    Þetta er auðvitað aðalatriði.

    Það þarf að skipuleggja borgir þannig að billinn sé valkostur ekki forsenda. Gísli Marteinn Baldursson hefur sýnt fram á að næst á eftir húsnæðiskostnaði kemur samgöngukostnaður og í þriðja sæti matarkarfan.

    Þetta sýnir að áætlanir frá 1962 sem Hjalti Þór nefnir voru byggðar á óraunsæjum draumum (sennilega stjórnmálamanna, þó fagmönnum sé um kennt) um einkabílinn sem aðalsamgöngutæki og á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna eins og Guðrún Bryndís bendir á. Bílvæðing heimsbyggðarinnar átti að þjóna hagkerfi USA. Svo einfalt er það. Og við erum enn 48 árum síðar að puðast við að uppfylla þennan draum.

    A hverju er einkabílavæðingin ekki gerð upp á vitrænann hátt líkt og kommonismann, og snúið til betri vegar þar sem einkabíllinn verður í allra eigu sem tómstundatæki eins og flatskjárinn? En ekki sem forsenda lífs hér á höfuðborgarsvæðinu?

  • Guðrún Bryndís

    Til hamingju Reykvíkingar, það er búið að finna upp (reið-)hjólið. Það er búið að finna leið til að bjarga skipulagi borgarinnar með Reiðhjólinu! Til að sýna fram á hversu stórkostlegt þetta farartæki er var framkvæmd tilraun sem fólst í því að endurtaka myndasyrpu sem er notuð í þónokkrum kennslubókum í skipulagsfræðum og sýnir hversu mikið pláss hin ýmsu farartæki taka á götunum. Í syrpuna vantaði reyndar íslenskan raunveruleika – 35 strætisvagna, en strætó með 1 farþega er algeng sjón á götum borgarinnar.

    Lausnin í skipulagsmálum borgarinnar felst ekki í því að allir hjóli, gangi eða noti strætó, færri og styttri ferðir með einkabíl minnka álag á gatnakerfið. Styttri ferðir auka líkurnar á því að fólk ferðist á einkabílum – skipulag borgarinnar ræður vegalengdum sem fólk þarf að fara, þ.e. hversu langt er í vinnu, verslun, þjónustu, skóla, leikskóla, heilsugæslu, spítala. Borgin er þannig skipulögð að flestir þurfa að fara út úr sínu hverfi til að fara í vinnu eða þjónustu, ástæðan fyrir því er eins og Gísli Marteinn hefur bent á sú að um helmingur starfa höfuðborgarsvæðisins er staðsettur vestan Kringlumýrarbrautar.

    Hugmyndafræðin bakvið bandaríska skipulagið er sú að auka framleiðslu bíla og virkar sem innspíting í þarlent hagkerfi. Skipulag borga í Bandaríkjunum miðast við að auka þörf almennings fyrir bílaeign, þarmeð framleiðslu á bílum, sem hefur keðjuverkandi áhrif á hagkerfið.

    Það má velta fyrir sér hvort það hafi þá ekki líka fín áhrif á íslenska hagkerfið. Bílar eru fluttir inn og það kostar gjaldeyri – hverjir græða á því? Það þarf að leggja vegi og halda við umferðarmannvirkjum – er skattpeningum best varið í vegagerð? Það er gert ráð fyrir að stofnbrautir í borginni séu með allt að 6 akreinum í hvora átt til að anna umferð vestur fyrir Kringlumýrarbraut í umferðarlíkönum – Er það metnaðarfull uppbygging eða brjálæði? Svo má ekki gleyma göngum undir Þingholtin, Öskjuhlíð og Kópavog, auk Hringbrautar í stokk – Er það til að höfuðborgin fái líka göng eins og landsbyggðin?

    Er ekki kominn tími til sníða stakk eftir vexti og hætta að skipuleggja framtíð landsmanna eins og við værum a.m.k. 200 sinnum fleirri?

  • Þorsteinn

    Þetta er athyglisvert sjónarmið hjá Árna. Af hverju eiga bæjarfélög að sjá um að skaffa fjárfestum niðurgreiddan strætó?

    Þeir sem leggja peningana sína í þessi hús eiga að meta þetta og taka áhættuna á sig sjálfir. Það er í anda frjálshyggjunnar. Fjárfestarnir þurfa að gera sér grein fyrir því að með svona staðsetningu fyritækjanna þurfa þeir að greiða starfsfólki sínu það góð laun að það geti rekið sinn einkabíl til þess að sækja vinnu sína.

    Málið er bara það að þeir sem byggðu Krepputorgin og Ikeaskemmurnar gerðu það ekki fyrir eigið fé. Heldur fé sparifjáreigenda. Þeir tapa ekki sínu. Það eru sparifjáreigendurnir sem tapa sparifé sínu sem þeir lögðu inn í illa rekna banka.

    Þess vegna eru skipulagsyfirvöld nokkurskonar FME skipulagsmála sem eiga að veita villidýrunum í skipulaginu aðhald. Og þar hafa skipulagsyfirvöld brugðist.

    Krepputorg og Ikeaskemmur má nýta, eins og Árni bendir á fyrir hjólhýsi á veturna og vélsleða á sumrin. En öðru máli gegnir um Náttúrufræðistofnun. Af hverju í andsk……. er hún staðsett þar sem hún er?

  • Árni Ólafsson

    Hvers vegna ættu borgaryfirvöld (stjórn strætó) að ganga undir „fjárfestum“ sem byggja upp bílaborgina? Mega Krepputorg og Ikea ekki missa verðgildi sitt vegna legu sinnar? Breytast í hjólhýsageymslur eða kornhlöður?

  • Hjalti Þór Þórsson

    Í Aðalskipulagi Reykjavíkur frá 1962 segir á einum stað:
    „Það mun ætíð vera nokkur hluti af borgarbúum sem ekki getur ekið bifreið (börn og gamalmenni), og auk þess munu líða allmörg ár, þangað til allir fullorðnir hafa hver sína bifreið.“
    Framtíðarsýnin var einföld og skýr í þá gömlu góðu daga, enda ekki ennþá farið að bera á göllunum sem bíl-miðað þéttbýli hefur. Og borgin skildi byggð með það fyrir augum að þessi sýn gæti orðið að veruleika. Við erum enn að súpa seyðið því að þessi sýn varð að opinerri stefnu því kerfinu er, eins og bent var á, ekki snúið á punktinum.

  • Sigurður Árnason

    Í kvöldfréttum sjónvarps í kvöld, var fjallað um Korputorg og sagt frá því að þangað gengur enginn strætó. Þarna vinnur fjöldi manns og vonandi eiga margir viðskiptavinir þangað einhvert erindi…en enga strætóþjónust er að finna. Þetta er sama dæmið og Þorsteinn talar um að ofan um Náttúrufræðistofnun. Það er sama hvert er litið …allstaðar sama hugsunarleysið og sami skortur á fagmennsku.

    Hvar eru gerendurnir? Af hverju verja þeir sig ekki hér á þessum vettvangi. Þeir lesa þetta sennilega flestir…eða að minnstakosti einhverjir þeirra. Er hér á ferðinni sama syndrómið og þegar þeir sem spurðir eru og bera ábyrgð á Hruninu. Enginn ber ábyrgð. Svarið nú formenn skipulagsnefndanna, Þorvaldarnir, Helgurnar, Salvararnar og þeir ráðgjafar sem að málum komu/a.

  • Árni Ólafsson

    “….. í veðurfari eins og hér ……” var sagt í kastljósinu.
    Einn milljarður jarðarbúa býr við alvöru vetrarríki hluta ársins. Veðurfar hér er með skaplegra móti miðað við mörg önnur byggð ból á jörðinni – og aðstæður hér mun skárri en hnattstaðan gæti gefið til kynna (þökk sé Golfstraumnum, sem enn streymir til okkar, hvað sem síðar verður í kjölfar bráðnunar heimskautaíss að ósk forseta vors).
    Hættum að kvarta yfir veðrinu! Það er gott að búa á Íslandi (talað djúpri röddu).

    En hvaða “viðmið” (eins og það heitir nú) voru höfð til hliðsjónar þegar Reykjavík var skipulögð (önnur en þau að byggja á hæðum og melum þar sem grunnarnir voru ódýrir)?
    Skipulögðu olíufélögin Reykjavík?

  • “ Þetta er auðvitað skipulagsafglöp sem virðast gerð með fullri vitund og vilja allra þeirra sem að standa, skipulagsyfirvalda, húsbyggjenda og ráðgjafa þeirra.“

    Eigum við ekki líka að segja kjósenda sem kusu þetta og annað þvílíkt yfir sig í gegnum árin. 🙂

  • Færri bílastæði, fleiri bílastæðahús!

  • Þorsteinn

    Það er rétt hjá þér Helga að það er varla hægt að telja 10/11 með sem hverfisverslun á matvörumarkaði vegna verðsins.

    Ég gleymdi raunar í upptalningunni 10/11 búðinni sem er staðsett á jarðhæð stúdentagarðanna við Háskólann. Þar er ein. Og sú staðsetning vekur athygli. Okurbúllan sett í nágrenni þeirra sem minnst fjárráð hafa og eiga fæsta bílanna. Með því er fólk nauðugt „látið“ versla í dýrustu verslun landsins!!!

  • „er hægt“ á varla við um 10/11, verðið er þannig.

  • Þorsteinn

    Þarna er ekki alveg rétt farið með. Það er möguleiki að versla í íbúðahverfum vesturbæjarins. Ég nefni Kjötborg, Pétursbúð, 10/11 við Hjarðarhaga og Melabúðina. En það réttlætir ekki þá skipulagsákvörðun að staðsetja matvöruverslanir utan íbúðasvæða eins og gert var þegar Bónus, Krónan og Europris var valin staður á Grandanum utan íbúðabyggðar og ekki í göngufæri.

    Nýlegasta ákvörðunin er að byggja Náttúrufræðistofnun utan allra almenningssamgangna einhversstaðar í Garðabæ. Sú ákvörðun kallar á aukna einkabílaumferð um allt höfuðborgarsvæðið. Manni er spurn: Hvaða forsendur um staðsetningu stofnunarinnar lágu að baki ákvörðuninni?

  • Hitti einu sinni konu sem hafði reynt að skáskjóta sér úr Borgartúni milli húsa með barnavagn. Hún lenti í ólýsanlegum hremmingum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn