Föstudagur 23.10.2009 - 16:05 - 2 ummæli

Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu

 

Johannes Magdahl Nielsen (1862-1941) sem teiknaði Safnahúsið (Þjóðmenningarhúsið) við Hverfisgötu var þekktur arkitekt í Danmörku fyrir réttum 100 árum um það leyti sem húsið var vígt 1909. Það er útbreiddur misskilningur að hann hafi einnig teiknað Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn, hann var hins vegar aðstoðarmaður prófessors Hans J. Holm við hönnun þess.

Safnahúsið var til skamms tíma síðasta opinbera bygging okkar, sem hönnuð var í Danmörku, en á þessum árum tóku Íslendingar sem lært höfðu hönnun húsa að hasla sér völl hér á landi og hafa sinnt þeim verkum hér á landi framundir okkar dag oft framúrskarandi vel. 

Nú hafa danskir arkitektar, af óskiljanlegum ástæðum, aftur tekið til við að hanna hús hérlendis :Tónlistarhúsið, Háskólann í Reykjavík, Skuggahverfið, Hátæknisjúkrahús, Flugstöðina í Keflavík og fl. Ástæðan fyrir þessari óheillaþróun liggur ekki í augum uppi en er runnin að mestu undan rifjum opinberra aðila og er það sérstakt umfjöllunarefni út af fyrir sig.

Þegar Safnahúsið var byggt var steinsteypan að ryðja sér til rúms sem byggingarefni hér á landi. Útveggir hússins eru hlaðnir, en allir innveggir og gólf eru steypt. Allt húsið, sem er 3050 m2, er friðað samkvæmt Húsafriðunarlögum, í A-flokki, sem þýðir að óheimilt er að breyta útliti þess eða hrófla við innréttingum.

Einn félagi minn sendi mér, af gefnu tilefni, gamla þekkta latneska kennisetningu í gær sem hljóðar svo: „De gustibus non est disputandum“ sem má útleggjast „smekk er ekki hægt að rökræða“. Svona latneskar kennisetningar eru svo flottar að manni finnst maður hafi ekki burði til þess að efast um þær. En ég efast um þessa. Ég er þess fullviss að allir geta rökstutt sinn smekk fyrir sinn hatt. Það er hins vegar ekki víst að öllum öðrum falli rökin.

Safnahúsið þykir afar fallegt og er að margra mati eitt alfallegasta hús borgarinnar.  Og af hverju skyldi það nú vera?  Skýringin er m.a að húsið fylgir gömlum grundvallarreglum fagurfræðinnar. Til dæmis er það symmetriskt eða samhverft í grunnmynd sinni og útliti, allar fjórar hliðar þess eru samhverfar. Maðurinn og flest dýr merkurinnar eru samhverf.  Nytjahlutir, húsgögn, bílar  og fl eru samhverf. Sama má segja um fegurstu byggingar aldanna, Taj Mahal, Píramidana og jafnvel fjöll sem þekkt eru fyrir fegurð, Fujiama og Kilimajaro eru næstum samhverf. 

Auk þess er að finna í Safnahúsinu „undirsymmetriur“ í gluggaskipan þar sem gluggar þriggja hæða eru rammaðir inn í flöt sem er nákvæmlega í gullna sniðinu. Til viðbótar er grunnmyndin nákvæmlega tveir ferningar, en ferningur er undirstaða gullinsniðsins.

Í mörgum húsum er eins konar falin þekking eða leyndarmál sem ekki blasa við eins og þær staðreyndir sem að ofan getur.

 

Að ofan er frumteikning Johannes Magdahl Nielsen af suðurhliðinni sem snýr að Hverfisgötu. Endanleg niðurstaða er betri en teikningin eins og sjá má af ljósmyndum hér að neðan. Hlutföllin, gluggaskipan, dyraumgjörð og fl. er mun betra á húsinu sjálfu en á frumteikningu Magdahls. 

Ekki veit ég hver skýringin er. Kannski er það umsjónarmanninum og staðgengli Magdahls hér á landi, Frederick Kiörboe arkitekt, að þakka. Hann sá um bygginguna fyrir hönd Magdahls auk þess sem hann teiknaði önnur verk hér á landi í eigin nafni, svo sem kringluna við Alþingishúsið sem Frederik Meldahl teiknaði í upphafi og Reykjanesvita svo dæmi séu tekin.

Sjálfur kom Magdahl aldrei til Íslands og leit húsið aldrei augum. Þegar frumteikningin er borin saman við  húsið eins og það er nú þá læðist að manni sá grunur að hlutur Kiörboe í hönnun hússins sé stærri en halda mætti við fyrstu sýn.

Gluggar þriggja hæða eru rammaðir inn í flöt sem er hið fullkomna gullin snið.

Þrátt fyrir mikið af fjölbreyttum smáatriðum og gluggagerðum er húsið einfalt og agað.

 

Gamli lestrarsalurinn sem margir sakna

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Kristján Hrannar

    Mér hefur fundist þetta hús um langa hríð vera það fallegasta í borginni. Það er einnig nánast ótrúleg staðreynd að það skuli vera hundrað ára þegar tekið ef mið af ástandi höfuðborgarinnar á þessum tíma.

  • Jóhannes Bergsson

    Glæsilegur texti, smekkur er nefnilega ákaflega ónákvæmt hugtak – en fagurfræði um hana er hægt að ræða og það sem betra er rökræða. Hér má finna marga fleti til frekari umræðu, til dæmis sýna sálfræðirannsóknir það að auga mannsins líkar hlutföll gullna sniðsins umfram önnur stærðarhlutföll í geómetríunni, svo eru auðvitað til mun fleiri hlutfallakerfi – það besta við þau er einmitt þetta sem einn albesti arkitekt síðustu aldar sagði: hlutföllin þau kosta ekkert. Verðugt rannsókanarefni fyrir arkitekta kannski, hvernig stendur á því að mönnum líkar flestum vel við hverfi eins og til dæmis Melana og Norðurmýrina í Reykjavík – húsin eru flest mjög hógvær, gætu það verið hlutföllin í þeim? Alla vega, tel það raunverulega mikilvægt innleg og farsælt upphaf í málefnalegri umræðu um byggingarlist hér á Íslandi að ræða um það sem vel hefur verið gert – þó ekki sé nema vegna þess að í okkar örsamfélagi skortir menn kjark til að gagnrýna hlutina harkalega, hvað þá ef um kollega er að ræða, en aðallega þó vegna þess að af því er hægt að læra og hver veit nema að það leiði til góðs … í byggingum framtíðarinnar? Bestu þakkir!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn