Laugardagur 24.07.2010 - 22:59 - 10 ummæli

“Dýrðin á ásýnd hlutanna”

390_PK22[1]

Það varð á vegi mínum texti eftir Halldór Kiljan Laxness sem fjallar sennilega um arkitektúr og hönnun.  Hann er úr bréfi sem Halldór skrifaði til Jóns Sveinssonar árið 1925.

Textinn er svona með rithætti Halldórs:

“Ekkert snertir mig dípra en hið óbrotna og látlausa sem aðeins á stirk sinn í því að vera það sem það er”.

Þetta minnir á kennisetningu Ludwig Mies van der Rohe um að “Less is more”.

Svo heldur Halldór áfram og segir :

“Það er dírasta gáfa mín að hafa öðlast fagurskigna sál, hæfileikann til að geta miklað dírðina í ásínd hlutanna”

Ég velti því fyrir mér hvor hafi verið á undan, Halldór Kiljan eða Mies van der Rohe að átta sig á því að fegurðin er sterkari í einfaldleikanum en prjálinu. Þarna minnir Halldór á mikilvægi þess að hafa hæfileika eða þekkingu til að sjá og kunna að meta dýrðina í ásýnd hlutanna.

Ég gæti skrifað heila bók um þessa stuttu hugleiðingu Halldórs Laxness. Það býr í henni meira efni en nokkurn grunar. Prófessorinn minn Jörgen Bo taldi að byggingarlist væri list einfaldleikans. Allir funktionalistarnir og  fremstu arkitektar síðustu aldar höfðu þetta að leiðarljósi.

Gaman væri að vita hvað Nonni hugsaði þegar hann las þessar setningar í bréfi Halldórs.

Ég læt fylgja hér með mynd af stól eftir danska arkitektinn Paul Kjærholm, sem var lærimeistari og vinur Árna Þórólfssonar arkitekts. Paul glímdi við hið óbrotna og látlausa alla sína tíð. Hann hannaði hluti sem sóttu styrk sinn í það sem þeir eru.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • „Að vera, eða ekki að vera“ manneskja er þungamiðjan. Sá sem ekki skilur dýrðina í ásýnd hlutanna er sennilega ekki manneskja,

  • Ritháttur Halldórs er í samræmi við það sem hann er að segja. Öllum óþarfa er sleppt eins og yppsílonum sem eru eins og prjál á ásynd hlutanna.

  • Þorsteinn

    Veit einhver hvenær þessir stólar voru hannaðir? Þeir eru í ætt við Barselonastól Mies van der Rohe frá 1929.

    Getur verið að þeir séu meira en 50 ára gamlir eða frá árunum í kringum 1960?

    Kjærholm var fæddur 1929

  • Árni Ólafsson

    Byggingarlist er fagurfræðileg mótun hversdagslegra hluta – eða hvað?
    En það er svosem í lagi að „lyfta þessu á örlítið hærra plan“.

  • Grein: TÍMARIT MORGUNBLAÐSINS, Hönnun: „Dýrðin á ásýnd hlutanna“ by Sigurbjörg Þrastardóttir, 5 Maí, 2004, bls. 20

  • Já, það má finna mikið um arkitektúr hjá HKL.

    Ég tel að akritektúrinn hafi komist á botninn með byggingu sem er í Róm og sumir kalla „rjómatertuna“.

    Gott dæmi um endurnýjun í byggingalist eru stálvirki frá 19. öld sem áttu ekki að „vera annað en þau eru“.

    Fullyrðing: Góður arkitektúr er góð forðatilfinning.

  • Þetta er gríðarlega flott hjá HKL.

    Bara að orða þá hugsun að hönnun og arkitektúr sæki styrk sinn í sjalft sig. Þetta er einhvern vegin svo manneskjulegt. Maðurinn sækir eingöngu styrk sinn í sig sjálfan. Hann notar líf sitt til þess að öðlast þekkingu og reynslu sem hann einn geymir. Og svo deyr hann aleieinn og yfirgefinn….Og fer með þekkingu sína og styrk með sér. En hann lifir kannski í verkum sínum.

    Mann setti hljóðann við að lesa tilvitnunina og fór að hugsa um lífið og tilveruna…tilganginn.

    Mér dettur í hug byggingar sem sækja styrk sinn í það sem þær eru, t.d. Safnahúsið við Hverfisgötu og Háskólabíó. Eflaust eru þær fleiri en mér datt þessar tvær í hug.

    Kjærholm stóllinn PK22 er gott dæmi úr hönnunargeiranum.

  • Þeir eru margir sem hafa snert á þessu með einfaldleikann. Hér í Ameríku má nefna Horatio Greenough (1805-52) sem skrifaði mikið um þetta efni, sjá t.d. bókina Form and Function. Louis Sullivan (1856-1924) slípaði frasann og byggði hús og háhýsi sem endurspegluðu hann.
    Í Evrópu var þetta mál mikið rætt og nægir að nefna John Ruskin (1819-1900) og svo Adolf Loos (1870-1933) sem skrifað „Ornament and crime.“
    Svo get ég nefnt nokkra Grikki, en læt þetta nægja í bili.

  • @Hilmar Þór Björnsson: ,,Ég velti því fyrir mér hvor hafi verið á undan, Halldór Kiljan eða Mies van der Rohe að átta sig á því að fegurðin er sterkari í einfaldleikanum en prjálinu.“

    Kannski hefur Hemingway verið á undan þeim báðum.

    Og einhver Grikki á undan þeim öllum.

  • Þórarinn Jónsson

    Þetta er viðbót við setningu Mies:

    “Það er dírasta gáfa mín að hafa öðlast fagurskigna sál, hæfileikann til að geta miklað dírðina í ásínd hlutanna”

    Ef enginn kann að njóta er ekkert gaman að gefa.

    Það er víða fanga að leita í texta HKL

    Flott færsla.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn