Sunnudagur 05.12.2010 - 19:56 - 4 ummæli

“Ef þú átt tvo peninga……..”

“Ef þú átt tvo peninga skaltu kaupa brauð fyrir annan og blóm fyrir hinn – brauðið til að lifa á og blómið til þess að lífið sé þess virði að því sé lifað”

Þessi kínversku spakmæli komu í huga mér þegar ég skoðaði loftmyndir Kjartans Sigurðssonar af ýmsum hverfum á höfuðborgarsvæðinu.

Myndin að ofan er af hverfi sem ætlað er fyrir atvinnustarfssemi. Skipulagið er unnið af sérfræðingum og kunnáttumönnum í skipulagsgerð.

Hönnunarferlið hefur fetað langan  veg frá svæða- og aðalskipulagi til deiliskipulags,  húsahönnunar og lóðahönnunar og þaðan til sjálfrar framkvæmdarinnar.  Kjörnir fulltrúar sem eiga að verja almanna hag hafa rætt skipulagið á öllum stigum þess, samþykkt það og að líkindum  þótt það gott og vísa til framfara og góðs umhverfis.

En gleymdist ekki eitthvað?  Gleymdist blómið?  Tilgangurinn með þessu öllu er að búa fólki gott uppörvandi vistvænt umhverfi þar sem öllum líður vel.  Umhverfi sem tekur mið af aðstæðum og gæðum staðarins og skapar staðarvitund í nýju hverfi.  Allir hönnuðir hafa það markmið að styrkja kosti og draga úr göllum svæðisins sem byggja á upp. Hér virðist umhverfðið vera hannað fyrir bíla og önnur efnisleg gæði þar sem notandinn, manneskjan, hefur gleymst. Þarna eru bílastæði en ekki lófastór blettur fyrir manneskju. Hvergi er að sjá gangstétt. Þarna er bara brauð og ekkert blóm.

Hér hafa margir komið að og vonandi allir verið að gera sitt besta. Niðurstaðan blasir við. Kannski er þetta góðærisskipulag og góðærisarkitekitúr þar sem gæðin eru metin með hjálp exelskjala sem allar helstu breytur góðærisþankagangs voru skráðar. Í góðærinu var hagkvæmni hærra metin en huggulegheit og að því gefnu má hugsa sér að þetta hafi verið sú niðurstaða sem stefnt var að. Þetta getur einnig verið afleiðing margskonar forsendna á borð við kröfur um fjölda bifreiðastæða og ákvæði um nýtingahlutfall o.fl.

Þó ég sé ekki með hugtakið “fast architecture” á hreinu þá dettur mér í hug að þetta sé dæmi um hann.

Myndirnar eru fengnar af vefnum ww.photo.is þar sem Kjartan Sigurðsson geymir myndir sínar sem margar fjalla um skipulagsmál. http://www.photo.is/kop/index_9.html

Myndirnar er birtar með leyfi höfundar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Árni Ólafsson

    Einmitt Eiríkur. Enda er samgönguþátturinn lykilatriði í vandræðum höfuðborgarsvæðsins. Bæjarmyndin er mótuð af samgöngum á forsendum einkabílsins – alls staðar. Á sama hátt nýtur bæjarmynd Berlínar þess að samgöngum er hagað á annan veg.

  • EiríkurJ

    Það er nú heldur langsótt að bera saman Smárann í Kópavogi og Podzdamer í Berlin og snúa samanburðinum um ólíkar hugmyndir um bæjarmyndir. Annar staðurinn nýtur gríðarlegra öflugra almenningssamgangna í neðanjarðar lestakerfi en hinn alls engra. Og þar með er engin von til að útkoman verði á nokkurn hátt sambærileg. Hins vegar er hægt að hanna misljót og óaðlaðandi bílastæði, þar á það sama við og í hönnun húsa.

  • Árni Ólafsson

    Þessi umhverfisfátækt sést einnig í „fínna” umhverfi s.s. verslunarmiðstöðvum – jafnvel þeim sem eru í meintri miðju höfuðborgarsvæðisins og var ætlað að verða að nýjum miðbæ. Mér finnst athyglisvert að bera saman svipuð viðfangsefni úr Kópavogi og Berlín þar sem byggð voru á sama tíma þétt borgarhverfi á grunni ólíkra hugmynda um bæjarmynd sbr. meðfylgjandi myndir.
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Podzdamer-Smara1.jpg
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Podzdamer-Smara2.jpg

  • Guðmundur

    Þegar myndin er tekin var greinilega offramboð af bílastæðum. Ef fækkað væri um 2-3 bílastæði á hverri lóð og þar kæmi gras og gróður væri þetta mun skárra. Enn aldrei verður það gott. Menn hafa verið að hraða sér og ekki gefist tími til að hugsa sig um.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn