Fimmtudagur 26.05.2011 - 11:03 - 10 ummæli

“Grenjavæðing” miðborgarinnar heldur áfram

Lesandi síðunnar hefur vakið athygli mína á að enn eitt húsið í eldri hluta Reykjavíkur sé að slummast. Það er húsið nr. 34 við Baldursgötu sem hefur verið yfirgefið. Í fyrrihluta maímánaðar varð húsið mannlaust og strax i framhaldinu voru rúður brotnar og negld spjöld fyrir alla glugga. Augljóst er að eigendur hafa ekki hugsað sér að nota húsið frekar og hafa því tekið þá eðlilegu ákvörðun að hætta öllu viðhaldi.

Í að minnsta kosti 6 ár hefur húseignin við hliðina,Baldursgata 32 staðið auð og verið í niðurníðslu.

Ef horft er á deiliskipulagsuppdrættina að neðan sést að eini staðurinn á reitnum þar sem hús eru látin grotna niður er einmitt þar sem fyrirheit er gefið um mikla uppbyggingu. Annarsstaðar á reitnum er húsum haldið við.

Hvernig stendur á því að svona er að gerast víðsvegar í miðborginni?

Í bókinni“101 TÆKIFÆRI” eftir Snorra Frey Hilmarsson  er gefið svar við spurningunni í kafla sem heitir “Grenjavæðing” þar sem hann spyr sig hvers vegna ágætustu hús, sem gætu verið hin mesta bæjarprýði verða eitt af öðru í niðurnídd skör?

Hann telur að við gerð deiliskipulaga verði oft til aukinn byggingaréttur sem gengur kaupum og sölum. Bankar lána út á byggingaréttinn svipað og út á óveiddan fisk í sjónum.  Þetta endar svo með því að útilokað er að það borgi sig að kaupa húsin og gera þau upp vegna spáverðs og skulda sem vilja koma í kjölfar skipulagsins. Þegar þannig stendur á borgar sig ekki að halda húsunum við og þau sett í skammtímaleigu. Þannig  drabbast þau niður og verða nær ónýt.

Það koma margir að gerð deiliskipulags og oftast sérfræðingar sem eiga að kunna sitt fag. Ekki veit ég hver er ástæðan fyrir því að þetta fer svona í Reykjavík.

Samkvæmt skipulaginu sýnir teikningin að ofan núverandi ástand reitsins.  Þarna virðist reiturinn vera losaralegur og að það vantar hugsanlega einhver „innfill“ í götulínurnar við Freyjugötu og Þórsgötu. Reiturinn virkar reyndar þéttari og betri þegar göturnar eru gengnar en á teikningunni. Þá virðist hann í sæmilegu lagi og í harmoníu við umhverfið þó ýmislegt megi bæta.

Nauðsynlegt er að gera deiliskipulag af reitum sem þessum. Ekki vegna þess að það standi fyrir dyrum mikil uppbygging, heldur til þess að íbúar húsanna þarna og eigendur þeirra hafi einhverja vissu um framtíðina. Með slíka vissu er komið svigrúm og kvati til þess að fjárfesta í viðhaldi og breytingum eigna. Óvissan er dauð hönd á hverfi sem þetta.

Hugsanlega gæti stefnan verið að gera götumyndir heillegri. Tengja Freyjugöturóló húsagörðum betur þannig að aðgengi að þessu fína opna svæði yrði betra.  Þá mætti leyfa litlar viðbyggingar, kvisti og 2-3 “innfill”. Annað ekki. Þá væri þetta yndislegur reitur með trausta framtíð.

Af skipulagstillögu borgarinnar frá árinu 2007 má lesa að ákveðið var að fara aðra leið. Stefnt var að gera róttæka breytingu á reitnum.  Hátt í tug húsa eiga að víkja fyrir stærri húsum en engin sérstök áhersla á að gera götumyndir heillegri. Fyrir þessari skipulagstillögu liggja vonandi góð skipulagsrök sem  byggja á faglegri  stefnu, hugsun og innsæji.

Á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti frá því í janúar 2009 lítur reiturinn svona út. Ekki veit ég hvað veldur þessari miklu breytingu sem orðin er á tveim árum.

Þegar tillögurnar frá 2007 og 2009 eru bornar saman vakna margar spurningar um stefnu eða stefnuleysi. Hver voru hin faglegu rök fyrir mikilli uppbyggingu í fyrra tilfellinu og svo hver eru rökin fyrir því að minnka magnið svona mikið og af hverju er einungis lögð til aukning á lóðunum Baldursgata 32 og 34?

Svo er það ráðgátan um hverju það sæti að einungis húsin á lóðunum sem má breyta eru í niðurníðslu. Í öðru tillfellinu mun það vera vegna veggjatítlna en af hverju er Baldursgata 34 nú að fara sömu leið? Sennilega eiga hinir sjálfumglöðu bankar góðærisins einhvern hlut að máli en ég er hugsi um sjálft deiliskipulagið.

Sjá eftirfarandi:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/02/09/gildistimi-deiliskipulaga/

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/20/nidurnidd-hus-i-midborginni/#comments

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Sveinbjörn

    Bendi á pistil eftir Hjálmar Sveinsson þar sem hann skýrir málið að nokkru:

    http://blog.eyjan.is/hjalmarsveinsson/2011/05/13/engin-heimild-fyrir-nidurnidslu/#comments

  • Hilmar Þór

    Vegna upplýsinga frá Stefáni Benediktssyni um að breytingarnar milli 2007 og 2009 séu gerðar í kjölfar mótmæla íbúnna þá vaknar spurningin hvort borgin hafi ekki haft nægjanlega sterk skipulagsleg rök fyrir uppbyggingunni, metið reitinn vitlaust og álitið hann bera meira en hann gerði eða ekki lesið reitinn á sama hátt og þeir sem þar búa og þekkja vel til. Munurinn á tillögunum tveim er of mikill til þess að flokka breytinguna undir venjuleg viðbrögð við mótmælum.

    Spurningin er hvaða skipulagslegu rök í þessu umhverfi kölluðu á þá tillögu sem lögð var fram 2007 og aftur má spyrja hvaða rök höfðu mótmælendur sem viktuðu þyngra en skipulagsleg rök sérfræðinganna og forsendur deiliskipulagsins.

    Ég veit ekki hvernig er unnið þegar deiliskipulag í miðborginni verður til. Ég geri ráð fyrir að það sé unnið í einhverju samráði –vinnu við fulltrúa íbúa. Kannski í einskonar “Design Down Prosess”.

    Ég trúi ekki að deiliskipulagið sé unnið eins og aðalskipulag, ofanfrá og niður eins og það komi frá Guði. En miðað við breytingarnar á umræddu deiliskipulagi milli 2007 og 2009 er það sennilegt að íbúar hafi ekki komið að forsögninni.

    Bendi á tengil:

    http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/09/13/kemur-adalskipulagid-fra-gudi/#comments

    Svo í lokin vil ég taka undir með Ingólfi og biðja Aron um að vera málefnalegri eða sleppa því að tjá sig geti hann ekki betur. Það eru eimitt komment af þessu tagi sem koma óorði á jafn ágætan, hraðvikan og gagnvirkan miðil og bloggið er

  • Lilja Gunnarsdóttir

    Það er misskilningur að tekið hafi verið tillit til íbúa í kring um Baldursgötu 32 og 34. Er það „lýðræði“ þegar hverfi þarf að verjast gegn borgaryfirvöldum? Margir eigendur húsa á Baldursgötureit mótmæltu á sínum tíma tillögunum frá 2007 því þeir vildu ekki stækka við sig sjálfir né bjóða braskinu heim.
    Maður hlýtur að spyrja hvers vegna borgaryfirvöld leggja til aukið byggingarmagn í andstöðu við eigendur húsa og íbúða á svæðinu.

    Kynning á þeirri tillögu fór auðvitað eingöngu fram innan reitsins svo til dæmis þeir sem bjuggu norðan megin Þórsgötu áttu ekkert að fá að segja þrátt fyrir að nýbyggingar sem mætti byggja eftir þeim uppdrætti gætu haft af þeim allt sólarljós og útsýni. Þessi tillaga frá 2007 var auðvitað bara pöntuð af eigendum Baldursgötu 32 og 34 til að seinni tillaga liti út eins og málamiðlun, enda var hún unnin áður en húsakönnun fyrir reitinn var gerð og er mjög á skjön við hugmyndir um verndun byggðarmynsturs.

    Auðvitað vilja allir nágrannar Baldursgötu 32 sjá húsið burt og nýtt hús í staðinn, það er enginn á móti nýbyggingunum, það eru vinnubrögðin hjá borginni og vanræksla eigenda sem nágrannar gera athugasemdir við.

    Þegar talað er um ómálefnalega sérhagsmuni örfárra þá myndi ég segja að sú skilgreining passaði ágætlega yfir hagsmuni braskarans. Hann hugsar jú bara um að græða fyrir sig og sína og borgin getur síðan sótt örlítið meiri gjöld út frá uppbyggingunni. Hagsmunir hverfisins hafa algjörlega verið í öðru sæti og nágrannar hafa verið ótrúlega þolinmóðir þrátt fyrir að húsin hafi breyst í brunarúst og dópgreni. Það er misskilningur að hlustað hafi verið á nágrannana því einmitt þvert á móti, þá er þeim sjaldnast svarað.

  • Ingólfur

    Hef nú einungis notið þess að lesa hér frábæra pistla og athugasemdir í gegnum tíðina en get nú ekki orða bundist.
    Aron !!!
    Vinsamlegast haltu skoðunum þínum fyrir þig ef þú hefur ekkert málefnalegra fram að færa en þetta. Þetta er sennilega einn af fáum athugasemdaþráðum á vefnum þar sem menn reyna að vera málefnalegir.
    Ég er sjálfur lattelepjandi listunandi frá landsbyggðinni og finnst illa að mér vegið og einnig mörgu ágætu Samfylkingarfólki sem hvorki drekkur latte né hefur áhuga á listum.

    Þetta er auðvitað flókið mál en það er hins vegar ljóst að eignaréttur fólks er sterkur og þá einnig réttur þeirra til að fara illa með eigur sínar. Auk þess er Reykjavík ekkert öðruvísi en aðrar borgir (eða stórir bæir) erlendis þar sem hverfi eða hlutar af hverfum ganga í gegnum tímabil endurnýjunar með tilheyrandi grenjavæðingu. Það eru svo alltaf á endanum peningar sem stjórna ferðinni og við megum nú ekki alveg fá ælupestina yfir því að einhver vilji hagnast á einhverju sem hann á, þrátt fyrir að einhverjar skellibjöllur í bönkunum hafi misst sig aðeins þarna um árið.

    Ég er hins vegar sammála Stefáni Ben um lýðræðið í þessu ferli öllu. Þar held ég að fagaðilar hafi því miður ekki staðið nægilega fast á sínu gagnvart pólitíkinni sem alltaf er til í að blessa góðan undirskriftalista og fórna hagsmunum hins hljóðláta meirihluta fyrir ómálefnalega en tilfinningaþrungna sérhagsmuni örfárra.

  • Er þetta ekki bara ágætt, 101 latélepjandi samfylkingar listapakkið fær nú smjörþefinn af því sem landsbyggðin hefur mátt þola.

  • Stefán Guðmundsson

    Þetta er enn ein birtingarmynd góðærisins. Bankarnir lánuð í hvað sem var, hvortheldur var efnislegar fjárfestingar eða skýjaborgir.

    Allir kóuðu með og þar var borgin og skipulagshöfundar engin untantekning. Þetta er ein stór sorgarsaga. Borgin á að sýna iðrun sína, biðjast afsökunar og endurskipuleggja alla þessa reiti að nýju með einhverri hugmyndafræði og stefnu sem er með jarðsambandi og tengslum við rætur eldri hluta borgarinnar.

  • Guðmundur

    Bendi aftur á þessa grein um endurnýjun miðbæjar Newcastle í Ástralíu. Áhugaverðar hugmyndir sem koma þar fram, og almennt held ég að það þurfi nýjan hugsunarhátt í þessum málum:

    „We created new rules, new contracts, and convinced owners to make spaces available for what was effectively barter – we would find people to clean them use them and clean them and activate them and they could have them back if and when they needed them. We stepped outside the default legal framework in which most property in Australia is managed and created a new one. We used licenses not leases, we asked for access not tenancy and exploited the loopholes those kinds of arrangements enabled.“

    http://www.marcuswestbury.net/2011/05/23/cities-as-software/

  • Þessi stefán benediktsson sem hér rita, ekki er þetta Stefán Benediktsson sem var í Skipulagsráði?

  • stefán benediktsson

    Munurinn á tillögum 2007 og 2009 er „lýðræðið“. Við kynningu fyrri tillögu komu fram mótmæli íbúa sem tekið var tillit til og seinni lausnin samþykkt.
    Ég hef áður opinberað skilningsleysi mitt á þeim rökum að ef ég heimila stóra byggingu þar sem lítil er fyrir þá þýði það að sú litla fari í niðurníðslu.
    Ég tel orsök niðurníðslunnar oftast hafa verið sókn manna eftir enn meira byggingarmagni en samþykkt var. Auðvitað hefur þetta ekki verið vísindalega kannað.

  • Jón Guðmundsson

    Mér dettur í hug vísa þórarins Eldjárn:

    „Basl- oft hefur –hagmennskan
    huggun verið mín
    því fagmennskan, ja fagmennskan
    ja fagmennskan er ekkert grín“

    Þetta snýst allt um peninga og „fagmennsku“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn