Miðvikudagur 24.02.2010 - 10:58 - 11 ummæli

“Hvað kom upp úr kössunum?”

 3413054_5teymi1[1]

Nú liggur fyrir niðurstaða í forvali um hönnun Landspítala Háskólasjúkrahúss. 

Niðurstaðan sýndi að forvalsgögnin voru ekki í samræmi við verkefnið, markaðinn eða þá þjónustu sem er í boði á þessum vettvangi hér á landi.  Viðhöfð var slæm stjórnsýsla, fagfélög voru hundsuð og þau sýndu skort á festu og karakter, eins og það er kallað í handboltanum.

Á daginn kom að einungis 7 umsóknir bárust sem er rúmlega þriðjungur þeirra sem sóttu um sama verkefni fyrir 6 árum. En þá áraði mjög vel hjá arkitektum og lítil eftirspurn eftir verkum miðað við ástandið nú.

Í fréttatilkynningu LSH frá í fyrradag segir að meira en 700 íslenskir sérfræðingar séu að baki teymanna fimm sem komust í gegnum forvalið. Ef  útlendingarnir eru taldir með hljóta sérfræðingarnir að vera nálægt 1000. Það má skilja þetta svo að forvalsnefndinni þyki þetta svolítið  góður árangur hjá sér þó þetta sé sennilega 950 sérfræðingum umfram þörf á samkeppnisstiginu.

Þóknunin fyrir þátttökuna er alls 75 milljónir eða sem nemur um 75 þúsund krónur á hvern sérfræðing sem gera aftur tæp 20 þúsund á mánuði á sérfræðing þá mánuði sem samkeppnin stendur

En sem betur fer er þetta ekki svona. Sennilega koma ekki nema eitthvað innan við 50 manns að gerð samkeppnistillagnanna svo launin verða eitthvað skárri.

Ég er ekki að gagnrýna kollega mína á stofunum sem sóttu um. Þeir fara að þeim reglum sem þeim eru settar, tilneyddir, og ég vona bara að þeim gangi sem best í framhaldinu.

Það sem ég er að gagnrýna er það augljósa, að forvalsgögnin voru vitlaus og ekki sniðin að neinum raunveruleika. Teymin þurftu á aðstoð 2-4 erlendra fyrirtækja hvert til þess að fullnægja skilyrðum forvalsnefndar og komast að borðinu. Teymin eru samsett af mörgum fyrirtækjum sem gerir allan ákvarðanaferil í tillögugerðinni mjög flókinn. Einstök teymi samanstanda af allt að 12 fyrirtækjum, sem flest eru af stærri gerðinni. 

Arkitektafélagið lagði til að LSH færi í hefðbundið lögformlegt skipulagsferli með öllum þeim kynningum sem því tilheyra. Að því loknu yrðu haldnar samtímis 5-10 samkeppnir um einstaka hluta spítalans og í framhaldi yrði hann boðin út í sömu hlutum. Fyrst til verkfræðinga og annarra sérfræðinga og síðan til framkvæmda til verktaka. Þetta hefði komi af stað öflugri hreyfingu á ráðgjafa- og verktakafyrirtæki á landinu að mati arkitekta þar sem stór fjöldi fyrirtækja kæmi að verki.

Það er auðvitað ljóst að þeir sem komu að málinu voru að gera sitt besta og voru í góðri trú. Þessi útkoma er óhappaverk sem hefði auðveldlega verið hægt að komast hjá með því að leita ráða hjá aðilum sem hafa áratuga reynslu í því að varða slóð samkeppna af þessu tagi.

En það var ekki gert.

 

Lesa má meira um málið hér:

http://www.haskolasjukrahus.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/frettir/?cat_id=43782&ew_0_a_id=358195

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • 01.03.2010
    Já, ég er alveg sammála, staðsetning nýja Landspítalans (enginn segir lengur Hátæknisjúkrahús, því það var bara plat), ætti að koma öllum landsmönnum við. Látum öll í okkur heyra, ef við erum ekki sátt við hana, áður en það verður of seint. Hvaða áhrif hefur þessar stóru byggingar og umferð á gamla miðbæinn. Þetta er mikið álag, bæði hvað varðar umferð og byggingarmagn. Þolir þessi staðsetning við Hringbraut það?

    Alls bárust sjö umsóknir í forval vegna hönnunarsamkeppni nýs Landspítala. Á kynningarfundi sem verkefnisstjórn nýs Landspítala efndi til nýlega að viðstöddum heilbrigðisráðherra var tilkynnt hvaða fimm hönnunarteymi fengu þátttökurétt í hönnunarsamkeppni um nýjan Landspítala

    Áætlaður kostnaður við nýbyggingu Landspítalans er um 33 milljarðar króna á verðlagi í mars 2009.

    Er þetta rétti tíminn núna, til að byggja hátæknisjúkrahús, þegar verið er að skera alls staðar niður í heilbrigðiskerfinu?

    Ég er hissa á að það skuli vera komið svona langt með hátæknisjúkrahúsið þrátt fyrir kreppu, og staðsetningin finnst mér alveg fráleit. Umferð og aðgengi að sjúkrahúsinu verður að vera gott, þó ekki væri nema til að sjúkrabílar komist auðveldlega að. Svo finnst mér alveg synd að leyfa ekki gamla spítalanum að njóta sín til fulls, sem er ein af fallegustu byggingum borgarinnar. Mér finnst hátæknisjúkrahúsið alls ekki mega rísa við Hringbrautina og reyndar spurning hvort það sé tímabært að reisa það yfirleitt. Verður hægt að reka það?

    Er auðveldara að reka hátæknisjúkrahús? Er betra að loka deildum þar til að spara, eins og gert hefur verið á gamla spítalanum og láta sjúklinga liggja á göngum þess? Eða á það kannski að standa tómt? Ekki þarf færra starfsfólk þar ef allir verða á einbýli. En eins og kemur fram á vef Nýs Háskólasjúkrahúss, segir Hjalti Már Björnsson læknir á LSH / 08. júní 2006:
    Mér vitanlega stendur ekki til að bæta við nokkurri nýrri hátækniþjónustu í hinni nýju byggingu, hins vegar á að stórbæta aðstöðu sjúklinga og aðstandenda. Útrýma á gangainnlögnum og koma á þeirri sjálfsögðu reglu að veikir einstaklingar vistist á einbýli.

    Auðvitað væri það gott að geta boðið sjúklingum upp á einbýli. En einnig gamla fólkinu, sem hefur verið boðið upp á það á hjúkrunarheimilum að vera með öðrum í herbergi, jafnvel í mörg ár en ekki tímabundið eins og spítalavist er oftast.
    Aðstæður hafa breyst, hefur Ríki og Borg ekki tekið eftir því?
    Þegar ákvörðun um byggingu hátæknisjúkrahúss var tekin, voru svokallaðir Símapeningar sem áttu fara í það. Hvað varð um þá? Það var synd að þegar Símapeningarnir voru til (ef þeir voru þá til) og nóg pláss til að byggja við Borgarspítalann, þar sem ráðgjafar höfðu ráðlagt að byggja, var tækifærið ekki notað. Þar hefði verið hægt að byggja meira upp á við og auðveldara að tengja byggingarnar saman. Nú er það ekki hægt lengur, þar sem plássið þar er ekki lengur til staðar, þ.s. aðrir hafa byggt þar. Hverjir réðu því?

    Það má skoða það núna, að reisa hátæknisjúkrahús á einum stað í framtíðinni, þegar við höfum efni á því að reka það. En þá tel ég að Hringbrautin sé engan veginn rétta staðsetningin. Það að hafa Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík nálægt, finnst mér eiginlega engin rök, hverju skiptir það?
    Það er mér algjörlega óskiljanlegt, að ætla að troða þessari stóru og víðáttumikilli byggingu þarna við Hringbrautina, Þessi staðsetning veldur því að byggingin verður að vera lágreistari og dreifðari en t.d. í Fossvoginum. Ég sé fyrir mér alla þessa ganga og ranghala, þar sem starfsfólk þarf að hlaupa með sjúklinga á milli deilda, það hefur sýnt sig að geta jafnvel valdið dauða sjúklings. Nýjustu byggingarnar myndu ná næstum því frá Snorrabraut og að Njarðargötu. Þær sem fyrir eru afmarkast af Hringbraut, Barónsstíg, Eiríksgötu og Snorrabraut. Umferðin þarna í kring er nógu erfið og mikil, þó ekki bætist við umferðin frá Borgarspítalanum líka, en þar er núna verið að biðja um fleiri bílastæði. Bílaumferð vegna Háskólans í Reykjavík hefur þegar bæst við. Alltaf er öllu beint á einn stað, eða sett í sömu körfuna. Væri ekki betra að dreifa umferðinni svolítið og þá í báðar áttir. Þessi staðsetning myndi kalla á Öskjuhlíðargöng. Hún gæti jafnvel kallað á fleiri vegaframkvæmdir, stokka og Holtsgöng. Eitthvað kostar þetta allt saman, og erum við tilbúin að fórna meiru af Öskjuhlíðinni. Nauthólsvegur kostaði um 480 milljónir króna, og fór ekki í umhverfismat. Á að halda áfram og þjösnast áfram með hluti án þess að allt sé upp á borðum. Sumar byggingar sem fyrir eru þurfa að víkja, t.d. Umferðarmiðstöðin og þá þarf nýja annars staðar, er það nýja samgöngumiðstöðin? Eru til peningar fyrir þessu öllu? Það er ekki lengur 2007. Komum í veg fyrir stórt umhverfisslys við Hringbrautina, sem er óafturkræft. Við erum með ágætis hátæknisjúkrahús, nýbúið að bæta við gjörgæsluna í gamla spítalanum, og verið að bæta við bráðamóttökuna og endurkomuna í Fossvoginum.

    Hvernig væri að byggja hátæknisjúkrahús, þegar og ef að því kemur, í Ártúnshöfða (við Björgun), eins og Guðrún Bryndís Karlsdóttir verkfræðingur og sjúkraliði stakk upp á í Silfri Egils þann 8. nóvember 2009 (hægt að sjá á Youtube). Þá væri það í útjaðri borgar eins og Landsspítalinn var 1930, þegar hann var byggður. Aðgengi gott, líka frá landsbyggðinni, og umferðarflæði yrði í báðar áttir. Stundum er betra að byggja nýtt frá grunni, heldur en að nýta og aðlaga gömlu að breyttri aðstöðu, og brjóta niður. Þá væri hægt að byggja hærra upp og nýta betur byggingarreitinn og möguleiki á að stækka við seinna ef þörf verður á.

    Er það forsvaranlegt að reisa hátæknisjúkrahús, sem er sjúkrahús allra landsmanna, þar sem aðgengi er erfitt? Það er ekki nóg að hafa flugvöll nálægt, ef umferðin frá honum er þung. Sjúkrabílar, líka af landsbyggðinni þurfa að komast auðveldlega að. Vilja borgarbúar fórna þessu stóra landssvæði undir svona stórar byggingar, við hliðina á Hljómskálagarðinum og sunnan við gamalgróið íbúahverfi? Sjúkrahúsið verður endanlega á við þrjár flugstöðvar á þessu svæði. Það myndi taka á móti t.d. útlendingum þegar þeir koma frá Keflavík inn í miðbæinn, og öðrum náttúrulega líka. Flýtum okkur hægt og hugsum málið vel og alla leið til enda. Ekki væri gaman, ef framkvæmdir á þessu svæði tæki langan tíma og/eða stæðu lengi ónotaðar vegna fjárskorts, manneklu og fleira. Þetta eru miklir óvissutímar núna. Sumir vilja meina að þetta sé atvinnuskapandi. Jú, kannski fyrir einhverja, en það væri það líka ef sjúkrahúsið væri á öðrum stað og þá væri meiri tími til stefnu og ekki framtíð miðbæjarins í húfi. En væri ekki betra að ráðast í fleiri smærri verkefni, sem væru ekki eins dýr, fleiri nytu góðs af og eru meira aðkallandi, þ.e.a.s. ef þessir peningar liggja á lausu?
    Það er verið að tala um 33 milljarða króna og að gamli Borgarspítalinn yrði seldur fyrir 3 milljarða upp í. Mér skilst að fjöldi lífeyrissjóða hafa boðist til að kosta verkið og vilja fá til baka greiðsur í formi húsaleigu.
    Þóra Andrésdóttir

  • Guðrún Bryndís

    Það er skiljanlegt að umræða um spítalann sé lítil. Það má líta svo á að það séu þrír notendahópar.

    Sá minnsti eru um 200 manns en það eru einstaklingar sem starfa við kennslu, þeirra hagsmunir eru akademískir, þ.e. þeir sinna vísindastörfum sem tengjast heilbrigðisvísindum.

    Annar hópurinn er starfsfólk, þeirra hagsmunir eru laun og vinnuumhverfi.

    Þriðji hópurinn eru svo sjúklingar, það vill enginn vera sjúklingur og því má líta svo á að heilbrigðir einstaklingar vilji helst sem minnst hugsa um sjúkrahús, því þau tengjast sjúkdómum.

    Sá hópur sem borgar fyrir spítala eru skattgreiðendur. Þeir sem eru svo heppnir að þurfa aldrei að nýta sér þjónustu hans eru í raun að þakka fyrir þá gæfu, en hinir taka að sér það hlutverk sem enginn óskar eftir (og fá borgað fyrir það).

    Það eru hagsmunir allra að framkvæmd vegna nýs Landspítala gangi vel. Staðsetningin er einn að þeim þáttum, það þarf að vera gott aðgengi fyrir allra landsmenn og þá skiptir ferðatíminn miklu máli. Það skiptir nærumhverfið máli að þessi mikli byggingarmassi falli vel að umhverfinu og rýri ekki gæði nágrannabyggðarinnar og samgöngumannvirkja sem þjónusta spítalann.

    Í fyrsta áfanga á að byggja 67.000 fermetra sjúkrahús og um 30.000 fermetra heilbrigðisvísindadeild – það er á við ríflega þrjár Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eða fimm Höfðatorgsturna. Í seinni áföngum er gert ráð fyrir að byggingarmassinn á Grænatúnsreitnum verði um 150.000 fermetrar og 7.000 fermetra verslunarmiðstöð.

    Áhrifin sem þetta stóra mannvirki hefur á borgina skiptir alla máli, borgarbúa vegna þess að það er ekki verið að dreyfa atvinnutækifærum um borgina, heldur þjappa þeim vestan Kringlumýrarbrautar. Það þýðir að það eiga sér stað ‘fólksflutningar’ inn í borgina á morgnanna og út úr borginni í eftirmiðdaginn. Það er allt að fjórfaldur munur á fjölda bíla á akreinum á háannatíma.

    Staðsetningin kemur landsmönnum öllum við því ef þeir þurfa á þjónustunni að halda skiptir ferðatíminn máli. Ferðatíminn milli Ártúnsbrekku og Hringbrautar getur verið jafnlangur og frá Selfossi að Ártúnsbrekku.

  • Tek undir með Kristínu.

    Hér á þessu bloggi er fjallað um fagleg efni sem varða umhverfi, hönnun, skipulag og arkitektúr.

    Arkitektar þora ekki að tjá sig.

    Hér er líka fjallað um hagsmunamál arkitektastéttarinnar í heild sinni.

    Og arkitektar þora ekki að tjá sig.

    Það er gengdarlaus doði yfir arkitektum þessi misserin.

    Hvað veldur þessu áhugaleysi arkitekta?

    Ég þakka fyrir þennan vettvang.

  • Góð og mjög svo gagnleg umræða hér í gangi.

    Einkennilegt finnst mér samt hversu tregir íslenskir arkitektar eru að tjá sig um málefni sem þessi. Hvað veldur ?

    Það er eins og það sé einhver hræðsla í gangi við að setja skoðanir sínar fram á obinberum vettfangi sem þessum, eru menn hræddir við að missa spón úr aski sínum ?

    Eitt er þó víst að íslenskir arkitektar hafa skoðun á þessum málum en kjósa að tjá sig ekki. Alveg er ég viss um að stór hluti þeirra les þetta ágæta blogg hérna hjá Hilmari en tjáir sig ekki.

    Hver eða hverjir eru það annars sem halda þessu máli með spítalann gangandi ? Ekki virðist mikil umræða um þetta í samfélaginu. Það er ekki eins og við höfum efni á þessu, þetta sé lífsnauðsynlegt verkefni eða borðleggjandi dæmi.

  • Hilmar Þór

    Athygli mín er vakin á því að í forvalinu 2005 er einungis beðið um einn verkfræðing.

    Sjá ummæli Guðrúnar Bryndísar að ofan.

    É nýafstöðnu forvali er beðið um eina 6 verkfræðinga auk þess að ábyrgðaraðili er verkfræðistofa í 4 af 5 teymanna sem náðu í gegnum forvalið.

    Endurspeglar þetta minnkandi traust forvalsnefndar á íslenskum arkitektum?

    Þessu þarf forvalsnefndin að svara.

    Annars svari hver fyrir sig.

    Líka arkitektastofurnar 16 sem fylla teymin og eru nú að kasta sér yfir tillögugerðina.

    Þetta eru ekki beinlínis góð tíðindi.

  • Pétur Örn Björnsson

    Nægilega tjáði ég mig um allt þetta sorglega mál, undir pistli Hilmars „Niðurstaða forvals um LSH“.

    Mig langar hér aðeins til að taka undir með Jóni Guðmundssyni og þakka þér Hilmar, fyrir eljuna að halda þessum umræðugrundvelli vakandi, ferskum og opnum. Já, þú átt heiður skilinn fyrir það.

  • Guðrún Bryndís

    Í forvali 2005 um samkeppni um skipulag Landspítala voru 200 stig í boði og meðal annars var gáfu eftirfarandi atriði stig:
    Almenn reynslu af skipulagsverkefnum – 15 stig
    skipulagssamkeppnir – 5 stig
    Arkitekt/skipulagsfræðingur -15 stig
    Arkitekt á sviði spítalahönnunar – 20 stig
    Spítalasérfræðingur – 15 stig
    Reynsla af skipulagningu spítala – 30 stig
    Háskólasérfræðingur – 10 stig
    Verkfræðiráðgjafi – 15 stig
    Huglægt mat verkkaupa – 5 stig

    Þessi samsetning ráðgjafa virðist ekki hafa gefið nægilega góða raun, því það var unnið að lausn vegna vinningstillögu í 3-4 ár og nú á að nálgast vandamálið úr annari átt.

    Það er búið að reikna það út að lóðin er nóg og stór, lóðanýtingahlutfallið á að vera 1,00 – 1,01 það er mun lægra en gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

    Ég undrast eins og margur annar yfir því að þekking íslenskra arkitekta sé ekki nýtt betur og að erlend ráðgjöf sé betur til þess fallin að meta séríslenskar aðstæður vegna uppbyggingu sjúkrahússtarfsemi, hún felst aðallega í veðurfari, dreifbýli og fámenni ásamt velmenntuðu fagfólki sem starfa við heilbrigðisþjónustu.

  • Jón Guðmundsson

    Við arkitektar höfum verið iðnir við að grafa okkar eigin grafir. Það er engin furða að bankamenn sem gert hafa stórt upp á bak eru kallaðir „arkitektarnir“ á bak við herlegheitin hverju sinni. Starfsheitið hefur rótfest sig í tungumálinu sem samnefnari allsherjar klúðurs. Þetta getum við kennt okkur sjálfum um. Flestir þjóðfélagsþegnar að okkur arkitektum undanskildum virðast hafa einhverjar skoðanir á skipulagsmálum. Við þegjum yfirleitt þunnu hljóði og þorum ekki að blanda okkur í umræðuna. Fyrir bragðið stöndum við nú uppi sem marklaus stétt. Stétt sérfræðinga sem varla er treyst til að taka þátt hringavitlausum „hátækniáformum“ um mikla steypu stál og gler á umferðareyju við hraðbrautina í Vatnsmýrinni.
    ps.
    Þakka þér fyrir að opna þennan nauðsynlega umræðuvettvang Hilmar, þú átt heiður skilinn.

  • Þetta er allt hið versta mál og greinilegur hali á “Góðærishugsuninni” þar sem allt sem var stórt og svolítið mikið “erlendis” þótti fínt. Forvalsnefndin er ekki lent ennþá eftir góðærishörmungarnar. Það er nánast fullvíst að þessar áætlanir eru allar of stórar fyrir Ísland.

    Nú er það skjalfest að verkefnið er of stórt fyrir íslenska arkitekta og verkfræðinga.

    Það er of stórt fyrir verktaka landsins eins og fram hefur komið.

    Það er of stórt fyrir heilbrigðisstéttirnar og ekki hægt að manna þetta.

    Það er of stórt fyrir gatnakerfið.

    Það er sennilega of stórt fyrir lóðina

    Það er of stórt fyrir ríkissjóð sem ekki hefur burði til að reka sjúkrahúsið.

    Svona má lengi telja.

    Er þetta ekki hið versta „2007“ mál með stórum bókstöfum?

    Enn besti mannkostur sem til er fellst í að kunna að gangast við að vera á rangri leið og breyta um stefnu áður en siglt er í strand. Stjórnvöld þurfa að gera það sem fyrst og hlusta á hugmyndir arkitektanna um að búta verkið niður og sníða sér stakk eftir vexti.

  • Hörður Halldórss...

    Var umferðar (umhverfis) verkfræðingur í nefndinni?

  • Ég velti fyrir mér hvers vegna Arkitektafélag Íslands hefur ekki formlega aðkomu að þessu forvali og á ekki fulltrúa í forvalsnefnd. Þegar við í vinnuhóp AÍ sömdum forvalsreglurnar á sínum tíma, þá litum við til þess sem aðrar þjóðir eru að gera en þar er forvalið hluti af samkeppnisferlinu eins og t.d. hjá NAL í Noregi og RIBA Í Bretlandi. Þar tilnefna arkitektafélögin ráðgjafa sem starfa með verkkaupa og forvalsnefnd á meðan hún er að störfum. Við skoðuðum líka mjög vel hvaða reglur gilda á EES varðandi forvöl en þar er grundvallarreglan að ekki megi mismuna umsækjendum – allir sitja við sama borð.
    Hér er verið að fara einhverja séríslenska leið sem virkar ekki sannfærandi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn