Mánudagur 12.10.2009 - 15:04 - 23 ummæli

“Vegasjoppa” í Borgartúni

 

Að mínu mati skila íslenskir arkitektar frá sér, að mestu, ágætri byggingalist miðað við  nágrannalöndin. Ég hef þá tilfinningunni að það séu fleiri góð hús hér á landi á hverja 1000 íbúa en víða annarsstaðar. 

Öðru máli gegnir um skipulagið.  Þar sýnist mér við vera eftirbátar nágrannaþjóðanna. Það má segja að við höfum verið óheppin í skipulagi undanfarin 25 ár á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega í Reykjavík. 

Dæmin blasa við hvar sem farið er. 

Ég vil taka lítið dæmi af Borgartúni í Reykjavík. Þar standa margar glæsihallir í röð. Sum húsanna eru góð og önnur ágæt.

Það mætti halda að einu skipulagsákvarðanirnar í Borgartúninu hafi verið lóðamörk og nýtingarhlutfall.  Bilið milli húsanna, er óskipulegt, bílastæði og húsahæðir virðast tilviljunum háð. Ekki hefur verið hlúð að útisvæði fyrir þann fjölda fólks sem þarna starfar. Það er eins og húsin rísi uppúr skipulagslausu bílaflæmi og fáir sjást á gangi þegar hugsað er til þess hvað byggingamagnið er mikið og margir starfa þarna. 

Og svo rúsínan í pylsuendanum er „vegasjoppan“. Að hugsa sér að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum lendir vegasjoppa þarna í miðju fjármálahverfinu.  Þetta er frumleg nýjung, sem ekki hefur sést annarstaðar og verður spennandi að sjá hvort New York borg fari að okkar fordæmi og byggi vegasjoppu í Wall Street eða það komi ein slík í City í London! 

Nei, þessi hugmynd borgarskipulagsins verður einsdæmi um víða veröld vegna þess að allstaðar sem ég þekki til er verið að bægja einkabílnum, hægt og rólega út úr miðborgunum með ýmsum aðgerðum. Öfugt við þá þróun sem manni sýnist hér vera við lýði. 

Það er án efa til skýringar á þessari staðsetningu sjoppunnar og skipulaginu öllu en þær blasa ekki við.

Hjálagt eru svo myndir af bensínstöð í miðborg Lisabon. Slíkar bensínstöðvar er að finna víða í borgum Evrópu. Húsakostur er ekki meiri en biðstöð strætisvagna og svo eru 2-3 stæði meðfram gangstétt tekin undir starfssemina.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Kári K.

    Nu kemur fram í Mogganum í gær að það séu 10 sinnum fleiri bensínstöðvar á höfuborgarsvæðinu en þörf er fyrir!!!!!!!

  • Enn ein umfjöllunin

    Það er athyglivert hvað menn skilja ylla þetta konsept

  • Eyjólfur

    Ekki gleyma nýju vegasjoppunni rétt hjá BSÍ og flugvellinu. Kallaður Hrútafjarðarskálinn!

  • Ég sé orðið „háhýsi“ ítrekað í þessum kommentahala. Mér sýnist að í flestum tilfellum sé fólk að tala um eitthvað annað en eina háhýsið við Borgartún.

  • Árni Ólafsson

    Það er hægt að búa til ljóta borg úr fallegum húsum – einnig er unnt að búa til fallega borg úr ljótum byggingum. Þetta er spurning um bæjarmyndina, rýmin í borginni og samhengi þeirra sín í milli – og samhengi húsanna við útirýmið. Borgartúnið er módernískt skipulag með „húsum á bílastæðum” þar sem hver syngur með sínu nefi óháður öðrum. Stikkfrí.

    Þetta er ekki spurning um skipulagsskilmála eða klára arkitekta. Þetta snýst um borgarrýmið og bæjarmyndina – hugtök sem virðast hafa horfið með innleiðingu nútímaborgarskipulags.
    Þetta er vissulega einfölduð mynd – en svona hefur borgin byggst allt frá því að hið móderníska aðalskipulag borgarinnar var gert 1963. Það skiptir engu máli hversu fín og flott húsin í Borgartúninu eru – það verður aldrei til almennileg borg úr „húsum á bílastæðum”.

    Eina dæmið um nútímabyggingarlist hér á landi sem rúmar fjölbreytt og blandað borgarumhverfi er Hamraborgin í Kópavogi (hvað sem hver segir !). Og þar er bensínstöð inni í bílageymslunni á bak við verslanirnar sem eru á jarðhæð íbúðarhúsanna.

  • Hilmar Þór

    Samuel T. Pétursson

    Þetta eru áhugaverðar tölur sem þú upplýsir okkur um. Ég þarf að spyrja þig nokkurra spurninga vegna þessa. Vænt þætti mér um ef þú sendir mér rafpóst á hilmar@stofunni.is.

  • Vegasjoppan er EKKI búin að vera þarna lengur en háhýsin. Þarna lenti saman olíufélaginu, sem vildi ekki gefa eftir lóðina sem það hafði fengið úthlutað fyrir löngu og Nýherja. Og því byggði olíufélagið þarna á hlaðinu, um svipað leyti og Nýherji. Ég reyndi einu sinni að komast fótgangandi gegnum Borgartúnið niður á Sæbraut og gekk hörmulega. Þekki líka konu sem lenti í því sama, með barnavagn! Borgartúnsskipulagið er óttaleg slys.

  • Jens Gíslason

    Það er rétt að vegasjoppan hefur verið þarna lengur en háhýsin. En það er nú einusinni tilgangur skipulagsins að svona slys gerist ekki, að það séu ekki byggðar vegasjoppur þar sem gert er ráð fyrir að háhýsabyggð rísi.

    Svo er nú annað enn brjálæðislegra og nýrra dæmi um vegasjoppu við nýju Hringbraut, 2 hektarar eða svo akkúrat á þeim blett sem ætti að tengja saman kvosina og Vatnsmýrina.
    Og það má svosem rifja upp hér að Esso fékk lóðina fríkeypis (eins og Íslensk Erfðagreining á sínum tíma).

  • Hrannar Hauksson

    Fyrir mörgum árum var ég að vinna hjá Nýherja og átti tal við erlenda businessmenn sem voru í heimsókn frá IBM eða Canon. Þeir voru allir yfr sig hrifnir af því hvernig móttaka fyrir almenning var aðskilin húsinu og alveg brilliant að hafa svo undirgöng yfir í aðalbygginguna!! …urðu svo nett vonsviknir þegar þeir sáu að „móttakan“ var bensínsöð. 😉

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Þetta með vegashoppuna er alveg rétt hjá þér. Og umhverfið í Borgartúninu er hræðilegt. Bæði held ég að þar sé um að ræða lágmarks skipulagsskilmála og lítinn metnað frá hendi skipulagsyfirvalda. Svo er líka hitt að hér virðast arkitektar og viðskiptamenn þeirra sjaldan gera meira en að uppfylla lágmarkið.

  • Hákon Hrafn

    Takk fyrir svarið og glærurnar. Tígullaga Nesborg er semsagt aðalkjarninn. Ég hjóla á morgnana en manni sýnist Kringlumýrarbraut-Hafnafjarðarvegur alltaf vera tómur í suðurátt og Miklabraut í austurátt líka.
    Hvað þyrfti að færa marga vinnustaði frá þessu svæði til að breyta þessu og væri það til batnaðar?
    t.d. ef nýr Landspítali yrði byggður á Vífilsstöðum?

  • Hreint ekki sammála þér að íslenskir arkitektar skili góðum arkitektúr – ekki einu sinni miðað við norðurlöndin. Maður gæti haldið að flestir þeirra hefðu lært í Rússlandi fyrir um það bil 25 árum. Nýbyggingar á Íslandi er nánast 100% ljótar, lausar við karakter og sjarma.

  • Samúel T. Pétursson

    smá viðauki

    Eftirfarandi hlekkur er inn á hluta af kynningu, þar sem sýnir samsöfnun verslunar- og skrifstofurýmis á höfuðborgarsvæðinu, og greiningu á „athafnakjarna“ þess.

    http://www.slideshare.net/Samminn76/samgonguskipulag-vefur-hluti-2-extra-2202455

  • Samúel T. Pétursson

    Góð spurning Hákon.

    Í fyrsta lagi þá er það misskilningur að atvinnustarfsemi og þjónusta eigi sér einhverja þungamiðju í Gamla miðbænum. Af um 1.5 milljón fermetrum sem fer undir slíka starfsemi eru innan við 400 þúsund fermetrar vestan Snorrabrautar. Þungamiðja slíkrar starfsemi hefur færst mjög til austurs og er í raun býsna nálægt þungamiðju íbúðabyggðar í Kringlu/Háaleiti. Þungamiðja athafnakjarnans liggur milli Snorrabrautar og Elliðaárdals, en sá hluti borgarinnar inniheldur um 800 þúsund fermetra. Það breytir þó því ekki, eins og þú segir, að þangað þurfa ansi margir að leggja leið sína eftir þeim fáeinu ásum sem til staðar eru.

    Í öðru lagi þá má segja að gagnlegt sé að dreifa athafnastarfseminni um svæðið m.t.t þess að dreifa umferðarálagi og jafna það. Gallinn er þó sá að þéttur kjarni athafnastarfsemi getur líka virkað sem gott vígi fyrir almenningssamgöngur ef þar blandast saman fjölbreytt verslun og þjónusta sem ekki þarf að sækja annað, og ef þar er rík blöndun við íbúðabyggð. En til að virka sem slíkt vígi má ekki „sleppa bílnum lausum“ með ofgnótt bílastæða og tilheyrandi, sem er raunin í Reykjavík. Hann virkar því lítt sem sterkt vígi. Annar galli er að athafnastarfsemi sækir í miðlægar staðsetningar og að vera nálægt hver annarri. Það getur virkað hindrandi. Trikkið er að stýra ákveðinni athafnastarfsemi á ákveðin svæði eftir eðli hennar. Ætli Hollendingar séu ekki komnir einna lengst með þá aðferðafræði.

  • Hákon Hrafn

    Ég vil gjarnan fá álit Hilmars og Samúels (og fleiri) á skipulagsmálum út frá þessari mynd
    http://www.rokk.is/skipulag/hofudborg_midja.jpg
    Þá er ég aðallega að velta fyrir mér hvort atvinnustarfsemi og þjónusta eigi öll heima í miðbæ Reykjavíkur sem er skv myndinni langt frá því að vera í miðjunni landfræðilega. Þangað eru eiginlega bara tvær meginleiðir á bílum (sem eru úlpur Íslendinga). Eða hvort dreifa eigi starfsemi um svæðið.

  • Magnús Ragnarsson

    Samkvæmt fljótlegri skoðun á netinu telst mér til að það séu um 65 bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma segja tölur að á Manhattan eyju séu 50 slíkar stöðvar til að þjóna 1,6 milljón manna.

  • Samúel T. Pétursson

    Borgartúnshverfið er nú varla verra né betra en flest skrifstofuhverfi sem nýlega hafa byggst hafa upp frá grunni, hvort sem litið er austur eða vestur um Atlantshaf. Ekki síst ef hraðinn hefur verið mikill. Bílflæmisskipulagið fæst þegar saman koma gildandi lágmarkskröfur um bílastæði og óskir byggingaraðila um lágmarks byggingarkostnað per fermeter til að hámarka hagkvæmni byggingarinnar. Það sem gerir Rvk. sérstaka meðal evrópskra borga eru einkum bílastæðaskilmálarnir, sem eru þeir sömu hvar sem gripið er niður í borginni. Og gerir að verkum að svona hverfi getur myndast innan miðborgarinnar.

  • Atli Þór Fanndal

    Frábært blogg, hlakka til að lesa og þá sérstaklega um skipulagsmálin sem eru alveg hörmung á Íslandi. Dýrkunin á stórframkvæmdum er svo mikil að Reykjavík hefur orðið ekkert nema breiðgötur með Rúmfatalegrum allstaðar.

    Ég er nýfluttur heim og þvílíkt sem þessi borg er orðin ljót eftir góðærið.

  • Hörður H

    Hálfgerð musteri þessar bensínstöðvar og nóg af þeim.Þurfa samt ekki að vera svona flottar inn í borginni nóg að hafa litlar“ automat“ stöðvar þar

  • Kristján

    Út frá fagurfræðilegu sjónarmiði finnst mér vegasjoppan skárri en nærliggjandi byggingar. Já, og þarna er löng hefð fyrir vegasjoppu. Wall Street komplexinn kom miklu síðar.

  • Væri forvitnilegt að sjá statistík um fjölda bensínstöðva í Reykjavík miðað við aðrar borgir. Ég keyri framhjá 8 á leið í og úr vinnu. (9 km hvor leið, Sætún – Ártúnsbrekka) Gæti svo farið Miklubraut-Kringlumýrarbraut og valið aðrar 5-8 án mikils króks. Samtals 15-18 mismunandi stöðvar að velja á milli án neinnar fyrirhafnar.

  • Afhverju mega ekki bensínstöðvar líka bara vera á jarðhæð háhýsa ? Dælurnar geta staðið fyrir utan, en verslunarrýmið innum annað verslunarrými.
    Bensínstöðvar eru einhverra hluta vegna alltaf einhverjir kjánalegir frístandandi skúrar.

  • Svartálfur

    held að málið sé að vegasjoppan er búin að vera þarna í áratugi og fjármálahverfið síðan byggst í kringum hana. Þetta hlýtur að vera best heppnaða vegasjoppa landsins

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn