Mér hefur yfirleitt þótt Ólafur Elíasson hugsa eins og arkitekt. List hans gengur oft út á það sama og verk arkitektsins – að fanga rýmið. Hann nálgast verk sitt eins og arkitekt. Það er því þroskandi og skemmtilegt að skoða list hans í því ljósi.
Sennilega á einn helsti aðstoðarmaður Ólafs einhvern þátt í þessari nálgun, en það er Einar Þorsteinn Ásgeirsson arkitekt.
Þó rýmismótun arkitekta sé oft á tíðum vel heppnuð þá vekur sköpun þeirra mun minni athygli en annarra listamanna. Sennilega sökum þess að rýmismótun arkitektanna er gerð á öðrum forsendum en verk listamanna eins og Ólafs.
Fyrir nokkrum árum gerð Ólafur bókina „Your House“ sem lýsir húsi hans í Kaupmannahöfn í mælikvarðanum 1:85. „Lesandinn“ flettir sig í gegnum húsið og skynjar rýmin sem er lýst á 454 síðum sem hver um sig færir hann til í húsinu um 2,2 cm í raun.
Bókin var gefin út í 225 eintökum í stærðinni 27,4x43x10,5 og sýnd á MOMA í New York.
Já, Ólafur og Einar Þorsteinn hafa náð sterkri tengingu við Arkitektúr í hugum margra. Ólafur vann fyrir nokkrum árum verkefni með breska Arkitektinum David Adjaye þar sem um var að ræða tímabundið rými sem spilar með birtingarmyndir dagsbirtunnar. (http://www.creativeurope.com/David_Adjaye_Olafur_Eliasson_A_collaborative_project_in_Lopud_Croatia). Ég mæli sömuleiðis með því að fólk kynni sér verk Adjaye.
Ég sá svo nokkur af minni verkum Ólafs á sýningu í Berlín fyrir stuttu síðan. Öll snérust þau um frumöflin – vatn, loft, ljós, jörð – en alltaf í tengslum við rými.