Sunnudagur 08.08.2010 - 14:04 - 19 ummæli

125-163 arkitektar á bótum

Dubai_byggingarkranar_Photos_jpg_620x1200_q95[1]

 

Í venjulegu árferði hafa arkitektar starfandi á arkitektastofum á Íslandi verið um 330 talsins og farið vaxandi.

Samkvæmt upplýsingum sem mér hefur borist og eiga rætur sínar að rekja til Vinnumálastofnunnar náði tala atvinnulausra arkitekta hámarki í mars 2009 þegar þeir urðu 193 talsins eða tæplega 60% þeira sem voru á almennum markaði. Það sem af er þessu ári hefur talan verið milli 125 og 167  (38-50%).

Þetta segir aðeins hluta sögunnar því fjöldi arkitekta hafa fundið sér störf undan síns menntunarsviðs og aðrir hafa sest á skólabekk eða flutt til útlanda. Ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir að þarna sé nálægt 20% stéttarinnar. Til viðbótar þessu vinna flestir þeir arkitekta sem enn eru við sín störf í hægagangi. Hægt er að leiða líkur að einungis fimmtungur af starfsgetu arkitektastéttarinnar sé nýtt.

Þekkingin sem búið var að byggja upp er í hættu og ástandið er hörmulegt.

Það hefur verið viðurkennt að þegar vinnan minnkar hjá arkitektum þá minnki hún skömmu síðar hjá byggingaverkfræðingum og svo í lokin kemur höggið á byggingariðnaðinn og öfugt þegar verkefnum fjölgar hjá arkitektastofunum þá glæðist starfsvettvangur verkfræðinga skömmu síðar og svo verða umsvif byggingariðnaðarins lífleg í kjölfarið.

Manni sýnist þegar horft er yfir íslenskt atvinnulíf að staðan sé lang verst í byggingariðnaðinum. Í raun má kannski halda því fram að það sé hvergi virkilega slæmt nema þar. Það eru auðvitað erfiðleikar víðar, en þeir erfiðleikar stafa frekar af skuldsetningu en skorti á eftirspurn eftir vinnunni/framleiðslunni.

Hver er lausnin?

Finna þarf lausn og hana er að finna á hinum pólitíska vettvangi. Það er verkefni stjórnmálamanna að koma byggingariðnaðinum á hreyfingu. Stjórnmálamenn þurfa að einhenda sér að verkefninu í stað þess að vera uppteknir af mannaráðningum og ýmiskonar þrasi um fortíðina og keisarans skegg.

Það eru margar lausnir sem huga mætti að til þess að koma hreyfingu á byggingariðnaðinn.

En þær kosta flestar eitthvað til skemmri tíma litið.

Hugsanlegt væri til dæmis að lækka gatnagerðargjöld um 70-80% næstu 4 árin og hvetja þannig fólk til þess að hefja framkvæmdir fyrr en annars. Fólk mundi þá hefja smíði bílskúra og garðskála við hús sín eða jafnvel hefja nýbyggingar. Ráðast í viðbyggingar sem hafa verið á dagskrá. Þetta eru allt smáverk fyrir vinnandi hendur. Afslatturin mun síðan skila sér til sveitarfélaganna í fasteignagjöldum og útsvari vinnandi fólks.

Það er rétt að geta þess að þegar talað er um 330 arkitekta starfandi á arkitektastofum þá eru þeir sem vinna hjá ríki eða sveitarfélögum ekki taldir með.  Þar hafa lítið verið um uppsagnir. Nánast ekkert í samanburði við hinn almenna markað.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Guðmundur Guðmundsson

    Leiguhúsnæði

    Hvernig væri nú að nota þessa ládeyðu i byggingariðnaðinum til að huga að byggingu leiguhúsnæðis ? Leigumarkaðurinn á Íslandi hefur alltaf verið með anda villta vestursins svífandi yfir vötnunum og sama má segja um byggingarmarkaðinn.
    Það eru til nógir peningar í bönkunum ,nóg af mannskap og tækjabúnaði til að byggja, og nóg af byggingarlandi. Allt íbúðarhúsnæði var á síðustu árum byggt dýrt til að selja dýrara í anda Villta vestursins. Hverfin á Rauðavatni og í mosó eru gott dæmi um þetta.
    Nú gætu lífeyrisjóðir, verkalýðsfélög og sveitarfélög tekið sig saman og hannað leiguhúsnæði sem má byggja úr stöðluðum einingum og fella inn í þá byggð sem fyrir er fyri vestan Elliðaá.

    Til að byrja með má byggja módel í skala 1 af íbúðunum og hafa til sýnis í td. Smáralind. Þannig geta væntanlegir íbúar mátað áður en hönnunargallarnir eru steyptir fastir.
    Það er vantar húsnæði sem er byggt ódýrt til að búa ódýrt í. Sem er hannað með þarfir íbúanna í huga, frekar en byggingarverktakanna.
    Það er löngu orðið tímabært að koma upp siðmenntuðum leigumarkaði á Íslandi.

  • @Ólafur Gísli Reynisson.
    Ég minntist hvergi á opinbera starfsmenn, þannig að það sé á hreinu.
    Og hvergi segi ég að opinberir „ríði feitum hesti á sínum launum.“

    Það vita hins vegar allir sem vilja vita að það þarf að „trimma“ kerfið niður.
    Það er orðið of-vaxið og það þarf því að taka um það heiðarlegan „debat“.
    Hér hrundi allt … og það tel ég hafa verið í og með vegna andvaraleysis kerfisins … ég er Ólafur að tala um ríkis-valda-kerfið og stofnanir þess.

    Já,vegna þess að það var orðið ofvaxið og værukært, en afneitar því nú.

  • Ólafur Gísli Reynisson

    Takk fyrir góða pistla og góð ummæli en mikið þreyttu ummælin „Hið opinbera lifir samt enn í vellystingum pragtuglega“. Ef átt er við starfsmennina, þá er þetta í fyrsta sinn sem ég heyri að þeir ríði feitum hesti á sínum launum. Ef átt er við það kerfi að hjálpast að við að gera hluti, sem fáir vilja né geta borgað úr eigin vasa, þá er það kerfi bara ég og þú og allir hinir en ekki eitthvert skrímsli, sem lifir „í vellystingum praktuglega“

  • Vegagerð er partur af bygginga- og mannvirkjageiranum þannig að þetta er nú smá þversögn hjá þér. Ég tek hins vegar undir að það eru of margir bílar á hverja 1000 íbúa en að bera sig saman við Köben eða Stokkhólm er bara bull. Þekki þær borgir vel (sérstaklega Stokkhólm) og það er engu saman að jafna.

    Á móti kemur að Reykjavík er bílaborg og það eru mjög mörg ár síðan það var ákveðið (með eða ómeðvitað) þannig að það er nú í best falli hægt að bæta ástandið en ekki leysa vandan.

    En Hilmar er ekki bara aðal-málið að vinna manna sé sem stæstur hluti af heildar-kostnaði en ekki það að ekki eigi að stunda stór viðhaldsverkefni. Lítil verkefni eru góð til þess að auka vinnu en þetta er mjög einfaldað hjá þér, að mínu mati.

    En þessi málaflokkur hefur verið í ólestri frá upphafi þannig að það er nú ekki hægt að búast við miklu, allra síst núna.

  • Arkitekt skrifar

    Arkitekt skrifar, svarar´Magnúsi sem segir: „„Bílaeign landsmanna og umferð mun fara minnkandi á komandi árum“ þetta er í besta falli órökstutt en líklegra er að þetta sé þar að auki rangt.”

    Þetta er hvorki órökstutt né rangt.

    Bílaeign á hverja 1000 íbúa var 430 hér á landi árið 1994 en voru 660 árið 2008. Í Reykjavík 2008 voru samtals 680 bílar á hverja 1000 íbúa. Í Stokkhólmi 345 og Kaupmannahöfn tæpir 200.

    Ergo: Það eru allt of margir bílar á Íslandi.

    Með betra borgarskipulagi og auknu og betra almenningsflutningkerfi mun bifreiðum fækka og umferð minnka á komandi árum.

    Það er algerlega röng forgangsröð að verja milljörðum í vega- og gangnaframkvæmdir þegar byggingaiðnaðurinn er nánast stopp.

  • Hilmar Þór

    Það er rétt hjá Magnúsi að ég tek nokkuð stórt upp í mig þegar ég segi að tími stóru lausnanna sé liðinn. Auðvitað er hann ekki liðinn. En í núverandi árferði er ég sammála þeim sem í atugasemdarkerfini telja að rétt sé að einbeita sér að smærri framkvæmdum sem henta smærri fyritækjum. Tími stóru lausnanna kemur þegar árar betur, en hann er ekki núna.

    Og af gefnu tilefni þá er ég fylgjandi trúarbögðum og vil að þeu séu sem flest og geti át sér sambúð í friði og spekt.

    Dennis drepur á mikilvægu atriði sem er samkeppnisfyrirkomulagið. Samkeppnir nýtast vel til eflingar byggingarlistarinnar, dreifingu verkefna og nýliðunnar í hönnunarstéttum. Samkeppnir ganga nánast alltaf vel sé stuðst við samkeppnisreglur Arkitektafélagsins og anda þeirra. Reglurnar eru mikilvægasta stoðin undir framþróun byggingarlistarinnar í landinu.

    Þeir sem hafa fengið það ábyrgðamikla verkefni að stýra samkeppnum verða að skilja anda þeirra og siðferði. Þeir þurfa að skilja bókstaf samkeppnisreglnanna. Það eru auðvitað hið versta mál ef svo er ekki.

  • Varðandi hjúkrunarheimilin 9, sem stendur til að byggja hér á landi, þá vekur það athygli að aðeins eitt þeirra fór í samkeppni á vegum AÍ. Það er heimilið á Eskifirði. Það hlýtur að vera krafa arkitekta að sem flest opinber verkefni fari í samkeppni (eins og lög gera ráð fyrir) á vegum AÍ, þar sem fylgt er þeim skýru reglum sem um þær gilda. Samkeppnisreglur AÍ eru í raun grundvöllur starfsemi AÍ, sem hefur það meginmarkmið að stuðla að góðri byggingarlist í landinu, og ber arkitektum því að slá skjaldborg um þær reglur.

  • Tek undir margt sem fram kemur að ofan og oft mætti vanda betur til hönnunar en reyndin hefur verið en þó eru margar stórkallalegar fullyrðingar settar hér fram án nokkurs rökstuðings eins og

    „Bílaeign landsmanna og umferð mun fara minnkandi á komandi árum“ þetta er í besta falli órökstutt en líklegra er að þetta sé þar að auki rangt. Vegagerð er líka spurning um umferðaröryggi eins og td. tvöföld Reykjanesbraut hefur sannað.

    Ganrýni Hilmars á allt sem stórt er er líka mjög undarleg og líkist frekar trúarbrögðum frekar en staðreyndum en að vísu má segja það sama um margt sem gert var frá 2002-2008. Ef ætlun Íslendinga sem starfa í byggingariðnaði og hönnun (arkitekar og verkfræðingar) er að reyna fyrir sér á erlendum vetvangi (td. eins og Danir hafa gert með góðum árangri) þá skiptir stærðin máli en auðvitað kemur fleira til. 4 manna fyrirtæki hefur bara ekki burði í verk sem tengist alvöru erlendum verkum.

    Annars er þetta svo líka bara spurning um að minka þennan geira um 60-70% miðað við 2007 og stunda bara heima-brúk.

  • Páll Kári

    Flottar hugmyndir á þessu líka fína bloggi.

    Sérstaklega tek ég undir að menntun arkitketa er víðtæk og mætti nýta miklu betur í samfélaginu eins og Hilmar bendir á hér að ofan.

  • Hilmar Þór

    Hér hafa komið margar góðar hugmyndir um atvinnutækifæri fyrir margar vinnufúsar hendur í röðum arkitekta byggingaverkfræðinga og iðnaðarmanna. Það undrar alla sem um þetta hugsa að ekki skuli hafa verið gripið til aðgerða.

    Það sem Borghildur nefnir hér að ofan er einkar athyglisvert. Hugmyndir hennar um aðra nálgun í vegagerð og aðhlynningu að ferðamannastöðum og áningarstöðum er gullkista. Dennis tekur undir þetta.

    Ég vek sérstaka athygli á þann hluta þar sem hún fjallar um stórframkvæmdir og segir: “Við læknum ekkert með sömu meðulum og komu okkur á hausinn á góðæris tímum”.

    Ég er sammála því að tími stóru lausnanna er liðinn eins og Þorsteinn bendir á. Stóru lausnirnar henta okkur ekki og hafa ollið okkur miklum vandræðum. Þær henta ekki okkar þjóðfélagi. Hvort heldur um er að ræða stórframkvæmdir hverskonar, stórverktaka, stórverkfræði- og arkitektafyrirtæki. Tími hinna smáu er kominn aftur. Okkur gekk vel þar til stærðin fór að skipta meiru máli en allt annað.
    Í athugasemdum hafa komið fram fjöldi hugmynda til viðbótar þeim sem Borghildur bendir á.

    Ég nefni þær helstu sem fram hafa komið:
    • Bygging hjúkrunarheimila
    • Byggja íþróttamannvirki við grunn og framhaldsskólana þar sem þau vantar
    • Stórfangelsi í Reykjavík
    • Landsbyggðafangelsi
    • Æskulýðsíbúðir
    • Stúdentagarða
    • Áningarstaði og aðstöðu á ferðamannastöðum
    • Aðkoma arkitekta að hönnun vegaframkvæmda og skipulagi áninga og áfangastaða. Dennis talar í sinni athugasemd um “ferðamennavegi”
    • Klára Verk- og raunvísindahús Háskóla Íslands
    • Liðka fyrir framkvæmdum einkaaðila með því að gefa afslátt á gatnagerðagjöldum næstu 4 ár eða svo.
    • Hefja hönnun Listaháskólans (við Sölvhólshötu)
    • Klára að hanna og byggja hús Verk- og raunvísindahús Háskóla Íslands við Suðurgötu.

    Þetta er það helsta sem komið hefur fram í athugasemdum lesenda síðunnar og það er örugglega mun fleira sem mætti athuga nánar. Það er bara að láta hugann reika um óplægða akrana og láta sér detta tækifærin í hug. Og svo auðvitað leggja þau á borð með heildarhagsmuni í huga.

    Svo eru mörg göt sem fylla þarf upp í hjá sveitarfélögum og hinu opinbera. Það er t.d. enginn arkitekt hjá Faxaflóahöfnum þar sem mikil skipulagsvinna og umhverfismótun fer fram. Það er enginn hjá Vegagerðinni og alls enginn hjá Siglingastofnun Íslands þar sem starfa hátt á annan tug verk- og tæknifræðinga svo dæmi sé tekið.

  • Maður lyftist bara svolítið upp í andanum
    við að lesa þessar fínu athugasemdir hér
    … og vitaskuld skrif Hilmars á blogginu.

  • Guðmundur G.

    Svo er rétti tíminn núna að biðja Pál Hjaltason og +arkitekta hefja hönnun á Listaháskólanum á lóð sem allir eru sáttir við. Það er lóðin þar sem hluti skólans stendur við núna, Sölvhólsgata. Þar er vinna fyrir 10 arkitekta í 2. ár. Er ekki líka rétt að klára byggingu Verk- raunvísindahúss Háskóla Íslands við Suðurgötu og koma arkitektúrdeildinni fyrir þar?

  • Já norska vegaverkefnið er lærdómsríkt fyrir Íslendinga. Eftir nýlega hringferð um landið má glöggt sjá að víða er úrbóta þörf, vægt til orða tekið.
    Hér eru mörg verk að vinna fyrir íslenska arkitekta og aðra hönnuði. T.d. væri hægt að halda samkeppnir um afmörkuð verkefni. Vegaverkefnið gæti unnist i samvinnu Hönnunarmiðstöð Íslands, sem er í eigu 9 hönnunarfélaga þar á meðal AÍ. Í apríl 2009 hélt Vigdis Lobenz landslagsarkitekt áhugaverðan fyrirlestur í Norræna húsinu um ferðamannavegi í Noregi. Það verkefni var unnið í samvinnu við Norsk Form, sem er hönnunrmiðstöð Noregs. Upplýsingar um norska verkefnið er að finna á heimasíðu FÍLA.
    Ps. Takk fyrir bloggið Hilmar.

  • Borghildur Sturludóttir

    Það er allt rétt og vel skrifað hér á undan.
    Sjálf hef ég reynt að setja mig inní Vegagerðina og þau öfl sem þar ríkja. Sé mikla peninga þar en vinnu á hendi fárra.
    Nýsköpun í opinberum rekstri er eitthvað sem koma skal, nú á tímum þrenginga og sparnaðar. Það hafa birts nokkrir möguleikar en það er eins og pólitíkin sjái það ekki. Nú nýlega var t.d samið frumvarp um einkafélag sem á að sjá um vegaframkvæmdir og heyrir undir fjármálaráðherra. Hér væri fróðlegt að sjá ef ný stjórn sæi leik á borði og réði arkitekta og landslagsarkitekta til að kortleggja hvaða möguleika við höfum í hinum nýju vegum og áfangastöðum. Noregur er dæmi sem hægt er að horfa til en þar á bæ réðust menn í uppbyggingu ferðamannastaða með hjálp vegagerðarinnar í kringum 1990. Væri ekki stórkostlegt að sjá annað og meira en N1 sjoppur eða ferðaklósett á áfangastöðum? Og kannske væri hægt að útbúa hjólastíga meðfram þjóðvegum…
    Landið er fullt af fólki með hugmyndir, sem vantar að fá farveg….og hann fáum við ekki ef það á að halda áfram að „redda“ hlutunum áfram með stórvirkjunum og öðrum „mannfrekum“ framkvæmdum. Við læknum ekkert með sömu meðulum og komu okkur á hausin á góðæris tímum. Við þurfum framtíðarsýn sem gefur okkur eitthvað annað en káta krakka sem dansa fyrir framan Geysi eða Gullfoss.

  • Arkitekt skrifar

    Það liggur fyrir að vegaframkvæmdir kosta mikið og skapa ekki vinnu fyrir marga. Aðalútgjöld vegna vegaframkvæmda er flutingar á efni. Efni er flutt með vélum ekki fólki. Bílaeign landsmanna og umferð mun fara minnkandi á komandi árum. Þessvegna á að stoppa allar vegaframkvæmdir næstu 5-10 ár og nota fjármuni í aðrar framkvæmdir sem skapa vinnu fyrir fólk. Ekki verktaka og verkfæri.

    Það vantar margskonar byggingar sem ríkissjóður þarf að bera kostnað af. Ég nefni íþróttahús við marga grunnskóla og framhaldskóla á vegum sveitarfélaga og ríkis. Fjölda bygginga vantar vegna heilbrygðis- og félagsmála. Stúdendagarða og “ungdomsboliger”. Öldrunarheimili ens og áður er nefnt. Nauðsynlegt er að byggja minnst 5 fangelsi á landinu. Eitt stórt á höfuðborgarsvæðinu og eitt í hverjum landsfjórðungi.

    Stórnmálamenn verða að átta sig á stöðu sinni. Ef þeir hætta ekki að þrasa um “keisarans skegg” taka kjósendur af þeim völdinn og færa Reyni Pétri á Sólheimum forsætisráðherrastólinn eða að hann verði kosinn næsti forseti lýðveldisins eins þegar Jón Gnarr varð boorgarstjóri í krafti þess að atvinnustjórnmálamenn brugðust.

  • Þorsteinn

    Það er af nægu að taka til þess að koma byggingariðnaðinum af stað. Fyrsta reglan er að einbeita sér að litlum framkvæmdum. Litlar framkvæmdir kalla á mikla handavinnu og litla vélavinnu. Þvi er öfugt farið með stóru verkin.

    T.d. eruVaðlaheiðargöng verk sem hentar stórum verktökum með stór tæki. Slíkt verk gagnast fáum og alls ekki arkitektum. Kostnaðaráætlun vegna Vaðlaheiðaganga er um 33 milljarðar.

    Fyrir 33 milljarða má byggja 15 þriggja hliðstæðna heildstæða grunnskóla eða 73 hjúkrunarheimili á borð við það nýja á Eskifirði.

    Ég spyr hvort skapar meiri vinnu og fyrir fleiri, 73 hjúkrunarheimili eða ein Vaðlaheiðargöng?

    Svo er afsláttur eða niðurfelling gatnagerðagjalda stórgóð hugmynd til að örfa byggingaráhuga einkaaðæila.

    Áhriyf Samtaka Atvinnulífsins og stóru verktakanna og stóru verkfræðistofanna eru og mikil og grafa undan eðlilegu atvinnulífi hér á landi. Sérstaklega í byggingariðnaðinum.

    “Fegurðin fellst í smæðinni” eins og Vilmundur heitinn Gylfason sagði.

    Það er rétt að stjórnmálamenn hér á landi sjá ekki verkefnin sem fyrir ligja fyrir sjálfum sér.

  • Guðjón

    Vandamálið er að skipulag fyllyrísárana var skelfilegt þrátt fyrir margar viðvaranir arkitekta og fleiri. Á höfuðborgarsvæðinu var farið í úthverfasvall þar sem hvert nýja Ameríska úrhverfið eftir annað var byggt án nokkurra sjálfbærishugsuna. Núna stöndum við uppi með of mikið af nýju byggingarlandi og úthverfum á meðan fólksfjöldanum fer minnkandi. Stjórnmálamönnum var marg sagt að fólksfjölgunin færi verðmæti sem ekki mætti eyða í úthverfi, en enginn hlustaði. Núna verðum við að súpa seyðið. Það er ekkert meira hægt að bygga. Flugvöllurinn er hér til að vera (handa eigendunum) og það er offramboð af úthverfiseinbýli. Það verða mörg ár í að það verði eitthvað að gera fyrir Íslenska arkitekta. Og það er ekkert víst að það verið eitthvað gáfaðri stjórnmálamenn við stjórn þá.

  • Tryggingargjaldið hefur hækkað og hækkað … Steingrímur fjármála
    segir að það sé gott fyrir sprota-fyrirtækin … eða bíddu við
    … hvaða hendi er í buxnavösum einyrkja og smá-fyrirtækja?

    Hið opinbera lifir samt enn í vellystingum pragtuglega … og þegir og þegir og stein-þegir. Þetta er allt svo yndislegt í boði 1. „norrænu velferðarinnar“ hreinræktu til „vinstri“ … í félagslegum jöfnuði og dásemd.

    Sjáðu bara dýrðina Hilmar, sykursæta dýrðina sem af stjórn-völdum og hirðunum stafar. Birtan er svo svakaleg að ég mæli með leppum fyrir augun. Glorían er sannkölluð Gloría í Hallelúja skinhelginnar.

    Takk Hilmar fyrir þína góðu pistla.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn