Sunnudagur 09.04.2017 - 18:34 - 9 ummæli

180 þúsund fermetra nýbygging á 19 dögum!

 

 

Nýlega var byggð 57 hæða bygging í Changsha í Kína sem er alls um 180 þúsund fermetrar. Í húsinu er atvinnustarfssemi fyrir um 4000 manns og einar 800 íbúðir. Þeir kalla þetta Sky City sem á að vera að verulegu leiti sjálfbært. Innan byggingarinnar eru götur, stræti og skábrautir milli hæða sem eru samtals 3,6 kílómetrar að lengd. Þetta er að sögn mjög vandað hús hvað allan tæknibúnað  varðar, með 20 cm einangrun og fjórföldu gleri.

En það merkilæegasta við húsið er að það tók bara 19 daga að byggja það frá því að sökklarnir voru lagðir og þar til flutt var inn í húsið fullbyggt.  Það er að segja að það voru byggðar þrjár hæðir á dag. Eða 440 fermetrar á klukkustund allan sólahringinn. Þetta er auðvitað afrek sem er aðdáunarvert og byggist á góðu skipulagi og því að raða verksmiðjuframleiddum einingum saman á byggingastað.

Hér á landi er þetta öðruvúsi. Allt gengur miklu hægar.

T.a.m. halda Skipulagsstofnun Ríkisins og Framkvæmdasýsla Ríkisins því fram að opnun Nýja Landspítalans muni seinka um 10-15 ár  (til 2033-2038) ef farið væri í að finna nýjan og betri stað fyrir spítalann.  Það er að segja að staðarvalið, hönnunin og framkvæmdin muni taka á bilinu 16-21 ár.  Þetta er ótrúleg áætlun sem var kynnt í haust.  Að baki þessarar áætlunar liggja engin aðgengileg gögn eða mat á óvissuþáttum eða samþættingu verkáfanga eða öðru sem gjarna fylgir svona áætlunum.

Hinsvegar vitum við að úrslit í samkepni um Nýjan landspítala var kynnt fyrir um sjö árum og grunnur verður ekki tekinn fyrr en eftir rúmt ár ef frá er talið sjúkrahótelið. Þá verða liðin 8 ár frá samkeppninni.

++++++++

Neðst í færslunni er áhugavert myndband sem sýnir alla framkvæmdina frá grunni og uppúr það til fólk gat gengið til sinna starfa og á sitt heimili að 19 sólahringa verktíma loknum. Allt ferlið er sýnt á rúmum 5 mínútum.

 

Óhætt er að mæla með myndbandinu hér að neðan.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Þetta er ótrúlegt skipulag. Hönnunin og undirbúningurinn hefur tekið 100 sinnum lengri tíma en framkvæmdin á staðnum!

  • S. Guðmundsdóttir

    Þessi áætlun Framkvæmdasýslunnar og Skipulags ríkisins er dæmigerð fyrir stjórnsýsluna. Áætlunin er algerlega ónothæf eins og staðarvalsskýrslurnar sem gerðar voru fyrir einum og hálfum áratug. Ekkert að marka þetta og ónothæft allt saman.

  • Jón Ólafsson

    Ég hélt þetta væri síðbúið aprílgabb og sló þessu upp á Google. Þetta er allt satt. Það er víða fjallað um þetta tveggja ára hús.

    T.d. hér:

    http://www.telegraph.co.uk/news/picturegalleries/worldnews/11485389/Chinese-company-builds-57-storey-skyscraper-in-19-days-in-pictures.html

  • Guðmundur

    Kínverjar eru bara snillingar. Við getum mikið lært af þeim.

    • Orri Ólafur Magnússon

      Það er æ betur að koma í ljós að allar hagtölur, birtar af kínverskum stjórnvöldum, eru einber uppspuni. Héraðshöfðingjar verða í orði kveðnu og á blaði að skila svo og svo miklum árangri,þ. e. a. s. vexti, til ríkis stjórnarinnar í Peking / Bejing . Reyndar er þetta allt saman bara betrumbætt endurútgáfa á sæluríki Stalíns og hans glæpagengis á þriðja og fjórða áratug liðinnar aldar – með eilítið fínna „makeup“en hjá Sovétklíkunni, enda tækninni í fölsun mynda og talna fleygt fram síðan þá. Einsog fyrrum liggja í dag auðtrúa Vesturlandabúar kylliflatir fyrir lyginni…

    • Hilmar Þór

      Þetta er auðvitað lyginni líkast Orri Ólafur. En verður maður ekki að trúa þessu?

  • Sigrún Helgadóttir

    Þessi tímaáætlun ríkisstofnanananna tveggja standast varla við fyrstu sýn. En þegar haft er í huga hvað menn hafa sluxað síðan samkeppninni lauk árið 2010 þá gæti áætlunin staðist. Hún gæti staðist með áframhaldandi aumingjaskap eins og verið hefur. Ég held ég dragi mig afsíðis og fari bara að gráta yfir vanhæfni þeirra sem hafa tekið þetta mikilvæga mál að sér fyrir þjóðina. Það verður ekki annað sagt en þeir eru fyrir löngu fallnir á prófinu. Fáum bara kínverja til verksins og málið er dautt.

  • Steingrímur

    Á netinu er hægt að lesa að samkeppninni hafi lokið 2010 og að fræmkvæmdir muni byrja árið 2012!

    Það er greinilega engin áhugi fyrir því að byggja á þessum forvolaða stað. Annars væri þetta löngu byrjað og langt komið.

    Sjá: http://bjsnae.is/wordpress/?page_id=6

    • Hilmar Þór

      Já. þetta hefur tafist verulega Steingrímur.

      Ég man eftir því að Gunnar Svavarsson sem fer fyrir Nýr Landspítali OHF upplýsti á stórum fundi í ráðstefnusal Barnaspítalans að framkvæmdir við gatnagerð Nýju Hringbrautar mundu hefjast á Haustmánuðum 2011. Mig minnir að hann hafi nefnt nóvember.

      Þessi töf er mér óskiljanleg.

      Þetta er allt í einkennilegu ferli.

      Kannski er ekki sannfæring fyrir þessu í stjórnsýslunni. Viðhaldsleysi eldri húsa er í ólestri og töfin á nýbyggingum er óskiljanleg.

      En meginefni færslunnar er byggingahraði og skipulag framkvæmda.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn