Laugardagur 12.05.2018 - 18:18 - 10 ummæli

4000 íbúðir í Örfirisey – Bíllaus byggð!

Í Fréttablaðinu í morgun var kynnt hugmynd um uppbyggingu í Örfirisey þar sem lagt er til að komið verði fyrir um 4000 íbúðum í skipulagi þar sem verður lítil eða engin bifreiðaumferð. Þetta hljómar róttækt, sem það kannski er, en þetta er nokkuð þekkt víða i nágrannalöndunum og hefur gefist vel. Þetta er vistvæn byggð sem er í fullkomnum samhljómi við þau góðu meginmarkmið sem fram koma í ágætu núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.

Uppúr 1970 voru byggð mörg svona hverfi í Danmörku undir heitinu „lavt tæt boligbyggeri“ sem gekk út á að setja blokkaríbúðina niður á jörðina og í stað þess að ganga heim til sín um bifreiðastæði stigaganga og svalaganga, gengu íbúarnir nokkurn spotta á jörðu niðri að útidyrum sínum. Ásættanleg vegalengd var tailin allt að 250 metrar.

Undanfarin allmörg ár hafa víða í nágrannalöndum okkar verið byggð hverfi með svipuðu fyrirkomulagi. Þ.e.a.s. að ekki er ekið að útidyrum fjölbýlishúsanna og bílum lagt þar þó bifreiðaaðkoma með sleppistæðum sé nálægt inngöngunum.

Tillagan sem kynnt var í Fréttablaðinu í morgun er í fullkomnu samræmi við megininntak aðalskipulagsins AR2010-2030 þó ekki sé gert ráð fyrir íbúðabyggð á Grandanum á skipulagsuppdrættinum. Með því að koma þessum 4000 íbúðum nálægt helsta atvinnusvæði borgarinnar, miðbænum, eru líkur á því að bifreiðaumferð muni verða minni en ef þessar íbúðir sem vissulega er mikil þörf fyrir risu austar í bænum. Eins og margsinnis hefur verið bent á vantar íbúðir í miðborgina til þess að vega upp á móti öllum þeim atvinnurtækifærum sem þar er að finna og að sama skapi vantar atvinnutækifæri austar í borgina til þess að mæta öllum þeim íbúðatækifærum sem þar eru.

Í stuttri greinargerð með hugmyndinnium bíllausa byggð i Örfirisey er talað um fjölbreytt og spennandi búsetuform sem ekki hafa verið mikið reynd hér á landi. Einskonar búsetusamfélag (e.co-living) sem er skemmtilegt og lifandi. Hverfi þar sem fólk þekkist vegna þess að götur íbúanna krossast á eðlilegan og þvingunarlausan hátt í grenndarsamfélaginu. Þarna gætu t.a.m. verið mjög litlar íbúðir í bland með stærri íbúðum með ýmsum sameiginlegum rýmum svo sem þvottahúsi og þ.h.

Undanfarin ár hafa svona íbúðasamfélög verið byggð víða erlendis.

Þetta er hugmynd sem virkilega er ástæða til þess að skoða alvarlega. Þetta er raunhæft og mun styrkja vesturborgina og gefa líklega um 10.000 manns tækifæri til þess að setjast að í nágrenni miðborgarinnar og lifa borgarlífi í fallegu og góðu umhverfi ef vel tekst til. Það sem gerir hugmyndina sérlega áhugaverða er að hún skerðir á engan hátt hafnarstarfssemina í vesturhöfninni sem er ein stærsta útvegshöfn landsins.

Samfara þessu væri æskilegt að koma fyrir botngöng frá Sæbraut fyrir hafnarkjaftinn út í Örfirisey og þaðan út á Nes. Með þeirri tengingu gæti Kvosin frá Tjörninni að Höfninni nánast orðið bíllaus og umferðaálagið á Hringbraut yrði mun minna. Jafnvel svo að Hringbraut vestan Hofsvallagötu gæti orðið vistgata með seitlandi umferð í stað þeirrar gjár sem nú sker vesturborgina í tvennt.

Þessi hugmynd gæti verið það stutt frá okkur í tíma að hún er vissulega verðugt umræðuefni núna í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna sem standa fyrir dyrum. Þetta er hugsanlega hægt að framkvæma nánast vandræðalaust á komandi kjörtímabili. Maður gæti spurt hvort betra sé að stefna að þessari byggð í Örfirisey innan 4-6 ára eða byggð við Miklubraut í stokk eftir 10-20 ár?

Ég hef heimsótt svona hverfi víða. Þessi hugmynd um uppbyggingu í Örfirisey minnir nokkuð á Sluseholmen í Kaupmannahöfn. Þar eru líklega nokkur þúsund íbúðir við höfnina og milli húsanna eru kanalar svipað og við þekkjum frá Amsterdam og seitlandi umferð gangandi, hjólandi og akandi á götum og stígum. Lítið eða ekkert er um bílastæði í húsagötunum. Útivistarsvæðin eru inni í húsagörðunum og meðfram höfninni sem virtust mjög líflegir þegar ég átti leið þar um.

+++

Efst er yfirlitsmynd sem sýnir hugmyndina og stax að neðan skýringaruppdráttur. Að neðan koma nokkrar myndi frá Sluseholmen sem skýra sig sjálfar og gefa hugmynd um hvernig þessi nýja byggð á Grandanum gætu mætt auganu. Það ber að taka það fram að tillagan er frekar stutt unnin enda hefur skipulagssvið borgarinnar ekki komið að henni og hún er ekki unnin á kostnað skattgreiðenda eins og tillagan um Miklubraut í stokk, sem kynnt var fyrir nokkrum vikum og virðist strax við fyrstu sýn ekki standast nokkur fagleg viðmið og gengur að hluta gegn meginmarkiðum AR2010-2030 sem átti að breyta Reykjavík úr bílaborg í borg fyrir fólk.

 

Víða eru götur fyrir seitlandi bifreiðaumferð með síkjunum og brýr fyrr gangandi og hjólandi.

Innigarðarnir eru víða líflegir og mikið notaðir í íbúðasamfélaginu.

Gott aðgengi er að sjónum þar sem síkin eru. Gaman væri að fá tengingu úr þessu hverfi „sjóleiðina“ inn á sjálft hafnarsvæð Reykjavíkurhafnar.

 

Að neðan er smáhluti hverfisins sem sýnir gatnakerfið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hef komið í þetta hverfi í Kaupannahöfn, vissulega aðlaðandi en ákaflega dýrt.

    Ekki viss um að það væri auðvelt að endurtaka leikinn hér enda er ólíku saman að jafna, annars vegar stilltur áll í landi með blíðu veðurfari og svo útnes fyrir opnum flóa í stormasömum staði.

    Svona byggð yrði þar að auki mjög veiki fyrir hækkandi sjávarstöðu og hamfaraveðri eins og því sem olli Básendaflóðinu og breytti Seltjarnarnesi í eyju um stund. http://isor.is/1-basendar-basendaflod

  • Ásmundur

    Íbúðabyggð í Örfisey og Miklabraut í stokk eru óskyld verkefni sem ástæðulaust er að stilla upp sem annaðhvort eða.

    Byggð í Örfirisey leysir ekki umferðarvandann né dregur úr mengun sem umferðin um Miklubraut veldur. Þegar hönnun og annar undirbúningur liggur fyrir mun ekki taka langan tíma að koma Miklubraut í stokk einfaldlega vegna þess að truflun á umferð meðan á verki stendur krefst þess að verkið gangi eins hratt fyrir sig og hægt er.

    Íbúðabyggð í Örfisey, ef af verður, ætti fyrst og fremst að miðast við að leysa vanda ungs fólks sem kýs bíllausan lífsstíl. Bílastæði væru því í lágmarki. Góð tenging við almenningssamgöngur er því áskilin. Til að svo geti orðið þarf væntanlega að byggja þétt.

    Með Miklubraut í stokk verður til mikið byggingarland sem myndi henta vel fyrir íbúðir fyrir ungt fólk og aðra sem kjósa að vera án bíls enda væri borgarlínan ofan á stokknum. Þörf á bílastæðum væri því í lágmarki.

    Með Miklubraut í stokk væri Hlíðahverfi ekki lengur skipt í tvennt með þeim hættum sem því fylgir ekki síst fyrir börn sem þurfa að fara yfir Miklubraut í og úr skóla. Mikils virði er einnig að efnamengun og hljóðmengun vegna umferðar yrði úr sögunni.

    Hinn valkosturinn eru hefðbundin mislæg gatnamót . Þau eru hins vegar svo plássfrek að það þyrfti að rífa mikið af húsum og valda þannig miklum umhverfisspjöllum meðan Miklabraut í stokk myndi verulega bæta umhverfið. Ég gæti trúað að Miklabraut í stokk sé einnig ódýrari kostur að teknu tilliti til þess mikla byggingarlands sem verður til.

    Framkvæmdir við Miklubraut í stokk og íbúðabyggð í Örfirisey geta farið fram samtímis. Þó er hætt við að kosnaður við landfyllingar og flutning olíubirgðastöðvarinnar sé of mikill til að réttlæta byggingu ódýrra íbúða fyrir ungt fólk nema borgin taki á sig verulegan hluta kostnaðarins.

  • Pétur Sigurðsson.

    Þetta er raunhæf og góð tillaga sem hægt er að framkvæma í náinni framtíð og á hiklaust að ráðast og skoða betur. Á samfélagsmiðlum kom strax fram oftækisfull andstaða meirihlutans gegn þessu sem staðfestir ágæti hugmyndarinnar. Meirihlutinn óttast ekkert meira en góðar raunhæfar hugmyndir frá minnihlutanum. Dagur fór algerlega á límingunum strax ogFréttablaðið kom út. Þeir tala um fiskibátahöfnina sem þessi hugmynd snertir ekki oghækkun sjávar sem að þeirra mati er vandamál þarna en ekki inni í Bryggjuhverfi eða á Hafnartorgi. Hugmyndir meirihlutans um Miklubraut í srokk er þeirra aðalmál en er svo vanhugsuð að hún mun aldrei verða að veruleika. Og svona í lokin. Borgaði meirihlutinn fyrir hugmyndavinnuna vegna Miklubrautarinnar. Ef ekki þá væri gaman að vita hvað þetta hafi kostað útsvarsgreiðendur?

    • Hugmyndir um nýja íbúðabyggð á uppfyllingu á Grandanum hafa verið á sveimi í a.m.k. 20 ár (gott ef þetta var ekki einhvern tímann á dagskrá hjá R-listanum). Þetta er ein af þessum hugmyndum sem öllum finnst aðlaðandi — hvar í flokki sem þeir standa — en hún hefur samt aldrei komist á teikniborðið.

      Ég held að það sé fyrst og fremst kostnaðurinn sem stendur í mönnum. Talið er að það muni kosta 13-16 miljarða að flytja ölíubirgðastöðina (til samanburðar þá á stofnkostnaðurinn við Miklubraut í stokk að vera 21 miljarður). Og hvert ætti að flytja þessa olíubirgðastöð? Það hafa verið gerðar úttektir, m.a. fyrir tilstilli Vilhjálms Vilhjálmssonar í hans borgarstjóratíð, og niðurstaðan er alltaf sú að hún sé best staðsett þarna sem hún er.

      Og svo er það landfylling upp á einhverja 80-100 hektara. Kostnaðurinn við það hleypur alveg örugglega á einhverjum tugum miljarða.Kanalarnir myndu sennilega auka flækjustigið við þá framkvæmd verulega.

      Er raunhæft að leggja út í allan þennan kostnað til að galdra upp fast land undir 10.000 manna byggð? Mér finnst það stórt spursmál. Fyrir nú utan það að þetta kosningaloforð, ef það má kalla það það, snertir á engan hátt þau mál sem helst brenna á Reykvíkingum fyrir þessar kosningar.

  • Væri ekki nær að byrja á að taka á húsnæðisvanda láglaunafólks og byggja tiny húsahverfi eða eitthvað ódýrt áður enn það er haldið áfram að byggja fyrir þá efnameiri?

    • Hilmar Þór

      Er það ekki einmitt hugmyndin að byggja þarna íbúðir fyrir launafólk sem starfar í Miðborginni og taka á vanda þess fólks? Mér sýnist það.

  • Góð hugmynd en hvert eiga þá olíutankarnir að fara?

  • Baldur Gunnarsson

    Aldeilis frábær hugmynd. Síðar mætti færa út uppfyllingarnar því þarna er víða grunnsævi. Á endanum gæti ,,Hólmurinn“ sögufrægi verið orðinn að hólma í dáindis lóni sem væri höfn fyrir skútur og aðra skemmtibáta íbúanna. Þannig gengi Hólmurinn í endurnýjun lífdaganna.

  • Gaman að sjá þessa góðu hugmynd frá sjöllum. Samlíkingin við Kaupmannahöfn er góð og sannar raunhæfni og skynsemi hugmyndarinnar. Áfram með málið.

  • Þorarinn Kristjánsson

    „Maður gæti spurt hvort betra sé að stefna að þessari byggð í Örfirisey innan 4-6 ára eða byggð við Miklubraut í stokk eftir 10-20 ár?“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn