Mánudagur 17.01.2011 - 16:55 - 3 ummæli

45 ára gamalt sumarhús

 

Kollegi minn minnti mig á sumarhús sem Gehrdt Bornebusch arkitekt teiknaði fyrir tæpum 50 árum í Oddsherred í Danmörku.  Hann var að bera húsið í síðustu færslu minni við þetta gamla hús. Það er margt líkt með þeim. Þau byggja á sömu grunnhugmynd þó þau séu byggð með um 50 ára millibili í sitt hvorri heimsálfunni.

Eins og sést á afstöðumyndunum þá líkjast þessi hús hvoru öðru í meginatriðum. Bæði eru lokuð í aðra áttina og opin á móti birtunni og útsýninu í hina. Bæði taka mikið tillit til umhverfisins og láta náttúruna njóta sín. Danska húsið er mun minna að stærð og íburði en það ameríska. Annað eru rúmir 50 fermetrar en hitt tæpir 500. Ameríska húsið er mjög fínlegt í öllum frágangi og hlaðið margskonar tæknilegum þægindum. Það danska er gróft og útivistarlegt með tæknilegum þægindum í lágmarki.

Húsið er úr timbri og styður sig við boginn lokaðan múrsteinsvegg og opnast til suðurs að útsýni og skógarrjóðri. Þakið er klætt með grágrænni, nú mosavaxinni borðaklæðningu. Efnisvalið er gróft, frumstætt og náttúrulegt. Það mundi að líkindum skora 100% í BREEM  mati ef strætó gengi framhjá.

Gehrdt Bornebusch  sem er fæddur 1925 vann hjá Arne Jacobsen í byrjun sjötta áratugarins og var mikils metinn í dönsku arkitektaumhverfi um sína daga. Ekki veit ég hvort hann lifir enn.

Þennan texta má lesa í bók sem fjallar m.a. um þetta hús og það er arkitektinn sem hefur orðið:

“Jeg kan huske, at jeg satte mig ned på træstub, og begynte at skitsere på min tegneblok. Det tog vel et par minutter, så var huset tegnet, og som det ligger i dag, er det i alle væsentlige træk idendisk med denne, den förste skitse”.

Afsötðumynd og grunnmynd. Fríhendisskissa frá hendi arkitektsins.

Hlið að lokuðum sólríkum garði. Létt ásýnd með borðaklæddu þaki.

P.S.

Það er ekki auðvelt að afla sér upplýsinga um byggingar sem voru hannaðar fyrir tíma veraldarvefsins. Hvorki almennar upplýsingar né myndefni. Hinsvegar eru hinar ómerkilegustu byggingar að þvælast fyrir manni út um allt á vefnum. Sérstaklega ef þær eru teiknaðar af einhverjum tölvunördum eða arkitektum sem hafa slíka í þjónustu sinni.

Það er ekki mikið til á netinu um hús Bornebusch. Þær upplýsingar sem hér birtast er úr bók sem fyrrnefndur kollegi minn sendi mér ljósrit úr.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Ólafur Mathiesen

    Sæll Hilmar – takk fyrir innleggið um þetta fallega hús.

    Það er mun hógværara en sumarlúxusinn síðasti, og svo vitnað sé í hið stóra danska lexíkon:

    „… Bornebusch’s arbejde har været præget af lige dele modernistisk ånd og traditionel dansk byggekultur. Bygningerne er såvel funktionelt som æstetisk afklarede…“

    http://www.denstoredanske.dk/Kunst_og_kultur/Arkitektur/Danmark/Gehrdt_Bornebusch

    Þar kemur líka fram að sumarhúsið (1967) er þegar friðað, ekki eldra en það er. Þar megum við læra af frændum okkar.

  • Hilmargunn

    Mér finnst skissan frá arkitektinum rómantísk og skemmtilegt hvernig er hægt að ganga frá skóginum og inn í garðinn í gegnum húsið.

  • Jón Þórðarson

    Gott er að það sé minnst á BREEAM hér. Þessi BREEAM vottun er eitthvað skriffinskudútl sem arkitektar eru að slá um sig með og er alger óþarfi. Þetta er nýyrði um nýja viðskiptahugmynd skriffinna í ráðgjafageiranum. Vistvæn hönnun er bara sjálfsagður hlutur.

    Arkís er að reyna að markaðsfæra sig með þessu samkv. Morgunblaðinu. Ég sá ekki betur en að í Snæfellsstofu sé allt vaðandi í óvistvænum efnum. Stáli frá Kína, áli og orkufrekum innfluttum ljóskösturum í stað þess að nota dagsbirtu og beina henni að sýningunni svo ekki sé minnst á staðsetningu og mannahald. Allt BREEAM vottað. Svo aka arkitektarnir á sínum tveggja tonna torfærutröllum á verkstað og prétika umhverfisvæna hönnun.

    Gamli sumarbústaðurinn sem hér er fjallað um er allavega betur BREEAMaður en Svæfellstofa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn