Mánudagur 19.08.2013 - 07:27 - 12 ummæli

5. Samkeppni um skipulag Vatnsmýrar og fl.

Hér birtist 5. hluti umfjöllunnar Sigurðar Thoroddsen arkitekts um flugsamgöngur og skipulag. Hér sem hann tæpir hann á mikilvægum atriðum sem ekki hafa verið í umræðunni áður svo ég viti. Það eru; reglur, eignarnám og skaðabætur.  Á næstu dögum mun seinni hluti umfjöllunarinnar birtast með eftirfarandi fyrirsögnum:

  • Bygging flugvallar á Hólmsheiði og  flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur til bráðabirgða
  • Landsskipulag
  • Niðurstaða

bilde[3]

Samkeppni um skipulag Vatnsmýrar

Vorið  2007 var efnt til alþjóðlegrar samkeppni um skipulag Vatnsmýrar án flugvallarins og bárust 136 tillögur.  Í  febrúar 2008 voru úrslit birt,  og voru það skoskir arkitektar sem hlutu 1. verðlaun.  Ekki hefur verið unnið frekar að þróun tillögunnar, nema  ef vera skyldi að einhver skyldleiki virðist á ferðinni varðandi staðsetningu  hátæknissjúkrahúss, sem mér skilst að búið sé að salta..

En í öllu falli var  samkvæmt tillögunni lagt til að flugvöllurinn í Vatnsmýri víki án þess að niðurstaða hafi legið fyrir varðandi nýjan innanlandsflugvöll á Höfuðborgarsvæðinu.   Þetta vekur furðu,  því vandamálið var,  og er ekki að raða niður byggingum í Vatnsmýrinni heldur frekar framtíðarstaðsetning miðstöðvar innanlandsflugsins.  Halda  hefði átt samkeppni þar sem keppendur gátu valið hvort gert væri ráð fyrir flugvellinum eða ekki.

– Skipulagsreglur

Þann 7. ágúst 2009 staðfesti þáverandi samgönguráðherra skipulagsreglur fyrir Reykjavíkurflugvöll á grundvelli 59.-68.gr. laga um loftferðir nr.60/1998. En samkv.   reglunum eru ákvarðaðir   hindranafletir vegna aðflugs  og brottflugs að Reykjavíkurflugvelli,  auk þess sem áhrifasvæði flugbrauta eru skilgreind og    landnotkun á flugvallarsvæðinu. Sem dæmi má nefna að ekki er gert ráð fyrir að loka flugbraut 16/24. Ennfremur að samkvæmt  59. gr. laganna,  er heimilt að fjarlægjatrjágróður  við enda flugbrauta ef hann er hindrun vegna flugumferðarinnar.   Reglurnar voru auglýstar opinberlega og bárust athugasemdir m.a.  frá Reykjavíkurborg  dags.  6. apríl 2009. Samkvæmt þeim eru ekki gerðar  meiriháttar  efnislegar athugsemdir við reglurnar en minnt á hugmyndir um nýja flugstöð norðan Loftleiðahótelsins.

-Eignarnám  og skaðabætur.

Ekki liggur fyrir vilji eða samþykki   eigenda/notenda  Reykjavíkurflugvallar að leggja hann niður og flytja starfsemina annað, en eigendur mannvirkja á svæðinu eru  ríkið og  fjölmargir aðrir aðilar.   Breyti Reykjavíkurborg engu að síður skipulagi svæðisins á þann veg   að  núverandi starfsemi víki og að landið verði afhent öðrum til afnota,  þarf  að greiða fullar bætur til eigenda flugbrauta,  fasteigna og fjölmargra mannvirkja á svæðinu sbr. ákvæði 50. og 51.  gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og laga um framkvæmd eignarnáms  nr. 11/1973. Sjá einnig  1. mgr. 72. gr. laga nr. 33/1944 um Stjórnarskrá Lýðveldisins Ísland. .

Væntanlega yrði um  stærstu eignaupptöku og/eða  eignarnám hérlendis að ræða  og spurning hvort Reykjavíkurborg ráði við það. Málið er að Reykjavíkurborg byggir ekki nýjan flugvöll með  tilheyrandi mannvirkjum, það hlutverk hefur ríkisjóður og ýmsir einkaaðilar. Það  sem Borgin gerir,  er einungis að gefa kost á  lóð undir flugvöll með tilheyrandi lóðagjöldum, aðkomu að lóðinni og hugsanlega einhvern infrastrúktúrinnan svæðisins.

Myndin efst í færslunni er af hluta Aðalskipuilags Reykjavíkur 2010-2030 sem sýnir Vatnsmýrarskipulag byggt á verðlaunatillögu frá 2007

Hér er færsla sem fjallar um samkeppnina í Vatsnmýri 2007

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/13/vatnsmyrarsamkeppnin-upprifjun/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Kristján Ásgeirsson

    Sigurður segir að ekki hafi verið unnið frekar að þróun verðlaunatillögu skosku arkitektanna, nema ef vera skyldi að einhver skyldleiki virðist á ferðinni varðandi staðsetningu hátæknissjúkrahúss. Ég bendi á að þetta er ekki rétt þar sem búið er að samþykkja það sem kalla má 1.áfanga deiliskipulags í uppbyggingu Vatnsmýrar á þessum skoska grunni. Um er að ræða Hlíðarendasvæðið og sjá má á aðalskipulagsuppdrættinum sem fylgir færslu Sigurðar. Svæðið er merkt 2013+ og var samþykkt árið 2010.

  • Hér er grein sem birtist í Morgunblaðinu 5. júní 2013 eftir Eftir Jón Jónsson hæstaréttarlögmann:

    „Vilji Reykjavíkurborg ekki virða samgöngustefnu ríkisins, heldur gera atlögu að flugvellinum í krafti skipulagsvalds, gilda bótareglur skipulagslaga.“

    Nú er Reykjavíkurborg að kynna drög að aðalskipulagi fyrir árin 2010-2030. Það eru merkileg tíðindi að í skipulaginu er gert ráð fyrir niðurlagningu Reykjavíkurflugvallar í áföngum, flugbraut af flugbraut. Stjórn flugmála á landsvísu hefur kynnt að sú lokun flugbrauta sem skipulagið gerir ráð fyrir sé ekki boðleg út frá samgöngu- og flugöryggi. Í raun virðast drög að nýju aðalskipulagi sett fram þvert á alla fyrri faglega umfjöllun um flugvallarmálið.
    Með einföldun má segja að kostir niðurlagningar Reykjavíkurflugvallar felist í möguleikum á uppbyggingu byggðar í Reykjavík. Slík uppbygging getur verið jákvæð frá skipulagslegum sjónarmiðum og hagrænum þáttum, bæði til langs og skamms tíma, þ.m.t. við sölu lands og byggingarréttar. Ókostir niðurlagningarinnar hafa verið nefndir lengri samgöngutími, minna öryggi heilbrigðisþjónustu og minna flugöryggi þar sem ekki verður fundið ákjósanlegt flugvallarstæði í nágrenni höfuðborgarinnar. Þessir þættir hafa allir sínar neikvæðu hagrænu hliðar auk þess sem uppbygging nýs flugvallar er dýr.

    Vangaveltur um hagkvæmni duga skammt ef ekki liggur fyrir hver á að borga. Er það Reykjavíkurborg eða íslenska ríkið? Aðalskipulagsvinna Reykjavíkurborgar kallar á svar við þessari spurningu.

    Ef skipulagsákvarðanir sveitarfélaga leiða til lokunar starfsemi eða eyðileggingar mannvirkja, koma bótareglur skipulagslaga til skoðunar. Sveitarfélag sem fer með skipulagsvald er bótaskylt ef skipulag leiðir til þess að eign verður ekki nýtt til sömu nota og áður, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Reykjavíkurflugvöllur er eign íslenska ríkisins. Lokun flugvallar í fullum rekstri í óþökk eiganda skapar augljóslega bótaábyrgð Reykjavíkurborgar gagnvart ríkinu. Jafnvel lokun einstakra flugbrauta gæti orðið grundvöllur að bótaábyrgð Reykjavíkurborgar ef rekstrarskilyrði flugvallarins skerðast.

    En hvert er verðmæti Reykjavíkurflugvallar, sem Reykjavíkurborg gæti þurft að bæta? Verðmæti hans felst í mannvirkinu sem slíku, en einnig staðsetningunni, bæði varðandi samgöngur og flugöryggi. Ef skipulagsákvarðanir útiloka nýtingu svo sérhæfðrar eignar verður verðmætið helst fundið út með hliðsjón af því hvert endurstofnverð yrði á sambærilegri eign. Faglegar skýrslur um önnur flugvallarstæði fela í sér að flugvöllur á Lönguskerjum kæmist næst kostum Reykjavíkurflugvallar og gæti því talist sambærilegur. Völlur á Hólmsheiði teldist aldrei sambærilegur vegna veðurskilyrða og fjarlægða. Heildarkostnaður við uppbyggingu flugvallar á Lönguskerjum var áætlaður 22.990 milljónir í skýrslu samráðsnefndar frá apríl 2007. Miðað við þróun verðlags er sá kostnaður 35-40 milljarðar í dag.

    Vilji stjórnvöld Reykjavíkurborgar ekki virða samgöngustefnu ríkisins, heldur gera atlögu að Reykjavíkurflugvelli í krafti skipulagsvalds sveitarfélagsins, gilda bótareglur skipulagslaga. Reykjavíkurborg og þar af leiðandi íbúar borgarinnar, þurfa þá að borga uppbyggingu nýs flugvallar. Ef Reykjavíkurborg nálgast flugvallarmálið sem einkamál borgarinnar, verður það einkamál Reykjavíkur að greiða fyrir nýjan flugvöll.

    Höfundur er hæstaréttarlögmaður.

    • Elín G. Gunnlaugsdóttir

      Takk fyrir þessar greinargóðu upplýsingar, Halldór! Þetta er í fysta sinn sem maður les um þessa hlið málsins þ.e. bótaskylduna.

  • Árni Ólafsson

    Höfuðborg er og verður í samgöngumiðju.
    Verði samgöngumiðjan flutt er eðlilegt að taka ákvarðanir um uppbyggingu almannaþjónustu og staðsetningu stjórnsýslu og stjórnsýslustofnana út frá því.
    Höfuðborgarhlutverkið verður væntanlega fært til samræmis við breyttar samgöngur. Þá verður vonandi friður um málið í Reykjavík 🙂

  • Samúel Torfi Pétursson

    Miðað við það sem Sigurður segir í pistlinum þurfa flugmálayfirvöld ekki að hafa neinar áhyggjur af því hvað borgaryfirvöld skipuleggja í Vatnsmýrinni. Sem eigendur starfseminnar og meirihluta landsins undir vellinum þarf að koma til eignarnám borgaryfirvalda ef bola á starfseminni í burtu. Og þá þarf að koma til eignarnámsbóta sem felast í kostnaði við flutning vallarins á nýjan stað. Mögulega þyrfti að bæta rekstraraðilanum það upp að færa völlinn á síðri stað, ef eigandinn hefur þá ekki góðan möguleika á að kæra eignarnámið á grundvelli þess að hagsmunir hans á núverandi stað séu ríkir. Hið sama gildir ef borgaryfirvöld hyggjast afturkalla rekstrarleyfi vallarins eða vilja ekki endurnýja það á grundvelli hins nýja skipulags. Eigandinn getur væntanlega kært og krafist skaðabóta.

    Það er erfitt að sjá borgina koma út sem sigurvegara í þessum slag.

  • Já, borgin getur lagt flugvöllinn niður. Og mun gera það.

  • Hilmar Þór

    Ég minni á stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, en þar segir orðrétt:

    „Ríkisstjórnin mun vinna að samgöngubótum með áherslu á tengingu byggða. Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins.

    Til þess að hann geti áfram gengt því mikilvæga þjónustuhlutverki sem hann hefur gert gagnvart landinu öllu þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu”

    Og í því samhengi er rétt að spyrja hvort borgarstjórn og ríkisvaldið hafi ekki talað saman um áform AR 2030 þar sem lagt er til að flugvöllurinn verði lagður niður?

    Stefna ríkisstjórnar og borgarstjórnar stangast augljóslega á!!!

    Getur borgin lagt flugvöllinn niður einhliða?

  • Jón Kaldal

    Greinarhöfundur segir hér „Halda hefði átt samkeppni þar sem keppendur gátu valið hvort gert væri ráð fyrir flugvellinum eða ekki.“
    Rétt er að halda því til haga að sú var einmitt raunin. Í keppnislýsingu samkeppninnar 2007 var skilið eftir opið hvort flugvöllurinn yrði um kyrrt í Vatnsmýrinni eða færi. Í fyrstu umferð gerði aðeins ein tillaga af 136 ráð fyrir flugvellinum áfram. Í annarri umferð féll höfundur hennar frá þeirri útfærslu.

  • Þórhallur

    Byggja í vatnsmýrinni og flytja innanlandsflug til Keflavíkur. Ég sé ekki hvað er svona flókið við það. Aðeins það tryggir hámarks nýtingu. Eins og fram kemur í greininni þá er sjúkrahús ekki að fara að rísa í miðbænum. Ef hátæknisjúkrahús er reyst á Vífilsstöðum, sem er líklega næst stórhöfuðborgarmiðjunni, er sjúkraflug til Keflavíkur orðinn raunhæfur kostur.

  • Hlöðver Stefán

    Er ekki skynsamlegasta nýtingin á fjármunum og mannvirkjum að leyfa flugvellinum að vera?

    Ég get ekki betur séð en að þetta liggi í augum uppi. Ég veit þó að aðrir eru ósammála mér og virði það.

    Einhverntíma hugsaði ég með mér hvort flugvöllur á Bessastaðanesi með vegi þaðan yfir til Reykjavíkur um Kársnes gæti verið ágætis málamiðlun í þessu máli. Þeir sem vilja byggja í Vatnsmýri fengju það, en flugvöllurinn væri enn á láglendi miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Ég dvaldi þó ekki lengi við þá hugsun eftir að ég hugsaði eitthvað á þessa leið:

    „Til þess að byggja flugvöll á Bessastaðanesi þarf að ryðja burt gamla flugvellinum, byggja nýtt hverfi í Vatnsmýri, og byggja nýjan flugvöll á Bessastaðanesi. Hvers vegna að byggja ekki í staðinn nýja hverfið á Bessastaðanesi og leyfa flugvellinum að vera? Þá þarf eingöngu að byggja eitt hverfi og við spörum okkur uppbyggingu heils flugvallar auk niðurrifs mannvirkja sem eru í góðu ásigkomulagi og fullri notkun.“

    Megintilgangurinn með þessu er ekki að tala fyrir uppbyggingu á Bessastaðanesi, heldur átti þetta að vera lýsandi fyrir það sem ég nefndi í upphafi.

    Ég sé fyrir mér að menn sættist á að leyfa flugvellinum að vera í Vatnsmýri og byggi flugstöð til framtíðar. Á móti mætti þrengja að honum þannig að öll svæði sem ekki væru nauðsynleg fyrir starfsemi hans mætti nýta sem byggingarland. Nú var NA-SV flugbrautin notuð sem stæði fyrir einkaþotur á tímum góðærisins, þess vegna hlýtur að mega leggja hana niður. Einnig sé ég fyrir mér að hugsanlega mætti hliðra A-V flugbrautinni eitthvað til vesturs á landfyllingu, til þess að meira rými skapist austan við völlinn.

    Loks má nefna hugmyndir um uppbyggingu meðfram leiðinni úr miðborginni austur eftir Suðurlandsbraut sem komu fram í nýju aðalskipulagi. Er ekki rétt að beina allri eftirspurn eftir nýju húsnæði í þéttu borgarumhverfi þangað og geyma Vatnsmýrina þangað til þær hugmyndir eru orðnar að veruleika?

  • Þarf ekki eitthvað að skoða öll þessi mál frá grunni og í stærra samhengi?
    Horfa aðeins út fyrir borgarmörkin?

  • Gunnar Gunnarsson

    „Væntanlega yrði um stærstu eignaupptöku og/eða eignarnám hérlendis að ræða og spurning hvort Reykjavíkurborg ráði við það“.

    Hvað segja fulltrúar okkar í borgarstjórn um þetta?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn