Miðvikudagur 03.02.2010 - 12:47 - 17 ummæli

Meira In-Fill

IMG_3159létt

Húsið sem kynnt var í síðustu færslu er nýtísku arkitektúr. Það er smart akkúrat núna í febrúar 2010. Það verður líka smart í nokkur ár til viðbótar. Kannski í 50 ár.

En þegar frá líður fer glansinn af því og ég er þess fullviss að það verður fyrsta húsið sem verður rifið í götulínunni þegar fram líða stundir.

Kollegi minn sendi mér myndir sem hann átti í fórum sínum. Þær eru af húsum sem byggð voru fyrir nokkrum árum í gömlum hverfum í Evrópu og þóttu framúrskarandi á sínum tíma.  

Það liggur auðvitað í augum uppi að þegar arkitektarnir afhentu verkkaupa teikningarnar þótti þeim vinna sín góð og að teikningarnar gæfu fyrirheit um góð hús sem hentuðu staðnum. Verkkaupanum þótti þetta góð hönnun þegar hann sótti um byggingaleyfi og það sama á við um yfirvöld sem gáfu leyfi til framkvæmdanna enda húsin hönnuð í samræmi við “þá tækni og byggingarlist sem við búum við í dag” og að húsin væru fulltrúar “nýs tíma”.

Nú nokkru seinna er rétt að meta niðurstöðuna og spyrja sig hvort húsin “passi” inn í umhverfið eða hvort þeim sé þröngvað inn í umhverfið.

Það er hægt að finna svipuð dæmi á mörgum stöðum hér á landi.

Ný hús í gamalli götumynd má sjá víða á Laugaveginum.  Bygging SPRON við Skólavörðustíg eftir Guðmund Kr. Kristinsson er eitt dæmi.  Mörgum þykir viðbygging Gunnlaugs Halldórssonar við Landsbankann undantekning sem er vel heppnuð.

Svo að lokum fylgir mynd af húsi í Hafnarfirði sem vildi vera annað en það er og  vildi ekki kallast á við nágranna sína.

 

IMG_3160létt

 

crop_260x[1]

img_3061[1]

crop_500x[1]

New Image

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Sigurlaug Sæmundsdóttir

    Sæll Hilmar,

    Í tilefni af því að hús SPRON á Skólavörðustíg kom við sögu í arkitektúrpistli þínum vil ég ryfja upp hvað stóð á lóðinni á undan SPRON.
    Það var lítið íbúðarhús af gerðinni steinbær eins og voru byggð í Reykjavík á fyrstu dögum borgarinnar. Það var kallað Tobbukot. Þar bjó
    kona að nafni Þorbjörg og var ljósmóðir.

    Öllum virtist standa á sama hvað yrði um þetta litla hús sem var fyrir þar sem það stóð og engin teikning var til af. Ég fór þá með málband og teikniáhöld og mældi húsið og teiknaði upp. Teikningarnar afhenti ég síðan Lárusi Sigurbjörnssyni sem stjórnaði Borgarskjalasafninu, þá í
    Skúlatúni 2. Ekki var minnst á borgun, honum þótti bersýnilega sjálfsagt að fá teikningarnar að gjöf fyrir skjalasafnið. Ég vona að þær séu ennþá
    til í safninu, ég hef ekki kynnt mér það.

    Með kveðju,

    Sigurlaug Sæmundsdóttir

    arkitekt FAÍ

  • Gunnar Á.

    Skemmtilegt umræðuefni hér á ferð sem ég gæti allri vikunni í að ræða.
    Mjög hrifinn af Spron húsinu á Skólavörðustíg og það hefur bara batnað með bókabúð/kaffihús á jarðhæðinni. Fátt slæmt um það að segja.

    En ég er alveg sammála því að viðbyggingin við Landsbankann er að kæfa klassíkina og er full frek og mætti fara mun betur að. Svo ég tali nú ekki um það fallega hús sem var þar fyrir og var rifið. Verst ég á engar myndir af því og man ekki hvar ég sá þær. Var svo ekki í umræðuni í góðærinu að Landsbankinn ætlaði að gefa þjóðinni húsið þegar þeir myndu flytja höfuðstöðvar sínar og þá kom vel til greina að rífa viðbygginguna til að gefa aukið rými í kringum húsið (sem er einmitt það sem má ekki gleymast í umræðunni um miðbæinn en það er rýmið milli húsanna = almenningsrýmið).

    Svo ég tjái mig líka um húsið á Pósthússtræti 9 (húsið milli Apóteksins og Hótel Borg) þá þykir mér það engan veginn passa inn í heildarmyndina. Húsið hefur svo bara versnað með tímanum og leit einna best út á teikniborðinu hjá Gísla Halldórssyni (arkitekt hússins) en þá átti húsið að vera 2 hæðum hærra en hin húsin (sjá myndir í nýútkominn bók um Gísla Halldórsson). Engu að síður hafði verið betra að fella húsið inní götumyndina með öðrum hætti en gert var.

  • Ólafur Gísli Reynisson

    Allt góð dæmi um sjálfhverfar og sjálfbirgingslegar byggingar.

  • Árni Ólafsson

    Fyrst minnst er á bílastæði:
    Vel mætti taka sérstaka umræðu um nýja húsið á Stjörnubíóreitnum við Laugaveg þar sem unnið er freklega gegn gunneiginleikum borgarumhverfisins. Bílaborgarskipulag inni í miðborginni.

    Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvaða markmið voru á bak við þá hönnun, bæði markmið lóðarhafa/byggjanda, markmið hönnuða og ekki síst markmið borgarinnar sem hljóta að hafa verið meginstýringin.

  • Þetta er mjög þörf umræða og gott dæmi um þá vönduðu umræðu sem er á þessu bloggi. Þökk fyrir hana.

    Ég myndi vilja nefna ýmis þau íbúðarhús sem byggð hafa verið í „tanngarðinn“ í húsaröðum í miðbænum. Mér finnst þau misjöfn, Sum sóma sér vel en því miður er kannski meirihlutinn ekki að gera sig þótt þau hafi sömu hæð og byggingarnar við hliðina. Þau eru gjarnan úr ópússaðri steinsteypu (pokadreginn) og því verður áferð húsanna allt önnur en annarra bygginga í nágrenninu.

    Eins eru þau látin fylgja þessum geggjuðu ákvæðum skipulagsreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða per íbúð. Í hverju húsi eru kannski 4-6 íbúðir og bílastæðin því 8-12 í húsinu. Öll jarðhæðin verður undirlögð bílastæðum og ekkert að gerast fyrr en á 2. hæð í húsunum. Það er léleg lausn á bílastæða þörfinni fyrir þessi hús og á ekki heima í miðbæjarskipulagi.

  • Ég tek undir með Magnúsi hér að ofan. Byggingin i Tryggvagötu að baki Naustsins er án nokkurrar tenginga við umhverfið. Þetta hús er ekki gott. Í raun langversta dæmið sem nefnt hefur verið hér í þessari umræðu. Millibyggingingin í Pósthússtræti er í ásættanlegum hlutföllum og er ekki frekleg í götumyndinni eins og dæmið frá Landskrona í fyrri færslu.
    Og það er rétt hjá höfundi færslunnar að það á að fara varlega í þessum efnum og gæta þess að sýna því sem fyrir er kutreysi og virðingu með lítillæti.

  • Blokkin í Tryggvaagötu sem Kalli í Pelsinum (Kínverska sendiráðið, anyone) létt byggja er eitt ömurlegaðasta hús bæjarinns hvar sem það er statt og á þessum stað er það HRYÐJUVERK….

  • Bjarni Kristinsson

    Spron húsið við Skólavörðustíg er fallegt og vel heppnað hús. Gott dæmi um það hvernig hægt er að byggja „nýtísku“ hús í gömlu umhverfi. Það er í réttum skala, ber virðingu fyrir umhverfinu og hlýlegur viðurinn er dæmi um gott efnisval.

    Eitt versta dæmi um nútíma arkitektúr í miðborginni er því miður glænýtt. Það er nýja svarta húsið við Tryggvagötu. Þ.e.a.s. blokkin við hliðinna á Naustinu. Það væri gaman að heyra hvað öðrum þykir um þá byggingu. Takk annars fyrir fróðlegt blogg.

  • Þegar Lækjargötuhúsin brunnu og rætt var hvað skyldi gera við nýja reitinn man ég eftir umræðu sem mér fannst vera algerlega á villigötum. Sumir sögðu, að það væri ótækt að byggja hús þar í gömlum stíl því það væri „feik“, fortíðin kæmi ekki aftur.

    Ég spyr á móti: Af hverju er í lagi að prjóna sömu lopapeysur með sömu mynstrum í dag? Svarið er: Af því mynstur eru tímalaus.

  • Þetta er mjög gömul mynd frá Hafnarfirði og löngu búið að fjarlægja þessi ósköp.

    Tryggvi, þú minnist í þessu samhengi á Listaháskólann sem á/átti að rísa við laugaveg.

    Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hvurslags bull það dæmi er. Fyrirhugað byggingarmagn á þessum stað er gjörsamlega úr öllu smhengi og mun aldrei getað sómað sér almennilega á þessari lóð.

    Til að koma öllu fyrir þarf að byggja fjölda rýma neðanjarðar auk þess verða framtíðar stækkunarmöguleikar skólans engir !

    Gott mál að fá listaháskólanní miðbæinn en ekki á þessa lóð því hún ber þetta ekki !

  • Þessi umræða sjálf er sönnun þess hversu oft nútíma byggingarlist mistekst, og þá sérstaklega í gömlu umhverfi. Ef nútíma byggingarlist myndi almennt vera betur heppnuð þá værum við yfir höfuð ekki í þessum debatt.

    Ég verð að vera sammála því að Landsbankaviðbyggingin sé eins og krabbamein utaná annars flottri nýklassík. Ég veit ekki hversu oft mig hefur dreymt um að þetta yrði lagað og byggt yfir viðbygginguna í nýklassískum stíl. Ef það yrði gert þá yrðu þessi gatnamót líklega þau fallegustu í á landinu og þá væntanlega þau einu á landinu sem minna á gamlar klassískar evrópskar stórborgir.

    Þetta svokallaða hafnafjarðarhús hef ég bara ekki séð og þetta lítur hreint út eins og framhliðin sé „photosjoppuð“ á gamla húsið svo absúrd er þessi byggingarlist.

    Úrslitin í arkítektasamkeppninni fyrir nýja Listaháskólann til dæmis var því miður í svipuðum brútal stíl og sýnir það sorglega er að arkítektar virðast lítið lært frá því t.d. þegar viðbyggingin við hliðina á Hótel Borg var byggð.

    Spron húsið er reyndar langskásta dæmið í þessum flokki liklega vegna þess að það er ekki alveg klesst utaní gamla húsinu við hliðina.

  • Þórður Magnússon

    Varðandi bygginguna á milli Hótel Borgar og Apóteksins þá sýna teikningar Guðjóns S. að hótelið átti upprunalega að ná alveg að Apótekinu, s.s 5 gluggaraðir til viðbótar við þessar 9 sem byggðar voru. Þarna mætti vel hugsa sér að einfaldlega klára bygginguna eins og hún var upprunalega hugsuð.

    Fordæmið er til staðar því að þegar byggt var við Eimskipafélagshúsið(einnig hús eftir Guðjón) þá var stuðst við útlit gamla hússins. Það er ekki nokkur lifandi sála sem lætur það trufla sig.

    Varðandi önnur dæmi sem nefnd hafa verið þá er ég sammála síðasta ræðumanni (Daníeli) að Spron húsið er bara merkilega gott þar sem það er.

    Bæði finnst mér það góður fulltrúi síns tíma og það hefur að mínu mati töluvert að segja að húsið er stakstætt og þess vegna sjálfstætt.

    Ég er einnig sammála Daníel að viðbyggingin við Landsbankann er illa heppnuð. Enda byggð sem nokkurs konar mótmæli við revival stíl Guðjóns. Ég vil ganga svo langt að líkja henni við krabbameinsæxli, það er eins og hún sé að éta gamla húsið.

    Þegar Hafnarstræti 14 skemmdist í bruna og var síðan rifið fyrir 30-40 árum(að ég held) þá var nýja byggingin byggð nánast sem framhald af viðbyggingu landsbankahússins. En það sem meira var, arkitektinn tók sig til og gerbreytti útliti Hafnarstrætis 12 til samræmis við nýja húsið. Allt skraut var brotið af og gluggar augnstungnir. Mér finnst þessi gjörð segja mikið um virðingarleysi arkitekta á þessum tíma gagnvart eldri byggingarlist.

    Það er ekki skrítið í því ljósi að þeir hafi átt svolítið erfitt með að teikna vel heppnuð „in-fill“

    Ég held að frumforsendan fyrir því hvernig „in-fill“ heppnast felist í því hvort að arkitektinn skilur (og ber virðingu) fyrir byggingunum í kring.

    Það kom mér mikið á óvart þegar ég komst að því að margir arkitektaskólar kenna ekki einu sinni undirstöðuatriði í klassískri byggingarlist. Ég hef t.d. lent í karpi við útlærða arkitekta um það hvernig eigi að smíða klassískan krosspóstsglugga í norrænum stíl.

  • Mér finnst Spron húsið virkilega fallegt á þessum líka viðkvæma stað.

    Viðbygging Landsbankans finnst mér því miður ekki vel heppnuð. Ég geng reyndar svo langt að segja að hún eyðileggi annars stórkostleg götumót.

  • Myndin frá hafnarfirði er frábær. En talandi um „in fill“ þá langar mig að minnast á byggingu sem á milli Hótel Borgar og Reykjavikur Apoteks.

    Nú býst ég fastlega við því að þessi bygging hafi verið byggð á milli þessara tveggja glæsilegu húsa eftir að þau voru risin. Þarna er bygging sem er byggð í stíl síns tíma en í réttum „scala“ miðað við hinar byggingarnar.

    Arkitektinn á þessum tíma hefur ákveðið að þessi bygging skuli standa sér og dregur að því virðist ekki neinar línur frá gluggum eða skilum hinna húsanna og styðst einungis við réttar hæðir nýja hússins. Hann er ekkert að fela þetta semsagt.

    Þá spyr maður sig, ef það er verið á annað borð að byggja svona „in fill“ hvort ekki sé bara best að leyfa því að bera vitni síns tíma að öllu leiti eins og gert er í þessu tilfelli.

    Ég hef lúmskan grun um að hvað sem er/verður byggt þarna mun alltaf teljast hallærislegt að 50 árum liðnum.

    http://homepage.mac.com/steveja/Iceland/img_3061.jpg

  • G. Guðmundsson

    Ég hef fylgst með bygginga- og skipulagsmálum á Íslandi um áratugaskeið og aldrei séð jafn stöðuga og málefnalega umræðu um þessi mál og á sér stað hér á þessu bloggi. Þar á ég við innlegg ábyrgðarmanns og ekki síður athugasemdir lesendana. Nú í kjölfar góðærisins hefur fólk áttað sig og er byrjað að hugsa sig um og ræða saman um þessi mikilvægu málefni “án upphrópanna” eins og segir í einni nýlegri athugasemd. Þetta er aðgengilegt öllum og allir tjá sig, lærðir og leikir.

  • Ég man ekki betur en að hafa séð í Amsterdam svona „falskar framhliðar“ eins og á Hafnarfjarðarhúsinu, nema í Amsterdam voru þær í gamla stílnum. En manni finnst Hafnarfjarðardæmið mun verra, enda feikað stílbrot.

  • Ég verð nú reyndar að viðurkenna að ég hef alltaf verið svolítið hrifinn af Spron húsinu á Skólavörðustíg. Í nýju hlutverki bókabúðar hefur það ekki versnað.

    Það má svosem deila um hvort að húsið sé nægilega vel staðsett, en ég held að það sé hægt að finna mörg mun verri dæmi um In-fill á Íslandi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn