Miðvikudagur 21.08.2013 - 07:47 - 6 ummæli

7. Landsskipulag

Hér birtist næst síðasti hluti umfjöllunar Sigurðar Thoroddsen um skipulagsmál og flugsamgöngur. Lokahlutinn kemur á morgun og heitir „Niðurstaða“

TERRA_090202_1255

Landsskipulag

Í  3. kafla  skipulagslaga nr. 123/2010 er fjallað um landsskipulag. Í  10.gr. laganna kemur fram að umhverfisráðherra skuli leggja fram á  Alþingi landsskipulagsstefnu til  þingsályktunar.  Í 2. mgr. kemur fram  að samþætta skuli ýmsar áætlanir opinberra aðila s.s. um samgöngur,  orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun. Í 4. mgr. eru  ákvæði á þann veg að telji sveitarstjórn að ekki beri að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu  dugi að leggja fram rökstuðning fyrir því að ekki sé farið eftir áætluninni. Sveitarstjórnir þurfa m.ö.o. ekki að fara eftir landsskipulagsstefnu  frekar en þær vilja.

Í landsskipulagsstefnu  er fjallað  um áætlanir og framkvæmdir á vegum ríkisins og sem varða allt landið,  og þyrfti að gera  breytingar á  skipulagslögum á þann hátt að hugtakið landsskipulagsstefna verði fellt út og því breytt í landsskipulag, og að þingsályktun um landsskipulag verði bindandi fyrir sveitarstjórnir, eftir náið samráð við  þær, og að lokinni auglýsingu  og ítarlegu umsagnarferli. Hér er átt við að skipulag framkvæmda sem varða allt landið  og eru fjármagnaðar af ríkinu heyri undir landsskipulag,  s.s. flugvellir,virkjanir,   háspennulínur, stofnbrautir, hitaorkulagnir, fjarskiptakerfi,  hafnir,   náttúrverndarsvæði og jafnvel  umhverfi Alþingis.

Skipulagsvaldið er í höndum sveitarstjórna og hefur svo verið frá 1998 eða í 15 ár. Þar á undan,   frá  gildistöku fyrstu skipulagslaganna 1921 og til 1998 eða í 77 ár,  var þetta vald í höndum ríkisins,  í nánu samstarfi við sveitarstjórnirnar. 

Eins og staðan er nú,  er mögulegt fyrir 5 manna sveitarstjórn að taka ákvörðun um framkvæmd sem varðar landið allt og er  fjármögnuð af ríkinu.Þetta  er  algjör útúrsnúningur á lýðræðinu og nær í raun ekki nokkurri átt.

Efst er ljósmynd tekin 2. febrúar 2009 af Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Brynjólfur Þorvarðsson

    Sæll Sigurður

    Ég sé að þú nefnir skipulagsvald sveitarfélaga, svo sem ekkert nýmæli þar.

    En sjálfur hef ég, og reyndar amk einn sveitarstjórnarmaður sem ég hef rætt við, efast um að þarna sé „vald“ á ferðinni.

    Lögin nefna ekki hugtakið skipulagsvald, en Siv Friðleifsdóttir varð fyrst til að nota orðið „skipulagsvald“ eftir því sem ég best veit.

    Lögin má allt eins túlka sem svo að sveitarfélög hafi skipulagsskyldu, þ.e. skyldu til að skipuleggja. Þarna er munur á: Ef einhver sækir um breytingar á skipulagi, og uppfyllir öll lög og reglugerðir, hefur sveitarfélagið þá vald til að hafna breytingunni? Eða skyldu til að breyta?

    Persónulega finnst mér afskaplega varhugavert að gefa sveitarstjórnarmönnum geðþóttavald yfir notkun lands í einkaeigu, ég sé ekki að lögin heimili slíkt. Þvert á móti sýnist mér lögin setja skyldu á herðar sveitarstjórnar að gera skipulag, og að breyta því þegar lögformlegum skilyrðum er mætt.

    Það verður að hafa í huga að valdi fylgir ábyrgð. Ef raunverulega væri um „skipulagsvald“ að ræða, hvar er þá ábyrgðin skilgreind? Mér vitanlega er ábyrgðin hvergi skilgreind. Ef sveitarstjórnarmenn hafna skipulagsbreytingu sem er að öðru leyti fullkomlega lögformleg þá mætti ætla að umsækjandi gæti sótt réttar síns með tilvísan til ábyrgðar sveitarstjórnarmanna, t.d. vegna fjárhagstjóns, meintra tapaðra tekna, eða brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

    Svo lengi sem talað er um skipulagsvald án ábyrgðar þá eru sveitarstjórnarmenn stikkfrí til að stjórna sveitarfélaginu eftir geðþótta, gegnum skipulag, án þess að svara til ábyrgðar fyrir meint brot gegn hagsmunum einstaklinga eða fyrirtækja.

    Mér þætti gaman að því, Sigurður, ef þú gætir velt þessu aðeins fyrir þér og gefið þína skoðun á skipulagsvaldi, og hvernig lögin frá 1998 veiti slíkt vald.

  • Árni Ólafsson

    Annað dæmi: Kostuleg afgreiðsla áætlana um bætingu og styttingu Hringvegarins í Húnavatnssýslu, Svínvetningabraut, sem taka átti af um 13-14 km krók eftir bugðóttum, mjóum og varasmömu vegi í Langadal um illviðrasvæði út á Blönduós.

    Að frumkvæði sveitarstjórnar og með atbeina þáverandi ráðherra samgöngumála var Vegagerðinni meinað að hafa inni í áætlunum sínum áætlun um bætt umferðaröryggi og hagkvæma framkvæmd á stofnvegi/Hringveginum. Þar var póliltísku valdi sveitarstjórnar annars vegar og ráðherra hins vegar misbeitt gegn skýrum og mikilvægum almannahagsmunum.

    Nú eru 30.000 manns á NA-horni landsins í gíslingu einnar bensíndælu á Blönduósi 🙁 Þetta er dæmi um verkefni landsskipulags þar sem almannahagsmunir ráði umfram sérhagsmuni og frændhygli.

  • Hilmar Þór

    Hér segir Sigurður Thoroddsen að eins og staðan sé nú, er mögulegt fyrir 5 manna sveitarstjórn að taka ákvörðun um framkvæmd sem varðar landið allt og er fjármögnuð af ríkinu.

    Voru það ekki mistök að færa allt skipulagsvald alfarið til sveitarfélaganna árið 1998?

    það er allavega umhugsunarvert í mörgum tilfellum.

  • Það er siðlaust af borgarstjórn að nýta sér þetta vald þó lögin hafi fært henni það.

  • Jón Guðmundsson

    Sigurður skrifar:

    „Eins og staðan er nú, er mögulegt fyrir 5 manna sveitarstjórn að taka ákvörðun um framkvæmd sem varðar landið allt og er fjármögnuð af ríkinu.Þetta er algjör útúrsnúningur á lýðræðinu og nær í raun ekki nokkurri átt“.

    Ótrúlega vitlaust að svona skuli vera búið um í lagaumhverfinu!!

    • Rétt,

      Reykjavíkurflugvöllur er ekki borgarmál hann er landsmál svipað og fiskveiðikótinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn