Fimmtudagur 22.08.2013 - 06:27 - 25 ummæli

8. Niðurstaða – Flug og skipulag

 

Hér kemur lokahluti yfirferðar Sigurðar Thoroddsen arkitekts um flugsamgöngur og skipulag. Ég þakka honum fyrir fróðlega og faglega umfjöllun um mál sem hefur verið á dagskrá í áratugi og aldrei meira en nú. Efninu var skipt í 8 hluta og mæli ég með að fólk lesi þá alla.

Icelandair-Boeing1

Niðurstaða

Eins og kunnugt er, þá er  eitt af grundavallarhlutverkum stjórnvalda að tryggja heilsu og öryggi borgaranna.

Samgöngur í lofti eru mikilvæg viðbót við samgöngur á landi, einkum þegar ferðast þarf með þægilegum og skjótum hætti lengri leiðir. Einnig  þegar koma þarf sjúklingum undir læknishendur með skömmum fyrirvara.  Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugsins og tengir höfuðborgina vel  við   aðra hluta landsins.  Í Reykjavík  er Alþingi, stjórnsýslustofnanir ríkisins  og  allar  helstu heilbrigðisstofnanir   þjóðarinnar  og ýmsar þjónustustofnanir og fyrirtæki  á tiltölulega afmörkuðu svæði,  í  aðeins nokkurra mínútna ökufjarlægð frá flugvellinum. Reykjavíkurflugvöllur  er því í raun málefni sem varðar alla þjóðina

Til að höfuðborgir geti ræktað  hlutverk sitt  með fullnægjandi hætti,  leggja flestar þjóðir áherslu á að þær   séu  í sem bestum  tengslum við landið allt,  og geti borgir af einhverjum ástæðum ekki  uppfyllt þessi  skilyrði, eru fjölmörg dæmi,  víðvegar um heim, að  miðstjórnarvaldið hafi hreinlega verið flutt til annarrar borgar, eða    ný höfuðborg   byggð. Maður veltir því fyrir sér,  hvort sveitarfélagið Reykjavík hafi áhuga og/eða pólitískan vilja  til að vera gestgjafi æðstu stjórnsýslu og stofnana lýðveldisins.

Í stjórnarskrá landsins, lögum eða   reglum, eru engin ákvæði um að þetta gestgjafahlutverk eigi að vera í   Reykjavík,  þannig að í raun getur  hvaða sveitarfélag sem er  tekið  hlutverkið  að sér.

Verði Reykjavíkurflugvöllur lagður niður,   mun nýr flugvöllur ekki byggður á Höfuðborgarsvæðinu, og afleiðingarnarverða  eftirfarandi:

Varaflugvöllum við Norður-Atlantshaf mun fækka um einn,  og mun þar með draga  úr flugöryggi hafsvæðinu. Vegna færri varaflugvalla munu flugvélar þurfa að taka meira eldsneyti, en það hefur í för með sér hærri rekstrarkostnað og hærri fargjöld.  

Miðstöð innanlandsflugs mun alfarið flytjast til Keflavíkur og fjöldi farþega í innanlandsflugi   dragast verulega saman,  vegna aukins ferðatíma og kostnaðar,  og  samgöngutengsl  Höfuðborgarsvæðisins  við landsbyggðina munu  skerðast

Fjöldi starfa sem tengist fluginuí Reykjavík og nágrenni   beint og óbeint eru um 1000, og munu flest  þeirra  flytjast til Suðurnesja, sem þýðir tekjutap fyrir Reykjavík og nágrannasveitarfélögin, en  er  jákvætt fyrir Suðurnesjamenn. Ennfremur munu ýmsar heilbrigðisstofnanir og  tilteknar  aðrar  þjónustustofnanir,  sem tengjast landsbyggðinni,  sjá sér hag í að   flytjast til Suðurnesja.

Nýr flugvöllur á Höfuðborgarsvæðinu er ekki raunhæfur möguleiki, og tel ég  engan  annan kost í stöðunni en að  miðstöð innanlandsflugs verði áfram þar.

Það er viðeigandi að birta mynd af flugvél í lok þessarrar yfirferðar Sigurðar Thoroddsen um flugsamgöngur og skipulag. Myndin efst í færslunni er af eini af þotum Icelandair.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (25)

  • Guðjón Erlendsson

    Þegar rætt er um fluöryggi þarf að hafa það í huga að neyðarflug eru framkvæmd með þyrlum Landhelgisgæslunar. Almenn sjúkravflug (flutningur á sjúklingum í séraðgerðir ofl) fer fram með sjúkraflugi leiguflugvéla. Þyrlur Landhelgisgæslunar gera auðveldlega haft aðstöðu í miðborg Reykjavíkur þó að flugvöllurinn fari, enda þurfa þær ekki á flugbrautum að halda.
    Þó að sjúklingar í almennu sjúkraflugi ferðist í 30-40 mínútur lengur í Landspítalann, þá hefur það engin áhrif á lífslíkur þeirra.

    Sem leiðir að öðru. Er það rétt staðsetning aðal spítala landsins að vera í miðborg Reykjavíkur? Margir hafa bennt á Vífilstaðaspítala sem betri staðsentingu, en engar raunverulegar rannsóknir hafa farið fram á bestu staðsetningu spítalans fyrir borgar- og landsbyggðabúa.

    • Sigurður Ólafsson

      Staðsetning Landspítalans er umdeild og það ætti að vera næg ástæða til þess að gera „raunverulega“ úttekt á staðarvalinu.

  • Þórður Jónsson

    Þetta eru svakalega fínar greinar.
    Einhverjar þær bestu sem ég hef lesið. – Sagan og löggjöfin, framkvæmdin og afleiðingarnar og margt fleira er skýrt.

    Ég er ekki hissa Sigurður komist að þessari niðurstöðu.

    Ef ég værg Gunnar mundi ég setja saman vel undirbúna grein og þiggja tilboð Hilmars um birtingu.

    Árni virðist líka afburða vel að sér í málinu. Gaman væri líka ef hann sendi inn færslu um þetta skipulagsmál.

    • Þakka traustið félagi. En ég er mikið hlynntur því að málefnaleg umræða fari fram um málið. M.a. þess vegna finnst afskaplega leitt að sjá hæpin rök eins og sjúkraflug (öryggi) eða fjölda farþega innanlands sem rök fyrir veru hans.
      En ég skil alveg marga sem eru hlynntir vellinum, svona þannig séð. Ef ég ætti til dæmis einkaflugvél og byggi á Akureyri eða á höfuðborgarsvæðinu væri ég hlynntur vellinum.

  • Árni Ólafsson

    Ég minni enn og aftur á hlutverk höfuðborgarinnar. Hún er best sett í samgöngumiðju landsins. Verði samgöngumiðjan flutt er rökrétt að flytja höfuðborgarhlutverkið.
    Ef flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur er í alvöru inni í myndinni ber að breyta öllum áformum um uppbyggingu stofnana s.s. Landspítala, annarra ríkistofnana og huga að flutningi stjórnsýslu landsins þangað. Hvort hæstvirt Alþingi komi áfram saman í hinni friðsælu Reykjavík má liggja á milli hluta.
    Og þá vaknar einnig spurningin um það ef höfuðborgarhlutverkið og samgöngumiðjan yfirgefur Reykjavík hvort Miðnesheiði sé yfirleitt rétti staðurinn. Hún er svo afskekkt.

    • Þetta er bara rökleysa að nauðsynlegt verði að hafa Vatnsmýrarflugvöll sem forsendu að Reykjavík geti talist höfuðborg. Flugvöllurinn er fyrir það fyrsta alls enginn samgöngumiðja sem stærsti hluti landsmanna notar. Hvers vegna er ekki hægt að skilja það? Eða er tilgangurinn eftir sem áður að slá ryki í augu fólks. Fyrir venjulegan Íslending sem ferðast innanlands er flugið tæpast valkostur. Nema mögulega fyrir skreppitúr til Akueyrar, Egilsstaða, dagsferðir. Fyrir þá sem búa á Suðurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi vestra er fljúgið ekki valkostur enda ekki einu sinni flogið þangað.
      Vatnsmýrarflugvöllur er mikið nýttur fyrir millilandaflug, einkaflug, kennsluflug, Landhelgisgæslu. Starfsemi sem löngu ætti að vera búið að flytja annað. T.d. til Keflavíkur, enda vantar fleiri atvinnutækifæri þar og aðstaðan öll miklu betri. En hvers vegna er það ekki gert ? Það er vegna þeirra fáu sérhagsmunasegga sem telja sig eiga landið og beita fyrir sér hræðsluáróðri um sjúkraflug eða samgöngumiðstöðvar (sem ætti þá að vera strætó) og plata fólk til fylgis við málstað sem þjónar þeim sjálfum, sem sagt einkaflugið.

    • Árni Ólafsson

      Nýlega voru birtar tölur um að um 40% þeirra sem fara á milli Akureyrar og Reykjavíkur yfir árið fljúga. Þetta hlutfall er yfir 50% á veturna.
      Atvinnulífið notar flugið. Þeir sem eru í frí aka. „Hvers vegna er ekki hægt að skilja það“. Flestir taka mið af sjálfum sér – og þeir sem aldrei fara út fyrir Elliðaár nema í sumarfríinu sjá ekki mikilvægi innanlandsflugsins. En nú er umræðan komin á frekar lágt plan.

      Í framhaldi af því vil ég vekja athygli á margendurteknum rangfærslum og lygum samtaka um betri byggð þar sem því er haldið fram að flugvöllurinn hafi haft afgerandi og slæm áhrif á skipulag og þróun Reykjavíkur. Borgin byggðist hins vegar á melum og holtum þar sem grundun húsa var auðveld og ódýr. Flestar mýrarnar voru skildar eftir – þar á meðal Vatnsmýrin. Þetta mótaði megindrætti borgarinnar á síðari helmingi 20 aldar. Með endurtekningunni hefur tekist að hamra þessa vitleysu inn í huga margra.

      Hefði Vatnsmýrin byggst upp t.d. á 7. eða 8. áratugnum sætum við þar uppi með byggð sem væri í hrópandi andstöðu við þá borgardrauma, sem nú eru uppi – þ.e. aðgreindar þyrpingar húsa eftir húsagerðum, aðallega hús á bílastæðum í flokkuðu gatnakerfi – byggð án bæjarrýma og bæjarmyndar. Við eigum nóg af slíku.

      Til þess að vera hæfilega kaldhæðinn að gefnu tilefni má segja að flugvöllurinn hafi bjargað Vatnsmýrinni frá borgarskipulaginu 

    • 40 % þeirra sem fara milli AEY og REK fljúga ? Sem sagt allir sveitarstjórnarmennirnir og alþingismennirnir og aðrir sem eru í vinnunni og ekki greiða sín fargjöld sjálfir, nú og erlendu ferðamennirnir sem annars myndu fara frá KEF, þeir eru væntanlega inní þessum tölum. Atvinnulífið hér eru opinberir starfsmenn og þeir sem eru fríi segir þú réttilega nota ekki flugið. Hvers vegna ? Mikill kostnaður ? Vegalengdin er nú bara 360 km og væri hægt að stytta enn frekar ef ekki væri hlustað á hreppapólitíkina í Húnavatnssýslum.
      Fljúgið fyrir venjulega notanda er því varla samkeppnisfært eins og sést með tam Sauðárkrók. Hver flýgur þangað ?
      Þetta er veruleikinn. Veit ekki um hverja þú talar þegar talað er um „þá sem ekki fara út fyrir Elliðaár“. Sjálfur hef ég farið víða um land, aðallega vegna starfs míns, akandi og fljúgandi. Þar hef ég séð hverjir nota fljúgið og hvað það kostar.
      Hvers vegna svarar þú því ekki með millilandaflugið, einkaflugið og starfsemi LHG, af hverju hefur þessi starfsemi ekki verið flutt annað? Vegna þess að þetta snýst ekki innanlandsflugið eða sjúkraflugið. Nei, þetta snýst fyrst og síðast um einkaflugið og drauma flugáhugamanna.
      Þú ert í mikilli mótsögn við sjálfan þig þegar þú talar um flugvöllurinn hefur bjargað byggðinni. Mórallinn á 7. og 8. áratugnum var bílaborgin, sem auk þess var bein afleiðing af veru flugvallarins í Vatnsmýri. En núna sjá menn kostnaðinn og óhagræðið við það að byggðin þenjist þetta út.
      Og fyrir nágranna Reykjavíkur, tam Kópavogsbúa er óþolandi að hafa 4ja hreyfla hávaðasamar flutningavélar fljúgandi frá þessum velli. Langt yfir hávaðamörkum.

  • Þetta er óttalega einhæf greinarflokkur og það er ekki hægt að kalla þessi skrif fagleg. Ekki einu orði er mynnst á þau hagrænu, félagslegu og samgöngu hagræðni sem fengist af fluttningi innanlandsflugsis til t.d. Keflavíkur. Svona umræða er ekki fagleg, hún telst pólitísk.

    En ég er persónulega á þeirri skoðun að flugvöllurinn fari aldrei. Ekki vegna þess að það sé samfélaginu til góða, það hefur verið margsannað og útreiknað að áhrif flutningsins yrðu jákvæð. Eða vegna verri samgangna til dreifbýlisins, flestir keyra þessa dagana, og með áframhaldandi uppfærslu vegarkerfisins mun sú breyting einungis verða meiri. Nei ástæðan er sú að fólkið sem á landið er fólkið sem nýtir flugvöllinn mest; Eigendur Íslands. Þeir sem eiga einkaþotur og einka þyrlur, sem skjótast í verslunarferðir til Lundúna og Köben, og Laxveiði norðan heiða. Þessi 1% vilja flugvöllinn við hliðina á túninu heima.

    Íslendingar hafa aldrei gert nokkuð gegn vilja eigendana. Flugvöllurinn fer því ekki fyrr en kannski flugtæknin er orðin það framarlega að hægt verði að leggja í túninu heima, frekar en næst við hliðina.

  • Jón Guðmundsson

    Myndin sem skreytir lokakafla greinaflokks Sigurðar segir allt sem segja þarf. Þessari þotu lendir enginn í miðbæ Reykjavíkur ótilneyddur. Myndin minnir okkur á það að raunveruleg ákvörðun um flutning flugreksturs úr Vatnsmýri yfir á Miðnesheiði var tekin árið 1967 af flugtæknilegum ástæðum. Fimm árum áður hafði millilandaflug Loftleiða flust til Keflavíkur.
    Reykjavíkurflugvöllur var rekinn án starfsleyfis allt til ársins 2002, útgefið starfsleyfi gildir til ársins 2016. Ný kynslóð einkþotna kallaði á nýjar flugbrautir sem lokið var við að byggja árið 2002. Nýi flugvöllurinn í Vatnsmýrinni var þannig ekki byggður vegna hagsmuna sjúkraflugs eða innanlandsflugs, þaðan af síður vegna hagsmuna Reykvíkinga.
    Umræðan um brottflutning flugreksturs úr miðborginni hefur staðið yfir í áratugi. Vangaveltur um Hólmsheiði, Löngusker, Engey, Álftanes, Kapelluhraun eða Viðey eru til þess að drepa málinu á dreif. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur felur í sér nýja möguleika og sóknarfæri fyrir höfuðborgina og landsbyggðina. Hér vegast almannahagsmunir á við þægindaramma þeirra sem vilja halda dauðahaldi í miðbæjarflugvöll.
    Þetta er ekki spurning um svokallaða „flugvallarandstæðinga“ eða „flugvallarvini“ með „hjartað á réttum stað“. Flugvöllurinn fer fyrr eða síðar, tækniþróunin stýrði þeirri ákvörðun fyrir hálfri öld síðan.

    • Já réttilega togast hér á almannahagsmunir íbúa höfuðborgarsvæðis og sérhagsmunir einkaflugmanna. En þetta með að byggja nýjan flugvöll nærri Reykjavík kemur eðlilega vegna þess að vinir vallarins geta ekki hugsað sér borgina án þess að flugvöllur sé í 10 km radíus frá 101. Því er það rétt hjá þér að Keflavík er besti kosturinn og þá líka fyrir sjúkraflugið. Því ef 30 mín skipta máli í því sambandi, þá er eins gott að veikjast ekki eða slasast sé maður staddur fjarri flugvelli sem er í notkun. Og það er yfirleitt allsstaðar á landinu, nema á Akureyri, Egilsstöðum og öðrum slíkum stöðum.

  • Páll Björgvin Kristjánsson

    Ég(62), þekki atvinnuflug mjög vel. Það er eins og enginn þori að segja frá því að flugtak tveggja hreyfla flugvélar í Keflavík, krefst VaraFlugvallar fyrir flugtak. Veðurlágmark fyrir flugtak er lægra enn fyrir lendingu. Mín reynsla er að oft lokaðist Reykjavík 1 til 2 tímum seinna enn Keflavík. Ég hef búið í Hveragerði í 30 ár og ég skil ekki hvernig einhver fékk þá hugmynd að byggja flugvöll á Hólmsheiði og/eða úti í Skerjafirði??? Ég veit ekki hvaða lyf þetta Lið er að éta. Kveðja, Palli Kristjánss.

  • Umræðan um Vatnsmýrarflugvöll er mjög einhliða, það sýnir þessi grein Sig. Thor. En allt í lagi, bara hans skoðun.
    Sjúkraflug : Er það virkilega svo að sjúkraflug þar sem stuttur tími, með flugvél, henti virkilega öllum? Hvað ef ekki er flugfært, t.d. til Vestmannaeyja, vegna vinds eða þoku? Áhættan tekin? Nei, þá væru væntanlega notaðar þyrlur. Og hvers vegna er það þá ekki hægt í fleiri tilvikum. Hvað með slys? Hvað er þá notað, þegar líf liggur við? Þyrlur.
    Er kannski verið að benda á falsrök, til varnar við málstaðinn og þar með róta upp tilfinningum fólks. Því þú þarft sannanlega að veikjast eða slasast nærri flugvelli útá landi, til að sjúkraflug með flugvél nýtist. Þess vegna geta menn ekki tekið það sem algild rök.
    Innanlandsflug: Vatnsmýrarflugvöllur þjónar ekki bara innanlandsflugi. Hann þjónar flugi til Grænlands, Færeyja og einkaþotuflugi. Sem og einkaflugi allra flugmannana sem vilja hafa hann þarna nærri sér.
    Hvers vegna er ekki núna hægt að flytja allt þetta flug frá vellinum? T.d. tengja Grænlandsflugið við flug Icelandair frá Ameríku og Evrópu á sama flugvelli. Væri það ekki ákveðinn markaðssókn, t.d. yfir sumarmánuðina. Með sama hætti væri mjög þægilegt fyrir þá sem hygðust fara norður að geta flogið beint frá KEF.
    Höfuðborg: Er það virkilega svo að til að Reykjavík geti talist höfuðborg þá þarf að hafa flugvöll í Vatnsmýri. Með tilheyrandi óhagræði fyrir byggðina sem er í Reykjavík vegna alltof mikils dreifbýlis. Nei, að sjálfsögðu ekki. Ekki frekar en að Reykjavíkurhöfn (í miðbænum) er ekki lengur aðal-samgönguæðin með skipum. Þróun borga er og verður mun mikilvægari en hálfrar aldar gamalt mannvirki sem reist var í skyndingu og til bráðabirgða.
    Hverjir eru það sem fara í innanlandsflug? Sjálfur hef ég farið mikið, en þá fyrst og síðast vegna starfs míns. Ég myndi aldrei fljúga á eigin vegum til t.d. Akureyrar, nema í neyðartilviki. Það er vegna kostnaðar. Ekki bara fljúgið sjálft, heldur líka að maður þarf að leigja sér bíl þegar þangað er komið. Vegalengdir á landinu eru einfaldlega ekki það miklar að nauðsyn sé á innanlandsflugi. Segi það og skrifa. Að mínu viti væri alveg eins nauðsynlegt að hafa öflugar sjósamgöngur vegna veðurs og ófærðar. Eiginlega mun eðlilegra á þessu landi.
    Ef menn telja það svo að vegna mikilvægis Reykjavíkur sem borgar að það þurfi flugvöll mjög nærri borginni, þá gott og vel. Þá hlýtur að vera hægt að byggja hann annarsstaðar en þarna í Vatnsmýrinni og eðlilega skv þeirra eigin skilgreiningum á hagkvæmni, hlýtur slíkur flugvöllur, t.d. á Hólmsheiði eða á Álftanesi eða í Hvassahrauni, að borga sig upp sjálfur vegna þess „að svo margir fara um flugvöllinn“. Eiginlega ætti að setja þessa framkvæmd til einkaaðila sem augljóslega sér hagkvæmnina í þessu.

    • Einhliða? Sigurður notar allar þessar greinar til þess að rökstyðja niðurstöðu sem hann hefur komist að. Svo einfalt er það.
      Það eru fjöldamörg rök fyrir að flugvöllurinn fari….. auðvitað. En þau eru flest mjög þröng og lúta að þröngum hagsmunum borgrinnar en ekki höfuðborgarsvæðisins alls, landsins eða fjárhagslegrar stöðu ríkisins og heimilanna.

    • Nei JR, hann meir að segja gerir lítið úr atkvæðagreiðslunni 2001 og vilja borgarfulltrúa sem sjá borgina þenjast út með tilheyrandi kostnaði og óhagræðingu og þal erfiðleikum til að koma á skilvirkum almenningssamgöngum.
      Hagsmunir höfuðborgarsvæðisins að flugvöllurinn fari eru miklir, jafnvel þótt sveitastjórnarmenn af landsbyggðinni eða einkaflugmenn sem nota flugvöllinn sjá það ekki.

    • Nei Gunnar henn gerir ekki lítið úr atkvæðagreiðslunni.Hann segir bara frá málinu eins og það var og það var svona:

      „Til skýringar skal þess getið að kjörsókn var einungis um 37% og voru 14.913 samþykkir flutningi vallarins en 14.529 á móti. Munurinn var því aðeins 384 atkvæði auk þess sem að kosningin var ekki marktæk, þar sem kosningaþátttakan var undir því viðmiði sem borgarstjórn setti til að kosningin væri bindandi, en það var að kjörsókn yrði 75% eða ef 50% atkvæðisbærra manna greiddi atkvæði á sama veg“.

    • Jú, það gerir hann einmitt JR. Hvers vegna var kosningin ekki marktæk? Og hvenær eru kosningar marktækar? Jafnvel þótt borgarstjórn hafi sagt til að kosningin væri bindandi (ath sögðu það, ekki marktæk), þá er það amk réttur þeirra kjósenda sem kjósa að tekið sé tillit til þess. Eða finnst þér það ekki, svona í lýðræðisríki.
      En burt séð frá því, þessi flugvöllur fer og meginspurningin er bara hvert. Sjálfur hallast helst að Keflavík og þá sá hluti flugsins sem ekki er innanlandsflug. Mögulega gæti lítill flugvöllur verið reistur í námunda við borgina sem eingöngu þjónar innanlandsflugi og kannski þá sjúkraflugi sé það þetta nauðsynlegt.

  • Jón Skafti Gestsson

    Ég las allar átta greinarnar og þær eiga það allar sameiginlegt að vera algerlega einhliða. Það er meira ógagn en gagn að svona umfjöllun.

    • Hilmar Þór

      Góð athugasemd þó ég sé ekki viss um hvort hún sé sanngjörn. En eins og fram hefur komið þá er vel tekið á móti greinum hér á vefnum. Það væri sérstaklega ánægjulegt að birta málefnalega grein sem gengi í aðra átt. Gjörðu svo vel og gaktu i bæinn!

    • Jú Hilmar, Jón Skapti hefur nokkuð til síns máls. Þetta er eftir allt saman ekkert sérlega málefnalegt, heldur einhliða skoðun eins manns sem sér ekki þennan flugvöll annarsstaðar. En varðandi hina hliðina þá bendi ég á grein sem ég skrifa hér að neðan.

  • Helgi hallgrímsson

    Mér er ekki sammála þeirri greiningu að verði völlurinn lagður niður verði annar ekki byggður í staðinn. Það er ekkert því til fyristöðu. Það eru margir kostir í því samhengi sem þegar hafa verið skoðair; löngusker, hólmsheiði, bessastaðanes. Svo eru ýmsir aðrir sem mætti skoða betur eins og hraunið sunnan við Straumsvík, Geldingarnes og jafnvel Viðey. Ég ætla ekki að þykjast hafa hundsvit á flugi eða flugvöllum en sæmilega heilbrigð skynsemi segir mér að Vatnsmýri sé ekki eini bletturinn á höfuðborgarsvæðinu sem sé tækur fyrir flugvöll.

  • Ágúst Haraldsson

    Sammála því að þetta er fróðleg samantekt og rökrétt niðurstaða.

    Mikilvægt er að einhver andstæðingur flugvallarins tæki sig til og skrifaði svipaða úttekt sem rökstyður þá niðurstöðu að flugvöllurinn eigi að víkja úr Vatnsmýrinni.

    Ég er þess fullviss að umsjónarmaður síðunnar muni taka vel á móti slíku efni.

    • Má bjóða þér að kíkja á það sem ég skrifaði hér að neðan.
      En endilega ræðum þetta mál af fullri alvöru og án tilfinningaraka eins og þetta með sjúkrafljúgið sem augljóslega hentar ekki öllum sem veikjast eða lenda í slysi.

  • Árni Ólafsson

    Góð samantekt og rökrétt niðurstaða. Takk fyrir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn