Á Stofunni arkitektar er rekin af tveim skólafélögum frá Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn og hafa þeir rekið hana í meira en 30 ár. Á teiknistofunni hafa verið hannaðir hundruð þúsunda fermetra í margskonar byggingum.
Teiknistofan hefur unnið til verðlauna og viðurkenninga í 35 samkeppnum ýmiskonar, þar af hefur stofan hafnað í efsta sæti 19 sinnum.
Meðal verkanna eru þrjár heilbrigðisstofnanir, þrír framhaldsskólar og þrír grunnskólar og á annann tug leikskóla sem hefur verið byggt. Auk þess liggja eftir stofuna fjöldi samkeppnistillagna af stórum húsum og smáum.
Meðal verka Á Stofunni arkitekta má nefna Grafarvogskirkju, allar byggingar Sunnuhlíðar í Kópavogi, byggingar á Reykjalundi, Iðnskólann í Hafnarfirði, Borgarholtsskóla, Sunnulækjarskóla á Selfossi, uppbyggingu á Litla Hrauni , Hraunvallaskóli í Hafnarfirði og fjölda bygginga fyrir einstaklinga og fyritæki um land allt.
Hjálagt eru myndir af Lækjaskóla í Hafnarfirði sem teiknistofan vann í opinni arkitektasamkeppni fyrir nokkrum árum. Skólinn var tilnefndur árið 2005, til virtustu verðlauna í byggingarlist í Evrópu, Mies van der Rohe verðlaunanna.
Á Stofunni er dæmi um fyrirtæki í arkitektaþjónustu sem hefur ekki burði til þess að vera ábyrgðaraðili í samkeppni um hönnun nýs Landspítala Háskólasjúkrahúss að mati þeirra sem sömdu forvalsgögnin. Þó svo Á Stofunni hafi komið að og hannað þrjár heilbrigðisstofnanir þá hefur stofan ekki náð að koma þeim upp í 500 sjúkrarúm hverri fyrir sig á síðustu 10 árum eins og óskað er eftir í gögnunum. Teiknistofan telur einnig fráleitt að afsala sér höfundarrétti eins og krafist er í samkeppni um LHS við Hringbraut.
Þetta er fyrsta færslan af nokkrum þar sem kynntar eru íslenskar arkitektastofur. Á stofuni arkitektar standa nærri mér og er valin fyrst vegna þess að ég hef aðgang að myndefni af verkum hennar á tölvu minni.
Höfundar Lækjarskóla eru Finnur Björgvinsson, Hilmar Þór Björnsson og Sigríður Ólafsdóttir arkitektar. Ljósmyndari er Guðmundur Ingólfsson.
Skólinn er mjög flottur og passar að mínu mati vel inn í það svæði sem hann er á.
Það er mjög þarft verk að kynna ísl.arkitektastofur. Takk fyrir