Föstudagur 22.10.2010 - 09:20 - 5 ummæli

Að lesa hús

Orðrétt segir Þórbergur Þórðarson í Ofvitanum “…..Ég vildi vekja athygli lesenda minna á því, hvílíkir þekkingar- og stemmningarbrunnar eru byrgðir því fólki sem alla sína ævi hefur verið svo önnum kafið í yfirborðssmálunum lífsins, að það hefur aldrei gefið sér tíma til þess að lesa hús.”

Já, “að lesa hús”

Þegar arkitekt skoðar hús þá gerir hann það eins og þegar vínsmakkari er að velta fyrir sér víni. Meðan vínið er smakkað, les arkitektinn húsið. Hann les það eins og bók. Og það er ekki fræðibók heldur bók með söguþræði. Hann les hlutföllin og það sem húsið hefur að segja við hann. Hann les sneiðingar og grunnmyndir. Hann les hvernig rýmin hanga saman og spyr hversvegna? Arkitektinn veit að hús eru ekki hluti af “yfirborðssmámunum lífsins”.

Arkitektinn spyr húsið spurninga og húsið svarar þeim flestum. Hann spyr hvernig húsið er notað? Hvaða hlutverki það gegndi í upphafi? Arkitektinn spyr hvað húsið segir honum? Hann spyr hvað húsið minni hann á? Hann spyr fyrir hvern það var byggt?  Hann spyr um félagslega stöðu eigenda og notenda hússins? Hann spyr af hverju húsið sé á þessum stað? Og af hverju það sé af þessari stærð? Af hverju það sé ekki hærra eða lægra?. Hann spyr sig hvernig honum líði í návist hússins og inni í því? Hann spyr hvaða áhrif húsið hafi á umhverfið og hegðun fólks í húsinu og umhverfis það? Hann spyr fyrir hvað húsið standi?

Hann veltir fyrir sér hvað húsið hafi kostað og hver hafi borgað og hvaðan peningarnir komu? Hann setur húsið í byggingarlistalegt- og skipulagslegt samhengi. Hann veltir framtíð hússins fyrir sér. Hann veltir fyrir sér rýmum og mössum og andstæðum. Litir, hlutföll og mælikvarðar fanga athygli arkitektsins. Arkitektinn gerir sér grein fyrir taktinum, hrynjandanum og tónlistinni í húsinu, efnisvali og uppbyggingu.

Allt eru þetta sígildar spurningar og vangaveltur sem koma í hug arkitektsins þegar hann stendur frammi fyrir húsi. Þetta er eins og að skoða málverk. Málverkið talar til áhorfandans. Þetta er m.a. þetta sem gerir arkitektúr svona spennandi.

Arkitektúr er ekki bara spurning um ljótt eða fallegt eins og flestir halda, heldur miklu, miklu, miklu meira.

Börnum er kennt að lesa skrifaðan texta. Það þarf líka að kenna þeim að lesa teiknuð hús og það á að gerast í grunnskólanum. Besta aðferðin til að læra að lesa hús er að teikna fríhendis það sem fyrir augu ber og ræða um hús við félaga sína og leiðbeinanda. Þeir “þekkingarbrunnar” sem þarna er að finna má ekki byrgja lengur. Fólk má ekki vera “svo önnum kafið í yfirborðssmámunum lífsins” að það gefur sér ekki tíma til þess að læra að lesa hús.

En það er ekki hægt að lesa öll hús. Vondu húsin eru eins og vondar bækur. Þær eru skrifaðar af vondum rithöfundum og eru ólæsilegar.

Myndin hér að neðan er sýnir Hörð Ágústsson listmálara og fræðimann upplýsa hóp manna um Natan Olsen húsið í kvosinni. Hörður les þarna húsið upphátt fyrir hóp manna sem fylgjast með af áhuga.

Myndin er tekin af Stefáni Erni Stefánssyni arkitekt fyrir einum 25-30 árum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Frábær útlegging hjá þér Hilmar á spökum orðum Þórbergs.

  • Árni Ólafsson

    Sveinbjörn: Já – og grunnskólabörnin eru næm og móttækileg fyrir pælingum um byggingar og bæjarumhverfi. Fékk einu sinni skemmtileg viðbrögð frá kennara: „ó gvöð [ekkert trúboð í skólum eins og þið vitið] – ég hef gengið fram hjá þessu húsi 500 eða 1000 sinnum og aldrei tekið eftir þessu“.

    Lítil eða engin áhersla er lögð á bæjarumhverfi eða „að lesa hús“ í kennaranáminu.

  • Magnús Ó

    “Arkitektúr er ekki bara spurning um ljótt eða fallegt eins og flestir halda, heldur miklu, miklu, miklu meira”. Þetta er alveg rétt og ótrúlega útbreiddur misskilningur sem gætir hjá flestum. Það vekur líka furðu að þetta er líka álit margra arkitekta.
    Svo er það setningin margtuggða: “De gustibus non est disputandum”. Hún er auðvitað röng vegan þess að smekk má ræða og rökræða með fótfestu í menningu þjóða og hinum ýmsu stefnum. Það er líka hægt að ræða og rökræða persónulegan smekk.

  • Sveinbjörn Sigurðsson

    Væri ekki hægt að fá arkitekta í grunnskólana til þess að kenna börnum að lesa manngerða umhverfið sem þau lifa og búa í. Þetta mætti gera í tengslum við myndmenntar- og sögukennslu. Kannski svona 10 tíma á hverjum vetri í 7, 8, 9 og 10 bekk. Þarna er atvinnutækifæri fyrir arkitekta sem mun skila sér í betri byggð og betra þjóðfélagi.

  • Af því að vitnað er í Þórberg þá var hann fyrst og fremst að lesa karakter hússins út frá því hvaða mannlífssögu það hafði að geyma.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn