Miðvikudagur 23.11.2011 - 11:21 - 6 ummæli

Að sjá með heilanum

 

Þegar ég gekk í arkitektaskóla vorum við send út að “registrera” eins og það hét á dönsku.  Þetta var liður í því að kenna okkur að lesa umhverfið

Að registrera var að skoða eitthvað meðvitað og skrá það hjá sér.  Við vorum látin skoða staði og umhverfi. 

Síðan báru nemendur saman árangurinn. Það kom í ljós að það sáu ekki allir sömu hlutina og þeir sem sáu sömu hlutina sáu þá ekki eins.

Þetta var einskonar vettvangskönnun, en þetta var meira.

Okkur var gert að sjá með heilanum og setja allt í samhengi. Sögulegt og félagslegt samhengi.  Skipulagslegt og arkitektóniskt samhengi.

Þarna fóru líka fram teikniæfingar þar sem fólk þjálfaði huga og hönd um leið og þau skoðuðu það sem fyrir augu bar.  Húsin voru skoðuð, hæð þeirra, saga og gerð.

Og ekki bara það heldur var staðarandinn og mannlífið skoðað.  Það er að segja félagslegt-, umhverfislegt-, skipulagslegt og handverkslegt umhverfi.

Skoðað var hvernig fólk hagaði sér og hvernig það hreyfði sig. Hvernig samskiptin voru og á hverju þau byggðust.

Nemendurnir notuðu helst ekki myndavél.  Heldur gormabækur sem þau teiknuðu í og gerðu skriflega minnispunkta um hugrenningar sínar.

Margir nemendur miskildu þetta og lögðu áherslu á að skila fallegum teikningum. Aðrir gerðu teikningar sem fyrst og fremst innihéldu greinandi upplýsingar.

Myndavélin var ekki vel séð vegna þess að með henni láta nemendur linsunni eftir um að taka eftir og skrá það sem fyrir augu bar.  Linsan gerir heldur ekki greinarmun á aðalatriðum og aukaatriðum. Þess vegna áttu nemendurnir að teikna og skrifa athugasemdir.

Þeir teiknuðu falleg smáatriði í húsunum og stundum húsin sjálf. Það gerðist sjaldan að þeir skráðu rýmin og nánast aldrei lífið i umhverfinu.  Félafslegt líf eða efnahagslegt.

Þeir sáu ekki skóginn fyrir trjám.

Það kom strax í ljós að arkitektanemarnir höfðu ekki burði til þess aðskilja aðalatriðin frá aukaatriðunum. En það lagaðist með þjálfun.

Við erum sífellt að þjálfa okkur í að sjá heildarmyndina, forgangsraða og skilja það sem mestu veldur hvort umhverfið sé gott eða slæmt.

 Við tökum bútana og metum þá og setjum í samhengi.

Sennilega var þetta mikilvægasti þátturinn í arkitektanáminu.  Það er ekki öllum gefið að ná tökum á því að „registrera“ og lesa umhverfið, en það geta allir lært á forrit og að gera verkteikningar og verklýsingar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Stefán Benediktsson

    HKL ritaði grein í tímarit um heimilisiðn eða handavinnu fyrir allöngu. þessi grein fjallaði um samband hugar og handar. Þetta samband er held ég gagnlegra en margt annað til að gera fólki kleyft að „átta“ sig á umhverfi sínu „gera sér mynd“ af því. Minnist þess þegar nokkrir félagar voru að lesa Gallastríð Caesars og röðuðu húsgögnum til aðreyna að gera sér “ mynd“ af því landslagi sem orrusturnar áttu sér stað í og viti menn allt í einu varð latínan skiljanlegri.

  • Þetta er fróðlegt að lesa. Maður á samt stndum ekki létt með að skilja hvernig arkitektar komast að endanlegri niðurstöðu. T.a.m. að skilja af hverju Harpan litur svona út eða hvernig „registreringin“ getur leitt af sér niðurstöðu eins og Orkuveituhúsið, Moggahöllina við enda Austurstrátis eða Ráðhúsið í Reykjavík.

  • Hilmar Gunnars

    Danir eru snillingar í registeringu. Ég tók undirbúningsnám í DK og kynntist einmitt þessu með að registrera mannlífið. Maður sat á stól á brautarstöðinni og rissaði upp mannlífið og bevægelsen í umhverfinu. Þessu var ekki gerð eins góð skil í LHÍ.

    Að vinna í diagrammi er mikilvægur og upplýsandi hluti hönnunarferilsins.

  • Hilmar Þór

    Varðandi skemmtilega hugleiðingu og reynslusögu Arons þá er það þannig að við arkitektar þurfum að lesa staðin í hvert sinn sem við hefjum eitthvað verk. Við munum ekki hvernig ”kunninginn var klæddur”. Þetta á jafnvel um staði sem við komum oft á og þekkjum vel. Ef arkitekt ætlar að fara að breyta heima hjá sér, svo dæmi sé tekið, þá skoðar hann heimili sitt með öðru hugarfari og í öðru ljósi en annars.

    Varðandi spurningu Ólafs þá geri ég ráð fyrir að svona vinnulag sé stundað í öllum arkitektaskólum. Þetta vinnulag nota flestir arkitektar að ég hygg við vinnu sína þó það sé ekki eins kerfisbundið og í náminu.

    Og það á enginn að vera feiminn við að teikna. Að teikna er mjög lærdómsríkt og gefandi. Ég heimsótti Villa Savoy í síðustu viku og settist á bekk og gerði eina eða tvær skissur til þess að nálgast húsið aðeins áður en gengið var í bæjinn. Þegar inn var komið voru þrír einstaklingar með teikniblokk. Ég spurði hvort þeir væru arkitektar sem reyndis vera. Teikningar þeirra voru ekki sérlega góðar frekar en mín. En þetta styður þá ímynd sem ég hef á verklagi arkitekta. Þeir teikna til að taka betur eftir og taka síðan ljósmyndir.

  • Òlafur Òlafsson

    þakka skemmtilega innsýn inn í nám arkitekta. Ég spyr hvort þetta sé kennsluaðferð sem stunduð er i öllum arkitektaskòlum?
    Og hvort arkitektar noti þetta vinnulag við öll verk eftir að námi líkur? Aron lýsir skemmtilega hvernig við upplifum umhverfið i dagsins önn, en samkvæmt lýsingunni að ofan eru arkitrktar Kerfisbundnari við lestur umhverfisins.
    kannski ættum við sem ekki kunnum að teikna að fara að teikna til þess að skrá upplifunina en ekki til að framleiða einhverja myndlist. Það er huggun ì þvì!

  • Við mannverur erum í raun sérhæfður skönnunarmekanismi sem skannar eitt atriði í einu og nóterar það sem fangar athyglina og það beinir augunum að (líkt og vasaljós lýsir aðeins á eitt í einu í myrkvuðu herbergi en sér ekki allt herbergið, heildarmyndina). Það þýðir hins vegar ekki að við tökum ekki eftir öllum hinum fjölmörgu hlutunum í kringum okkur, því við gerum það en tökum bara ekki almennilega eftir því. Því við erum ásamt því að hafa þetta meðvitaða skönnunarkerfi/vasaljós?, líka með ómeðvitað kerfi sem skynjar heildina, eins konar stærra flóðljósakerfi sem tekur alla skynjun inn í einu en man ekki eftir öllu.
    T.d. ef ég væri spurður að því hverju einhver kunningi minn sem ég hitti fyrr um daginn, klæddist. Þá myndi ég ekkert eftir því af því að ég nóteraði það ekkert hjá mér eða pældi ekkert í því, en ég var meðvitaður um það á staðnum og það væri mjög sennilegt að yrði ég dáleiddur væri hægt að draga þær upplýsingar út úr mér.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn