Mánudagur 01.02.2010 - 13:06 - 18 ummæli

Aðlögun að götumynd

townhouse07[1]

Hér er kynnt 125 m2 hús sem byggt hefur verið í Landskrona í Svíþjóð. Húsið er ætlað barnlausu fólki sem vinnur að einhverju marki heima hjá sér í litlu 5 m2 annexi á lóðinni.

Húsið er fellt inn í gamla götumynd. Svona verkefni eru kölluð “in-fill” á ensku.

Slík verkefni eru vandmeðfarin. Arkitektinn þarf að kunna að lesa umhverfið og setja sig inn í öll aðalatriði og einkenni staðarins. Verkefnið er að draga úr göllunum og styrkja kostina. Svona verkefni nálgast arkitektar með ýmsum hætti og sitt sýnist hverjum.

Mér sýnist þetta hús í Landskrona mjög vandað og spennandi. En er það ekki á kolröngum stað?

Maður veltir fyrir sér spurningunni; Af hverju er fólk sem sækist eftir gömlu umhverfi að byggja svona hús á svona stað?

Húsið sem er með japönskum áhrifum er teiknað af Johan Oscarson sem nam arkitektúr í South Bank University í London

townhouse01[1]

9[2]

 

townhouse09[1]

townhouse10[1]

townhouse13[1]

 

townhouse17[1]

 

townhouse20[1]

 

townhouse04[1]

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Fer ekki bráðum að verða hægt að grafa hugtakið ‘gamli stíllinn’ og komast aðeins lengra?

    Þetta er gjörsamlega merkingarlaust hugtak, og þessi endalausa notkun á því sýnir ekki minni vanvirðingu og vanþekkingu á byggingarlist fyrri tíma heldur en hvað annað.

    Maður gæti eins talað um gamla myndlist og nýja!

    Hvort þetta hús í Landskrona er vel eða illa heppnað hefur ekkert að gera með hvort það er nýtt eða gamalt. Það er fáránleg einföldun að raða þessu upp í einhverskonar ‘annaðhvort eða’ spurningu.

    Óskin um að ný hús falli algjörlega inn í gamalt umhverfi sitt verður oftar en ekki til þess að þessi hús herma bara eftir ásýnd umhverfisins. Og ef maður fer með þá hugsun til enda – hvað með til dæmis dæmigerða íslenska sveitabæinn, hvítan með rauðu þaki. Það er varla hægt að ímynda sér meiri kontrast við umhverfi sitt. Samt kvartar enginn.

    Þetta hús úr Hafnarfirði gerir svosem það sama og hótelið í Aðalstræti.

    Og þar fyrir utan – í hverju liggur eiginlega fordæmingin á því? Ég vildi nærri því óska að það væri meira af svona skrímslum heima, frekar en allt þetta kæfandi, smekklega miðjumoð.

  • Ég verð að gagnrýna það sem Samúel segir hér að ofan að halda því fram að nýbygging sem dregði daum gömlu húsanna hefði verið dæm til að mistakast, hvers vegna?
    Þessi bygging er í mesta lagi athyglisverð en á engan hátt getur hún verið talin eitthvað fyrir augað og þá síst sem púsl sem bætir annars mjög fallega götumynd heldur þveröfugt. Vandamálið við allt of marga artíktekta í dag er vanvirðing við umhverfið sem mér finnst sýna sig vel þarna.

    Hver eru líka rökin í því að „skammast okkar ekki fyrir nútíma byggingarlist“ ? Málið er einmitt í dag þannig að margir skammast sín fyrir nútíma byggingarlist og þá eru það helst fólk sem er ekki arkítektar. Þetta segir okkur augljóslega það að nútíma arkítektúr er því miður að allt of mörgu leiti á villigötum hvað varðar fagurfræði og „esthetíska“ formsköpun, þess vegna langar fólk of að bakka aftur í klassík frekar heldur hinn allt of oft brútal módernisma.

  • Borghildur S. Sturludóttir

    Landskrona í Svíþjóð hefur verið meira þekkt fyrir að vilja byggja í „gömlum stíl“ og það meira að segja heilt þorp. Því er það hrein ráðgáta hvernig þetta hús kom til, var samþykkt og meira að segja byggt!
    Getur verið að húsið hafi verið vel kynnt, að haldinn hefur verið hverfafundur og kynnt hvað koma skyldi? Ætli greitt hafi verið atkvæði um það…jafnvel opnar og gagnrýnar umræður þar sem kostir og gallar hafi verið vegnir og metnir?..og því allir nágrannar í dag lukkulegir með þessa nýbreytni.

    Hef ekki hugmynd um það sjálf, en vildi óska þess að í framtíðinni að við gætum rætt hverfið okkar og umhverfi, komist að niðurstöðu saman og verið sátt…., en ég óska þess að með tímanum sé hægt að meta „hús síns tíma“, að hús endurspegli tækni, hugsun og lífstíl hverju sinni.

    …og svo það sé á hreinu, þá finnst mér þetta hús vera tær snilld!

  • Minnir mig svolítið á húsið sem ég bjó einu sinni í á horni Þórsgötu og Baldursgötu, hálfgert fúnkishús, kannski ekki vel hugsað að öllu leyti, og gömul hús í kring. Íbúðin mín var hins vegar ein hæð. Þetta danska dæmi lítur svo sem nógu vel út en ekki bjóða mér að búa svona á þremur hæðum með ponsugólffleti á hverri, þó að ég væri ungur barnlaus uppi!

  • Hilmar Þór

    Eins og sagði í færslunni þá sýnist sitt hverjum þegar byggt er inn í gamlar götumyndir. Það er fróðlegt og skemmtilegt að lesa athugasemdir og rökin sem fylgja færslunni.

    Ég vek athygli á tvennu.

    Í fyrst, að gömlu húsin hafa staðið við götuna í sennilega talsvert á aðra öld. Þau eiga sér langa sögu. Líklegt er að þau hafi yfirleitt þótt falleg þó svo að þau hafi ekki brotið blað í byggingalistasögunni eða í götumyndinni. Þetta eru rólegheitahús í rólegheita götu.

    Svona götur verða sífellt sjaldgæfari og það þarf að fara varlega þegar átt er við þær.

    Hitt er að nýja húsið er framúrskarandi gott hús sem er hannað af flinkum arkitekt.

    Þess vegna lítur fólk öðruvísi á það og er þolinmóðara gagnvart þessu stílbroti í götunni.

    Hér er húsið sem byggt hefur verið langtum betra í allri sinni gerð og frágangi en venjan er.

    Ef þetta væri lélegt nýmóðins hús þá væri almenningsálitið annað.

    Fæstir arkitektar eru færir um að laða fram framúrskarandi hönnun í hvert sinn sem þeir hanna inn í gamla götumynd.

    Arkitektum eru mjög mislagðar hendur þurfa að gæta sín í þessum efnum og alhæfa ekki neitt.

    Engin regla er til sem afgreiðir þessi misjöfnu sjónarmið í eitt skipti fyrir öll.

    Þess vegna er þessi nálgun vandmeðfarin og ástæða til að staldra sérstaklega við áður en ráðist er í slíka uppbyggingu. Ef þessi nálgun sem við sjáum í Landskrona, væri reglan yrði uppi hörmungarástand í flestum eldri borgarhlutum fyrr en varir.

  • Árni Ólafsson

    Skemmtileg klípusaga. Arkitektum á að þykja þetta gott! Hver tími hefur sitt tungumál. Notagildið mótar bygginguna .. o.s.frv. sem við höfum svo oft bæði sagt og heyrt.

    En er þetta gott nema sem stök yfirlýsing eða ögrun? Hvað ef „allir” gerðu svona? Líka þeir sem ekki ráða við form og hlutföll. Fengjum við þá ekki reykvíska stöðu með hrærigraut undirmálsbygginga innan um fastmótaða alþýðubyggingarlist?

    Svigrúm fyrir hið óvenjulega, sem e.t.v. varpar ákveðnu ljósi á hið hefðbundna, er nauðsynlegt. Hins vegar finnst mér að ekki eigi að nota það svigrúm til þess að gefa veiðileyfi á umhverfið og opna fyrir almennt virðingarleysi gagnvart hefðbundinni og fastmótaðri bæjarmynd og byggingarlist. Mér finnst Reykjavík með brunagöflum sínum, gömlum og nýjum, gapandi yfir litlum timburhúsum vera víti til varnaðar. Þar hafa oft verið lögð drög að yfirlýsingum sem þessari – í takt við tíðarandann – með hörmulegum afleiðingum.

    Ég vona að þetta dæmi „smiti” ekki íslenska hönnuði á sama hátt og svarti demanturinn í Kaupmannahöfn gerði á sínum tíma (glæsileg bygging, sem eignaðist nokkra hálfrefi og álíka afkomendur í Reykjavík).

  • Þórður Magnússon

    Allar leiðir koma til greina þegar byggt er inn í gamalt. Útkoman er getur verið jafngóð hvort sem um er að ræða nýjan stíl inn í gamalt umhverfi eða einfaldlega byggingu í gömlum stíl. Það eru gæðin sem skipta máli.

    Ég vil hins vegar leyfa mér að fullyrða að öfgarnar hér á landi séu yfirleitt í þá áttina menn loka á möguleikann að byggja í gömlum stíl inn í gamla götumynd. Það getur nefnilega í mörgum tilfellum leyst vandamál.

    Tökum sem dæmi Kirkjustræti, menn eru í mörg ár búin að vera að leita að leiðum til að klára götumyndina. Viðbyggingin við Alþingishúsið er vel heppnuð að flestra mati, en hvernig er byggt við Hótel Skjaldbreið hefur vafist fyrir mönnum.

    Í því tilviki mætti vel hugsa sér að byggja í gömlum stíl inn í randbyggða röð eldri húsa.

    Annað atriði sem mér finnst skipta máli er að sumir arkitektar virðast vera svo fótafastir í 20.aldar bygginarlist að þeir geta ekki sett sig inn í þau gildi sem ríkja í eldri byggingarlist. Þegar þeir svo reyna að flétta nýtt inn í gamalt ganga þeir þvert á þau stílbrigði sem gefa gömlu byggingunum gildi.

    Gott dæmi um þetta er breytingar Guðmundar Jónssonar á Skólavörðustíg 46. Þær sýna svo ekki verður um villst að arkitektinn hefur engan skilning á viðfangsefninu og nálgast það með miklu virðingarleysi. Gluggaskipanin ryðlast og það er ekkert eftir af einkennum gamla hússins.

    Annað dæmi um misheppnaða nýja byggingarhluta eru breytingarnar á Tösku og hanskabúðinni. Arkitetektinn hefur ekki svo mikið sem velt því fyrir sér hvernig upprunalegir gluggar litu út. Hann kóperar einhverja bastarða sem urðu til vegna lélegs viðhalds. Hálf neyðarlegt fyrir menntaðann arkitekt að mínu mati.

    Hins vegar nokkrum húsum ofar við skólavörðustíginn var farin sú leið að endurbyggja í gömlum stíl og það hús fellur það vel inn í götumyndina að fáum dettur í hug að um nýbyggingu sé að ræða.

  • Sumir sjá ekkert athugavert við þetta.

    Sumir heyra ekki heldur falska nótu.

    Þeir um það.

  • Þessi umræða hefur komið upp hér áður og þá voru einnig flestir á því að það væri nær að byggja í „gömlum“ stíl í uppbygginu miðbæjar reykjavikur.

    Ég er alveg sammála Samúel um að þetta er spennandi og svoldið „hollenskt“en þeir eru einmitt þekktir fyrir svona innbyggingar milli gamalla húsa. Ef vandað er til verks þá vil ég miklu frekar sjá svona byggingar en „falskar“ nýbyggingar sem þykjast vera eitthvað annað en þær eru.

  • Hrikalegur hroki og virðingarleysi.

  • Pétur Maack

    Tek undir hvert orð hjá Samúel, stærstu mistökin eru ævinlega þegar menn reyna að immitera hið gamla.

    Ég vil annars færa þakkir fyrir fróðleg og skemmtileg skrif um leið og ég bið um óskalag. Það er að þú takir fyrir og fjallir um miðbæjarskipulagið á Akureyri en þar er deiliskipulagstillaga byggð á verðlaunatillögu Graeme Massie á leið í kynningu.

  • Samúel T. Pétursson

    Það er nóg um götur í þessum stíl hér í Árósum þar sem ég bý sem er gaman að rölta um. En ef þessi gata væri meðal þeirra reyndi ég sem oftast að ganga hana til að virða fyrir mér þessa tæru snilld. Það er einmitt samspilið við gömlu götumyndina sem gerir þetta spennandi. Nýbyggingin, í gegnum hámódernisma, gerir sitt til að láta ekkert á sér bera, og passar meira að segja að láta ekki meiri skugga falla á götuna fyrir framan með því að hafa stór op bæði í þaki og vegg á efstu hæðinni. Þessi bygging er svona eins og umbúðir sem utan um eitthvað algerlega óskilgreint. Allar tilraunir til að byggja þarna nýbyggingu sem hefði dregið taum eldri húsanna hefðu verið dæmdar til að mistakast, og götumyndin liðið fyrir það, ekki öfugt. Og hvers vegna skammast sín fyrir þá tíma og þá byggingarlist/tækni sem við búum við í dag? Af hverju reyna að plata og skammast okkar? Það er eins og fólk sé hrætt um að móðga þá sem byggðu eldri húsin, sem hljóti nú að velta sér við í gröfinni við svona „ósköp“. Dettur engum í hug að þeim þætti það bara spennandi að fá fulltrúa nýs tíma inn í hverfið sitt? Eins og að fá nýtt barn inn í fjölskyldu. Hver ætti að vera leiður yfir því?

    Í miðbænum í Reykjavík eru mýmörg dæmi um misheppnuð nýhýsi innan um eldri hús, einhver nefndi byggingu á Njálsgötunni í því samhengi. Sammála þar. En þetta hér að ofan er leiðarljós að því hvernig ætti að flétta nýbyggingar innan um gömlu byggðina í miðbænum, að mínu mati.

  • Takk fyrir skemmtileg og fróðleg skrif.
    Aðlögun að götumynd er fyrirsögnin þín hér. Þarna er falleg gömul götumynd og flott nýtt hús… sem passar ekki þarna. Svona nokkuð getur í besta falli verið minnisvarði um skipulagsslys.
    Þá verð ég að fá að minnast á Stjörnubíósreitinn. á þeim parti Laugavegar gæti maður talið sig vera staddan í hvaða glæsilegu „kringlunni“ hvar sem er í heiminum, ef maður væri leiddur þangað og ætti að giska á hvar maður væri, en bara ekki á gamla Laugavegi. Þetta kallast væntanlega að þurrka út götumynd!?

  • Sama átti sé stað varðandi Simzen húsið við grófina, til hvers að flytja og gera upp þetta gamla hús og setja svo glerhýsi framan á það.
    Hverjir stórna svona vitleysu?

  • Helgi Hallgrímsson

    Mælikvarðinn er svolítið freklegur miðað við húsin í kring en persónulega finnst mér ekkert að því að útlitið´sé nútímalegt innan um gömlu húsin. En þetta er yfirleitt stærsti feillinn við ný hús innan um gömul, þau eru oftar en ekki hærri en húsin í kring og passa þar af leiðandi illa inn, sama hversu vönduð þau eru.
    Til samanburðar eru nokkur hús við bergstaðarstræti frá 8. og 9. áratugnum sem passa ágætlega innanum gömlu húsin þrátt fyrir annað útlit vegna þess að þau eru í sama mælikvarða og gömlu húsin.

  • Minnir á mistökin (í boði R-listans sem ég kaus) við Njálsgötu þar byggður var svipaður en miklu stærri kassi í stað Ölgerðarhússins sem var rifið.
    Það er mikill missir af því sögumikla og stórglæsilega iðnaðarhúsi.
    Það má segja að það sé nánast búið að þurrka út sögu iðnaðar í Reykjavík

  • Jónas Tryggvi

    Þetta er alveg ferlegt!

  • Steinarr Kr.

    Satt sem þú segir, flott og vandað hús, en staðsetningin klaufaleg. Þarna hefði mátt hugsa um hæð húsanna í kring og þakhalla.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn