Í tengslum við færslu um ”Fingurskipulag” Kaupmannahafnar í síðustu viku vakti Jón Guðmundsson arkitekt athygli á Alfred Jensen Raadvad. Jón upplýsti í athugasemdarkerfinu að Jensen sé álitinn fyrsti skipulagsfræðingur dana og einn helsti hugmyndafræðingurinn að baki fingurplansins. Hann setti skipulagshugmyndina fram í bók sinni ”borgmesterbogen” sem hann hafði skrifað árið 1914 og endurskoðað og gefið út árið 1929. Það er 18 aárum áður en skipulagið var samþykkt og að mestu eignað Steen Ejler Rasmussen og Peter Bredsdorff. En eins og fram kom er fingurskipulagið álitið eitt af helstu menningarverðmætum dönsku þjóðarinnar.
Það skemmtilega við þetta er að Alfred Jensen (1848-1933) var stóribróði Thors Jensen (1863-1947) sem var mikill athafnamaður hér á landi í upphafi síðustu aldar.
Eftir að Jón vakti athygli á þessum stórmerkilega manni hefur mér borist ljósrit og aðrar upplýsingar frá fleiri kollegum m.a. frá Ólafi Mathiesen arkitekt o.fl. Þarna opnast saga af afar merkilegum manni með nýjar hugmyndir í skipulagsmálum og byggingarlist. Alfred Jensen skrifaði merkilegar bækur og greinar í blöð um efnið og lagði mikið til í umræðu um bygginga- og skipulagsmál hér á landi.
Alfred Jensen Raavad haslaði sér völl í Chigaco í Bandaríkjunum á þeim tíma sem helstu nýungar í nútíma byggingalist voru að vakna. Hann vann fyrir og með þeim bestu í faginu þar í borg. Þeir sem hafa komið til Chigaco þekkja Lake Front og Lake Shore Drive, en borgarskipulagið þar byggir á skipulagi Jensen. Hann hitti og átti viðtöl við Luis Sullivan (1856-1924) sem ég hef alltaf haft mikil dálæti á og tel upphafsmann nútíma byggingalistar. Götur Alfreds og Frank LloydWright krossuðust og áttu þeir samleið á mörgum sviðum.
Alfred Jensen komst í úrslit í samkeppni um skipulag höfuðborgar Ástralíu Canberra að mér er tjáð.
Alfred kom til Íslands og skrifaði um íslenskan arkitektúr og gerði svæðaskipulag af höfuðborgarsvæðinu. Mér sýnist á Reykjavíkuruppdrættinum, sem hér fylgir, að Alfred hafi gert sér góða grein fyrir mikilvægi samgangna í borgum. Samgöngur er hryggjarstykkið í tillögu hans.
Jón Guðmundsson arkitekt segir í athugasemd sinni að þar hafi hann ”m.a. lagt til að byggðin ætti að liggja í lægðunum í landslaginu, en hæðirnar og holtin skildu bera meginsamgönguæðarnar og gróðurbeltin. Þá var hann að hugsa um lestir og sporvagna þar sem bíllinn var rétt að koma til sögunnar. Á Arnarhóli lagði hann til árið 1918 að yrði reistur útsýnisskáli”.
Það veldur manni alltaf vonbrigðum þegar þeir sem skrifa söguna vanda sig ekki. Mér hefur alltaf verið sagt og það stendur í þeim bókum sem ég var látinn lesa að frumkvöðlar Fingraskipulagsins hafi verið Steen Ejler og Bredsdorff árið 1947. En nú kemur í ljós að það var náinn ættingi Thorsaranna sem setti hugmyndina fyrstur fram í bók sinni “Borgmesteren” árið 1929. Á þessu er hugsanlega ein skýring sem ég kem að seinna
Ég mun fjalla nánar um Alfred Jensen Raadvad í næstu færslu.
Að ofan er ljósmynd af Alfred tekin 1916 og hér að neðan svæðaskipulag hans af Reykjavík og nágreinni. Ljósgrái litiurinn er byggðin.
Gaman að skoða þetta kort. Maður sér að þarna er byggt á skjólgóðum stöðum í lægðum milli hæðanna þar sem er mold og gróður. Holtin eru ekki byggð enda er þar mikill næðingur og ekki heppilegt til útivistar. Sennilega hefur hann gert ráð fyrir þéttri byggð á gráu svæðunum og ætlast til þess að stutt væri út í náttúruna í grennd. „Náttúran“ hefur sennilega fyrst og fremst verið ætluð til grænmetisræktar og landbúnaðar og holtin til jafnvel skógræktar.
Ætli til sé greinargerð með þessu skipulagi?
Af hverju hefur þetta ekki verið sýnt oftar?
Spennandi verður að lesa framhaldið.
Hér í fyrndinni átti ég eitt eintak af Chicago – København. Alfred Råvads Univers, frá árinu 1990 eftir Hans Helge Madsen. Óumbeðinn lánaði ég eintakið og hef ekki séð það síðan. Mér vitanlega er þetta eina bókin sem hefur verið skrifuð um Alfred. Það má nálgast gömul eintök af Borgmesterbogen hjá fornbókasölum á netinu.
Þetta er mjög athyglisvert og greinilega þarf maður að grafa meira upp um Raavad. Veit einhver hvort það er til eitthvað af bókum um hann? Kannski helst á dönsku, kannski.
Athyglisvert að heyra að Raavad hafi komið að skipulagi Chicago, en hans hlut þar hefur greinilega ekki verið haldið vel á lofti. Skipulag Chicago, frá 1909 (að mig minnir) er venjulega kennt við Daniel Burnham og það innihélt hugmyndir um Lakefront ofl. Edward Bennett var meðhöfundur Burnham en
hans nafn vill oft gleymast og það sama gæti þá gilt um nafn Raavad í þessu samhengi?