Sunnudagur 25.03.2012 - 22:47 - 26 ummæli

Allir íbúar jarðarinnar í einni borg!

 

 

 

Hvað mikið landsvæði  ætli færi undir eina borg þar sem allir tæplega 7 milljarðar jarðarbúar ættu heima?

Þeð fer eftir þéttleikanum

Að ofan er slík borg teiknuð inná kort af Bandaríkjunum og tengt þéttleika þekktra stórborga.

Borg borganna, París kemur þarna vel út meðan ástæða er til þess að hafa áhyggjur á borgum á borð við Houston í Texas, USA.

Þetta er umhugsunarvert fyrir okkur öll og varðar skipulagsmál, hagkvæmi, land- og orkunýtingu.

Hvernig ætli þéttleiki Reykjavíkur liti út í þessu samhengi?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

  • Ég veit ekki hvort lífsgleði Parísarbúa sé mælanlega meiri en Houstonbúa. Ég veit það hinsvegar að öll orku- og auðlindanotkun meðalmannsins í Houston er margföld á við meðal Parísarbúa og sú borg mun óhjákvæmilega breytast í víðfemt „slömm“ þegar fram líða stundir.

  • Hamingjan verður ekki í askana látin.

  • þorgeir jónsson

    Smá innlegg í þéttleikaumræðuna: Einn mælikvarði á þéttleika er að reikna út fjölda ljósastaura per íbúa í Reykjavík. Því fleiri sem eru um hvern ljósastaur, því þéttari borg. það eru 5 – 6 íbúar um hvern staur í Reykjavík.

    Gísli Baldur: Hafið þið reiknað út hvað kostar að gera Vatnsmýrina byggingarhæfa fyrir lagnir og annan „infrastrúktúr“? Ég er ekki að tala um hvað kostar að gera lóðir byggingarhæfar. Hvert fer moldin (6 m niður)? Hvaða fjall í nágrenni borgarinnar hverfur í þessa mýri?

    Til eru aðrar aðferðir sem Hollendingar og New York búar m.a hafa notað, en það er ekkert ódýrari kostur. Við missum ekkert fjall sem er eini kosturinn.

  • Ég verð ara að viðurkenna að ég hef aldrei sett skipulagsmál í þetta stóra samhengi fyrr en nú. Ég hef alltaf haldið að skipulagsmál fjölluðu um að útvega lóðir. Ég skammast mín fyrir þekkingarleysið og ég heiti ekki Mörður. (ég er ekki að grínast) Þetta er opinberandi umræða. (Mér til afsökunar vil ég upplýsa að ég er utan af landi).

  • Ólafur Gísli Reynisson

    Því miður hefur ekki tekist að finna besta eða rétta borgarþéttleikann, ekki frekar en bestu borgarlögunina. Það er gríðarlegur munur á þéttleika hagsælla borga, jafnvel hagsælustu borga hvers lands. http://alain-bertaud.com/images/AB_The_spatial_organization_of_cities_Version_3.pdf Gísli Marteinn bendir réttilega á óskemmtilegar afleiðingar dreifðrar byggðar varðandi svifryk, hávaða, umferðaröryggi o.s.frv. Svifrykið og hávaðan má reyndar minnka á annan hátt en fleiri afleiðingar eru af dreifðri byggð. Það er klárlega hagkvæmara og þar með auðveldara að halda uppi almenningssamgöngum og styttra að fara ferða sinna gangandi og hjólandi eftir því sem þéttleikinn er meiri. Samkeppnishæfni almenningssamgangna má reyndar líka bæta með því að láta notendur einkabílsins greiða fyrir afnot af landi og mannvirkjum í samræmi við raunkostnað.

    En eru þéttari borgir hagkvæmari ef tekið er tillit til afbrota og annarrar andfélagslegrar hegðunar og jafnvel sjúkdóma? Menn telja sig allavega hafa fundið það út að aukinn þéttleiki geti leitt til aukinnar vanlíðunar og afbrota. Því virðist hamingja borgaranna minnka eftir því sem byggðin þéttist. Þannig að spurning Steinarrs Kr. um hvort þétt byggð sé aðalmarkmiðið á alveg rétt á sér en við hljótum þá að spyrja við hvaða þéttleika byrjar afbrot borgaranna að aukast og hvernig er hægt að rannsaka samband þéttleika og afbrota á óyggjandi hátt? Það er svo margt sem getur spilað inn í andfélagslega hegðun, eins og t.d. mismunandi hannaðar byggingar og almenningssvæði í mismunandi borgum. Skiptir það kannski meira máli en þéttleikinn, þegar öllu er á botninn hvolft? Að minnsta kosti virðist vera minna um afbrot á áhugaverðum svæðum.

  • Sigurður Ingi Jónsson

    Íbúaþéttleiki Reykjavíkurborgar ætti að vera reiknaður samkvæmt tölum á http://www.reykjavik.is út frá skipulögðum hverfum, ekki að meðtöldum Esjumelum, Esjuhlíðum, eyjunum á sundunum o.s.frv. Sé þetta gert þá eru 906 íbúar á ferkílómetra. Þéttleikinn er röskir 3.000 íbúar á ferkílómetra vestan Elliðaár. Inni í þessu eru græn svæði í öllum hverfum.
    Ég sé að Gísli Marteinn er staðráðinn í að leggja af innanlandsflug til hagræðis fyrir atvinnustefnu 101 Reykjavík.
    Hvernig væri að dreifa atvinnutækifærum þannig að þau séu nær fólkinu? Íbúamiðja höfuðborgarsvæðisins er i Fossvogi.
    Hvernig væri að byggja í Örfirisey, á Laugarnestanga og við Sundahöfn? Flytja olíutanka, gámaflutninga- og geymslusvæði frá strandlengjunni í Reykjavík og dreifa þessu á Straumsvík og Hvalfjörð? Hætta að aka með stóra eldsneytisflutningabíla í gegnum borgina.
    Hann er óttalega þreytandi þessi Vatnsmýrarismi.

  • Takk fyrir þennan fróðlega pistil Hilmar, og þakkir líka til annarra fyrir góð innlegg.

    Einfalt dæmi sem við erum einmitt núna að glíma við í aðalskipulagi Reykjavíkur, má setja upp svona:

    Reykvíkingum mun fjölga um 25 þúsund manns á gildistíma nýs aðalskipulags, til 2030. Hvaða áhrif mun það hafa á borgina að setja allan þennan fjölda í Úlfarsfell (þar sem skipulögð var 25 þúsund manna byggð) miðað við að setja hann vestan Kringlumýrarbrautar (t.d. í Vatnsmýrina)?

    Ef þessi fjöldi þarf á hverjum degi að aka frá Úlfarsfelli, þvert í gegnum borgina inn að helstu atvinnukjörnum og háskólum, mun það hafa mikil áhrif á bæði þessa íbúa, og þá sem búa þarna á milli. Svifryk, hávaði, umferðaröryggi, umferðarmagn allir þessir þættir fara í öfuga átt m.v. hvað borgin ætlar sér. Umferðarteppur munu líka aukast og ástandið í Ártúnsbrekkunni á morgnana batnar ekki við að fá 20 þúsund bíla í hana í viðbót.

    Ferðakostnaður fólks í Reykjavík er þegar mjög hár; heimilin eyða meira í ferðir en matarkörfuna og eru þá utanlandsferðir ekki teknar með.

    Blönduð byggð í Vatnsmýrinni myndi bæði þétta byggð í Reykjavík og stytta ferðatíma. Íbúar þar myndu hafa þrjá stærstu vinnustaði landsins í 5 mínútna göngufjarlægð, og fjölda annarra í næsta nágrenni (Borgartún, miðbærinn ofl).

    Ég tel að úthverfin í Reykjavík séu með þeim allra bestu í heimi, lífleg og falleg og hreint engin svefnhverfi (bjó sjálfur í Breiðholti í 25 ár). En mesti grikkur sem við gerum íbúum þar er að byggja stöðugt austan við hverfin og gera þau þannig að gegnumaksturshverfum. 25 þúsund manna byggð í Úlfarsfelli myndi t.d. að endingu vilja aka þvert í gegnum Grafarvog til að komast niður að Sundabraut. Það myndi breyta lífi Grafarvogsbúa til hins verra.

    Fyrirgefiði langlokuna, en mér fannst þetta innlegg eiga erindi, þar sem við erum þessa dagana að glíma við einmitt þessar spurningar sem hér hafa verið settar fram.

  • Sigurður Ingi

    Svo er alltaf spurninginn hvort þéttari borg sé endilega betri borg, er einhver fylgni milli hamingju borgaranna og þess hvesu þétt byggð er?
    Á hvorn veginn er það samhengi ef það þá er á annað borð?

    Er Paris örugglega „betri“ borg en Huston?

  • Egill Þórarinsson

    Hilmar, ástæðan fyrir því að ég nefndi ekki eina tölu er sú að hægt er að notast við mismunandi aðferðir til að mæla þéttleika og ég veit ekki hvaða aðferð var notuð til að mæla þessar borgir sem hér var minnst á. Tölurnar sem ég nefndi hér að ofan fékk ég með því að mæla flatarmál þéttbýlis í Reykjavík og deila íbúafjölda á það svæði.

    Talan 259 manns á ferkílómetra, sem Wikipedia birtir, á við um 777 km2 svæði sem er sjálfsagt land allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hærri talan 436.5 íbúar/km2 á við um allt land innan sveitarfélagsins Reykjavíkur. Að bera þessar tölur saman við tölur frá útlöndum sem við vitum ekki hvernig voru fengnar þjónar engu gagni.

    Sem dæmi má nefna að byggt land borgarinnar var 34 km2 árið 2001. En land Reykjavíkur innan svokallaðra þéttbýlismarka sem miðast við græna trefilinn var 63 km2 árið 2001. Þéttleiki var því 3280 íbúar/km2 á byggðu landi og 1770 íbúar/km2 á þéttbýlissvæði borgarinnar árið 2001 (allar þessar tölur má finna í aðalskipulagi Rvk 2001-2024).

    Svo ef miðað er við óformleg mörk þéttbýlis Reykjavíkur, þ.e. ef dreginn er lína utan um ystu mörk þéttbýlisins og við deilum svo íbúum borgarinnar á svæði innan þess svæðis, þá var þéttleikinn árið 2009 um 2.446 íbúar/km2.

    Það er því hægt að fá fram ýmsar tölur um þéttleika. Þó svo engin aðferðin getur talist best er e.t.v. „verst“ að miða við sveitarfélagsmörk.

  • Jóhannes

    Það er einmitt málið. Menn rugla saman lóðamálum og skipulagsmálum. Þessi ruglingur er áberandi í málflutningi verktaka og stjórnmálamanna.

  • Það sem skiptir máli eru ekki tölurnar heldur sú staðreynd að Reykjavikurborg er óheju dreifð eins og sjá má. Þvi þarf að breyta og átti að breyta strax á 9 áratugnum þegar það var öllum ljóst sem um skipulagsmál hugsuðu. Hilsvegar hugsaði fólk ekki um skipulagsmál á þessum árum, heldur um lóðamál, sem er allt annað.

  • Hilmar þór

    Ég er ekki hissa þó Sigurður Ingi Jónsson dragi þessar tölur sem nefndar eru í efa. Þær eru auðvitað ótrúlegar. En þetta er enginn talnaleikur hjá Gunnari Smára frekar en þeim sem gerðu myndina sem fylgir færslunni sem er frá persqueremile.com. Enda nefnir Gunnar hvaðan tölurnar eru komnar.

    Það verður að álykta að þessi samanburður sé byggður á sömu eða svipuðum forsendum.

    Hinsvegar tel ég að sú tala sem Egill slengir hér fram þar sem því er haldið fram að í Reykjavík búi 1900-2500 manns á hvern ferkílómetra sé vafasöm. Einkum vegna óvissubilsins sem er um 30% og að talan er birt án heimildar og virðist því byggð á tærri ágiskun.

    Ég vara við svona upplýsingum sem settar eru fram í “hálfnafnleynd” og án þess að nefna hvaðan þær eru komnar.

    Þessi færsla er til umræðu víða á netinu og ég leyfi mér að birta ein ummæli sem ég tek mark á vegna þess að ég þekki þann sem skrifar af góðu einu. Viðkomandi fjallar um tölur og heimildir fyrir þeim, en hann segir orðrétt:

    “Wikipedia gefur tvær upp tvær tölur um þéttleika byggðar í Reykjavík. Ég tók þá með fleiri íbúum á ferkílómetra án þess að kunna nákvæmar skilgreiningar að baki tölunum; (ég býst við að lægri talan snúist um byggð en hin um allt land innan borgarmarka). Ef við miðum við lægri töluna þá eru 259 Reykvíkingar á hvern ferkílómetra.

    Ef við setjum alla Jarðarbúa í slíka borg þá tæki hún allt landsvæði Grænlands (líka jökulinn sjálfan), Kanada, USA, Mexíkó og Mið-Ameríku, eyjanna í Karíbahafi og auk þess Kolumbíu, Venezuela og Equador í Suður-Ameríku. Með öðrum orðum; allt landsvæði í Vesturheimi fyrir norðan miðbaug”.

    Þetta bætir ekki beint myndina af landsóun í Reyjkjvík.

    Ég bæta því við að mér finnst Ólafur Jónsson taka djúpt í árinni þegar hann talar um getuleysi skipulagsyfirvalda í þessum efnum. Það má ekki gleyma því að tíðarandinn var hlynntur einkabílnum og einhverju ótakmörkuðu frelsi hans uppúr 1960.

    En staðreyndin er sú að höfuðborgarsvæðið gæti verið mun betur skipulagt hver svo sem ástæðan fyrir mistökunum kunna að vera.

    Ég held reyndar að það hafi verið forsendur og þekking hér á landi uppúr 1980 til þess að átta sig á þvi að tilefni var til þess að stíga fast á bremsuna í útþennslustefnunni.

    Spurningin er kannski.: Af hverju var það ekki gert?

  • Guðmundur

    Góð ábending, Egill. Sjálfur hef ég aldrei skilið af hverju það er umhugsunarlaust sett samasemmerki á milli byggðar í Vatnsmýri og þéttari borgar, borgin sem slík verður í sjálfu sér ekkert þéttari þegar byggð bætist þar við. Annars hefur mér skilist að í nýju aðalskipulagi verði farið í aðra valkosti í borginni þar sem raunverulega er hægt að þétta byggð og bæta við íbúðarhúsnæði. Það verður spennandi að sjá afraksturinn af því.

  • Það má mæla þéttleika Reykjavíkur á marga vegu, en að notast við sveitarfélagsmörk er út í hött. Talan 436 íbúar á ferkílómetra innan sveitarfélagsins Reykjavíkur segir okkur ekki neitt. Eðlilegra væri að miða við þéttbýlissvæði, land innan marka þéttbýlis eða eitthvað álíka, en þá er íbúaþéttleiki í Rvk á bilinu 1900-2500 íbúar á ferkílómetra.

  • Sigurður Ingi Jónsson

    Gunnar Smári er með annan talnaleik sem felst í því að taka fjölda borgarbúa og deila með öllu jarðnæði innan borgarmarka Reykjavíkurborgar, þar með talda Esjuna og eyjarnar á sundunum. Hefur ekkert að gera með getu eða getuleysi í skipulagsmálum.

  • Steinarr Kr.

    Er þétt byggð aðalmarkmiðið?

    Berum saman lífsgæðin í Reykjavík og Mumbai, skoðum þetta svo aftur.

    Í London, sem skv. myndinni kemur illa út eru stærstu samfelldu grænu svæði sem til eru innan höfuðborga í heiminum. Ef þau yrðu öll byggð, þá myndu tölurnar fyrir London breytast mikið, en yrði það til batnaðar fyrir íbúana?

  • Ólafur Jónsson

    Gunnar Smári kemur hér með ógnvekjandi staðreyndir sem sýna og sanna hversu getulaust fólk hefur stjórnað skipulagsmálum hér á landi undanfarna áratugi. Sigríður Hrund er með þetta; skipulagsyfirvöld hafa sífellt verið að gera það sem þeim hefur langað til, ekki það sem er skynsamlegt!

  • Sigríður Hrund

    Áhugavert. Það þarf skýlaust að skipuleggja höfuðborgarbyggðina betur, en það er hagkvæmi í að hafa flugvöllinn á núverandi stað. Ef hugsað er 25 – 30 ár fram í tímann er klárt að þétting byggðar mun krefjast betri samgangna innan höfuðborgarsvæðis en um leið er óhagræði í að færa flugvöllinn. Viðurkennum hvað við erum – lítil stórhuga þjóð. Gerum það sem er skynsamlegt, ekki það sem okkur langar til.

  • Stefán Benediktsson veit að flugvöllur er hluti af almenningsflutningakerfi. Og ef flugvöllur er miðlægur í borgarskipulaginu er von til þess að hann verði meira notaður í tengslum við fólksflutninga á landsbyggðina. Eftirspurn eftir lóðum í grennd slíks flugvallar vex. Þéttleikinn skapast umhverfis flugvöllinn vegna þeirra tækifæra sem hann gefur borginni. Svarar þetta spurningu þinni Stefán?

    Það eru flugvellir nánast í miðbæ Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Vestmannaeyja. Ef flugvöllurinn fer úr Vatnsmýrinni þá leggst flug af á nefndum landsbyggðarflugvöllum. Þetta eru þekktar staðreyndir.

    Svo sjá allir að möguleiki til þéttingar byggðar á höfuðborgarsvæðinu eru geysimiklir. Ég bendi bara á þá tölu sem Gunnar Smári nefnir að ofan. Í Reykjavík eru einungis 436 íbúar á ferkílómetra. Meðan svo er þarf ekki að leggja niður flugvöllinn til þess að þétta borgina..

    Svo á auðvitað að gera eitt sveitarfélag úr þessu smákóngaveldum sem ríkja á höfuðborgarsvæðinu.

    Ég tek líka eftir því að folk sér ekki samhengi milli þéttleika og umferðamynsturs. Þetta á líka við um stjórnmálamenn og ýmsa ráðgjafa í skipulagsmálum.

    Hvað gerum við í því Stefán?

  • Sigurður Ingi Jónsson

    Þetta er einn af þessum talnaleikjum sem hafa í sjálfu sér engan gagnlegan tilgang. Í Mumbai búa 30 þúsund manns á ferkílómetra, sem er tíu sinnum meiri þéttleiki en Reykjavík vestan Elliðaár. Það hlýtur að vera toppurinn í hagkvæmi, land- og orkunýtingu, ekki satt?

  • Stefán Benediktsson

    Væri gaman Eiríkur að sjá rökin fyrir því að Flugvöllurinn stuðli að auknum þéttleika.
    Hef verið á kynningarfundum á Aðalskipulagi Reykjavíkur. það er áberandi á þessum fundum hvað fólk á erfitt með að sjá samhengið milli þéttleika og breytinga í umferðarmynstri.

  • Gunnar Smári Egilsson

    Samkvæmt wikipediu eru 20.980 Parísarbúa á hvern ferkílómetra, 1.505 íbúar í Houston á hvern ferkílómetra en 436 Reykvíkingar. Ef allir jarðarbúar byggju í borg eins og París tæki sú borg 3,4% af USA, borg eins og Houston tæki 47% af USA en borg eins og Reykjavík þyrfti allt USA (með Alaska) + 62% af Kanada (Kanada er stærra en USA). Skrítin borg Reykjavík.

  • Þetta er ekki spurning um hvernig borg við viljum búa í, heldur hvernig borg við höfum efni á að búa í.

    Ég visa því sem Helgi Björnsson að ofan segir út í hafsauga. Þetta hefur ekkert með Vatnsmýrina að gera. Þvert á móti er Reykjavíkurflugvöllur hluti af almenningssamgöngukerfi landsins og stuðlar þar með að áuknum þéttleika þegar litið er á heildarmyndina.

  • Samanburdurinn er einfaldur, reykjavik er um 450manns/km2.

    7.000.000.000/450=15.5millj km2 eda um 1.5 bandariki

  • Helgi Björnsson

    Það kemur á óvart hvað London er frek til landsins. Ég upplifi hana mun þéttari en San Fransisco en samkvæmt þessu eru þær svipaðar.

    Ég vil bæta því við að þetta er lóð á myllu þeirra sem vilja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn