Sunnudagur 08.09.2013 - 20:16 - 6 ummæli

„Allskonar borg“

556761_362170700577799_1574751733_n

Ég leyfi mér að birta orðrétt inngang Páls Hjaltasonar arkitekts í kynningarriti um Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 – 2030. Skipulagið var auglýst í byrjun síðasta mánaðar og athugasemdarfrestur  rennur út eftir tæpar tvær vikur.

Kynningarbæklinginn er hinn glæsilegasti og hann er hægt að nálgast  hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgarog á vef Reykjavíkurborar.:

adalskipulag.is

Gefum Páli Hjaltasyni arkitekt og formanni umhverfis- og skipulagsráðs orðið:

 

„Í aðalskipulagi Reykjavíkur er horft langt inn í framtíðina í skipulags- og umhverfismálum. Aðalskipulagið er mikilvægt stjórntæki því þar er sett fram stefnumótun sem er bindandi fyrir allar aðrar skipulagsákvarðanir eins og hverfaskipulag og deilskipulag.

Það stýrir ákvarðanatöku í borgarmálum allt frá stefnumótun til framkvæmda.

Vinna við endurskoðun á aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 er langt komin og nær endurskoðunin til ársins 2030.

Þegar ákvarðanir eru teknar  í skipulagi skal alltaf miðað við að ekki sé gengið á hagsmuni komandi kynslóða. Í aðalskipulaginu birtast markmið um að öll hverfi borgarinnar verði sjálfbær og mannvænni en nú og gæði hins manngerða umhverfis eru sett í öndvegi.

Í ljósi þess er mikilvægt að þétt, fjölbreytt byggð sé alltaf fyrsti valkostur.  Í Reykjavík á að vera skapandi atvinnulíf með þéttri byggð við Sundin. Í henni eru frábær útivistarsvæði sem geta orðið enn grænni og vistvænni og þar gegna samgöngur lykilhlutverki.

Umferðakerfi framtíðarinnar verður meira borgarmiðað en nú erþar sem hlæutur gangandi og hjólandi verður aukinn og almenningssamgöngurfá enn meira vægi.

Aðalskipulag getur við fyrstu sýn virst yfirgriðsmikið og fjarlægt en það er mikilvægt að borgarbúar þekki þær áherslur sem þar birtast því framtíðarsýnin sem þar er fram sett kemur öllum Reyklvíkingum við.

Reykjavík er allskonar borg fyrir allskonar fólk sem býr í allskonar hverfm. Viðfangsefni aðalskipulagsins er er fyrst og fremst að tryggja heilsu, öryggi og lífsgæði um ókomna tíð“.

.

.

Eins og fram hefur komið er þetta stórmekilega skipulag  í kynningarferli en því miður hefur það ekki verið mikið í umræðunni að Vatnsmýrinni undantekinni. Það er synd vegna þess að í skipulaginu er mörg atriði að finna sem mun hafa veruleg áhrif á þróun borgarinnar og lífskjör næstu áratugi. Afskiptaleysi borgaranna og sinnuleysi álitsgjafa og sérfræðinga er áberandi og kannski óskiljanlegt hjá jafn upplýstri þjóð og hér býr. Aðalsipulag Reykjavíkur er nefnilega það viðamikið að það varðar alla þjóðina.

Færslur um svipað efni:

Kynning á aðalskipulagi Reykjavíkur

Nýr „Þróunar- og samgönguás“ í aðalskipulaginu.

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur – AR 2010-2030

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Gréta Björnsson

    Í skipulaginu eru lögð drög að metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir þróun borgarinnar, miðað við þá þekkingu sem er í dag um gott skipulag borga. Það sem stingur svo hrikalega í stúf við þann metnað er að þetta skuli vera Aðalskipulag Reykjavíkur og ekki Aðalskipulag Höfuðborgarsvæðisins. Reykjvík er ekki afmörkuð eða afskorinn frá bæjarfélögunum í kring. Það er því lykilatriði fyrir þróun höfuðborgarinnar að aðalskipulag sé unnið þvert á pólitísk landamæri.

  • Finnbogi

    Hvar er samtalið (samræðupólitíkin) milli borgarbúa og skipulagshöfunda. Fékk það hægt andlát við lok hverfafundanna?

    Markmiðin eru góð hjá Páli og félögum. Spurningin er kannski um útfærsluna!

  • Magnús Birgisson

    Þessi inngangur er frábært dæmi um það doubletalk sem er í gangi og hvernig froðan og sýndarmennskan er farin að skipta meira máli en innihald eða árangur.

    Tökum dæmi…

    „horft langt inn í framtíðina“…en samt eru borgaryfirvöld ófær um að leysa það neyðarástand sem er orðið uppi Í DAG þar sem 8000 íbúðir vantar inná húsnæðismarkaðinn og eina svar borgaryfirvalda eru dýrar lúxusíbúðir á dýrustu svæðum borgarinnar.

    „ekki sé gengið á hagsmuni komandi kynslóða“…Hilmar..prófaðu að fara í pdf skjalið og leitaðu eftir orðunum barn og börn eða svipaðar orðmyndir og veltu svo fyrir þér umhyggjunni fyrir „komandi kynslóðum“. Til samanburðar mætti leita eftir orðinu „reiðhjól“ eða „einkabíll“.

    „þétt, fjölbreytt byggð“…en allar hugmyndir og tölur sem eru nefndar benda til allt annaðs en „fjölbreyttar byggðar“. Þvert á móti bendir allt til að mest allt sem byggt verður í Rvk verður fjölbýli í húsum sem eru 3-5 hæðir og það þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni að fólk kýs umhverfi sambærilegt við t.d. Fossvoginn. Case in point…Mýrargatan og slippsvæðið.

    „Í Reykjavík á að vera skapandi atvinnulíf „…hvaða atvinnulíf er „skapandi“ og hvað ekki? Er allt atvinnulíf skapandi og ef ekki…hvert á það atvinnulíf að fara sem er ekki „skapandi“. Er „skapandi atvinnulíf“ það sama og í daglegu tali eru kallaðar hinar „skapandi greinar“? Er þá starfsfólk Ölgerðarinnar „out“ en starfsfólk Hörpunnar „in“?

    „öll hverfi borgarinnar verði sjálfbær“…þess sér engin merki í aðalskipulaginu að það séu skref stigin í þessa átt fyrir meirihluta íbúa borgarinnar. Þvert á móti eru hverfi einsog t.d. Úlfarfellið tekin og skorin niður fyrir það mark að geta verið „sjálfbær“ um þjónustu.

    „Reykjavík er allskonar borg fyrir allskonar fólk sem býr í allskonar hverfum“….svo lengi sem það fólk býr í blokk í þéttri byggð, labbar í skapandi vinnuna sína í miðbænum, verslar aðeins við kaupmanninn á horninu og fyrir alla muni…eignast aldrei börn. Ef þú fellur ekki inní myndina…þá tekur Kópavogur lengi við.

  • Einar Jóhannsson

    Það þarf fjóra sjónvarpsþætti án aðkomu stjórnmálamanna á vegum fréttastofu eða Kastljóss. Inngangur Páls er hinsvegar góður.

  • Hverjum er það kenna að lítil umræða er nema um Vatnsmýrina og miðborgina ?

    Íbúasamtökin í Breiðholti eru búin að reyna að fá fólk, sem þekkir skipulagsmál í borginni til fundar við sig. Fara á fund í hverfisráði þar sem einn skipulagshöfunda boðaði til fundar. Þessi sem boðaði til fundarins mætti of seint og nennti svo ekki að vera á fundinum og yfirgaf hann !

    Síðan er búið að reyna að fá Dag B. Eggertsson á fund. Hann svarar ekki einu sinni !

    Hvers vegna eru þá bara ekki önnur mál í umræðunni ?

    Hvað með ykkur arkitekta, verkfræðing og tæknifræðinga ?
    Þið segist vera sérfræðingarnir !

  • Jón Kristjánsson

    Eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu með formlegum hætti umsagnaraðilar að aðalskipulögum hvers annars? Einu sinni var gert svæðaskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið. Hvaða áhrif hefur það haft á þetta skipulag? Eðlilega ætti höfuðborgarsveitafélögin í það minnsta að segja sína formlegur skoðun varðandi umferðamál, staðsetningu flugvallar, slökkviliðs og flugvallar, olíubyrgðastöðva, sjúkrahúss, háskóla o.þ.h. Þetta eru atriði sem ekki eru einkamál þröngra hópa í skipulagsráðum bæjarfélaganna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn