Þriðjudagur 20.12.2016 - 12:50 - 14 ummæli

Alþingi – „Guð býr í smáatriðunum“

 

oddfellow

 

Um helgina féll dómur í samkeppni um nýja skrifstofubyggingu Alþingis. Hér er um mikilvæga byggingu að ræða á mikilvægum stað.

Eftir að hafa skoðað verðlaunatillögu Studio Granda  kom í huga kennisetning Mies van der Rohe: „God is in the details“ eða „Guð býr í smáatriðunum“.  Styrkur tillögunnar liggur ekki bara í stóru línunum heldur ekki síður í fjölmörgum smátriðum sem skipta sköpum á þessum stað. Þarna er sterk skýrskotun til sögu staðarins, sögu þjóðarinnar og jarðfræðinnar.  Þetta er sterk og starfhæf bygging, ef ég skil rétt, en veikleikann má helst rekja til galla í  því sem mestu veldur, deiliskipulaginu, sem höfundum hefur tekist að lágmarka í hugmyndavinnu sinni.

Í greinargerð með tillögunni stendur að nýbyggingin standi á stað sem opnar gátt inní fortíðina og söguna. Þarna er vísað til þeirra fornleifa sem eru á lóðinni. Útveggir hússins rísa uppúr rústum landnámsins og líkjast jarðlögum sem hlaðast upp í tímans rás. Þeir eru lagskiptir eins og samfélagið, sem á sér rætur einmitt á þessum stað, en vitna einnig um fjölbreytileikann í marglaga heild.

Svo vitnað sé áfram í greinargerð höfunda:

„Í Tjarnargötu víkja húsveggirnir fyrir fornleifunum og vegfarendur horfa beint ofan í fortíðina. Skrifstofa forseta Alþingis er á lofti yfir járnvinnsluofnum frá 9. og 10 öld og rauðajárnið smitast í kápuna, úr Corten stáli. Húsið er sjálfstætt tengistykki á milli smágerðs hornhússins og umfangsmikilar nýbyggingarinnar. Tjarnargatan þjónar sem aðkoma að nýbyggingu Alþingis, en þar er gestum sleppt út og hægt að leggja. 

Við Vonarstræti speglar framhlið hússins sig í horntjörn Ráðhússins, en hún myndar fallegan forgrunn og aðkomutorg. Götuhliðin skiptist í tvö stök hús með ljósgeil á milli sem opnast á móti suðri með mosaþekju neðst sem tengist trjágróðri götunnar í kring. Umfangi nýbyggingarinnar er skipt niður í þrjú hús svo hún samlagist betur fínlegum mælikvarða byggðarinnar í Kvosinni.  

Á jarðhæð opna samfelldir gluggaveggir andlit hússins að götunni. Fyrir innan starfa nefndir þingsins fyrir opnum tjöldum eða luktum eftir atvikum“.

Við Oddfellowhúsið opnast gönguleið um mjótt sund sem breikkar til norðurs þar sem sólin nær inn á baklóðina. Gróðursvæði er framan við opið fundarherbergi og ráðstefnusal. 

„Í Kirkjustræti er nýju steinskífuklæddu húsi bætt í eyðu í gömlu húsaröðinni án þess að raska götumyndinni“. 

tjarnargata

Hér er litið suður Tjarnargötu. Í greinargerð má lesa að húsveggirnir eru látnir víkja fyrir fornleifunum og vegfarendum gefin kostur á að horfa beint ofan í fortíðina af gangstéttinni. Ef ég skil rétt er maðurinn sem stendur vinstramegin í götunni að horfa á fornminjarnar sem þar eru og verða.  Skrifstofa forseta Alþingis er á lofti yfir járnvinnsluofnum frá 9. og 10 öld og rauðajárnið smitast í kápuna, úr Corten stáli.  Í útliti að Tjarnargötu er bilið milli gamla hússins við Kirkjustræti og nýbyggingarinnar brúað með nútímalegu húsi sem er minna í öllum hlutföllum en aðliggjandi hús og með þekktu formi sem einkennt hefur byggðina í Reykjavík um aldir. Tjarnargatan sem á að þjóna sem aðkoma að nýbyggingu Alþingis hefði þurft að vera breiðari og fá meira vægi sem tenging frá Víkurgarði (Fógetagarði) að tjörn ráðhússins og þaðan suður Tjarnargötu í Hljómskálagarð og alla leið að friðlandi Vatnsmýrarinnar.  En þetta er eitt þeirra atriða sem ákveðið var í deiliskipulaginu að gera ekki.

horntjarn

Láréttar línur í útlitunum er skýrskotun til sögunnar og jarðlaga sem myndast í tímans rás. Hugmyndin að lagskiptum útveggjum snýst ekki einungis um jarðlög tímans heldur einnig um það sem við skiljum eftir okkur. Með hugvitssemi í anda landnámsmannanna, sem unnu kol og járn úr engu, er hægt að umbreyta úrgangi í byggingarefni, líkt og náttúran myndbreytir jarðefnum í stein eða tíminn ruslahaugi í fornminjar. Úrgangsgler verður glersteinn, brotajárn járnsteinn, plast að kubbum, steypumulningur hleðslusteinn o.s.frv. Náttúran tekur svo við með fléttum og frumgróðri sem koma sjálf.

Einnig er hægt að tengja þessar láréttu línur gamla alþingishúsinu og skálanum nýja þar við hliðina. Hugsanlega  hefði mátt gefa þessum húskroppum örlítið mismunandi áferð til þess að ná því uppbroti í götuhliðinni sem einkennir götumyndir Kvosarinnar. Athygli er vakin á að gólfsíðir gluggar eru á jarðhæð.  Þar fyrir innan eru fundarherbergi nefndasviðs þingsins. Þetta færir lýðræðið nær fólkinu í landinu. Auðvitað verður dregið fyrir þegar ástæður gefa tilefni til. Þessi opnun fundarherbergjanna á jarðhæð er djörf og líklega ekki öllum að skapi. Þarna eru hin svokölluðu „reykfylltu“ fundarherbergi að vissu marki, opnuð út á götu.

 

kirkjustrati

Í Kirkjustræti er nýju steinskífuklæddu húsi bætt í eyðu í gömlu húsaröðinni án þess að raska götumyndinni. Þetta er nánast skólabókardæmi um hvernig má fella nútímalegt hús inn í eldra borgarumhverfi þannig að vel fari. Nútímalegar byggingar þurfa ekki að vera í andstöðu við það sem fyrir er. Þvert á móti.

inngangur

loftmynd

Að ofan er afstöðumynd þar sem greina má tengigang úr nýbyggingunni um skála Alþingis og þaðan inn í gamla Alþingishúsið. Bílastæðin í innigarðinu  eru líklega einhver misstök.

img004

Að ofan eru útlitsmyndir að götum. Efst er ásýnd að Vonarstræti.  Í miðið er útlit að Tjarnargötu þar sem bilið milli gamla hússins við Kirkústræti og nýbyggingarinnar er brúað með nútímalegu húsi sem er minna í öllum hlutföllum og með þekktu formi sem einkennt hefur byggðina í Reykjavík um aldir. Svo neðst er ásýnd að Kirkjustræti sem er sérlega vel heppnuð.

img007

Að ofan er deiliskipulag Alþingisreitsins sem samþykkt var 16. júní 2016.  Þar má sjá að verðlaunatillaga Studio Granda er, eðlilega, sniðin að skipulaginu hvað húsahæðir og byggingalínur snertir. Höfundunum hefur tekist að brjóta byggingamassann upp í meira mæli en skipulagið gerði ráð fyrir og bætt við ýmsu smálegu sem færir svæðinu aðlaðandi andrúm.  Helstu gallar við þetta deiliskipulag er að rýmra hefði mátt vera um nyrðsta hluta Tjarnargötunnar, húsahæðir hefðu mátt vera minni og uppbrot meira í götumyndum. Hugsanlega hefðu ákvæði um þakhalla eða þakgerð líka haft einhver áhrif til bóta.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Þetta er ömurlegt allt of stórt og ætti að falla í gleymskunnar dá þar til þingmönnum hafi verið fækkað um helming. Kirkjustrætið er vel unnið og hafi þau þökk fyrir . Tómt rugl.

  • Halldór Jónsson

    Helvítis fokking flott. Meira svona!

  • Steingrímur Jónsson

    Takk fyrir en gaman væri að fá kynningu hér á fleiri tillögum.

    • Tek undir það og óska eftir frekari tillögum í kynningu hér. Var engin tillaga sem sótti innblàstur í gomlu byggðina í nágrenninu eins og í samkeppninni um Ingólfstorg og kannski Guðjón Samúelsson?

  • Garðar Garðarsson

    Aðalbyggingin sem snýr að Ráðhúsinu er enn einn kassinn sem nú rís í miðborginni og er of steríl hvað varðar útlínur, of umfangsmikil og tekur ekki nógu mikið tillit til umhverfisins. En byggingin sem snýr að Kirkjustræti er falleg og fellur að umhverfinu og er til fyrirmyndar hvernig hægt er byggja við gamla bæjarhlutann.

  • Pétur Örn Björnsson

    Etir að hafa skoðað allar tillögurnar, þá er það alveg kýrskýrt í mínum huga að besta tillagan vann. Sérlega vel unnin og góð tillaga frá Studio Granda.
    Þar að auki er hún eins og Hilmar nefnir, full af næmum skemmtilegheitum af þessu litla sem kryddar tilveruna.

    • Pétur Örn Björnsson

      Ég sakna þess reyndar hversu fáar tillögur bárust … að ekki skyldu hafa komið fleiri tillögur og sérstaklega að engin Simma tillaga kom, það hefði örugglega verið mjög áhugavert að sjá a.m.k. eina til tvær vel og faglega unnar tillögur í þeim anda, Guðjónskum Samúelssonar anda. Það hefði verið bæði gaman og fróðlegt að sjá til samanburðar við tillögu Studio Granda.

    • Hilmar Þór

      Ég er sammála þér þarna Pétur. Það bárust allt of fáar tillögur og það vantar greinilega breidd í þær. T.a.m. er engin tillaga sem byggir á greiningu Guðna Pálssonar og Dagnýjar Helgadóttur á staðaranda kvosarinnar. En það hefur verið almenn sátt um þá greiningu. Corten hús Stúdio Granda og „infillið“ við Kirkjustræti sýnir að það er vel hægt að gera það.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Hver sem hugmyndin kann að vera sem liggur að baki þessara láréttu „jarð – og sögulaga“ þá er hún ánægjuleg og hugmyndarík tilbreyting frá „plast, gler og álhúsunum!“ sem við Eysteinn höfum fengið okkur fullsadda af.

  • „Láréttar línur í útlitunum er skýrskotun til sögunnar og jarðlaga sem myndast í tímans rás. Hugmyndin að lagskiptum útveggjum snýst ekki einungis um jarðlög tímans heldur einnig um það sem við skiljum eftir okkur…… Náttúran tekur svo við með fléttum og frumgróðri sem koma sjálf.“

    þarna er gamalkunnugt stef á ferðinni hjá Studio Granda. Nægir að minna á mosavegginn í Ráðhúsinu. það er alltaf gaman þegar hús eldast og veðrast eins og fólk og lifandi verur. Þessi plast, gler og álhús sem eru altumliggjandi í nútíma arkitektúr eru ekki skemmtileg.

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Gott að sjá að byggt verði fallegt og frumlegt hús á þessum stað. Sérlega ánægjulegt að sjá litlu nýbygginguna við Kirkjustræti.

  • Stefán Benediktsson

    Samband almennings og bygginga er eins og hjónabönd ákveðin af foreldrum. Aðeins tíminn fær úr því skorið hvort hjónabandið heppnast eða ekki. Ég er strax mjög sáttur. Höfundarnir eru vel kunnugir þessu svæði. Þau áttu tillögu í samkeppni um viðbyggingu við Alþingi. Mér fannst hún flott en einhver sagði að hún liti út eins og dráttarvél. Þau hönnuðu ráðhúsið, skemmtilegustu byggingu í Reykjavík í útliti og afnotum.
    Ég vona að alþingisbyggingin þrengi ekki að þessum stórmerku fornminjum sem eru þarna. Minjarnar eiga örugglega eftir að hafa jafn mikil áhrif á sögu okkar og það sem gert verður í þessu húsi í framtíðinni.

  • K. Guðmundsdóttir

    Menn eru í góðu skapi í dag!
    Ég verð að viðurkenna að ég er ekki eins óánægð með þetta eins og ég var eftir þessa einu mynd af húsinu séð frá Ráðhusinu sem var í blöðunum í gær.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn