Sunnudagur 03.10.2010 - 14:08 - 7 ummæli

Alþjóðlegur dagur arkitektúrs

 

ADA-590x275[1]

Fyrsti mánudagur í október ár hvert er alþjóðlegur dagur arkitektúrs. Sá dagur er á morgunn mánudaginn 4. október.

Í tilefni hans verður haldið málþing undir yfirskriftinni, Betri borg, betra líf – sjálfbærni í krafti hönnunar og stendur það frá kl. 16.30 til kl. 19.00 í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þeir sem að málþinginu standa eru Arkitektafélag Íslands og Skipulags- og byggingasvið Reykjavíkurborgar.

Af  heitum erinda, sem þarna verða flutt má búast við spennandi umfjölllun. Þarna verður talað um Bábiljur og Borgarbrag, Vistmennt o.fl.

Gamalreyndir starfsmenn skipulagssviðs borgarinnar tala annarsvegar um “Vistvæn hverfi” og hinsvegar um “Sjálfbærari hverfi”.  Þarna kveður við nýjan tón  í skipulagsforsendum borgarinnar heyrist mér.

Svo tala tveir nýjir borgarfulltrúar sem gustað hefur af í umræðunni undanfarin misseri. Það eru þeir Páll Hjaltason sem talar um framtíðarsýn Reykjavíkur og Hjálmar Sveinsson sem fjallar um staðarmótun. Á málþinginu gefst tækifæri til þess að kynnast hugmyndum borgarfulltrúanna og áherslum þeirra eftir að hafa sest í borgarstjórn.

Ég er einn þeirra mörgu sem hafa talið að skipulagsmál í borginni hafi verið á villigötum undanfarna áratugi bæði hvað varðar deili- og aðalskipulag. Nú glittir í breytingar á þessu með opnari umræðu og öðrum áherslum. Undanfarið ár eða svo hefur Reykjavíkurborg opnað umræðuna og kallað eftir gagnrýni sem um langt árabil var illa séð af Borgarskipulaginu og þeim sem þar réðu húsum. Ég hef það á tilfinningunni að hugmyndin um að opna umræðuna sé runnin frá Júlíusi Vifli Ingvarssyni sem var formaður skipulagsráðs á síðasta kjörtímabili. Hverjum sem það er að þakka erum við sennilega á vegferð út úr dimmum táradal hvað opna, upplýsandi og lausnamiðaða umræðu varðar. 

Á málþinginu tala líka tveir fulltrúar fræða- og menntasamfélagsins, Listaháskólans og “Háskóla Reykjavíkur”(!).  Frá þeirri hlið hefur ekki heyrst mikið varðandi skipulagsumræðuna síðan prófessor Guðmundur Hannesson skrifaði bókina “Um skipulag bæja” árið 1916 og velti fyrir sér íslenskri þéttbýlishefð.

Allir sem láta sig skipulags- og umhverfismálmál varða ættu að mæta og vera virkir í umræðunni.

Nánar má skoða dagskrá málþingsins hér: 

http://ai.is/?p=552

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • hi do you like car rims?

  • Guðmundur

    Held að vel megi taka aðeins dýpra í árinni, það þarf ekki að taka málefnalega umræðu persónulega, hvet alla til þess að hafa það í huga. Flestir, ef ekki allir arkitektar hafa þurft að sýna talsverðan vilja til málamiðlana undanfarin ár og mikið lengur. En ef á að vera til nokkur von um að bæta ástandið í faginu og það skiptir alla máli verður að vera hægt að finna e-n grundvöll til að ræða opinskátt um allt, bæði það sem vel hefur verið gert og síður vel. Ein leiðin er vissulega sú að hampa aðeins því sem er til fyrirmyndar – en hjálpar það til að læra af mistökum, greina vandann? Það er alveg ljóst að það er ekki skipulagsyfirvöldum einum um að kenna eða arkitektum, á bak við allt saman er pólítik, hagsmunir verkataka og alls kyns miður heppileg tengsl – séð frá sjónarhorni fagurkerans og íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þettta er náttúrulega grafalvarlegt mál. Væri ekki hissa þótt margur arkitektinn fyndi sér annan starfsvettvang á þessum tímum.

  • Hilmar Þór

    Ég svara Helgu hér að ofan sem beinir spurningu til mín og biður um skýringu.

    Það var nokkuð djúpt í árinni tekið hjá mér að segja að skipulagið hafi verið “á villigötum”. Ég biðst afsökunar á því. Auðvitað eru forsendur fyrir þessu öllu og þeir sem að málum komu voru sjálfsagt að gera sitt besta, flestir hverjir. Flestir þeir sem að þessu hafa komið er mikið sómafólk og hæfileikaríkt sem hefur gert marga frábæra hluti sem allir geta unað vel við.

    En það sem ég er að hugsa um og gagnrýni, en fer ekki nánar útí hér eru atriði eins og:

    • Útþensla borgarinnar
    • “Haltu mér, slepptu mér” afstaðan varðandi flugvöllinn og flugsamgöngur borgarinnar almennt.
    • Einkabílavæðingin
    • Austurhöfnin
    • Orkuveituhúsið
    • Gengdarlaust offramboð af bensínstöðvum og almennt dekur við bílismann
    • Almenningssamgöngur
    • Skúlagötuskipulagið
    • Borgartúnið
    • Landspítalinn
    • Hringbrautin
    • Háskólinn í Reykjavík
    • Sjálfbærni
    • Hjallastefnuskólinn undir Öskjuhlíð
    • Duftkirkjugarðurinn í Öskjuhlíð
    • Matvöruverslun er færð út úr íbúðahverfum
    • Dreifing atvinnutækifæra, stofnana og þjónustu
    • Skipulagið við Úlfarsfell
    • Skortur á heildarsýn og samþættingu skipulags alls höfuðborgarsvæðisins

    Þetta eru atriði sem mér dettur í hug og sleppi fjölmörgu. En ég endurtek að fyrir því sem gert er liggja eflaust einhver rökstuðningur sem ég ekki þekki. Enda hefur umræðunni verið haldið niðri eins og Páll Hjaltason benti á í tilvitnun hér að ofan. Og ég tek fram að margt er gott og vel gert hjá því sómafólki sem að málum hafa komið. Vonandi er þetta allt vel hugsað og í góðu samhengi við faglegt verklag og nútíma hugmyndafræði og gagnrýni ein sog þessi óþörf.

  • Þú ert einn þeirra sem telur að skipulagmálin í borginni hafi verið “á villigötum”.

    Nefndu dæmi sem skýrir þetta nánar. Ég veit auðvitað að færslan fjallar um málþingið. En þessi setning þín kallar á frekari skýringu.

  • Athugasemdakerfið ætti að vera komið í lag.

  • Þarna er spennandi ráðstefna á dagskrá. Eftir að hafa skoðað dagskrána, fyrirlesara og efni, finnst mér vanta umfjöllun um samgöngur sem hlýtur að vera ein af grunnstoðum sjálfbærni.

  • Sveinbjörn

    Þetta sagði Páll Hjaltason þegar hann gagnrýndi kerfið skömmu eftir s.l. áramót:

    “Öll gagnrýnin umræða, í íslensku þjóðfélagi, hefur verið markvisst bæld niður síðustu áratugi og þetta á ekki síst við um arkitektastéttina. Þvílíkur ótti býr í stéttinni að þrátt fyrir að starfsgrundvöllur hennar sé brostinn og atvinnuleysi líklega um 80 % þá heyrist varla í henni múkk. Sjálfur hef ég fundið fyrir þessari þöggun bæði beint og óbeint. Þarf varla að útskýra hver völd skipulagsyfirvalda eru yfir starfi arkitekta, allt sem við gerum þarf samþykki yfirvalda. Það hefur því löngum þótt óráðlegt af arkitektum að gagnrýna skipulagsyfirvöld, en ég get ekki lengur orða bundist enda litlu að tapa úr því sem komið er.”

    Þetta var skörulega mælt og tímabært.

    Nú er Páll orðin talsmaður kerfisins og það verður án efa hressandi að heyra hvað hann segir á morgun.

    Sama á við um Hjálmar Sveinsson sem hafði uppi málefnalega gagnrýni á kerfið í úvarpinu og TMM. Nú hefur honum verið veitt vald í umboði kjósenda.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn