Mánudagur 11.10.2010 - 10:02 - 19 ummæli

Alvar Aalto

 

Það eru skiptar skoðanir á hvort Alvar Aalto eða Gunnar Asplund hafi verið fyrri til  að kynna funktionalisman fyrir norðurlandabúum. Sennilega geta þeir skipt heiðrinum nokkuð jafnt á milli sín. En stefnan náði fótfestu á norðurlöndunum eftir Stokkhólmssýninguna árið 1930.

Aalto átti gott tengslanet við arkitekta Evrópu í gegnum CIAM (Congrès International d’Architecture Moderne sem var stofnað 1928) þar voru  félagar arkitektar á borð við  Léger, Maholy-Nagy, Rietveld og Jeanneret. Samtökin voru stofnuð umhverfis “The Modern Movement” sem skoðaði arkitektúr að hluta sem efnahagslegt og pólitískt verkfæri.

Aalto var fulltrúi hinnar nýju stefnu í Finnlandi sem var jaðarland í Evrópu og í hugum fólks tengdara Rússlandi en öðrum Evrópulöndum. Aalto sem var í djúpum tengslum við finnska byggingarhefð gerði tilraunir með timbur sem var ekki einkennandi fyrir funktionalismann um 1930.

Sagt var um Aalto að Finnland fylgdi honum hvert sem hann færi. Svo virtur var hann. Maður skynjar samband verka hans við birkistofna skógarins og form vatnanna. Það var sjaldan að hann lét 90° horn og beinar línur ráða ferðinni. Aðstæður á hverjum stað réðu mestu um þetta.  Hann var oft organiskur í grunnmynd og sniði og sótti formin í náttúruna og sín eigin tilfinningaríku blýantsstrik eins og glöggt má sjá í vösum og skálum sem hann hannaði á þessum árum. Sagt er að Le Courbusiere hafi einnig sótt innblástur í sitt eigið blýantsstrik. Aalto og Le Courbusiere teiknuðu báðir mikið og máluðu. Maður veltir fyrir sér hvort gömlu mennirnir hefðu náð þessum mikla og góða árangri í list sinni ef tölvur hefðu verið verkfærið.

Á Íslandi er eitt hús eftir Aalto, Norræna Húsið í Vatnsmýrinni sem er sennilega ein mesta gersemi sem íslendingar eiga í byggingalistinni. Láréttar línur hússins og Vatnsmýrin voru óaðskiljanleg og glitrandi dökkbláar keramikflísar á þakinu kölluðust á við blá fjöllin í fjarska og ljósbrot af bárum hafsins. Þessi tvö atriði í gerð Norræna Hússins sýna hvað Aalto var tengdur staðnum. Þetta er eiginleiki sem saknað er á okkar dögum þegar stjörnuarkitektar eiga í hlut. Í raun má segja að í menntun arkitekta skortir kennslu í að skilgreina anda, sögu og kúltúr þar sem á að byggja. Og ekki síður að byggja inn í landslagið og umhverfið almennt.

Þegar verk Alvar Aalto eru skoðuð slær það mann hversu dvergvaxnir stjörnuarkitektar okkar daga eru. Ef ég má alhæfa smávegis þá er það sem einkennir stjörnuarkitekta nútímans öðru fremur skortur á tengslum við umhverfið og einhverskonar athyglissýki. Þetta hefur auðvitað áhrif á sporgöngumenn þeirra og unga arkitekta sem líta á þá sem fyrirmyndir sínar. Er ekki rétt að skoða Aalto betur.  Það má enn margt af honum læra þó hann hafi horfið til betri heima fyrir 34 árum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Örnólfur Hall

    GESTRISINN SNILLINGUR SÓTTUR HEIM:

    Alvari Aalto og Rolfi Gudbrot *, sem var prófessor í arkitektúr við TH Stuttgart, var vel til vina.
    Okkur nemendum sínum sagði Gudbrot eftirfarandi sögu: Aalto bauð honum til Finnlands til að upplifa finnskan arkitektúr og menningu. Finnsk gerstrisni og brjóstbirta var alltaf nærtæk og sána á kvöldin eftir upplifun og skoðunarferðir dagsins. Gudbrot sagðist hafa verið orðinn óduglegur við birtuna svo og við sánuna og sagði vini sínum að hann væri ekki orðinn upp á marga fiska. Aalto horfði á hann vorkunnaraugum og sagði svo : „ Mein Freund wenn der Schnaps und die Sauna nicht mehr helfen ist der Tod nicht mehr fern“. (Vinur minn ef snafsinn (alkóhólið) og sánan hjálpa ekki (hressa ekki) þá er ekki langt í endalokin (dauðann) ).

    * Rolf Gudbrot teiknaði tónlistarhúsið -Liederhalle- í Stuttgart sem vakti víða mikla athygli fyrir nýjungar . Snillinginn Aalto er óþarfi að kynna frekar.

  • Sigfús Almarsson

    Eftir því sem árin líða, þykir mér alltaf vænna og vænna um Norrænahúsið.
    Stórkostlegt hús svo ekki verði meira sagt.

  • Hilmar Þór

    Sæll Ólafur.

    Ég sé það á öllu að þú ert mikill áhugamaður um Le Courbusiere og átt heildarsafnið. Það á ég líka og hef alla tíð verið mikill áhugamaður um þann mikla listamann.

    Ég “rest my case” og dreg til baka að Corb hafi verið ferkantaður. Þetta var frekar sagt af tilfinningu en eftir að hafa rannsakað málið.

    Ég hefði gaman af að skiptast á skoðunum við þig og spjalla um Le Corbusiere einhvern góðan dag. Kannski bara á hverfisrólónum okkar!

    Við gætum hisst átta sinnum og farið yfir eina bók í hvert sinn.

  • Sæll granni,
    Ég held nú að þetta sé ekki undantekningin – Corbusier var mjúkur í gegnum allt sitt líf. En auðvitað ekki í öllum verkum sínum.
    Ef heildarsafninu er flett í fljótheitum sjáum við hvert verkið á fætur öðru; hér eru nokkur dæmi (fyrirgefðu fljótaskriftina):
    1929-34, Villa Savoye, sjá grm.
    1930-32, Pavillion Suisse, sjá grm jarðhæðar og stigahús.
    1930, Urbanisation de la Ville d’Alger, afstöðumynd og mössun.
    1931, Palais des Soviets, Moskva, grm og snið
    1933, Immeuble Locatief a la Porte Molitor, (hans eigin íbúð), grm og snið.
    1935, Une maison de week-end en banlieu de Paris, sjá snið.
    1942, Residence a l´interieur d´un dom…, Cherchell, Afr. sjá snið.
    1950-55, La Tourette, sjá kapellu, grm og snið
    1952-56, Chandigarh, Palais du Gouverneur, sjá grm 4.
    1952-56, Chandigarh, Palais de l´Assemblée, grm, sneið,
    1957,Centre de Calculs electr… Olivette, Rho-Milan, afst.mynd, grm. snið.
    Fleiri dæmi má finna, og má benda á grunnmyndir sérstaklega.

    Og ekki má gleyma klippimyndum, málverkum og skúlptúrum sem sum hver höfðu áhrif á form og lögun afstöðumynda, grunnmynda og sneiðinga í lífsverkum LC.

  • Hilmar Þór

    Þetta er rátt hjá þér Ólafur, Le Courbusiere gerði líka mjúkar línur og þar er Chapel Notre dame du Haut Ronchamp gott dæmi og um leið undanrekningin sem sannar regluna um línur Le Courbusiere.

    Það voru lika mjúkar línur á elementum í þökum Cité Radieuse í Marselles og í Chandigar. Svo var mikið af mjúkum línum í málverkum gamla mannsins.

    Urðu mjúki línurnar ekki algengari með aldrinum hjá honum? Hann var 67 ára þegar kapellan Ronchamp var tekin í notkun.

    En það er rétt maður á ekki að alhæfa um nokkurn hlut. Að minnstakosti á að fara varlega í þeim efnum.

  • Það verður að benda lesendum þessa bloggs á bókina:
    „Norræna húsið : Alvar Aalto : Ísland = Nordens hus : Alvar Aalto : Island “
    / [ritstjórn Haraldur Helgason, Málfríður Kristjánsdóttir og Pétur H. Ármannsson].
    Þar eru myndir af tillögum Aalto hjónanna og eins það sem varð úr. Einnig er bakgrunnur skipulags hússins rekinn og eitthvað um skipulagið.

  • Það er rétt að benda lesendum á grein Björns Ólafs í 2-4. hefti Birtings 1968, sem hét „Er Aðalskipulag Reykjavíkur úrelt?“. Hann ræðir þar skipulag Reykjavíkur í ljósi Athenu sáttmálans frá 1933, rekur forsendur og síðan afleiðingar og ástæður þeirra. Hann bendir jafnframt á að tími væri komin til að taka upp nýjar aðferðir í skipulagsmálum, ekki síst vegna almenningssamgangna. Sumt í greininni er „tidsbestemmt“ en inntakið á við í dag ekki síður en þá. Mæli eindregið með lestri.

  • Ég var staddur í Helsinki síðastliðið vor og gerði mér þá ferð til að skoða heimili Aaltos til margra ára svo og vinnustofu hans í sama hverfi. Þessar byggingar segja mikið um Alto og hversu tengdur hann var finnskri náttúru og alþýðlegu handverki. Þessar látlausu byggingar falla vel að umhverfi sínu og hafa elst afar vel.

  • Árni Ólafsson

    Það er einnig athyglisvert að þessir frumkvöðlar norræna fúnksjónalismans (nema Gunnlaugur) hófu feril sinn í klassískri byggingarlist.

  • Hilmar Þór

    Árni spyr hver sé norræna sérstaðan?

    Ekki veit ég það en ég sé mun. Ef horft er á verk Asplund, Aalto eða Arne Jacopsen sér maður að þau eru mörg með mjúkum línum og það er meiri áhersla lögð á smáatriði og efnisval. Norrænu funktionalistarnir voru heldur ekki eins teorítískir og aðrir modernistar. Gropius, Le Corbusiere og Wright notuðu nánast ekki mjúkar línur og voru grófari í öllum frágangi og efnisvali. Síðustu byggingar Wright minntu stundum í frágangi í verkum Asplund og varð norrænni fyrir bragðið. Mies var undantekning þar sem hann lagði mikla áherslu á smáatriðin eins og norrænu arkitektarnir, hann gekk bara lengra svo úr varð ómanneskjulegur agi.
    Er það ekki einhvernvegin svoleiðis sem munurinn á norrænum funktionaisma og öðrum. Annars veit ég það ekki en svona blasir hann við mér.

    Af því að þú nefnir Sigurð Guðmundsson og Gunnlaug Halldórsson þá hygg ég að þeir hafi staðið í fremstu röð arkitekta í Evrópu á þessum árum. Gallinn var bara sá að þeir fengu ekki eins mikil tækifæri og margir kollegar þeirra á meginlandinu. Það kemur til af tveim ástæðum. Annarsvegar smæð landsins og hinsvegar Jónas frá hriflu sem hélt öllum meiriháttar verkum að Guðjóni Samúelssyni sem varð í kjölfarið, eðlilega, afkastamesti og ofmetnasti arkitekt tuttugustu aldarinnar.

  • Árni Ólafsson

    Norræn klassík – Gunnar Asplund, Alvar Aalto, Sigurður Guðmundsson.
    Norrænn fúnkis – Gunnar Asplund, Alvar Aalto, Sigurður Guðmundsson, Gunnlaugur Halldórsson o.fl.
    Hvað einkennir norræna sérstöðu? Er hún einhver – eða eitthvað að tala um?

  • stefán benediktsson

    CIAM hætti 1959. Þeir höfðu miklar skoðanir á skipulagi. CIAM er eiginlega mjög gott dæmi um viðvarandi vandræðalegt samband arkitektúr, félagsvísinda og pólitíkur. Corbusier gaf (upp á sitt einsdæmi) út Aþenu samþykktina sem tók undir hugmyndir hans um borgarskipulag. Smithson hjónin voru ekki sannfærð og vildu fara aðrar leiðir en árangur þess má sjá í breskum glæpaþáttum, en glæponarnir eiga alltaf heima í húsnæði sem byggt var eftir hugmyndum Alison og Peter Smithson. Allt vildi þetta fólk vel en gat ekki hugsað sér að horfa til þess sem var að virka í borgum, það litu menn á sem skort á frumleika.

  • Hilmar Þór

    Það er rétt hjá þér Jens að Aalto gerði skipulagstillögu að svæðinu umhverfis Háskóla Íslands skömmu fyrir andlát sitt 1976. Tengiliður var Maggi Jónsson arkitekt.

    Það væri gaman að fá að sjá tillögur Aaltos við tækifæri.

    Ég tek undir með Ásdísi Egilsdóttur að skemmd var unnin á NH þegar kaffistofunni var breytt í veitingastað. Ég verð samt að segja að veitingastaðurinn DILL er einn sá besti í borginni.

  • Ásdís Egilsdóttir

    En hvað segja arkitektar um skemmdirnar á fyrrum kaffistofu Norræna hússins? Mátti virkilega breyta höfundarverki Aalto?

  • Úlfar Bragason

    Aalto var nú sjörnuarkitek síns tíma í Finnlandi og réð því að margar byggingar voru rifnar sem Finnar sjá nú eftir! En satt er það ef hér væru margar byggingar af svipuðum gæðum og NH þá væri gaman að lifa í Rvk. Því miður virðast íslenskir arkitektar ekkert hafa lært af þessu djásni og þess vegna er Rvk. sorglega ljót. Hver hefur t.d. ráðið í Skuggahverfinu eða á Höfðatorgi? Helsinki er hins vegar falleg borg – en Finnar hafa líka átt marga góða arkitekta aðra en Aalto.

  • Þetta tengslanet “CIAM” er merkilegt. Þeir héldu ráðstefnur annað hvert ár fram á sjöunda áratuginn með hléi í seinni heimstyrjöldinni. Þetta var lykilatriði í framgangi modernismans. Svo komu menn sem ekki skildu þetta og komu óorði á stefnuna. Líkt og með postmodernismann. Hann var eyðilagður af fólki sem skildi ekki hvað þetta gekk allt saman útá.

    Það má margt sækja í smiðju Aalto

  • Er það rétt að Aalto hafi líka teiknað svæðisskipulag fyrir háskólasvæðið í Vatsnmýrinni?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn