Sunnudagur 22.08.2010 - 14:09 - 12 ummæli

Amtsbókasafnið á Akureyri

safnidlett

Árið 1935 var efnt til samkeppni meðal arkitekta um byggingu Amtsbókasafnsins á Akureyri sem var nánast húsnæðislaust þó það væri orðið meira en 100 ára.  Tilefnið var að þá voru liðin 100 ár frá fæðingu Mattíasar Jochumssonar og vildu menn reisa honum vandaðann minnisvarða með nýju húsi yfir starfssemi safnsins.

Fyrstu verðlaun hlutu þeir Bárður Ísleifsson og Gunnlaugur Halldórson, bráðungir arkitektar, sem síðar áttu eftir að vekja mikla athygli. Gunnlaugur var tvímælalaust einn af sterkustu arkitektum sem Ísland hefur alið. Gunnlaugur hafði sterk höfundareinkenni sem ekki eru algeng þegar horft er á lífsverkið allt. T.a.m. hef ég ekki áttað mig á því hvers vegna Guðjón Samúelsson er jafn hátt skrifaður og raun ber vitni. Ein skýringin er sennilega sú að hann byggði meira en nokkur annar í skjóli embættis síns og Jónasar frá Hriflu.  Höfundareinkenni Guðjóns eru ekki sterk og voru nokkuð flöktandi á hans starfsæfi þó svo að hann hafi átt nokkur afburðaverk.

Ekkert varð úr framkvæmdum í kjölfar samkeppninnar 1935.  Það var ekki fyrr en um 33 árum síðar, árið 1968, að  bygging var vígð eftir að arkitektarir höfðu endurskoðað hugmyndir sínar. Þetta er löng saga um heilindi verkkaupans og hæfileika arkitektanna til þess að skilja stað sinn og stund. 

Árið 2004 var vígð velheppnuð viðbygging við safnið. Hún var byggð samkvæmt fyrstuverðlaunatillögu Guðmundar Jónssonar arkitekts sem sýndi skilning á verki gömlu mannanna. Guðmundur sameinaði þáverandi hús og nýbyggingu í listræna heild án þess að húsið sem fyrir var  missti nokkuð af sérkennum sínum. Ekki veit ég hverjir sátu í dómnefnd, en þeir hafa augljóslega haft skilning á gæðum hússins sem fyrir var. Hér er ástæða til að nefna verkfræðihönnunina sem unnin var á Verkfræðistofu Norðurlands.

800px-Snow_crystallization_in_Akureyri_2005-02-26_16-27-21[1]

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Ólafur Ágúst,
    Þetta er að verða tvöhundruð ára gömul stofnun með mátulegum skammti af íhaldssemi og virðuleika. Nafnið er þar hluti af myndinni.
    Þú breytir því ekki „af því bara“.

    http://www.akureyri.is/amtsbokasafn/saga/

    http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=6779

  • Ólafur Ágúst

    Halda mætti að húsið stæði í Þýskalandi, ef marka mætti nafnið.

    Það æmtir enginn né skræmtir vegna þessarar slettu.

  • stefán benediktsson

    Tilvalið verkefni að rannsaka

  • Sjónarmið Sigurðar Árnasonar og Árna Ólafssonar eru athyglisverð. Í raun er nauðsynlegt að rannsaka verkefnaskrá húsameistara ríkisins með í huga hverjir voru starfsmenn embættisins þegar verkin voru unnin. Það er óhugsandi að þeir hafi allir verið áhrifalausir.

    Hjá embættinu unni margir sterkir arkitektar í gegnum áratugina.

    Sennilega er forstöðumönnum embættisins eignað meira en þeir eiga skilið þ.m.t. Guðjón Samúelsson.

  • Árni Ólafsson

    Amtsbókasafnið sómir sér vel í bæjarmyndinni. Viðbyggingin ber með sér virðingu fyrir höfundarverki Gunnlaugs og skilning á viðfangsefninu. Falleg heild þar sem viðbyggingin bætir heildarmyndina, bæði hvað snertir hlutverk hússins, notagildi og stöðu í umhverfinu.

    Hins vegar verður að líta til Guðjóns Samúelssonar í ljósi þess að hann hafði ótal (sam-)starfsmenn, sem hönnuðu stórbyggingarnar í hans nafni. Bárður Íslefsson arkitekt á þar mörg handtök, t.d. í fúnkishúsunum. Allar teikningarnar eru hins vegar undirritaðar af Guðjóni sjálfum og því eignaðar honum. Hugsanlega á hann aðeins þjóðernisrómantíkina og steinsteypugotíkina. Og þá verða höfundareinkennin e.t.v. eitthvað sterkari. Margir ágætir hönnuðir hafa fallið í skugga undirritunar húsameistara ríkisins s.s. hönnuður Kópavogskirkju og hönnuður Skálholtskirkju, sem báðar eru eignaðar Herði Bjarnasyni ef ég man rétt.

  • EiríkurJ

    Þetta sjaldgæfa dæmi um vel heppnaða hönnunarsamkeppni á sér svolítið lengri sögu en hér hefur verið rakin. Dómnefndin valdi tillögu Guðmundar Jónssonar þó hún bryti skilyrði samkeppninnar um stærðarmörk, tillagan var um miklu stærra hús en áformað var. Eftir nokkurra ára hönnunarvinnu eftir upphaflegu tillögunni var niðurstaða Akureyarbæjar að endurskoða verkefnið. Niðurstaðan var að Guðmundur hannaði aftur mun minna hús, talsvert frábrugðið upphaflegu tillögunni. Nýja húsið er hins vegar jafn stórt og lagt var fyrir í samkeppninni í upphafi!
    Betur væri að fleiri samkeppnir enduðu svona farsællega.

  • Sigurður Árnason

    Ég þekki ekkert til Gunnlaugs Halldórssonar annað en það sem hér er verið að skrifa um, Amtsbókasafnið á Akureyri.

    Ég þekki fjölda húsa eftir Guðjón Samúelsson og verð að játa að það er nánast ótrúlegt að sami höfundurinn sé að Lauganeskirkju og Hallgrímskirkju eða Kristskirkju. Eða að sami maðurinn hafi teiknað menntaskólann á Laugavatni og héraðsskólann í Reykholti.

    Þetta eru allt ágæt hús en það er eins og fjórir eða fimm ólíkir menn hafi verið þarna að verki.

    Fann hann aldrei fjölina sína maðurinn?

  • Þorvaldur

    Það hvilir mikil ábyrgð á dómnefndinni sem veldur mestu um niðurstöðuna. Hér hefur dómnefndin borið mikla virðingu fyrir verki Gunnlaugs. An efa hafa einhverjar tillögur komið frá „Wannabe“ Saha Hadid stjörnuarkitektum með tízkuna á heilanum.

    Svo er nauðsynlegt að taka á vanhæfismálum á Eskifirði þar sem dómnefnd stóð sig ekki nægjanlega vel.

  • Það er reisn yfir Amtsbókasafninu á Akureyri.
    Hvort heldur átt er við gamla húsið eða nýbygginguna. Afskaplega vel heppnaðar byggingar.

  • Magnús B.

    Ég skil vel af hverju Guðjón Samúelsson er jafn hátt skrifaður og hann er. En ég líka altaf talið funtionalisma vera samnefnara yfir andlega leti.

  • Arkitekt skrifar

    Ég tek undir að þarna er fallega byggt við. Örfá atriði eru endurtekin í nýbyggingunni. Þakbrúnin og súlurnar samræmdar og gluggar með skemmtilegu fráviki. Svo er nýji hlutinn dregin aðeins til hliðar en látinn lína (flúgta) við gamla hús meistarans. (sem réttilega er einn alfremsti arkitekt íslendinga allra tíma). Svo sleppir Guðmundur sökklinum sem er í raun rúsínan sem skapar meistaraverkið.

    Af hverju byggja menn ekki svona þegar byggt er inn í gamla götumynd, “inn fill”? Nýbyggingin látin kallast á við það gamla eins og í Amtsbókasafninu. Á sýningu útskriftarnema í Listaháskólanum í vor var þessu öðruvísi háttað. Nánast allir nemarnir voru á egoflippi og gerðu hús sem áttu ekkert samtal við umhverfið sem var Lækjargatan í Reykjavík.

  • Hrönn Geirsdóttir

    afskaplega vel heppnuð viðbót við húsið sem fyrir var.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn