Sunnudagur 23.04.2017 - 11:35 - 5 ummæli

AR2010-2030 og BORÐIÐ veitingahús

 

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 er eitthvað það besta sem ég hef séð síðan 1927.  Það er samt auðvitað ekki gallalaust. Kostir þess eru einkum í stóru atriðunum eins og að draga úr útþennslu byggðarinnar,  hverfaskipulagið þar sem stefnt er að 8 hverfi borgarinnar verði sjálfbær hvað varðar atvinnu og þjónustu og svo auðvitað samgönguásinn sem er mikilvægasta einstaka atriðið og hryggjarstykki skipulagsins. Maður getur haft mismunandi skoðanir á einstökum atriðum skipulagsins meðan annað eru bara gallar sem þarg að leiðrétta.

Þessa galla er flesta að finna í allskonar smáatriðum sem menn kannski taka ekki eftir en reka sig fyrirvaralaust á þá og verða þá eiginlega bara hissa.

Eitt slíkt dæmi kom upp núna fyrir helgi þegar veitingastaðnum Borðið við Ægisíðu 123,  sem opnaði fyrir réttu ári, var hafnað um að fá að reka veitingahúsið í flokki II.  En veitingahúsum í þeim flokki er leyft að hafa vínveitingar.  Niðurstaða borgarinnar var kærð til Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem féllst á að hafna umsókninni um vínveitingar á þeim grundvelli að veitingastaðurinn væri í miðju íbúðahverfi og ekki við „aðalgötu“ og tilheyrir ekki nærþjónustukjarna. Þetta tvennt, aðalgata og nærþjónustukjarni eru forsendur fyrir því áð veitingastaður í flokki II sé leyfður ef ég skil þetta rétt.

Þetta er rétt niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sem byggir á aðalskipulaginu sem er líklega rangt hvað þetta varðar. Göturnar eru ekki rétt flokkaðar ef flokkunin er borin saman við skilgreiningu gatnanna. Það er einmitt svona lítil atriði í aðalskipulaginu sem eru helstu gallar þess.

Ef horft er á myndina efst í færslunni sést hvar borgargötur eru merktar í vesturbæ Reykjavíkur. Sunnan Hringbrautar eru borgargöturnar fjórar. Það eru Suðurgatan, Hofsvallagata, Neshagi og Brynjólfsgata.  Maður sér strax að þarna er eitthvað vanhugsað og ekki í lagi.  Það standa engin rök til þess að flokka Neshaga og Brynjólfsgötu sem borgargötur. Hinsvegar er augljóst að Ægisíða vestan Hofsvallagötu ætti að flokka sem borgargötu (aðalgötu).

Lítum bara á skilgreiningu aðalskipulagsins á borgargötu „Borgargata.  Lykilgata viðkomandi hverfis. Helstu þjónustukjarnarog stofnanir hverfisins standa við götuna og er hún oft mikilvægasta samgöngutengingin við næsta hverfi eða borgarhluta fyrir alla helstu ferðamáta. Gata sem hefur sögulegt mikilvægi, sterka ímynd eða er mikilvægur sjónás í borgarlandslaginu.“ Neshagi og Brynjólfsgata falla ekki undir þessa skilgreiningu en það gerir Ægisíða vestan Hofsvallagötu svo sannarlega.

Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er höfuðáherslan lögð á aðalgötu og hlutverk hennar.  Aðalgötur eru hinsvegar ekki áberandi í AR2010-2030 og ekki teiknaðar inn á samgöngukortin eins og sjá má á kortinu efst í færslunni þar sem borgargötur nærþjónusta, stórmarkaðir og opin svæði eru skilgreind. Á samsvarandi  kortum eru strætóleiðir teiknaðar inn ásamt hjóla- og göngustígar. Þarna eru borgargötur en ekki aðalgötur. Aðalgötur eru hinsvegar skilgreindar í texta í skipulaginu á sama hátt og borgargötur. Aðalgötur eru skilgreindar með meiri  fjölbreyttari landnotkun með áherslu á verslun, þjónustu og samfélagsþjónustu.  Ægisíða vestan Hofsvallagötu fellur undir þessa skilgreiningu og skilgreiningu borgargötu sérstaklega. Á þessum stutta kafla Ægisíðu er að finna bensínstöð (nánast vegasjoppu með verslun og dekkjaverkstæði), efnalaug, litla verslun og Borðið sem er í sama húsnæði og hverfisverslunin var til 70 ára auk þess sem þarna er umsvifamikill leikskóli. Gatan er miklu frekar aðalgata, borgargataeða nærþjónustugata en húsagata. Hún er aðalgata og borgargata þó hún sé ekki merkt sem slík á kortum AR2010-2030.

Slóðin að úrskurði ÚUA er að finna á þessari slóð:

http://www.uua.is/?c=verdic&id=1454

ÚUA hafnar kæru eigenda borðsins á grundvelli þess að þarna sé ekki um aðalgötu að ræða og vísar á myndir nr.: 15 og 16 á bls. 183 í aðalskipulaginu. Í mínu eintaki af aðalskipulaginu eru þessar myndir á síðu 171. Þarna er eitthvað misræmi sem ég skil ekki en það hlýtur að vera til skýring á.

Þessi galli á flokkun gatna aðalskipulagsins í vesturbæ Reykjavíkur þarf að lagfæra. Borgin þarf að lagfæra þetta. Hún mætti líka gjarna taka upp þá flokkun gatna sem menn hafa notað s.l. 60 ár en það voru; stofnbrautir, tengibrautir, safnbrautir og húsagötur. Þessi flokkun er góð og gagnsæ. Við þetta má svo bæta einum flokk í viðbót „borgargötum“ eins og þær eru skilgreindar í AR2010-2030 og falla vel að þeirri hugmyndafræði sem þar er lögð fram.

+++

Hér að neðan er yfirlitskort úr aðalskipulaginu AR2010-2030 sem sýnir borgarhluta 1, Vesturbæ.

 

Í vesturbæ sunnan Hringbrautar eru tvö frábær veitingahús. Hvort öðru betra. Annað er Kaffihús Vesturbæjar og hitt er Borðið.

Veitingahúsið Borðið er eitthvað það glæsilegasta hverfisveitingahús sem ég hef kynnst. Þar er góður matur sem reiddur er fram á smekklegan hátt í fallegu umhverfi af eigendunum sem geisla af þjónustulund. Þarna er hægt að kaupa ýmsa matvöru og hluti sem heyra til matargerðar. Þarna er engin hljómsveitarpallur eða myrkir krókar sem einkenna hverfisknæpur af hefðbundinni gerð sem maður þekkir erlendisfrá og menn sitja löngum stundum á sumbli. Þessi tvö veitingahús eru glæsileg hverfisprýði og mikilvæg fyrir félagslíf íbúa svæðisins og tengir þá saman með liðlegum hætti.

Til viðbótar þessu má nefna Stúdentakjallarann og Hámu á Háskólatorgi sem eru góð heim að sækja þó það sé með öðrum hætti.

Að neðan er mynd af Borðinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Þarna er annar galli sem mönnum hefur yfirsést. Fatahreinsunin, litla sérvöruverslunin og gamla hverfisbúðin Skjólakjör (nú Borðið) er ekki merkt með gulu, lit verslunar og þjónustu, 9á yfirlitskortinu,. Kannski hafa kortagerðarmennirnir aldrei komið á staðinn. Þetta er hneyksli.

    • Hilmar Þór

      Jú Hermann. Það er víða sem pottur virðist brotinn í þessu öllu. Ef kort aðalskipulagsins eru borin saman er víða misræmi að finna. Tökum bara þau tvö kort sem fylgja þessari færslu. Á efra kortinu eru merktir nærþjónustu-, hverfis- og borgarhlutakjarnar með gulu sem ekki eru merktir á yfirlitskortinu sem er neðar. Ég nefni verslunarhúsnæði við Dunhaga, Björnsbakarí á Fálkagötu og 10/11 búð við studentagarða og þjónustuhúss í Skerjafirði. Þetta er ekki að sjá á neðra kortinu.

  • Hilmar Þór

    Í Morgunblaðinu í gær tjáir Hjálmar Sveinsson formaður skipulagsráðs sig um málið og segir niðurstöðu ÚUA vera úr takti við stefnu borgarinnar um að bæta þjónustu inni í hverfunum. Þetta sjónarmið Hjálmars er vissulega í takti við stefnu aðalskipulagsins eins og fram kemur í pistlinum en er einhvernveginn ekki samkvæmt reglum aðalskipulagsins eins og Hjálmar nefnir. það er bara eitt að gera í því og það er að flokka götuna öðruvísi og í samræmi við skilgreiningar.

  • Guðmundur Jónsson

    Þetta er vonandi yfirsjón…ekki ásetningur. Fyrir utan alla þjónustuna við götuna er þetta söguleg og virk strætisvagnaleið.

  • „The Computer says so“.

    Það tekur ekki langan tíma að lagfæra þetta.

    Óþarfi að leggja þetta fyrur UUA. Það átti bara að lagfæra þetta strax.

    Þetta eru augljós mistök og það er mannlegt að gera mistök.

    Annað eins hefur nú verið gert.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn