Mánudagur 12.03.2018 - 16:16 - 11 ummæli

Áreiðanleikakönnun fyrir Landspítalann

 

Í síðustu viku birtist grein í Kjarnanum sem heitir „Ný staðarvalsgreining fyrir þjóðarsjúkrahúsið er nauðsynleg“.

Greinina má nálgast hér:

https://kjarninn.is/skodun/2018-03-05-ny-stadarvalsgreining-fyrir-thjodarsjukrahusid-er-naudsynleg/

Í greininni er farið er yfir nokkrar þær breytingar í skipulagsmálum sem orðið hafa á þeim tæpu tveim áratugum sem liðnir eru síðan spítalanum var valinn staður við Hringbraut.

Það liggur fyrir að þegar ákveðið var að byggja þjóðarsjúkrahús Íslendinga við Hringbraut var eðlilega stuðst við þær skipulagshugmyndir sem þá voru fyrirliggjandi. Þetta var aðalskipulag Reykjavíkur AR2001-2024. Því skipulagi var hafnað og lagt til hliðar með aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030. Nýja skipulagið var allt annað, nútímalegra og betra en  það sem lagt var til grundvallar við staðarvalsákvörðun spítalans árið 2002, sem vissulega var umdeild.

Breytingarnar er ekki einungis að finna í skipulagsuppdrættinum sjálfum heldur einnig í flestum markmiðum og áherslum skipulagsins. Í AR2010-2030 er lögð áhersla á fjölgun íbúða í miðborginni og þéttingu byggðar. Það er hætt við miklar og óhemju kostnaðarsamar vegaframkvæmdir sem áttu að þjóna einkabílnum og í þeirra stað átti að leggja áherslu á almannaflutninga. Þarna er um að ræða ein fern göng vestan Elliðaáa og hátt í tug mislægra gatnamóta. Reykjavíkurflugvöllur er ekki lengur í skipulaginu og fl. Að halda því fram að ekkert hafi breyst er ótrúleg fullyrðing sem stenst enganveginn.

Síðan 2002 hefur allt breyst og nýtt aðalskipulag hefur verið samþykkt með nýnum áherslum og allt öðrum markmiðum en voru í upphafi aldarinnar. Við þessar miklu breytingar og áherslur féllu nánast öll skipulagsleg rök fyrir staðsetningu spítalans við Hringbraut. Í aðalskipulaginu AR2010-2030 voru lagðar fram hugmyndir um nútímalegri borg þar sem áhersla var lögð á þéttingu byggðar, þróaðar almenningssamgöngur, sjálbæra borgarhluta og manneskjulegri borg.  Allt skipulagslegt umhverfi er gjörbreytt og betra frá því að Þjóðarsjúkrahúsinu var valinn staður.

Þrátt fyrir þetta þráast fólk við og neitar að skoða staðarvalsákvörðunina í ljósi gjörbreyttra aðstæðna. Embættismannakerfið hefur allt staðið með sjálfu sér í þessu mikla máli, hafnar því að faglega sé staðið að málum og að áreiðanleikakönnun sé gerð áður en hafist er handa við uppbygginguna uppá jafnvel hundruð milljarða. Það á að halda út í óvissuna. Það er ekki hægt að túlka þessa afstöðu öðruvísi en svo að þeir óttist niðurstöðuna telji staðsetning spítalans standist ekki þessa skoðun. Sem er líklega rétt mat.

Ef við skoðum umsagnir embættismannanna  og Spítalans okkar, vegna fyrirliggjandi þingsályktunartillögu, ber allt að sama brunni. Þau vilja forðast að málið verði skoðað með opnum, faglegum og lausnamiðuðum hætti. Þau virðast ekki vilja sátt um málið heldur halda bara áfram.

Landlæknir hoppar ofan í skotgrafirnar og spyr hvort flutningsmönnum sé alvara með að leggja þingsályktunartillöguna fram? Síðan leggur hann áherslu á eitt atriði og það eru tengsl spítalans við fræðasamfélagið eins og það eitt skipti máli. Hann telur að það skipti meira máli að skólafólkið hafi um stutta og örugga leið að fara milli skólanna og sjúkrahússins á kostnað allra annarra sem þurfa að sækja sjúkrahúsið. Þar á meðal aðgengi starfsmanna, sjúklinga, aðstandenda og aðfanga.

Landspítalinn sjálfur talar ekkert um þau grundvallaratriði sem ráða eiga staðsetningunni heldur leggur áherslu á að það sé of seint að skipta um kúrs og að það taki of langan tíma að breyta um stefnu. Þessi sömu sjónarmið hafa verið endurtekin af Landspítalanum síðustu 9 ár. Það stórkostlegasta í málflutningi Landspítalans er að nú tala þau eins og þessi uppbygging við Hringbraut sé til bráðabyrgða og nú þurfi strax að taka frá lóð til framtíðaruppbyggingar á góðum stað! Efst í færslunni er mynd af fyrirhuguðum byggingum spítalans við Hringbraut en þar er gert ráð fyrir um 300 þúsund fermetrum bygginga fyrir spítalann og skilda starfssemi.  Byggingarnar eru nú tæpir 70 þúsund fermetrar, Meðfeðarkjarninn er svipaður og þá standa eftir heimildir fyrir 160 þúsund fermetrar sem hægt er að byggja. Þetta var ekki hugsað til bráðabirgða heldur til mjög langrar framtíðar. Af hverju kemur þessi nýja áhersla? Á teikningunni er ekki sýnd hin svokallaða randbyggð sem þarna á að rísa.

Aldrei hefur verið sýnd þrívíddarteikning af lóðinni fullbyggðri samkvæmt deiliskipulaginu. Og aldrei sýnt hvernig hún mun líta út í Þingholtunum þegar ekin er Hringbraut og Miklabraut.  Hvers vegna ætli það sé? Vegna þess að þetta er svo yfirþyrmandi stórt.

Landssamtökin Spítalinn Okkar segir í sinni umsögn að ekkert hafi breyts í skipulagsumhverfinu sem kalli á að málið sé skoðað að nýju. Engin rök séu fyrir þeirri staðhæfingu að skipulaginu hafi verið breytt frá árinu 2002. Þau nefna hvorki AR2001-2024 né AR2010-2030 eins og ekkert hafi breyts. Maður trúir þessu varla. Svo koma þau með þessa venjulegu runu af úreltum álitsgerðum og sleppa þeim sem ekki styðja þeirra málstað.

Háskólarektor telur megin hlutverk spítalans vera kennsluþátturinn og metur málið eingöngu út frá því. Ekki skal því mótmælt að þægilegra er fyrir fræðasamfélagið að stutt sé á milli spítalans og háskólanna. En mikilvægara er að aðgengi þeirra  sem þar eiga að vinna í sjúkrahúsinu og þeirra sem það á að þjóna, sjúklingum og aðstandendum,  sé auðvelt og greitt,  þó fræðasamfélagið eigi um eitthvað lengri veg að fara.  Gott aðgengi fræðasamfélagsins má ekki vera á kostnað aðgengis alls almennings að spítalanum.  Þessi vinkill HÍ er svo þröngur að hann sæmir varla æðstu menntastofnun landsins sem ætti að geta skoðað málið frá mjög háum sjónarhóli. Það vekur líka athfygli að vísindastofnuninn sem vinnur með tilgátur alla daga sem ýmist eru sannaðar eða hraktar vilji ekki nota svipað verklag í þessu mikla máli og fá það sannað af óháðum aðilum að það sé heillavænlegast fyrir samfélagið að byggja við Hringbraut. Sem gæti orðið niðurstaðan.

Kostulegust  er umsögn Verkfræðingafélags Íslands sem segir að það muni taka tvö ár að gera nýja staðarvalsgreiningu eða áreiðanleikakönnun eins og nú er verið að biðja um. Þetta segja þeir vitandi að þær 2-3 staðarvalsgreiningar sem gerðar voru fyrir tæpum 20 árum voru bara nokkra mánuði í vinnslu og þar inni voru auk þess ýmsar greiningar á starfssemi skjúkrahússins. Nu liggur gríðarlegt magn upplýsinga fyrir og ætti þessi vinna því að taka mun styttri tíma en fyrir 20 árum.

Að baki þeirrar fullyrðingar að það muni seinka opnun spítalans um 10-15 ár liggja engin gögn. Sagt er að að það liggi ekki önnur gögn en koma fram í einnar síðu bréfi til ráðherra vegna málsins þetta sé eingöngu byggt á „virðingu“ verksins. Maður veltir fyrir sér hvernig allt embættismannakerfið geti byggt sinn málflutning á jafn mögrum grundvelli og þessum.

Það vekur undrun að allt þetta embættismannakerfi skuli hafna nýrri greiningu eða áreiðanleikakönnun í ljósi þess að mikill meirihluti Reykvíkinga  og heilbrigðisstarfsmanna eru ósáttir við að byggt verði við á Hringbraut. Auðvitað er þetta ekki einfalt mál. En fjarri því að vera óvinnandi eins og skilja má af embættismönnunum. Svona lagað verður stundum sérlega óyfirstíganlegt, flókið og flækt í augum þeirra sem skortir heildarsýn yfir verkið eða bara vilja þetta ekki.   Þeir sjá ekki skóginn fyrir trjám og finnst eintómir steinar vera í götu þeirra. Skýringin á tregðu til þess að skoða málið með opnum óháðum hætti getur bara verið ein og hún er að staðsetningin við Hringbraut standist enga skoðun.

Mér sýnist samt að umsögn Umhverfis- og skipulagssviðs  Reykjavíkurborgar vera akademiskast af öllum þessum aðilum. Þar segir að borgaryfirvöld hafi ávalt stutt ákvarðir ríkisvaldsins og viljan til að byggja við Hringbraut. En segja jafnframt að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar muni að sjálfsögðu liðsinna heilbrigðisráðherra ef hann kjósi að skoða málið betur. Sem hlýtur að verða niðurstaðan í ljósi staðreyndanna og vilja borgaranna og starfsmanna sjúkrahússins.

 

Nánar er fjallað um málið hér í tilvitnaðri grein í Kjarnanum:

https://kjarninn.is/skodun/2018-03-05-ny-stadarvalsgreining-fyrir-thjodarsjukrahusid-er-naudsynleg/

+++

Efst í færslunni er „bráðabyrgðasjúkrahúsið“ sýnt eins og það kom út úr samkeppni um framkvæmdina fyrir 8 árum.  Síðan hefur lítið gerst.  Að neðan er frétt úr dagblaði þar sem sagt er að svifryksmengun sé mest í Reykjavík við Eiríksgötu og Hringbraut en þar náði hún stiginu „Very Unhealthy“ (afar óholl)  samkvæmt Waqi.info.  Það er sama stig og  í slæmum iðnaðarborgum í Indalandi og Kína. Og þarna ætlum við að byggja þjóðarsjúkrahúsið sem verður þar að auki stærsta byggingasvæði landsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Þórarinn Guðmundsson

    Maður getur bara farið að gráta þegar maður kynnir sér málið og sér hvað mikið er vansagt og afvegaleitt í umræðunni. Og að allt þetta skuli vera að fara af stað gegn vilja þjóðarinnar og gegn allri skynsemi.

    Þorkell hefur látið ýmislegt falla sem ekki stenst skoðun í greinum undanfarið. Einhver pennafær maður þarf að svara honum í eitt skipti fyrir öll.

  • Símon Jónsson

    Góður pistill Hilmar og sannur, sem ávallt.

    Það sagði mér fyrir nokkrum árum mjög virtur læknir sem vinnur á Landspítalanum að það yrði byggt sjúkrahótelið og meðferðarkjarninn, en þá sæju allir að þessi staðsetning væri kolröng. Síðan myndu líða 15-20 ár þar til hafist yrði handa við að byggja nýjan og betri spítala á betri stað.

    Mig grunar að hann hafi rétt fyrir sér, tregða manna sem hafa haft góð laun fyrir að sitja í hverri nefndinni á fætur annarri og hvísla í eyru ráðamanna (sem flestir kunna lítið annað en að skammta sjálfum sér sífellt hærri launin úr ríkissjóði) er skiljanleg, en mikið er hún lágkúruleg í sérhagsmunum sínum .

    • Hilmar Þór

      Ég gæti trúað að þessi læknir verði sannspár. Upphaflegu áætlanirnar voru, samkvæmt deiliskipulaginu, að á Lamdspítalalóðinnu yrðu byggðir um 300.000 m2 byggingar tengdar sjúkrahússtarfsseminni. Þegar búið er að byggja meðferðarkjarnann og endurgera þá 66.000 m2 sem eru í gömlu byggingunum verða eftir 160.000m2 óbyggðar heimildir. Þetta byggingamagn dugir fyrir alla íslendinga næstu 80 árin eða þar til við verðum orðin um 600.000 íslendingar. Þá er rétt að spyrja: Er þetta rétti staðurinn fyrir spítala fyrir 600.000 manns. Svarið er nei. Ég get farið betur inná það seinna.

    • Símon Jónsson

      Tekið skal fram að þessi umræddi læknir, mjög svo virti bæði af kollegum hans og ekki síður sjúklingum, á Landspítalanum, er einn þeirra sem hrista hausinn yfir ruglinu og peningasóuninni sem farið hefur í lítið sem ekkert og það ár eftir ár, áratugi eftir áratugi, óhentuga bútasauma með tilheyrandi raski og hávaða, ryki og óhreinindum sem vitaskuld fylgir byggingarframkvæmdum, bráðabirgðalokunum út um allt, neðanjarðar göngum, erfiðleikum við að halda deildum hreinum meðan á slíku stendur og svona er hægt að telja endalaust upp.
      En hann hefur líka sagt að það viti allir innst inni að þetta er rugl, í skásta falli bráðbirgðaredding og það undrar hann hversu langan tíma þessar bráðabirgðareddingar taka. Nefndirnar þurfa sinn tíma, taka sér sinn tíma, þær gefa vel af sér. En sem sagt, hann er viss um að þráhyggjan víki fyrir skynseminni eftir 15 -20 ár — Loksins, loksins!

  • Þorkell Sigurlaugsson

    Sigrún talar um þetta: Það þarf ekki vitnana við. Ef bara er hugsað til þess, sem kom fram einhverntíma, að 60-70% starfsmanna geti ekki notað einkabílinn til að komast í vinnuna þá finna þeir sér bara vinnu annarsstaðar.

    Hvaðan eru þessar tölur komnar, bara sagt að einhvern tíma hafi einhver sagt. Það mun verða nóg af bílstæðum fyrir starfsmenn og víða er og verður ástandið enn vera, Klínikin, Domus ýmsar heilsugæslur o.fl. o.fl. staðir.

    Magnús, þú segir að Uppbygging Landsspítalans við Hringbraut séu sennilega stærstu skipulagsmistök Íslandssögunar m.a þegar þörfin er nú sem aldrei fyrr að fjölga vinnustöðum í austurhluta borgarinnar vegna umferðar.
    Hjólreiðar og borgarlína megna ekki að leysa þann vanda sem mun skapast.
    Ég þarf ekki að nefna fleiri rök í bili. Það hefur þú Hilmar heldur betur gert.

    Ég vil svara þessu þannig að það yrðu stærstu heilbrigðismistök og skipulagsmistök að byggja nýja 130.000 fermetra spítala sem tæki 10 ár að skipuleggja og ná samstöðu um og 10 ár að byggja ef það klárast þá einhvern tíma alveg og væri margra ára verkefni að flytja inní þegar það fæst varla starfsfólk til að reka spítalann í dag. Hver getur beðið í 20-25 ár eftir þessu og á meðan gerist ekkert í byggingframkvæmdum því öll orkan fer í nýja spítalann.

    Að Hilmar þór sé sá sem best er að leita í smiðju til þá treysti ég frekar Landspítala, landækni, Verkfræðingafélaginu, félagi hjúkrunarfærðinga, skipulagsyfirvöldum í Reykjavík, Framkvæmdasýslu ríksins og Skipulagsstofun með fulltri virðingi fyrir Hilmari sem frábærum arkitekt og einstaklega góðum pistlahöfundi. Það er dapurt að sjá hann tala niður til allra þessara stofnana, „að ekki liggir fyrir gögn“, á sama tíma og engin gögn liggja fyrir um hinn valkostinn og Hilmar bera svo sannarlega enga ábyrgð á þeim rangfærslum og ósannindum sem Samtök um betri spítala eða réttara sagt guðfaðir þeirra samtaka og excelskjalshöfundur ber ábyrgð á.

  • Magnús Skúlason

    Fyrir nokkrum árum var ég á mikilli UNESCO ráðstefnu í Vínarborg þar sem fjallað var um meiri háttar nýbyggingar í eldri borgarmiðjum. Ekki voru allir á einu máli nema um eitt:
    Ef allar líkur væru á að mistök væru í vændum skyldi framkvæmdum hætt jafnvel þótt sökklar hefðu verið byggðir. Þegar horft væri til framtíðar væri það mun hagkvæmara en að byggja á röngum forsendum.
    Uppbygging Landsspítalans við Hringbraut eru sennilega stærstu skipulagsmistök Íslandssögunar m.a þegar þörfin er nú sem aldrei fyrr að fjölga vinnustöðum í austurhluta borgarinnar vegna umferðar.
    Hjólreiðar og borgarlína megna ekki að leysa þann vanda sem mun skapast.
    Ég þarf ekki að nefna fleiri rök í bili. Það hefur þú Hilmar heldur betur gert.

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Það þarf ekki vitnana við. Ef bara er hugsað til þess, sem kom fram einhverntíma, að 60-70% starfsmanna geti ekki notað einkabílinn til að komast í vinnuna þá finna þeir sér bara vinnu annarsstaðar. Þetta er skipðulögð mannekla sem þarna er verið að stefna að. Þetta er bara ein af ástæðunum fyrir því að flytja þarf spítalann. Og svo er ekki aðstandendum bjóðandi að sjá ástvini sína liggja fyrir dauðanum á byggingastað árum og jafnvel áratugum saman!!

    • Þorkell Sigurlaugsson

      Sigrún talar um þetta: Það þarf ekki vitnana við. Ef bara er hugsað til þess, sem kom fram einhverntíma, að 60-70% starfsmanna geti ekki notað einkabílinn til að komast í vinnuna þá finna þeir sér bara vinnu annarsstaðar.

      Hvaðan eru þessar tölur komnar, bara sagt að einhvern tíma hafi einhver sagt. Það mun verða nóg af bílstæðum fyrir starfsmenn og víða er og verður ástandið enn vera, Klínikin, Domus ýmsar heilsugæslur o.fl. o.fl. staðir.

      Magnús, þú segir að Uppbygging Landsspítalans við Hringbraut séu sennilega stærstu skipulagsmistök Íslandssögunar m.a þegar þörfin er nú sem aldrei fyrr að fjölga vinnustöðum í austurhluta borgarinnar vegna umferðar.
      Hjólreiðar og borgarlína megna ekki að leysa þann vanda sem mun skapast.
      Ég þarf ekki að nefna fleiri rök í bili. Það hefur þú Hilmar heldur betur gert.

      Ég vil svara þessu þannig að það yrðu stærstu heilbrigðismistök og skipulagsmistök að byggja nýja 130.000 fermetra spítala sem tæki 10 ár að skipuleggja og ná samstöðu um og 10 ár að byggja ef það klárast þá einhvern tíma alveg og væri margra ára verkefni að flytja inní þegar það fæst varla starfsfólk til að reka spítalann í dag. Hver getur beðið í 20-25 ár eftir þessu og á meðan gerist ekkert í byggingframkvæmdum því öll orkan fer í nýja spítalann.

      Að Hilmar þór sé sá sem best er að leita í smiðju til þá treysti ég frekar Landspítala, landækni, Verkfræðingafélaginu, félagi hjúkrunarfærðinga, skipulagsyfirvöldum í Reykjavík, Framkvæmdasýslu ríksins og Skipulagsstofun með fulltri virðingi fyrir Hilmari sem frábærum arkitekt og einstaklega góðum pistlahöfundi. Það er dapurt að sjá hann tala niður til allra þessara stofnana, „að ekki liggir fyrir gögn“, á sama tíma og engin gögn liggja fyrir um hinn valkostinn og Hilmar bera svo sannarlega enga ábyrgð á þeim rangfærslum og ósannindum sem Samtök um betri spítala eða réttara sagt guðfaðir þeirra samtaka og excelskjalshöfundur ber ábyrgð á.

    • Sigrún Gunnarsdóttir

      „Sigrún talar um þetta: Það þarf ekki vitnana við. Ef bara er hugsað til þess, sem kom fram einhverntíma, að 60-70% starfsmanna geti ekki notað einkabílinn til að komast í vinnuna þá finna þeir sér bara vinnu annarsstaðar.

      Hvaðan eru þessar tölur komnar, bara sagt að einhvern tíma hafi einhver sagt.?“

      Spyr Þorkell.

      Og svarið er: Þessar tölur koma úr Morgunblaðinu og af þessari síðu.

      http://blog.pressan.is/arkitektur/2018/01/12/landspitalinn-og-bilastaedabokhaldid/

      Ég held þú ættir að skoða málefnalegann málflutning Hilmars og lesa færslur hans undanfarin mörg ár. Þúm mundir læra mikið af því Þorkell.

  • Jón Guðmundsson

    Það er ekki glóra í öðru en að gera þessa könnun. Við erum búin að bíða eftir sjúkrahúsinu í 20 ár og getum vel beðið í 2-4 mánuði til þess að fá vissu um málið. Annað er glapræði. Svo ef niðurstaðan verður ekki Hringbraut þá vinnst tímin upp því fljótara og ódýrara er að byggja á “green field” en í kraðakinu við Hringbraut.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn