Mánudagur 22.02.2010 - 13:59 - 6 ummæli

ARGOS – Kynning

argos-heim[1]

Hinar þrjár sýnilegu víddir byggingalistarinnar skipta miklu máli. En það eru fleiri faldar víddir sem skipta ekki síður máli,  t.d. félagslega víddin, hljómburðurinn, lykt og litir.

Svo er það fjórða víddin, tíminn. Þegar hugsað er til arkitektastofunnar ARGOS kemur tíminn einmitt upp í hugann.

ARGOS, Arkitektastofa Grétars Markússonar og Stefáns Arnar Stefánssonar var stofnuð fyrir bráðum tveimur áratugum en stendur á gömlum grunni. Hún á rætur sínar að rekja til Teiknistofunnar Höfða og síðar Teiknistofu Stefáns Jónssonar.

ARGOS hefur unnið að margvíslegum verkefnum á sviði skipulags og bygginga. Þeir fengu Menningarverðlaun DV 1984 fyrir nýbyggingar og umhverfi Bernhöftstorfunnar í Reykjavík, ásamt Einari E. Sæmundsen landslagsarkitekt. Ásamt Hjörleifi Stefánssyni arkitekt  hönnuðu þeir húsið að Vesturgötu 7 fyrir Reykjavíkurborg og ásamt Teiknistofunni Úti og inni hafa þeir unnið að stækkun Grunnskólans á Sauðárkróki.

Þeir hafa einnig unnið að endurbyggingu fjölmargra húsa víða um land, m.a. Ísafoldarhússins í Aðalstræti í Reykjavík, Eyjólfspakkhúss og Stórapakkhúss í Flatey á Breiðafirði og Roalds Brakka á Siglufirði, svo dæmi séu tekin.

Þeir hafa gert teikningar að tilgátuhúsum um skála og kirkju frá landnámsöld í Brattahlíð á Grænlandi og Eiríksstöðum í Haukadal sem byggð voru árið 2000.

Þeir hafa teiknað viðbyggingar við Minjasafnið á Akureyri, Byggðasafnið í Skógum undir Eyjafjöllum, nýbyggingu Safnahússins á Egilsstöðum og safnahús í  gamla kaupfélagshúsinu í Búðardal, svo eitthvað sé nefnt.

Hjálagt eru nokkrar myndir af verkum ARGOS frá liðnum árum. Þar á meðal eru nýbyggingar á horni Aðalstrætis og Túngötu, sem þeir félagar unnu í samstarfi við Steinar Sigurðsson arkitekt og VA-arkitekta. Þetta verk er með flækjustig sem er meira en nokkurt sem ég þekki. Vafalaust meiri enn nokkur spítalabygging þó stærri sé í fermetrum talið.  Í Aðalstræti  blandast saman samþætting merkra fornminja, borgarskipulags þar sem nýtingarhlutfall er yfir 2 en húsahæð er mest 4 hæðir. Þessu til viðbótar kemur flókin starfsemi í húsunum.

Aðalstrætið eftir breytingar á nr.10 (Ljósmynd Guðmundur Ingólfsson)

New Image2léttFógetastofur við Aðalstræti

Grimstalett

Grímsstaðavör

IMG_7152lett

Pakkhúsin og samkomuhúsið í Flatey á Breiðafirði

New Image6lettBernhöftstorfan

New ImagelettEiríksstaðir. Tilgátuhús

img_8382[1]

Byggingar við Aðalstræti þar sem blandað er saman nýju og gömlu

Blassinina-014lett[1]Byggingar við Aðalstræti

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Það var fjallað um verk ARGOS hér:

    http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/11/27/svona-a-ad-byggja-i-101/#comments

    Ég mæli með færslunni.

    Þarf ekki að fara varlega á viðkvæmum stöðum. T.d. í 101 og á stöðum eins og Flatey. Ef Venturi bygging i Postmodernisma stíl hefði verið byggð í Flatey þar sem fúaspítur pakkhúsanna voru áður væri plássið ónýtt.

  • EiríkurJ

    Verð að segja eina skemmtilega sögu frá því að þeir félagar hönnuðu viðbygginguna við Minjasafnið á Akureyri um 1970. Þá skrifaði Erlingur ritstjóri Dags að það væri óþarfi að fá arkitekta úr Reykjavík til að teikna hús á Akureyri því að nóg væri á staðnum af „húsateiknurum“, minnir að honum hafi ekki líkað verkið. Segið svo ekki að vegur arkitekta sé enn sá sami þó hnýtt sé í stéttina af og til.

  • Hörður P.

    Ég get ekki séð neina hógværð í því þegar menn leggja stál og glerhýsi að svo „viðkvæmum“ timburhúsum.

    Þarna var lagt til gríðarlega mikið að peningum og vinnu til að endurbyggja húsið „upprunalegri“ mynd. En „gamla“ húsið hefur líklega ekki þótt nógu stórt og því er byggt vandræðalegt stál og glerhýsi við það, til að ná upp byggingarmagninu á lóðinni sem varð að vera í einhverju samræmi við nútímann, annað en húsið sjálft.

    Þó svo að húsið líti jú ágætlega út frá götunni, þá er þetta, að mínu mati, hvorki leiðin til að endurbyggja hið gamla né leiðin til að tengja saman það gamla og nýja. Er ég nokkuð viss um að ég er ekki einn á þeirri skoðun.

    Þá líkar mér mun betur það sem þeir félagar áorkuðu með Bernhöftstorfunni og pakkhúsinu í Flatey þar sem haldið var í hefðina og húsunum leyft að halda sér eins og þau voru en það fær húsið á horninu á Aðalstræti og Túngötu einmitt ekki .

    Heldur markar húsið upphafið á röð vandræðalegra glertengihúsa og viðbygginga í kvosinni sem skýla sér á bakvið annars ágætis endurbyggingar sögufrægri húsa.

  • Nýbyggingar Argos við Aðalstræti bjarga götunni. Byggingarnar er bæði hlýlegar og fallegar.

    Mér finnst alltaf gaman að ganga þarna framhjá en passa mig þó á að ganga réttu megin við götuna. Þ.e.a.s. þannig að ég sjái ekki freku byggingarnar, á móti Aðalstræti 10.

  • Hér eru hógværir arkitektar á ferðinni sem bera djúpa virðingu fyrir verkum fyrri kynslóða. Hvort sem um er að ræða höll (Fógetinn) eða hreysi.(Grásleppuskúrar) Hver er svo að segja að arkitektar séu sífellt hugsandi um sjálfan sig og að reisa sér minnisvarða?

  • Magnús Orri

    Nýbyggingin á horni Aðalstrætis og Túngötu er að mínum dómi MJÖG vel heppnað verk sem sómi er að í miðbænum. Þekki ekki svo sem neitt til annara verka þeirra en þetta sérstak verk er mikil fjöður í hattinn að mínum dómi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn