Fimmtudagur 09.06.2011 - 23:16 - 11 ummæli

Arkitaktanám og stéttarvitund

Ég sótti skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur í hádeginu í dag þar sem Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt var að pæla í “stétt”.

Hún bar saman ýmsar stéttir og setti þær í samhengi. Hún fjallaði um nám í arkitektúr og starfsþjálfun arkitekta annarsvegar og lækna hinsvegar. Það er margt líkt með þessum tveim stéttum þegar kemur að námi þeirra og starfsþjálfun.

Hildigunnur lagði fram reynslusögur frá Danmörku þar sem kom fram að meðaltími sem arkitekt notar til þess að ljúka námi sínu í háskólaskóla eru 7 ár.

Í Danmörku er álitið að arkitektinn sé ekki fær um að taka að sér fullvaxið verkefni fyrr en eftir 5-7 ára starfsþjálfun að loknu háskólanámi.

Það er viss samhljómur þarna milli arkitekta og lækna.

Fyrir utan menntun arkitekta fjallaði Hildigunnur á spennandi hátt um viðhorf arkitekta til fagsins.

Hildigunnur spurði áleitinna akademiskra spurninga á borð við hvað mundi vera gert ef t.d. Njála hyrfi úr öllum bókahillum landsmanna? Hún spurði hvort ráðinn yrði ritfær maður, til dæmis Andri Snær Magnason, til þess að skrifa bókina aftur og byggja hana á samtölum við þá sem höfðu lesið hana og ýmsum rannsóknum?

Þetta var tímabær fyrirlestur enda er vinna arkitekta vanmetin og umfjöllun um arkitektúr nánast engin hér á landi.   Það er eins og arkitektastéttin sé á hliðarlínunni í stað þess að leiða umræðuna.

Hildigunnur kallaði eftir gagnrýni og rökræðum í stétt arkitekta og samfélagsins.

Þetta var dæmigerður akademiskur fyrirlestur sem skildi aheyrandann eftir fullan gagnrýnna og skapandi hugleiðinga.

Meðan á erindi Hildigunnar stóð fór ég að velta fyrir mér stéttarvitund arkitekta og hvort samstaðan og fagleg umræða sé tiltölulega lítil hér á landi vegna þess að við lærðum okkar fag í mörgum löndum og á mörgum tungumálum. Það er stundum eins og  stéttinn tali ekki sama tungumál eða sé ekki á sömu bylgjulengd þegar umræðan er annarsvegar.

Ég minntist þeirra væntinga sem gerðar voru til menntunar í faginu hér á landi og vonina um að umræða yrði þéttari og faglegri við það að menntun arkitekta væri flutt til Íslands og allir töluðu sama tungumálið.

Þegar kennsla í arkitektúr var að hefjast hér á landi var mikið rætt um hvort hún skildi vistuð í Háskóla Íslands eða Listaháskólanum og sitt sýndist hverjum. Lendingin varð LHÍ þrátt fyrir að félagsfundur Arkitektafélagsins hafði mælt með öðru.

Maður spyr sig hvort valið hafi haft áhrif á þróun stéttarvitundar arkitekta á þeim 10 árum sem liðin eru? Hvort tækifæri til rannsókna væru önnur ef námið væri vistað innan veggja Háskóla Íslands?  Mér skilst að það séu nú einungis tvær heilar fastar stöður í arkitektúrdeild LHÍ

Spurningin er hvort HÍ  hafi sterkari tengsl við fræðasamfélagið en LHÍ og hvort þar gæfist betra tækifæri til þess að styrkja tengslanet arkitekta við samfélagið í heild sem gagnast arkitektunum þegar á vinnumarkað er komið?

Eru tengsl arkitektanema við samfélagið kannski ekki mikið öflugri nú en áður en námið var flutt heim, vegna smæðar LHÍ?

Er ástæða til þess að endurmeta stöðu og staðsetningu náms í arkitektúr og skoða stöðuna í ljósi umræðu um fækkun háskóla hér á landi?

Er ástæða til þess að nota tækifærið og sameina skild fög, arkitektúr, skipulag, innanhússhönnun og landslagsarkitektúr í einum stórum skóla, Háskóla Íslands, nú eða LHÍ?

Þessi fög eru nú kennd í fjórum af sjö háskólum hér á landi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • stefán benediktsson

    Ég staldra við „samskiptaörðugleika“ arkitekta. Ég þekki þá úr félaginu.
    Ef þessir örðugleikar eiga rætur í faglegum þáttum er eitthvað að fagkennslunni. „Vísindi“ snúast um algild atriði og til allrar lukku listin líka.
    Ef ágreiningurinn snýst um smekk geta menn vonandi lagt hann til hliðar og einbeitt sér að því akademíska, algilda, en ef hann snýst um pólitík vandast málið því þar sleppir því algilda og gildisafstaða og gluggasetning eiga ekki neina rökrétta samleið

  • Hilmar Þór

    Þegar ég skrifa færslur þá má ekki túlka allt það sem fram kemur sem mínar persónulegu skoðanir. Ekki alltaf. Þegar ég varpa fram spurningum þá felst ekki alltaf persónuleg skoðun mín í þeim. Þetta er oftast gert til þess að vekja fólk til umhugsunar og vekja upp umræðu. Stundum örlar á ögrun í skrifunum. Það er allt með ráðum gert.

    Mér finnst að allt eigi að vera í stöðugri endurskoðun. Og nú þegar kennsla í byggingarlist hefur farið fram hér á landi í 10 ár er ekki óeðlilegt að staldra við og taka gamlar spurningar og vangaveltur upp að nýju til endurskoðunnar og umræðu.

    Ég er sennilega sammála öllu sem Hilmar Gunnarsson segir að ofan og vil þakka honum fyrir hans innlegg í málið.

    Hann nefnir inbreed þarna. Þetta hafa margir nefnt við mig áður og það er sannarlega ástæða til þess að hafa áhyggjur af því.

  • Hilmargunn

    Arkitektúrinn á heima í Listaháskólanum. Það sem þarf að bæta er samvinna á milli háskólanna og að fólk geti tekið valfög innan annara háskóla.

    Ég fagna því að arkitektar mennti sig út um allan heim, á ólíkum stöðum, með ólíkar áherslur. Ég hafna hverskonar flatneskju í menntun. Hinsvegar þurfum við að læra að lifa í fjölbreytileikanum / mismuninum. Ég er t.a.m. ekkert alltaf sammála nafna mínum en ég er þakklátur fyrir sjónarmið hans því þau veita mér aðhald og tækifæri til að endurskoða og móta mín eigin sjónarmið.

    Listaháskólinn hefur verið með áfanga þar sem arkitektanemar og verkfræðinemar frá HÍ vinna saman að mannvirki. Þar fékk maður tækifæri til að vinna með fólki með aðrar áherslur og önnur sjónarmið. Einnig hefur Listaháskólinn verið með annan áfanga þar sem við unnum með viðskiptanemum úr HR. Það var einnig lærdómsríkt ferli. Það er því hæpið að segja að LHÍ sé ekki að standa sig hvað varðar samvinnu við aðra skóla.

    Éf ég ætti að gagnrýna LHÍ, þá finnst mér af og frá, að leiðbeinendur skólans annist leiðsögn nemenda í lokaverkefni þeirra. LHÍ verður að varast inbreed. Mér fannst flatneskja yfir síðasta útskriftarhóp. Það var engu líkara en allir útskriftarnemarnir ætli sér í framhaldsnám í Sviss 🙂

  • JEÞ fer med rangt mal med ad segja vid verkfraedingar hofum laert okkar fag alfarid heima! Thvilik vitleysa, vid leggjumst i viking eins og vaninn hefur verid i sidustu aratugi.

    Hilmar, audvitad hefdi arkitekturinn att ad fara upp i Haskola Islands. Trausti Valsson professor i Haskola Islands maelti mikid med thvi a sinum tima.

    Minnir ad roksemdin vid ad troda arkitekturnum i LHI var ad verja „listraenu skopunina.“

    Svo i lokin…

    þarfagreiningar og húsrýmisáætlanir, semja samkeppnislýsingar.

    Thid arkitektar megid sja um thetta fyrir alla muni 🙂

  • Jón Guðmundsson

    Kjarni akademískrar menntunar í byggingarlist felst í rökrænni gagnrýni og samræðu. Íslensk samræðuhefð felst hinsvegar yfirleitt í því að skiptast á skætingi. Öll gagnrýni er tekin persónulega og í hita leiksins er hjólað í manninn og boltinn týnist. Fæstir arkitektar falla inn í þetta umhverfi með sinn bakgrunn.

    Við höfum látið fjáraflamönnum og stjórnmálamönnum eftir leikvöllinn og stöndum þegjandi á hliðarlínunni. Háskóli Íslands er í eðli sínu embættismannaskóli, það skýrir að hluta ólíka stöðu verkfræðinga og arkitekta. Þegar við höfum tækifæri til að láta verkin tala þá hefur ramminn yfirleitt verið forsniðinn af verkfræðingum, fjármálatæknum og stjórnmálamönnum. Í kjölfarið lendum við einfaldlega í hlutverki leigubílstjórans sem er beðinn um að aka frá A til B.

    Það er eingöngu undir okkur sjálfum komið að snúa okkur upp úr þessu hjólfari. Vonir um öflugri faglega umræðu og sterkari stöðu byggingarlistarinnar með tilkomu kennslu í byggingarlist innan Listaháskóla Íslands hafa ekki ræst. LHÍ féll sjálfur í gryfjuna með stórmerkilegum byggingaráformunum við Laugaveginn. Gagnrýni á hipp og kúl byggingaráform LHÍ og Samson Properties var svarað með ásökunum um afturhaldssemi og þekkingarleysi. Þar birtist allt persónugalleríið, bankamenn, verkfræðingar, stjórnmálamenn, arkitektarnir komu í kjölfarið og kepptu innbyrðis um statistahlutverkið.

    Ekki ósvipað mál er í uppsiglingu á Ingólfstorgi, þar verða áform um hótelbyggingu blástimpluð með opinni arkitektasamkeppni. Enn og aftur munum við keppa innbyrðis um lokahönnun bygginganna og leggjum um leið blessun okkar yfir framkvæmdina. Aðkoma Arkitektafélags Íslands að samkeppnum sem þessum grefur stéttina aðeins dýpra í hjólfarið. Enginn leigubílstjóri myndi aka þvert yfir Ingólfstorg þótt viðskiptavinurinn krefðist þess.

  • Góð samlíking með Njálu. Er tilgátubærinn í Þjórsárdal endurskrifuð Njála og eru húsin Laugarvegur 4-6 það einnig?

  • Guðmundur

    Eftir lesturinn er spurt hver voru á sínum tíma rökin fyrir því að kenna arkitektúr við Listaháskóla Íslands?

  • Hilmar Þór

    Það er rétt hjá Tómasi að maður nær ekki miklum árangri með því að níða aðila málsins niður eða að hæðast að honum. Það er ekki lausnamiðuð eða uppbyggjandi samræða. Við þurfum að draga úr því.

    Hinsvegar er það rétt að verkfræðingar eru nokkuð frekir til verka og virðast ekki sjá mörkin milli starfssviða arkitekta og verkfræðinga jafn skýrt og t.d. skil milli verksviða bakara og smiða

  • Tómas (hvorki verkfræðingur né arkitekt)

    Hilmar biður um umræðu um stöðu arkitektúrs á Íslandi. Það fyrsta sem gerist er að einhver fer að gera lítið úr verkfræðingum. Það er ekki vænlegt til árangurs hygg ég…

  • Verkfræðingar standa saman og hæla hvorum öðrum. Hjá arkitektum er þessu ōfugt farið.

  • Ein af ástæðum fyrir sterkri stöðu verkfræðinga hér á landi er einmitt að þeir hafa nánast allir lært sitt fag hér heima. Hér hafa þeir myndað sterk tengslanet og sterka stéttarvitund. Það er líka ein af ástæðunum fyrir því hvað þeir eru miklir heimalningar og sjá ekki útfyrir verkferla og exelboxin sín. Þeir tala allir sama málið: exellísku

    Úti í hinum stóra heimi leikur aldrei vafi á því hver leiðir byggingaverkin. Það eru arkitektarnir. Hér á landi er það oftar en ekki verkfræðingar sem ekki sjá skóginn fyrir sjálfum sér. Verkfræðingar eru jafnvel svo óforskammaðir að taka að sér þarfagreiningar og húsrýmisáætlanir og þeir semja samkeppnislýsingar og gera fleira sem er klárlega á verksviði arkitekta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn