Því hefur verið haldið fram að arkitektinn sé milliliður milli húsbyggjandans og samfélagsins.
Arkitektinn gætir hagsmuna húsbyggjandans og tryggir að hann fái gott og starfhæft hús sem þjónar þörfum hans og ofbýður ekki pyngjunni.
Arkitektinn ber líka ábyrgð gagnvart samfélaginu og þarf að tryggja að nýbyggingin þjóni borgarrýminu eða götunni. Hann þarf að tryggja að húsið bæti umhverfið og gefi því ný tækifæri. Hann þarf að gæta þess að nýbyggingin ofbjóði ekki umhverfinu og staðarandanum heldur styrki umhverfið og kosti þess. Nýbyggingin þarf að færa umhverfinu, borgarrýminu, einhver ný gæði samfélaginu til góða.
Það má halda því fram að arkitektinn þjóni tveim herrum hvað þetta varðar. Húsbyggjandanum og samfélaginu. Sem betur fer fara hagsmunir húsbyggjandans og samfélagsins oftast saman.
En ekki alltaf. Og þá reynir á arkitektinn.
Þetta er ekki alltaf einfalt eða auðvelt. Enda ekki alltaf sem óskir verkkaupans og samfélagsins fari saman. Svo geta skoðanir samfélagsis verið misjafnar eftir einstaklingum og viðhorfum þeirra. Tíðarandinn kemur líka inn í dæmið, hann er sennilega versti óvinur byggingalistarinnar enda er hann síbreytilegur og óútreiknanlegur.
Verst er þegar arkitektinn er blankur eða háður verkkaupanum og þarf nauðugur að láta óskir samfélagsins víkja fyrir skammtímaþörfum verkkaupans. Verkkaupinn færir honum brauðið sem samfélagið gerir ekki með jafn beinum hætti. Örsjaldan gerist það að arkitektinn og húsbyggjandinn er sami aðilinn. Það má helst ekki gerast þegar um er að ræða byggingar á viðkvæmum stað.
Sem betur fer nýtur arkitektinn og samfélagið stuðnings frá skipulagsyfirvöldum sem á að þjóna samfélaginu fyrst og fremst. En það geta komið upp átök milli húsbyggjandans og skipulagsyfirvalda sem eiga að gæta hagsmuna heildarinnar, samfélagsins. Þegar þannig stendur á kemur til kasta arkitektsins að finn sáttaleið.
Stundum er húsbyggjandanum (lóðarhafanum) falið að sjá um deiliskipulagið. Þá ræður hann arkitekt til þess að vinna þá vinnu og í framhaldinu að hanna húsin. Í slíkum tilfellum verður oft rof milli hagsmuna samfélagsins og lóðarhafans. Lóðarhafinn vill byggja sem mest og stærst, oft á kostnað umhverfisins. Arkitektinn reynir að mæta kröfum og þörfum láðarhafans.
Við þekkjum dæmi um þetta í Reykjavík. Ég nefni Skuggahverfið þar sem framkvæmdaaðilinn, fjárfestirinn, breytti áður samþykktu deiliskipulagi sér til hagsbóta. Sama á við um Höfðatorg þar sem skipulagið var unnið af arkitektum lóðarhafans og svo byggingarnar í framhaldinu. Þriðja dæmið er deiliskipulag Landspítalans sem var á höndum lóðarhafa. Borgin var umsagnaraðili í þessum tilfellum en leiddi ekki vinnuna. Deiliskipulagið og húsahönnunin var unnin samtímis af sömu aðilum á reikning lóðarhafa.
Hagsmunir samfélagsins virtust víkjandi.
Svona verklag hefur stundum verið kallað „verktakaskipulag“ vegna þess að það þjónar fyrst og fremst lóðarhafanum. Það sem er sameiginlegt með þessum „verktakaskipulögum“ er að þau eru útblásin með miklu hærra nýtingarhlutfalli en nálæg byggð og síðast en ekki síst er alls engin sátt um þau.
Á svokölluðum Bílanaustsreit var svipað verklag viðhaft en með örlítið öðrum hætti. Þar voru sömu arkitektar sem deiliskipulögðu fyrir borgina (samfélagið) og hönnuðu húsin fyrir byggingaraðilann (verktakann). Þarna voru arkitektarnir fyrst að vinna fyrir samfélagið og svo fyrir verktakana. Mörkin voru óljós. Það ber að forðast að deiliskipulagshöfundar sem vinna fyrir skipulagsyfirvöld hanni líka húsin fyrir lóðarhafa. Þeir eiga hinsvegar að vera umsagnaraðilar þegar húsin eru teiknuð inn í skipulagið og gæta hagsmuna skipulagsins.
Tilraunir skipulagsyfirvalda og áhugasamra borgara til þess að hafa áhrif á deiliskipulagið og húsahönnun hefur gengið illa þegar svona er unnið og það er almennt nokkur óánægja með athugasemdarferlið hjá borgurunum. Hvorki borgin né almenningur fá við þetta ráðið þó öflug rök séu fyrir því að gera mætti betur. Borgina skortir oftast kjark eða vilja til þess að taka tillit til athugasemda og/eða ráðlegginga borgaranna.
Skipulagsyfirvöld og arkitektar eiga að forðast þetta verklag í ljósi reynslunnar. Sami ráðgjafinn á ekki að skipulaggja og hanna húsin í sitt skipulag nema í algerum undantekningartilfellum. Arkitektar og skipulagsyfirvöld þurfa að hafa samfélagsleg ábyrgð að leiðarljósi og gæta hagsmuna heildarinnar í sínum störfum. Sýna samfélagslega ábyrgð og taka tillit til athugasemda.
Í siðareglum arkitekta er beinlínis ákvæði sem segir að arkitekt skuli ætíð hafa í huga og virða hagsmuni þeirra, sem nota munu og njóta verka hans og að arkitekt skuli taka tillit til áhrifa verka sinna á mannlegt samfélag, náttúru og umhverfi í víðtækasta skilningi. Þetta sjónarmið er áréttað í menningarstefu hins opinbera og í AR2010-2030.
+++++
Efst er mynd af umdeildri byggingu við Mýrargötu. Þarna hönnuðu arkitektarnir hús inn í samþykkt deiliskipulag sem þeir komu ekki að. Þeim var vandi á höndum. Deiliskipulagið var og er umdeilt. Af einhverjum ástæðum réð engin við málið og gátu ekki, þrátt fyrir vilja, mætt gagnrýninni og stýrt skipulaginu eða húsahönnuninni til betri vegar.
Nýtt aðalskipulag AR2010-2030 og menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð á að fyrirbyggja niðurstöðu af þessu tagi.
Að neðan koma myndir af þeim dæmum sem nefnd eru í pistlinum.
Í Skuggahverfinu var skilmálum deiliskipulags breytt eða ekki farið eftir þeim. Í staðin fyrir þaulhugsað deiliskipulag sem sátt var um komu hærri, breiðari, frekari og svartari hús.
Við Höfðatorg var haft það verklag að deiliskipulag var í höndum lóðarhafa. Slíkt hefur verið kallað „verktakaskipulag“ þar sem hagsmunir grenndarinnar víkur oft fyrir hagsmunum lóðarhafans.
Kalla má nýtt deiliskipulag við Landspítala „verktakaskipulag“ vegna þess að það er unnið á vegum lóðarhafa og á hans kostnað. Hagsmunir hans eru settir ofar hagsmunum heildarinnar að því er virðist. Því var og er haldið fram að húsin og deiliskipulagið sé í þágu samfélagsins. Það má að vissu marki segja að rétt sé að sjálf húsin og starfssemin þar sé í þágu samfélagsins, en deilt er um hvort deiliskipulagið sé í sátt við samfélagið.
Byggingarnar á svokölluðum Bílanaustsreit eru hannaðar af sömu aðilum og deiliskipulögðu. Þetta er að því leiti svipað og gerðist í Höfðatúni, við Landspítalann og í Skuggahverfinu. Sameiginlegt með þessum deiliskipulögum er að nýtingin er meiri en víðast annarsstaðar og byggingamassarnir ekki í samræmi við það sem fyrir er í næsta nágrenni. Í nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík er sérstaklega fjallað um að aðlaga skuli byggð að því sem fyrir er. Þetta er líka eitt af aðalákvæðum í opinberri menningarstefnu um mannvirkjagerð frá 2007. AR2010-2030 og siðareglur Arkitektafélagsins ganga í svipaða átt.
Deiliskipulag við Austurhöfn tekur ekki nægjanleg mið af nálægðri byggð í Kvosinni. Borgin vann af mikilli alúð að undirbúningi að samkeppninni um svæðið umhverfis Ingólfstorg sem lauk árið 2012. Þar var markvisst unnið að því að halda í staðaranda og sérkenni miðborgarinnar. Áherslan þar var í samræmi við skipulag Kvosarinnar frá árinu 1986 þar sem hæðir húsa voru stallaðar frá tveimur upp í sex hæðir og götuhliðar reitaðar í minni einingar.
Þess vegna kemur það á óvart að öll sú vinna og umræða sem fram hefur farið undanfarna áratugi hafi ekki skilað sér í nýju deiliskipulagi við Austurhöfn. Hlutföllin þar eru algjörlega á skjön við það sem menn höfðu áður sæst á þarna í næsta nágrenni. Við endurskoðun deiliskipulagsins voru aðalbreytingarnar þær að gatnamót Tryggvagötu og Kalkofnsvegar voru lagfærð og húsin lækkuð aðeins.
Þó skipulagið sé eins og það er þá hafa arkitektar sjálfra húsanna tækifæri til þess að hanna hús sem eru í anda þeirrar byggðar sem næst stendur og gætu lagt áherslu á og tekið mið af í Kvosinni, með styttri húslengdum, stölluðum húsahæðum, kannski frá þrem upp í sjö og auðvitað með fjölbreytilegri húsagerðum. Gert tilraun til þess að vera svoldið reykvísk!
Arkitektar eru þegar byrjaðir að hanna hús inn í deiliskipulagið við Austurhöfn. Myndirnar tvær að ofan og sú hér að neðan sýna hvernig arkitektarnir sem eru að teikna húsin sjá þau fyrir sér. Það er öllum ljóst sem þekkja til skipulags og hönnunarmála að deiliskipulagið í sjálfusér ákveður sjaldnast þá byggingalist sem verður ofaná. Það er undir arkitektunum komið að gefa byggingunum form, útlit og karakter sem hentar staðnum þar sem á að byggja.
Við Austurhöfn er það ekki skipulagið sem þvingar fram þá niðurstöðu sem sjá má af myndum arkitektanna heldur gefur skipulagið arktektunum tækifæri innan viss ramma að laða fram hús sem henta staðnum. Það reynir á hæfileika arkitektanna til þess að greina staðinn og gefa byggingunum viðeigandi form og útlit, sem hentar staðnum og anda hans.
Þar reynir á samfélagslega ábyrgð fagmannsins.
Hafa þarf í huga að þetta er ekki miðborg einhvers banka eða hótelkeðju. Þetta er miðborg allra reykvíkinga og miðborg höfuðborgar allra landsmanna og sú miðborg sem ferðamenn sækja.
Hér að neðan er samsett mynd af nýlegum húsum í 12 löndum um allan heim. Þarna er engan mun að finna. Allt er eins. Engin sérkenni og enginn staðarandi. Allt hundleiðinlegt og „professionelt“
Viljum við að allur heimurinn líti einhvernvegin svona út?
Er ekki orðið fulllangt milli færslnanna?
Hver er hin samfélagslega ábyrgð pólitískt kjörinna skipulagsyfirvalda?
Hver er hin samfélagslega ábyrgð þeirra er mynda rammann um líf okkar?
Skipulagsyfirvöld mynda rammann að byggðinni, aðal-, ramma- og deiliskipulag.
En í ljósi undangenginnar sögu má spyrja hvort skipulagsyfirvöldum, pólitískt kjörnum og oft með digra kosningasjóði frá fjársterkum aðilum, sé treystandi til að mynda þann ramma með hliðsjón af því er lengi hefur tíðkast í gegnum tíðina og allir þeir vita sem vilja vita að hinir sömu fjársterku aðilar, eða drottnar þeirra, véla þar um á bakvið.
Allt þetta vita þeir sem vilja vita. Spurningin er hins vegar hvort fólki finnist það almennt séð „eðlilegt“ að skipulagsyfirvöld hafi gengið og gangi ítrekað erinda slíkra aðila?
Skipulag er ekki arkitektúr. Arkitektarnir teikna hús inn í skipulagið. En er arkitektum treystandi?
Enn og aftur skrifar hinn ágæti síðuhafi, Hilmar Þór, þarfan og góðan pistil
… en spurningin er enn sú hvort valdhafar kunni þá eðlu list … að lesa,
hvað þá að tileinka sér það lítillæti sem þarf til, nú sem fyrr … til að vitkast ?
Fyrirgefiði mér, en ég efa það … rauðu luktirnar, sem væri það gata hinna óbærilegu léttúðar
loga nú af mikilli þind fagurgalans og sem aldrei fyrr … í Borgartúni stórverktakanna og uppreistu bankanna … undir kjörorðinu „íbúalýðræði“ … ?
en hvað er maður að skipta sér af þegar „splúnkunýi „staðarandinn“ fer rauðum lugtarljósum um tún borgarinnar
og er það ekki bara dásamlegt, sem væri það enn á ný … „í túninu heima“ … líkast til betur orðað „í splúnkunýja túninu heima“ ?
eru ekki allir orðnir hálf vegvilltir af ofurbirtunni sem af lugtadýrðinni stafar ?
Ef ég má vera hvass þá langar mig til þess að benda hönnuðum, stjórnmálamönnum og borgurum almennt á að kynna sér hið stórmerka Aðalskipulag Reykjavíkur AR 2010-2030.
Þar kemur skýrt fram í kaflanum „Borg fyrir fólk“ með hvaða hætti borgin vill byggja innan Hringbrautar. Kaflinn hefst á síðu 145 og vil ég sérstaklega vekja athygli á þættinum um borgarvernd.
T.D. á síðu 154 þar sem stendur að eitt meginmarkmiðið er að varðveita og styrkja einkenni gamla bæjarins. Samkvæmt uppdráttum virðast lóðarhafar þvert á móti vera að skapa annan miðbæjarhluta með öðrum og framandi einkennum. Það gengur auðvitað ekki.
Ég hef kynnt mér aðalskipulagið rækilega bæði í handriti og endanlegri útgáfu og þykist sjá að þau hús sem byggja á við Austurhöfn og sýnd hafa verið opinberlega (m.a hér í færslunni) falli alls ekki að markmiðum aðalskipulagsins.
Ef höfundar húsanna hafa ekki kynnt sér aðalskipulagið hvað þetta varðar ættu þeir að gera það sem fyrst.
Annars verða bara tóm leiðindi því kjörnir fulltrúar geta ekki samþykkt framkvæmdir sem ganga gegn nýsamþykktu aðalskipulagi.
Eða hvað?
Það gleður mig að lesa að æðstu stjórnendur skipulagsmála í borginni eru meðvitaðr um stöðuna ef ég skil þá rétt.
Maður fyllist bjartsýni við að lesa þetta og kommentin, sérstaklega það síðasta sem boðar betri tíma framundan!
Takk og bjarta framtíð fyrir allskonar 🙂
Verkefni skipulagsyfirvalda í Reykjavík seinustu árin hefur einkennst mikið af því að vinda ofan af skipulagsákvörðunum sem einkenndu tímabilið rétt fyrir hrund. Of mikið byggingarmagn, útblásnir húskroppar oft úr takti við núverandi byggð og annað sem einkennir hið reykvíska umhverfi og staðaranda. Þetta er og verður áfram eitt af aðalverkefnum skipulagsyfirvalda næstu misserin og þá sérstaklega í miðbænum. Gott dæmi um það er hinnn umdeildi Hljómalindarreitur í þessu samhengi en þar tókst að í samvinnu við lóðarhafa að breyta skipulaginu í rétta átt.
Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að samþykktar byggingarheimildir í gildandi deiliskipulagsáætlunum eru bundnar í alla enda og því hefur oft reynst erfitt að vinda ofan af gildandi skipulagsákvörðunum án þess að borgaryfirvöld sitji uppi með gríðarlegar skaðabótakröfur frá viðkomandi lóðarhafa/ vektaka. Samtal, samvinna og samráð er lykilatriði í þessu samhengi. Austurhafnarskipulagið inniheldur vissulega gríðarlegar byggingarheimildir með öllum kostum og göllum en endanleg útfærsla þeirrar uppbyggingar liggur ekki fyrir.
Nýtt aðalskipulag varðar veginn. Staðarandi endurspeglast í byggðinni, í almenningsrýmum og samfélaginu í sögulegu samhengi náttúru og hins manngerða umhverfis, lands og sjávar. Hér þurfa allir að leggja hönd á plóg, fagna nýju í bland við það gamla og halda áfram að gera Reykjavík að borg fyrir allskonar fólk, þarfir og þjónustu.
Málefnaleg grein um aðkallandi efni sem þarfnast frekari umræðu.
Óvenjulega hógvær grein á bloggheimum, fordómalaus og leitar ekki sökudólga.
Fólk hlýtur að hugsa málið eftir lesturinn.
Svo bendir arkitektinn á sína stétt og hvetur hana til aðgerða.
Frábært
„sú miðborg sem ferðamenn sækja“ Það er ekki langt í það að Íslendingar, þ. e. a. s. ferðaskrifstofur, geti boðið útlendingum sérhannaðar ferðiir til landsins með vatnsaflsvirkjanir, uppistöðulón, rafmagnslínur út um holt & hæðir, álbræðsluver í friðsælum fjörðum og í höfuðstaðnum gler – og steinsteypubúnkera sem augnayndi og „aðal-attraktion“. Heiti ferðarinnar gæti t. d. verið „Surreal-Tour“ við heiskautbaug ( S-T am Polar-Kreis )
Frábær grein Hilmar
Hafðu kærar þakkir fyrir.
Ég bíð eftir viðbrögðum Halldórs Eiríkssonar við kommenti pistlahöfundar. Það er elltaf gaman að lesa skoðanaskipti manna sem hafa mismunandi sýn á umhverfi sitt eða þau mál sem eru dagskrá.
Það lá við að ég skrifaði að þessi pistill væri „orð í tíma töluð“ en sá mig svo um hönd. Þessi orð hefði alltaf, og ætti alltaf, að hafa í huga.
Þetta er mjög góð grein sem undirstrikar mikilvægi þess að við förum að skoða grunnforsendurnar sem ráða því hvernig er byggt og hvar. Þetta er trúlega stærsta „umhverfismál“ sem við stöndum frammi fyrir á Vesturlöndum. Leið til betri vegar liggur ekki í því að finna sökudólga (sbr. þekktan franskan bókatitill „Á að hengja arkítektana?“, -skrifuð af manni sem sjálfur er arkítekt) heldur í því að skoða allt kerfið og verkferlana sjálfa. Pistillinn hér að ofan finnst mér skref í þá átt.
Það er ánægjulegt að lesa fréttaskýringu í Fréttatímanum í dag.
Þar fjallar Halldór Eiríksson um hönnun við Austurhöfn og skýrir sína sýn á svæðið og áhrif umhverfisins á hönnun hótels m.m. og segir m.a.:
„Við viljum ekki að Harpa standi eins og eyland í borginni og við erum að reyna að nálgast borgina með því að trappa stærðina niður frá Hörpu…….“
Þetta er auðvitað sjónarmið sem vert er að virða en við meigum ekki gleyma að höfundar Hörpu sáu bygginguna einmitt sem „eyland“ í borgarlandslaginu og hafa sagt opinberlega að innblásturinn hafi komið frá Hvítserk þó mér finnist hún minna meira á Eldey.
Það er líka þannig að byggingar á borð við Hörpu lúta öðrum lögmálum en t.a.m. hótel. Hallgrímskirkja er ein þeirra. Hún er og á að vera eyland í borgarlandslaginu. Sama á við um sigurbogann í París og margar fleiri byggingar sem við þekkjum.
Annað sem Halldór nefnir er að maður “ eigi ekki að byggja gömul hús“.
Ég er honum fullkomlega sammála þarna en vil bæta því við að ný og nútímaleg hús geta vel fallið að gömlum húsum svo vel fari svo ég tali nú ekki um gamla byggð eins og Kvosina.
Ég er líka sammála Halldóri þegar hann segir „að arkitektúrinn eigi ávallt að endurspegla sinn tíma.“ Ég held að flestir arkitektar séu sammála þessu en það er hægt að gera nútilma arkitektúr sem tekur mið af umhverfinu eins og dæmin sanna.
Viðtalið og umfjöllun Fréttatímans má lesa í heild sinni hér:
http://www.frettatiminn.is/frettir/byggingarnar_vid_austurhofn_munu_endurspegla_nutimann/
Fyrirhugaðar byggingar frá Hörpu að miðbæ loka sýn að höfninni, sjónum, Esjunni , Skarðsheiðinni og Akrafjalli.
Þegar gengið er niður Bankastræti, þessum huglæga miðpunkti borgarinnar, blasir enn höfnin og náttúrurýmið við sjónum, ekki innilokuð Reykjavík, ekki innilokuð höfn og staðsetur Reykjavík og aðgreinir frá öðrum borgum.
Skipulagssamkeppnir svæðisins á undanförnum árum hafa lagt áherslu einmitt á þetta.
Að því er ég best veit hafa starfsmenn byggingar- og skipulagsviðs Reykjavíkur og borgarpolitíkusar, öll, lýst vilja til að tengja borgina við höfnina , hafið og fjallasýn eftir mætti og enn er hægt að viðhalda þessari tengingu , en samt er skipulagið ekki í samræmi við ofangreint.
Hvað veldur?
Arkitektar eiga að vita að „framtíðin byggir á fortíðinni“.
Það verður spennandi að fylgjast með hvort umræðan um Austurhöfn muni breyta hugsunarhætti arkitektanna. Hvort þeir hafi þá víðsýni að geta séð það sem er í kringum þá og nota það sem þeir sjá í sköpun sinni?
Ég hafði sama kommentið um daginn, og henti þá í flýti saman mynd til að skýra þetta:
https://scontent-b-fra.xx.fbcdn.net/hphotos-xfp1/t1.0-9/10322758_10152480064189104_234739213511548660_n.jpg
Ég er ekki viss um að það sé alltaf stærðin á skipulaginu, heldur kanski massinn og andlitsleysi arkitektúrssins sem skiptir máli. Kvosin er í raun nokkuð há og þétt byggð á Íslenskan mælikvarða, skipulagslega séð. En hún er ekki einsleitur arkitektúr. Dæmi um byggingu sem er of stór, of einsleit og gerir ekkert fyrir almenningsrýmið er Morgunblaðshúsið.
„andlitsleysi“ er lýsandi nýyrði sem nota má um arkitektúr.
Byggingum er oft lýst eins og persónum. Þær eru hógværar, fyndnar, traustar, aðlaðandi, feitlagnar og mjóar. Andlitsleysi er mjög gott orð.
Ef ég skrifa eitthvað meira þá mun ég nota það.
Orðaforðinn sem notaður hefur verið þegar fjallað er um byggingalist og skipulag hefur verið losaralegur fátæklegur og ómarkviss með mikið af slettum. Það er sennilega vegna þess að arkitektar lærðu sitt fag á morgum málsvæðum.
Eftir að námið var að hluta til flutt til Íslands átti ég von á að þetta breyttist. En það hefur ekki gerst í því mæli sem ég átti von á enda er að mér skilst mikið kennt þar á á ensku.
Eitt orð hefur fests í sessi hér á þessum vef og það er orðið „staðarandi“ !
Það orði virðist virka.
Og nú er komið nýtt sem er andlit og andlitsleysi. Svipur og svipleysi.
Innan Arkitektafélagsins er orðanefnd sem ætti að taka orðin „staðarandi“ og „andlitsleysi“ inn í safnið.
Takk fyrir þetta Guðjón.
Samsetta myndin þín er lýsandi og af henni má draga ýmsar álygtanir.
Það er allavega ljóst að ekki er hægt að kenna skipulaginu um allt sem miður fer.
Þetta er góð grein og málefnaleg.
Hér er önnur mynd af sk. Bílanaustreit. Veit ekki hvort íbúðirnar í húsinu sunnanvið skrifstofubygginguna flokkist sem lúxusíbúðir, en vissulega felst viss lúxus í því að geta skotist á milli húsa heiman frá sér og í vinnuna á náttfötunum.
http://eirikurjonsson.is/djup-gja-i-fjarmalahverfinu/
Lokasetningin fastneglir þetta:
„Hafa þarf í huga að þetta er ekki miðborg einhvers banka eða hótelkeðju. Þetta er miðborg allra reykvíkinga og miðborg höfuðbrgar allra landsmanna og sú miðborg sem ferðamenn sækja“.