Miðvikudagur 01.12.2010 - 08:56 - 3 ummæli

Arkitektastofa 70 ára

 

Í dag fyrir réttum 70 árum stofnuðu skólafélagar af  Akademíunni í Kaupmannahöfn teiknistofu í Reykjavík. Þetta voru þeir Sigvaldi Thordarson og Gísli Halldórsson.  Þeir félagar  voru landflótta frá Danmörku vegna seinni heimstyrjaldarinnar.  Þeir voru fjölskyldumenn sem ekki fengu lokið námi vegna stríðsins.

Þegar stríðinu lauk héldu þeir aftur til Kaupmannahafnar og luku þaðan prófi. Skömmu fyrir 1950 hvarf Sigvaldi til starfa hjá Teiknistofu Sambandsins meðan Gísli hélt rekstri arkitektastofunnar áfram.

Um miðjan sjötta áratuginn bættust við tveir meðeigendur á stofunni. Það voru þeir Jósep Reynis og Ólafur Júlíusson. Teiknistofan hét þá  ”Teiknistofan Tómasarhaga 31”  en þar var hún til húsa í byggingu sem reist var á lóð einbýlishúss Gísla.  Þetta voru allt ungir menn.  Ólafur og Jósep rúmlega þrítugir og Gísli 10 árum eldri.

Þarna var mín fyrsta launaða vinna ef frá er talið saltfiskbreiðsla hjá BÚR, blaðasala og blaðburður. Síðan er liðin meira en hálf öld.

Þetta varð fljótt stærsta teiknistofa landsins. Hjá þeim störfuðu á þessum tíma Stefán Sigurbentsson og að mig minnir Sigurður Ámundason ásamt Lilju Sigurðardóttur skrifstofustúlku. Þarna vann einnig eitt sumarið Jes Einar Þorsteinsson sem þá var í námi í arkitektúr í París.

Ég man að allir gengu um í hvítum sloppum og  unnu við lárétt borð. Verkfærin voru einföld.  Allt var tússað og mikil virðing var borin fyrir teikningunum, “orginölunum”. Þetta voru “handrit”

Teiknistofan var skemmtilegur vinnustaður fyrir þær sakir að fólk var einbeitt í vinnu sinni og samviskusamt.  Allir starfsmennirnir voru sigldir og höfðu búið erlendis. Það var ekki algengt í þá daga og setti sinn svip á kúltúr vinnustaðarins.

Ekki var mikið spjallað um menn og málefni nema í kaffitímum þar sem var oft gestagangur.  Verkefnin voru umræðuefnið og tölvuvandamál voru ekki að trufla þá umræðu. Félagslíf var mikið og farið var í starfsmannaferðir.  Tveir eigendanna,  þeir Ólafur og Jósep, spiluðu á listavel harmónikku.  Ólafur var listfengur og góður teiknari og málaði nokkuð. Jósep var ástríðufullur laxveiðimaður.

Meginhlutverk mitt var að sendast með uppdrætti í ljósritun til Sigr. Zoega í Austurstræti og þaðan til byggingafulltrúa eða á verkstað.  Þetta voru margar ferðir á degi hverjum.  Þá sinnti ég innheimtustörfum og gerði isometriur. S ennilega var tími minn þarna mikill örlagavaldur í mínu lífi vegna þess að þarna ákvað ég hver starfsvettvangur minn skildi verða.

Ég hef hitt Gísla annað slagið allar götur síðan.  Fyrir nokkru hringdi hann í mig og vildi ræða skipulagsmál og stöðu arkitekta hér á landi.  Það var bæði uppbyggjandi og fjörugt samtal þar sem mátti skynja einlægan áhuga gamla mannsis á viðfangsefnum líðandi stundar.   Hann hafði meiri áhuga á málefnum dagsins en flestir arkitektar sem ég umgengst, þó hann sé rúmlega 96 ára gamall.

70 ár er langur tími þegar rekstur fyritækis í byggingariðnaði á í hlut. Byggingariðnaðurinn er mjög háður hagsveiflum bitnar það oft á fyritækjunum.  Nú er teiknistofan þeirra Gísla og Sigvalda, sem er starfrækt undir nafninu TARK,  orðin 70 ára. Þetta er að líkindum langelsta arkitektastofa landsins.  Til hamingju með daginn.

Færslunni fylgja myndir af tveim húsum teiknistofunnar sem teiknuð voru á sjötta áratugnum.  Þó ólík séu þá bera þau sterk höfundareinkenni.  Annað er heimili Gísla, Tómasarhagi 31, þar sem hann rak teiknistofu sína um árabil og hitt er fjölbýslishús við Birkimel í Reykjavík.  Í austurenda á þriðju hæð fjölbýslishússins bjó Ólafur Júlíusson, meðeigandi Gísla.  Hann sagði mér að þeir hafi sett sérstakann glugga á húsið til þess að geta horft á knattspyrnuleiki á Melavellinum, sem blasti þarna við, úr eldhúsinu. Þewtta var auðvitað í gríni sagt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Borghildur Sturludóttir

    heyr heyr Sveinbjörn S.
    Enda dettur mér ekki til hugar að lesa neitt annað en Njálu og kannske smá Laxnes en lengra nær það ekki. Það eru sko „orginalar“, en ekki eitthvað Yrsa eða Einar, fuss svei og nei!

  • Sveinbjörn S.

    Gaman að muna tímana tvenna. Nú á dögum eru engir “orginalar” á teiknistofunum. Hvorki sem skjöl eða starfsmenn. Í skjölunum eru í mesta lagi til staðfest undirritað afrit, engir orginalar. Hugvitið er á harða disknum, ekki í teikningaskúffum. Og starfsmennirnir eru allir markaðsvæddir og digitaliseraðir populistar þar sem allt orginalitet er sótthreinsað og dauðhreinsað. Höfundareinkenni í arkitektúr sést varla lengur fyrir bragðið

  • Til hamingju með daginn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn