Fyrir einum þrem áratugum var gerð könnun á því hverjir teiknuðu húsin sem þá var verið að byggja í Reykjavík. Skoðuð voru tvö eða þrjú nýleg íbúðahverfi. Niðurstaðan var að arkitektar teiknuðu um 20% húsanna. Hin um 80% voru teiknuð af fagfólki með aðra menntun sen byggðist ekki á byggingalist.
Einhvern vegin held ég að þetta hafi breyst. Arkitektar teikna hlutfallslega fleiri íbúðahús nú á dögum en áður.
Til þess að fyrirbyggja misskilning þá er ég ekki að segja að einungis arkitektar geti teiknað íbúðahús eða eiga að vera einir um þessi störf. Alls ekki.
Það hefur nefnilega sýnt sig að mikið af virkilega góðum húsum voru teiknuð og skipulögð á grundvelli hefða í byggingalistinni og þekkingar sem flutt var milli kynslóða og án margbrotinna teikninga og án sérstkrar menntunnar í byggingalist eins og við þekkjum hana nú á dögum.
Ég nefni íslenska torfbæjinn, Hutongs íbúðahúsin í Kína og margt fleira.
Árið 1964 kom út bókin „Architecture without architects“ sem margi arkitektar þekkja og eiga. Bókin er eftir Bernard Rudofsky og hefur verið endurútgefin og bætt nýlega. Bókin vakti mikla athygli og opnaði augu manna fyrir mikilvægi hefðanna á hverjum stað fyrir byggingalistinni. Maður sá hvernig húsin mótuðust af umhverfi sínu og menningu.
Svo sér maður víða form í náttúrinni sem minna mann á byggingalist eins og myndin efst í færslunni sýnir er auljóslega ekki gerð af menntuðum arkitektum. Þar voru meistarans hendur að verki.
Meðan á dvöl minni í Flatey á Breiðafirði stóð nýlega voru ungir strákar að verki við að byggja smáhýsi af mikill hugkvæmni.
Efniviðurinn var úr timburstafla þar sem eyjaskeggjar hafa lagt afgangs timbur vegna viðhaldsverka og endurbygginga húsasafnsins á eynni.
Útkoman er frábær byggingalist án aðkomu arkitekta eða nokkurs leiðbeinanda af nokkurri tegund.
Ungu smiðirnir voru innblásnir af staðnum og því byggingarefni sem var við hendina á sama hátt og gömlu mennirnir sem byggðu torfbæjina á öldum áður. Litlu húsin mótuðust af staðnum, kunnáttu og hugkvæmni drengjanna og því byggingarefni sem var á staðnum svipað og mátti sjá í frumútgáfu bókarinnar um arkitektúr án arkitekta.
Þetta leiðir hugan að staðbundinni byggingalist, „regionalisma“ sem nokkuð hefur verið skrifað um hér á vefnum.
http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/19/regionalismi/
Myndirnar að neðan sýna afrakstur byggingalistamannanna ungu í Flatey.
Hér er suðurhlið smáhýsisins með inngangi inn í stofu og eldhús á jarðhæð. Gegið er upp tröppur um svalir inn í stofu á efri hæð með stórum gluggum með útsýni til norðurs og vesturs. Svalahandriðin eru byggð úr tveim mismunandi rúmgöflum sem voru við hendina.
Framan við inganginn til suðausturs er morgunverönd sem gerð er úr vörubrettum. Ungur maður sem ekki kom að smíðinni stendur í dyragættinni heillaður af byggingalistinni
Gamlir gluggar sem fargað hefur verið notuðu ungu smiðirnir til þess að skapa útsýnisstofu. Hægindastóllnum þurfti að koma fyrir áður en útveggjasmíðinni var lokið.
Að neðan er mynd af endurútgefinni bók Bernard Rudofsky, „Arkitekture Without Architects“.
burstabær – átti það að vera 🙁
Okkar staðbundna híbýla- og húsamenning hefur mótast mjög ákveðið eftir seinna stríð. Þessi menning er til og hún hefur þróast með þjóðarsálinni – og byggist fyrst og fremst á tískuöpun og tilgerð (hvort sem okkur líkar það betur eða verr að það sé sagt upphátt). Og nú vilja allir vera öðru vísi – eins og allir hinir! En eru á vissan hátt allir eins í tískunni. Árangurinn má m.a. sjá í dýrum byggingum sem byggðar eru til þess að tryggja hámarksviðhaldskostnað til langrar framtíðar – enda eykur það hagvöxt.
E.t.v. markar sunnlenski bustabærinn samt upphaf leiktjaldaáráttunnar í íslenskum arkitektúr 🙂
Þakka þér fyrir mjög svo áhugaverðan pistil um hlutverk arkítekta, Hilmar.
Ég minnist þess að bráðsnjall maður, mælingaverkfræðingur látinn fyrir nokkrum árum, varpaði fram þeirri spurningu, hvers vegna arkítektar, sem flestir væru, a. m. k. í ræðu og riti, samfélagslega sinnaðir – sbr. þá Le Corbusier og Oscar Niemeyer – hönnuðu fyrst og fremst byggingar fyrir fámennan hóp efnafólks. Það gefur auga leið að auðvitað er meira gaman að geta látið hugmyndaflugið eitt ráða ferðinni og þurfa ekki að taka neitt tillit til snautlegra auravandamála við hönnun hússins. Á hinn bóginn gæti ég ímyndað mér að einmitt þetta „elítaera“ hugarfar arkítekta sé ástæðan fyrir því, hvað þeir hafa átt hlutfallslega lítinn þátt í hönnun húsnæðis fyrir hinn venjulega „meðaljón“. Í rauninni ættu arkítekatar, sem auk undirstöðumenntunnar í byggingartækni & statik, hafa notið tilsagnar í fagurfræði og listasögu að vera sérstaklega vel í stakk búnir til að gera hýbýli okkar almúgafólksins ekki einungis hentug heldur einnig fjölbreytt og fögur – ekki bara þessa hryllilegu steinsteypu – kassa sem standa hér út um öll holt og hæðir . Ef þetta markmið næst með „regionalisma“ er það að mínu mati hið besta mál.
Hýbýli „almúgans“ eru oftast ,og ekki síst á Íslandi,í höndum „braskara“,sem velja „ódýra“ arkitekta og mjög sjaldan fagmenn með metnað og kunnáttu.
Auðvitað alveg óháð því hvort „regionalismi“ verður til.
Líkt og mál og siðir ákveðins lands eða héraðs eru ræktuð, færir nútíma „regionalismi“ þau efni og form sem vaxið hafa á staðnum í þann nútímabúning,sem hæfir staðnum.
Slíkt skerðir alls ekkert frumlega túlkun, eins og má sjá í mörgum fyrirmyndar dæmum.
Þetta eru skapandi og lausnamiðaðar umræður sem hér hafa spunnist. Bæði her að ofan og að neðan (Árni Ólafsson)
Ég vil í þessu sambandi nefna að þegar ég gekk á Listaakademíunni í Kaupmannahöfn voru mikil umrót í vestrænu þjóðfélagi. (stúdentabltingin) Í stúdentabyltingunni voru menn sammála um að teikna ekki einbýlishús fyrir efnameira fólk meðan skortur væri á manneskjulegu fallegu húsnæði fyrir þá tekjuminni. Sama átti við um t.a.m. fangelsi. Við vildum ekki teikna slík hús vegna þess að talið var að menn yrðu glæpamenn af félagslegum ástæðum. Ekki af tómum kvikindisskap. Þess vegna ætti að leysa fangelsismál á félagslegum forsendum. Þegar ég kom heim frá námi teiknaði ég ekki annað en fangelsi og einbýlishús fyrir efnameiri. En um leið og ég hafði efni á að hafna slíkum verkefnum gerði ég það að mestu. Dýpra náði hugsjónin nú ekki.
Þakka þér Hilmar fyrir þessa góðu grein.
Engin efi er á,að „regionalisminn“ er að vinna á, því að allir eru búnir að fá nóg af „alþjóða“ byggingum ,sem ekkert tillit taka til staðareinkenna.
Fyrimyndar „regional“ dæmi um eru til um heim allan:t.d. kynnti ég mér Ait ben haddou sunnan Atlasfjalla í Marokkó og borgina Isfahran í Persíu.
Og reyndar líka „íslenska bæinn“ í Austur Meðalholti,sem listamaðurinn Hannes Lárusson hefur komið upp að mestu eins síns liðs.
Þar verður eina safnið á Íslandi,sem kynnir vistræna byggingahætti í samhengi við hefð,mótun rýma og aðlögun að staðháttum.
Grein mín á Eyjunni:“fléttað inn í landslagið“ í byrjun 2014 fjallaði um efnið í víðu samhengi.
Arkitektar eru almennt færir í sínu fagi og eru nauðsynlegir. Það sem ruglar þá er alþjóðahyggjan sem allt er að drepa hvert sem litið er.
Arkitektarnir eru of miki á netinu og að skoða alþjóðleg tímarit.
Þeir eiga að líta sér nær eins og krakkarnir í Flatey. Skoða það sem er í næsta umhverfi, landslagið og staðhætti, götumyndir og byggingalist staðarins,byggiungarefni, sólarhæð og veðurfar og gera gott úr því.
Regionalisminn er lausnin hvort sem er um að ræða byggingarlist eða matarlyst.
Við viljum meira af „slow“: „Slow food, slow turism, Slow architecture“
Allt „fast“ og international er „out“: „Fast food, fast news, fast archiotecture, fast education“
Tek undir það, V.F.!
Góður arkitektúr og gott skipulag er hvort tveggja óháð tískustefnum.
Við þurfum að leggja þunga áherslu á staðinn og „regionalismann“ í framtíðinni. Það er úrslitaatriði. Missa ekki tök á séreinkennum okkar.
Þegar könnunin var gerð fyrir nokkrum áratugum var umhverfið öðruvísi. Fólk fékk úthlutað lóð eða jafnvel íbúð í blokk. Í framhaldinu var leitað tilboða í teikningar og hagstæðasta tilboði tekið. Húsahönniðir, arkitektar og aðrir voru flestir einyrkjar.
Nú er þetta öðruvísi á allan hátt. Húsahönnuðr reka stofur með fjölda starfsmanna og kröfurnar eru margfalt meiri til hönnuða.
Ég er sammála pistlahöfundi að niðurstaða úr svona könnun væri öðruvísi í dag en fyrir til dæmis 30 árum.
Allt önnur.
Er ekki arkitektúr án arkitekta bara ágàtur?
Aðal erindi mitt er að spyrja hvar byggingalistinni sem gerð er „af meistarans höndum“ er, stuðlabergið er?
Hergilsey?
Þetta er ekki í Hergilsey. Þetta er ekki einusinni á íslandi. Myndin er frá eyjunum norðan Skotlands. Ég valdi hana vegna þess að hún féll að efninu.
Þetta er hellirinn „Finigals Cave“ á eyjunni Staffa sem er ein af Suðureyjum (e. Hebrides) við vesturströnd Skotlands. Felix Mendelson heimsótti hellinn árið 1829 og samdi i kjölfarið tónverk sem kallast „the Hebrides“.
Þakka þér þetta Dennis Davíð. Ég fann þessa mynd á netinu og vistaði en skráði ekki hvaðan hún var. En nú er það ljóst.