Sunnudagur 13.02.2011 - 20:14 - 10 ummæli

Arkitektúr í Færeyjum

Í Ríkisútvarpinu í morgun var sendur út þáttur um Færeyska menningu í umsjá Þorgríms Gestssonar. Þetta var fyrsti þáttur af  fjórum um efnið og er fluttur á sunnudagsmorgnum.

Þegar fjallað er um menningu almennt er ekki hægt að sneiða hjá byggingarlistinni.   Það gerði Þorgrímur heldur ekki í sínum þætti.  Hann fjallaði um gömlu húsin sem kúra milli fjörunnar og klettabelta fjallana í Færeyjum.  Þarna var fjallað um elsta timburhús veraldar sem enn er notað sem íbúðahús.

Það sem einkennir byggðirnar í Færeyjum er að þar liggja hús bændanna þétt saman þannig að úr verða e.k. smáþorp sem kölluð eru “býlingar”. Á Íslandi er þessu öfugt farið og húsunum dreift eins og frekast er unnt.  Eitt þessara býlinga fjallaði Þorgrímur sérstaklega. Það var  Kirkjubær þar sem er að finna kirkju frá árinu 1250, vígð Ólafi Digra.

Þorgrímur flutti fallegan texta um húsin eftir skáldið Jörgen Frans Jakobsen (1900-1938) í þýðingu Aðalsteins Sigmundssonar. Textinn  er nokkurnvegin svona ef ég náði honum rétt:

“Þessar gömlu bændabyggðir áttu sér unaðslegan, lágreistan, nærri því auðmjúkan yndisleik. Litlu húsin voru að mestu leiti úr grjóti og torfi með timbur á framhliðinni. Þau földu sig í landslaginu eins vel og þau gátu. Þakið var meira að segja vaxið smára eins og túnið. Þau kúrðu þarna kyrrlát í mikilúðlegu umhverfi eins og vörn yfir heimilislífi  fólksins…………..”

Þetta er falleg lýsing sem vekur mann til umhugsunar um þá nálgun sem arkitektar nota á okkar dögum. Nútíma arkitektar tala um “viðbrögð” húsanna við umhverfinu eða að láta nýbygginguna “kallast á” við umhverfið.  Það tekst á stundum en oft eru þetta orðin tóm með vilja og góðum ásetningi en það vantar stundum nokkuð uppá þegar upp er staðið.

Ég læt hér fylgja nokkrar myndir af eldri húsum í Færeyjum ásamt tölvumyndum af nýjum skóla sem stjörnuarkitektinn Bjarke Ingels er að byggja skammt utan við Þórshöfn um þessar mundir. Það læðist að mér sá grunur að skáldinu Jörgen Frans Jakobsen hefði ekki líkað hönnun BIG í ljósi þeirrar myndar sem hann dregur upp í textanum sem vitnað er í.

Þáttur Þorgríms Gestssonar lofar góðu og mæli ég með honum. Slóðin er þessi:

http://dagskra.ruv.is/ras1/4574129/2011/02/13/

Umfjöllun um skola í Færeyjum eftir BIG má sjá hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/12/16/nystarleg-skolabygging/

Frímerki með teikningu  af  Færeyskum „býlingi“  eftir J.P.Gregoriussen arkitekt.

Skólabygging eftir BIG í útjaðri Þórshafnar.  Spurt er hvort þarna gæti „auðmjúkra yndislegheita“ eins og Jakobsen komst að orði?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Einar Jóh.

    Sammála ykkur Guðjóni og Guðmundi. Bíð spenntur eftir skýringum frá Stúdíóinu.

  • Guðmundur ég er sammála þér, BIG hitta sannarlega í mark með Listasafninu á Grænlandi. Kom mér skemmtilega á óvart, mjög vel leyst að mörgu leyti, nýting á landslaginu í fyrirrúmi.

    En það sem kom mér mest á óvart við þetta listasafn, það er keppnin sem var haldin í kringum hana, en þar voru þessi „helstu“ nöfn úr arkitektaheimi skandinavíu boðin að taka þátt, BIG frá Danmörku, Snöhetta frá Noregi, Stúdíó Granda frá Íslandi og fleiri sem ég man ekki frá Svíþjóð, Finlandi og Grænlandi að ég held.

    Samkvæmt þessari grein í staðarblaðinu í Nuuk, þá skilaði Stúdíó Granda ekki inn tillögu, sem mér persónulega finnst skelfilega lélegt. Það hefðu verið margar stofur á Íslandi til í að eyða miklu púðri í þessa keppni hefðu þær fengið möguleika á því.

    http://sermitsiaq.ag/indland/article139764.ece

    Hvað finnst mönnum um að Stúdíóið hafi ekki skilað inn, og veit einhver afhverju?

  • Maður getur lært margt gott af frændum vorum Fæeyingum

  • Guðmundur

    Annars virðast BIG vera mjög í tísku núna á Norðurlöndunum. Hvað finnst fólki um hönnun þeirra á Listasafni Grænlands í Nuuk? Sjálfur er ég frekar hrifinn:

    http://www.designboom.com/weblog/cat/9/view/13191/big-architects-national-gallery-of-greenland.html

  • Jón Helgason

    Almenna lýsingu á byggðum í Færeyjum er ekki hægt að lýsa betur en Jörgen Frans Jakobsen gerir þarna í þýðingu Aðalsteins. Það er unun að lesa svona myndrænan texta. Það þarf engar ljósmyndir þegar menn skrifa svona, aðiens frjóan lesanda.

  • Guðmundur

    Ég tók nokkrar myndir í Tinganesi í Þórshöfn síðastliðið haust. Þetta er elsti kjarni bæjarins og þetta byggingarlag sést vel. Þetta var einnig gert á sínum tíma til að mynda skjól fyrir vindi:

    http://www.flickr.com/photos/57714368@N00/5442717869/in/set-72157625917654163/

    http://www.flickr.com/photos/57714368@N00/5443321192/in/set-72157625917654163/

  • Jón Eiríksson

    Myndin á frímerkinu er frá Norðragøtu sýnist mér

  • Er fyrsta myndin úr Kvívík og önnur myndin úr Saksun (ég fór þangað í sumar og þetta gætu verið þessir staðir, er ekki viss samt)
    Það má líka nefna að það er eins og það er einhvers konar uppskrift af færeysku þorpi, það er undantekningalaust á eða lækur í gegnum miðju þorpsins og kirkja neðarlega

    p.s. þetta er skemmtileg blanda af nýju og gömlu(af fésbókarmöppu minni):
    http://a2.sphotos.ak.fbcdn.net/hphotos-ak-ash2/47980_474222741288_737001288_6552992_6027139_n.jpg

  • Herta Kristjánsdóttir

    Hrönn á líklega við síðasbirtu myndina..

    Ég skoðaði Færeyjar í 4 daga árið 2000 og það sem ég sá yljar mér enn…Ása vinkona mín býr þar og bráðum fer ég að finna hana og vona svo sannarlega að halda ylnum..

    Hilmar, ég er mikill aðdáandi pistla þinna, mér finnst þú alltaf,,,ehe alltaf, betrumbæta smekk minn..

  • Hrönn Geirsdóttir

    Mér er orða vant, þvílíkur óskapnaður!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn