Mánudagur 24.09.2012 - 22:25 - 17 ummæli

Arkitektúrblogg í 3 ár

 

Í dag eru rétt þrjú ár síðan ég setti fyrstu færsluna á þennan vef.

Þegar ég var beðinn um þetta, féllst ég á að prófa í svona þrjá mánuði og sjá svo til með framhaldið.

Ég fann strax að það var eftirspurn eftir svona skrifum og þeim var vel tekið.  Ég hafði óskaplega lítið fyrir þessu og hafði af þessu gaman, svo ég hélt áfram.

Það var engin ritstjórnarstefna önnur en að vera knappur í texta og forðast stóryrði. Fjalla um málefni en ekki menn. Í raun skrifaði ég bara það sem ég var að hugsa þá og þá stundina.

Ég hugsaði þetta sem pistla ætlaða almenningi í von um að vekjau pp almenna umræðu um efnið. Kannski einskonar almenningsfræðslu sem gæti hjálpað fólki til þess að fræðast um inntak byggingarlistar og skipulags.

Von er í því fólgin að upplýstir neytendur hjálpi arkitektum í þeirra starfi og leiða af sér betri byggingarlist og skipulag fyrir alla. Arkitektar vilja upplýsta og kröfuharða viðskiptavini.

Ég hef fengið mikið hrós fyrir þessa pistla frá miklum fjölda fólks þó fólk hafi sagt mér að það sé ekki sammála mér í öllu.  Enda ekki við því að búast þar sem pistlarnir eru komnir nokkuð á fimmta hundrað með tæplega milljón flettingum.

Athugasemdir eru komnar upp í rúmlega 4000 og nánast allar málefnalegar. Ég hef þurft að fjarlægja innan við 10 vegna orðbragðs og þess  að einstalingar voru dregnir inn í umræðuna með ósæmilegum hætti að mínu mati.

Pistlarnir hafa verið tilefni umfjöllunar í prent – og ljósvakamiðlum. Fólk hefur sent mér efni til birtingar,  menntaskólenemar, ráðherrar og allt þar á milli hafa sent mér einkapósta vegna umfjöllunar hér á vefnum. Ég hef haldið vefnum opnum fyrir aðsent efni og sýnt því þolinmæði að fólk skrifi athugasemdir undir hálfnefni eða dulnefni.

Ég hef þá skoðun að meiru máli skipti hvað er sagt í umræðunni en hver segir það.  Að málefnið skipti meiru máli en maðurinn.

Varðandi umræðuna almennt hef ég tekið eftir að arkitektar hafa tilhneigingu til þess að vera sífellt að tala við sjálfa sig og við hvorn annan um sitt fag.  Þeir fjalla um þessi mál með silkhönskum og telja nánast allt hrós málefnalegt en gagnrýni ómálefnalega. Þetta er áberandi og því þarf að breyta. Arkitektar þurfa að læra að tala til neytenda byggingarlistarinnar og tala við hann á máli sem hann skilur þannig að arkitetúrinn fari niður úr kúltúrsnobbinu til fólksins. Arkitektar eru meira í því að tala við kollega sína og vekja upp umræður þeirra í milli. Ég nefni erindi sem flutt hafa verið undir nafninu “Pælingar” og mörg málþing á vegum Arkitektafélagsins.  Á þessi málþing mæta nánast eingöngu arkitektar þar sem þeir mæra hvorn annan.

Það vita fáir hvað þarna fer fram aðrir en arkitektarnir sjálfir. Þeir koma til þess að hlusta á kollega sína og sjálfa sig.

Arkitektar eiga að hætta að tala við sjálfa sig og beina orðum sínum og kröftum til almennings. Þeir eiga að fara í skólana, í verslunarmiðstöðvar og þangað sem neytandinn er. Þeir eiga að temja sér tungutak sem allir skilja og reyna að einfalda hlutina.

Umræður um þennan málaflokk hafa nánast ekki átt sér stað hér á landi með örfáum undantekningum. Ég tek þó eftir að þær hafa aukist síðustu misserin. Ég vona að með þessum skrifum hafi náðst einhver hvatning til almennrar umræðu um þennan mikilvæga málaflokk þannig að hún breiðist út og verði almenn og algeng þar sem fólk kemur saman. Að byggingarlist fái svipað rými í umræðunni og bókmenntir, leiklist og tónlist.

Efst í færslunni er hluti úr málverki  eftir ítalann Chiroco, The Enigma of the day, (Gáta dagsins(!)) sem er metafysiskt.

Í málverkinu ríkja andstæður á borð við kyrrð, hreyfingu, skugga, sól, stóriðju. Eftir að hafa horft á myndina um stund fer maður að óska þess að eitthvað rjúfi kyrrðina.  En það er sama hvað maður horfir lengi.

Kyrrðinni verður ekki raskað í málverkinu svo það er best að horfa bara eitthvað annað.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Sveinn í Felli

    Einfalt og gott – en hefur vakið athygli á ýmsum þörfum hugleiðingum. Takk fyrir mig.
    P.S: Bara muna að tengja síðuna ekki fésbókarandskotanum meira en orðið er og útiloka þannig fólk sem annt er um öryggi sitt á netinu.

  • Þodnjoð

    Til hamingju með áfangann Hilmar. 3 ár eru ekki langur tími í arkitektúr en þetta er bara fræið,….svo kemur blómið. Vonandi heldur þetta blogg áfram í þá átt. Takk!

  • Hilmar Thor Bjarnason

    Mér finnst þetta blogg þitt vera skært, þakklátt og gagnlegt ljós í tilverunni. Meira hef ég ekki að segja um málið.

  • Jón Björnsson

    Ég tek fram að ég hef aldrei tjáð mig á athugasemdarkerfi áður, Ekki nokkursstaðar. Þetta er frumraun. Kannski er ég einn úr hinum svokallaða „þögla meirihluta“?

  • Jón Björnsson

    Það er vandaverk að halda uppi gagnrýni í íslensku kunningjasamfélagi án þess að fá á sig óorð eða jafnvel afla sér fjandmanna sem vilja manni illt.

    Við þekkjum umræðuna um að ná til uppljóstrarans í ríkisendurskoðunarmálinu sem nú er í umræðuni og víðar. Sífellt eru gerðar tilraunir til að þagga niður í þeim sem bera upp spurningar eða upplýsa um eitthvað sem kann að koma einhverjum illa.

    Á þessum vef hefur tekist að halda uppi umræðu án þess að allt fari á hliðina eða að ábyrgðamaður sé hundeltur og/eða úttúðaður, svo vitað sé.

    Allavega hefur ábyrgðarmaðurin haldið áfram og sannarlega farið víða og á stundum mikinn.

    En hann virðist hafa fengið frið. Ástæðan er að líkndum sú að hér er farið yfir allt hið breiða svið af einlægri sanngirni og öllum gefið tækifæri til andsvara með innsendum pistlum eða í athugasemdarkerfinu.

    Mér hefur fundist þetta í heildina til fyrirmyndar þó LSH hafi greinilega verið mikið áhugamál Hilmars. Og andstaða hans svo mikil að mér fannst orðið nóg komið um tíma.

    Ég hefði viljað sjá pistla um íslenska húsgagnahönnuði, keramikhönnuði, textílhönnun o.fl.

    Það eru mörg algerlega órædd svið sem eiga verðskuldaða athygli.

    Þessi pistill “Arkitektúrblogg í 3 ár” er greinilega uppgjör við síðustu þrjú árin, þar sem við lesendur erum upplýstir um hvernig hefur gengið, en hvað um framhaldið?

    Ég var með sömu hugsanir og Arnlín:

    Veður framhald?

  • Frábært framtak Hilmar.

    Sammála eða ósammála: meginmálið er að skapa vettvang til skoðanaskipta og það hefur þér tekist.

    Takk fyrir mig.

  • Þetta er sérstalega mikilvægt viðhorf í landi þar sem ráðist er á sendiboðann:

    „Ég hef þá skoðun að meiru máli skipti hvað er sagt í umræðunni en hver segir það. Að málefnið skipti meiru máli en maðurinn“.

    Takk fyrir það.

    En þetta leggur mikla ábyrgð á herðar þeirra sem tjá sig. Menn hafa greinilega haldið aftur af sér á þessum vef. Það er aðdáunarvert að það hafi þurft að henda innan við 10 athugasemdum af 4000.

    Sennilega er skýinguna að finna í hófstiltum pistlum málshefjanda.

  • Björn H. Jóhannesson

    Megi þetta örláta þarfaþing Hilmars halda áfram sem lengst
    landi og lýði til heilla; málefnalegt, kjarngott og vel rökstutt bloggið.
    Og umræðan dafnar í kjölfarið, sem annars væri ekki.

  • Steinarr Kr.

    Takk kærlega fyrir áhugavert blogg. Hef lært margt og á stundum getað opnað augun til að sjá hluti í örðu ljósi. Er ekki endinlega alltaf sammála þér, en þér hefur tekist að halda eina vetvanginum sem ég veit um þetta málefni mjög fagmanlegum.

  • Arnlín Óladóttir

    Ég þakka kærlega fyrir góða og áhugaverða pistla sem ég les alltaf. Þegar ég sá fyrirsögnina óttaðist ég að þú værir að hætta, en sem betur fer er svo ekki. Haltu endilega áfram sem lengst.

  • Til hamingju Hilmar!
    You are doing a great and superb job.

    And: Thanks for „Giorgio de Chirico“, I have seen it in original @MOMA New York. Yes we love these paintings, because of their special perspective view. I can dream in to his paintings for a while.

    And: You are right with your message, let us talk more in an unbderstandable language. Architecture is chasllange enough for us. We have to translate – in the same way we are doing it at a construction….

    Allt The Best,
    hope to see you soon.

  • Þetta hefur haft sitt að segja í umræðunn. Það er vitnað í þau mál sem hér koma til umfjöllunar. Já og arkitektar eiga að halda sér á jörðinni með þau mál sem eru í umræðunni í hita og þunga dagsins og horfa minna til himins

  • Til hamingju Hilmar og þakkir fyrir að hafa skapað vettvang fyrir faglega umræðu sem skorti hér á landi. Faglegri gagnrýni og umræðu eigum við arkitektar að taka á uppbyggjandi hátt ekki síst þegar hún snertir okkur persónulega. Á því byggði nám okkar og á því þarf starf okkar að byggja.

  • Til hamingju vinur og kollegi. Síðan þín er svo góð og vel skrifuð að það er næstum jafn gaman að vera ósammála þér og sammála. Að vísu er ég víst oftast sammála þér og alltaf um efnisvalið sem er bæði fjölbreytt og fræðandi. Láttu ekki deigan síga.

  • Pétur Örn Björnsson

    Svo mættum við arkitektar líkast til vera duglegri að segja þeim sem framhjá ganga hvað við erum stundum að mæna eitthvað út í loftið, að talið er eins og flón, að þá erum við oftast og iðulega að taka eftir td. einhverri vel leystri hönnun og vel unnu verki sem er kannski bara smá hluti, deili/detail, sem öllu máli skiptir stundum fyrir heildarmyndina, þó fæstir taki eftir því, sjái það ekki , nema sérstaklega sé á það bent.

    Já kannski ættum við að fara að benda fólki sem fram hjá gengur hvað það er sem við erum alltaf að spá og spekúlera í hinu manngerða umhverfi okkar, svo fólk skilji þá vonandi betur að við erum nú alltaf að reyna að finna einhvers konar „system i galskabet“,
    enda þótt okkur finnist reyndar líka oft vera „galskab i systemet“;-)

  • Pétur Örn Björnsson

    Takk kærlega fyrir alla pistla þína Hilmar. Þeir hafa lífgað upp á gráma hversdagsins. Vakið upp umræðu og jafnvel gagnrýna umræðu, sem er bara hið besta mál, því arkitektar mega ekki vera þær geðluðrur að vilja bara gleyma því að skap þarf til að skapa. Takk enn og aftur Hilmar fyrir þína góðu pistla, sem iðulega hafa vakið upp snarpar umræður, já líka um samfélagsmál og svei mér þá líka um pólitískar geðluðrur og silkihúfur í skipulagi auðnarinnar;-)

  • Guðmundur

    Þetta er einfaldlega besta og gagnlegasta bloggið á íslenskum vefmiðlum. Og þá sjaldan ég hef þorað að setja inn ummæli af litlu viti hefur síðuhaldari og aðrir alltaf tekið því af vinsemd og virðingu. Takk fyrir gott verk.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn