Þriðjudagur 05.03.2013 - 12:20 - 5 ummæli

Arkitektúrljósmyndir – Ezra Stoller

Því hefur verið haldið fram að hús séu eins og fólk. Þau myndist misvel. Og þau hús (fólk) sem mest eru ljósmynduð séu ekki endilega bestu húsin, þau myndist bara betur.

Byggingar sem myndast vel fara víða í blöðum og tímaritum meðan hin vilja gleymast þó þau séu jafnvel betri en hin frægu.

Ljósmyndarinn skiptir þarna miklu máli. Ef hann skilur bygginguna og finnur vinklana og réttu birtuna getur hann gert kraftaverk. Ljósmyndari sem kann sitt fag og getur dregið einkenni bygginganna og kosti þeirra fram í myndum sínum. Þetta á líka við um portret ljósmyndara sem finnur persónuna að baki andlitisins og dregur fram í ljósmyndinni.

Ezra Stoller (1915-2004) ljósmyndari frá Chicago var vinsæll arkitektúrljósmyndari á sínum tíma. Því er haldið fram að hann hafi komið byggingum á kortið sem án hans hefði ekki vakið sérstaka athygli. Hann er oft kallaður “ljósmyndarinn sem gerði arkitekta fræga”.  Stoller sagði í viðtali að hann hefði engan sérstakan áhuga á ljósmyndum. Hinsvegar hefði hann brennandi áhuga á arkitektúr. Sama hef ég heyrt portrettljósmyndara segja. Hann sagðist hafa meiri áhuga á fólki en ljósmyndun.

Eftir að brautryðjandinn Stoller var búinn að finna vinklana var auðvelt fyrir sporgöngumennina að fylgja í kjölfarið. Þess vegna er ljósmyndarinn sem ryður brautina mikilvægur hvaðp varðar frama arkitekta. Ég hef skoðað margar slappar byggingar sem mikið er birtar ljósmyndir af og lofaðar á pappírnum.

Ljósmyndin segir heldur ekki alla söguna. Maður þarf þess vegna að gæta sín. Enga ljósmynd hef ég t.a.m. séð af  Hörpu sem sýnir að hún snýr öfugt.  En Harpa nýtur þess að vera ein af þessum fótógen byggingum.

Stoller hefur haft mikil áhrif á frægð margra þekktra bygginga. Ég nefni  byggingar á borð við fíinnska sýningarskálann í New York (Aalto 1939), Chamberlain Cootage (Breuer/Gropius 1941) Notre Dame du Haut Chapel (Le Courbusiere 1955) Seagrams building í NY (Mies 1958)  TWA Terminal NY (Saarinen 1962) Falling Water (Wright 1963) og Salk institute (Kahn 1977)

Endilega Googlið Stoller og skoðið myndirnar.

Hjálagt eru nokkrar ljósmynda Ezra Stoller.

Sjá þessa slóð:

http://www.npr.org/blogs/pictureshow/2013/03/01/173140765/the-photographer-who-made-architects-famous

Hirshorn Museum í Washington eftir SOM. Takið eftir hvernig ljósmyndarinn staðsetur bygginguna með því að láta sjást í Capitol Hill neðst til vinstri.

 TWA Terminal eftir Saarinen í New York.

 Seagrams building í New York eftir Mies.

 Að ofan er sýningarskáli eftir Aalto frá árinu 1939

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Þetta er ansi mikið spurning um linsur og ljósmyndavélar. Nú á dögum er það segin saga að víðar ljósmyndir af byggingum og stórum rýmum eru yfirleitt alveg skelfilega bjagaðar. Ég held að gömlu stóru „harmóníku“-ljósmyndavélarnar hafi verið þannig að góðir fagmenn gátu tekið sannferðugar myndir af stórum byggingum, algjörlega lágmarkað bjögun. Eins og sést t.d. á þessum myndum. Þetta er einhver sérgrein innan ljósmyndunar sem fáir nú á dögum hafa vald á eða yfirleitt nokkuð auga fyrir.

    • Tek undir með Önnu R.
      Þessar lisnur virka öðruvísi en gömlu belgmyndavékarnar sem gátu rétt myndina af. Ezra myndar þannig að myndin verður eins og augað upplifir umhverfið með beinum línum þegar þær eiga að vera beinar.

      Svo eru svart/hvítar myndir alltaf skemmtilegri en litmyndir vegna þess að þá fær áhorfandinn tækifæri til þess að ímynda sér þá sem á vantar.

  • Sveinbjörn

    Harpa er allt of fótogen. Miklu flottari á ljósmyndum og video en í raun.

  • Þorvaldur Ágústsson

    Verstar og hættulegastar eru tölvumyndirnar í öllum blekkingarleik arkitektanna…allt tandurhreint, alltaf gott veður og allir ungir brosandi og fallegir. Húsgögnin epalkeypt o.s.frv.

  • Þorkell

    Það er eitthvað heillandi við svart/hvítar ljósmyndir. Svo sér maður stundum myndir af nýmóðins húsum með fólki og bílum frá þriðja áratugnum. Það virkar stundum á mann eins og stílbrot eða tímaflakk.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn