Laugardagur 04.02.2012 - 21:06 - 8 ummæli

Arne Jacobsen.

 

Arne Jacobsen vann um tíma við múrverk áður en hann hóf nám í arkitektúr við konunglegu Dönsku listaakademíuna þaðan sem hann lauk prófi árið 1927. Helstu kennarar hans voru Kay Fisker og Kaj Gottlieb 

Hann vann silfurmedalíu á Art Deco sýningu í París árið 1925 meðan hann var enn við nám á akademíunni.  það varð sennilega örlagavaldir í lífi hans.  Á ferð sinni til  Parísar vegna verðlaunanna varð hann heillaður af le Courbusiere og í framhaldinu fór hann til Þýskalands og stúderaði Mies og Gropius. Þetta var 4 árum áður að Mies opinberaði Barcelonaskálann og Barselonastólinn sem er tvímælalaust mestu áhrifavaldar í byggingarlist og húsgagnahönnun tuttugustu aldar.

Hann varð fljótt þekktur fyrir byggingar sínar eins og Bella Vista norðan Kaupmannahafnar(1934) og síðar Rödovre Rådhus, Hotel Royal, Seðlabanka Danmerkur og fl.

Það var ekki fyrr en á síðari hluta æfinnar sem hann fór virkilega að láta bera á sér sem iðnhönnuður. Hann hannaði mikið af nytjahlutum og húsgögnum. Mörg húsgagna hans voru beinlínis hönnuð með ákveðna byggingu í huga. Hann hafði sterk höfundareinkenni þannig að oft var talað um “strik Jakobsens”

Hann reyndi að láta allt ganga upp í eina agaða heild. Þetta sést vel á Hotel Royal í miðborg Kaupmannahafnar þar sem hann hannaði allt frá klósettrulluhöldurum um hurðahúna, gólfteppa og húsgagna upp í sjálft húsið.  Einu herbergi er enn þann dag í dag haldið í upprunalegri mynd. Það er herbergi 606. ( sjá hjálagðann tengil)

Á teiknistofu Arne Jacobsem unnu um tíma arkitektarnir Dissing, Weitling, Knud Munk og Knud Holsceh sem haslaði sér völl sem „designer“.

Myndirnar með færslunni eru fengnar í gegnum heimasíðu Epal.is

Neðst er ljósmynd af Arne Jacobsen sem var fæddur 11.febrúar 1902 og lést árið 1971 aðeins 69 ára gamall. Í næstu viku eru 110 ár liðin frá fæðingu hans.

Sjá einnig:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/10/08/herbergi-606/#comments

og

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/12/09/mies-van-der-rohe/#comments

 

 

 

 

 

 

 Bellavista frá 1934

 Stelton stállína

 

Bensínstöð við Strandvejen frá fjórða áratugnum, norðan Kaupmannahafnar sem enn er í nortkun. Þetta er ekki nein vegasjoppa heldur bensínstöð eins og fólk vill hafa þær. Þarna er eldsneyti á bíla afgreitt fljótt og vel á einfaldann hátt og ekkert annað.

 

Hér situr fylgikonan Christine Keeler  ögrandi í stól sem er í aðalatriðum stóll nr. 7 eftir Arne Jacobsen. Ungfrú Keeler olli ríkisstjórn Harold McMillan miklum vandræðum vegna ástarævintýris með einum ráðherra ríkisstjórnar Englands. Mr. Profumo.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Pétur Örn Björnsson

    Segi nú bara sem samnemendur mínir í AAA komu sér saman um, eftir þó-nokkra og líflega diskúsjón, Susanne og Klaus:
    „Ja, nu skal vi og kan vi konkludere,
    det er saftsume ikke let at være arkitekt“

  • Hilmar Gunnars

    @þorvaldur: það væri bölvað bras að vera arkitekt sem hefur engin tengsl við kvenlegar hliðar sínar. Það er gaman að benda á Brasilíska arkitektinn Oscar Neimeyer í þessu sambandi; hann er mjög straumlínulagaður og segir innblástur sinn frá konum kominn.

    Það er ekkert ólíklegt að straumlínurnar í húsgögnum Jacobsen sèu helgaðar framleiðsluaðferðunum. Hann gerði þó nokkur formbeygð/pressuð húsgögn, eins og áður hefur komið fram.

  • Áslaug Ragnars

    Skemmtilegir og fróðlegir pistlar hjá þér, Hilmar Þór. Gaman væri að þú skrifaðir um Bella Vista og hugmyndirnar að baki þeim byggingum, auk þess að birta myndir þaðan.

  • Guðmundur G

    Á myndinni er fylgdarkonan fallegri en stóllinn en ég hef trú á að í dag sé stóllinn fallegri en konan.

  • Þorvaldur

    Mér hefur alltaf fundist húsgögn Jacobsens kvennleg og nú þegar ungfrú Keeler situr í stól nr.7 virkar hann sexy. Veit einhver eitthvað um kynhneigð arkitektsins?

  • Hilmar Þór

    Þetta er allt rétt hjá Guðna hér að ofan og Maurinn er ekki þægilegur að sitja í. Stóll nr 7 er afar þægilegur enda í 3 eða 4 sæti yfi mest seldu stóla heimsins um þessar mundir. Ég setti inn mynd af honum rétt í þessu þar sem fræg fylgdarkona situr í honum. Myndin er tekin fyrir um 50 árum.

  • Er ekki viss um að Weitling hafi unnið hjá Arne. Hef grun um að Henning Larsen hafi verið þar um leið þeir sem þú taldir upp voru þar. Stóll nr. 2, er það ekki Maurinn með 3 fótum er vonlaus. Vann fyrst árið eftir að ég kláraði mitt nám 1977 hjá Knud Munk við það klára Greig tónlistar húsið í Bergen. Hann var með svona stóla í kantínuni. Ef maður hallar sér aðeins til hliðar, dettur maður á gólfið.
    Á þessa sömu með fjórum fótum „sjöan“. Alveg hægt að drekka rauðvín í þeim.
    Arne var frábær arkitekt. Smá upplýsingar. Þegar grafið var fyrir Seðlabanka danmerkur. Lækkaði grunnvatn svo mikið undir Konunglega leikhúsið að dæla þurfti sjó undir húsið svo timbursökklarnir gæfu sig ekki.

  • Þorkell

    Eitruð athugasemd med bensínstöðina. Á maður ekki að kaupa brauð hjá bakaranum og kjöt hjá slátraranum og bensín á bensínstöðinni en ekki mjólk.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn