Mánudagur 22.06.2015 - 22:56 - 10 ummæli

Ártúnshöfði – Elliðaárvogur – Úrslit í samkeppni.

ellidahofn-c2-kort

Síðdegis í dag voru kynnt úrslit í humyndasamkeppni um rammaskipulag við Elliðaárvog, Ártúnshöfða og Bryggjuhverfi.

Það gladdi mig mjög að höfundar vinningstillögunnar sýndu skilning á þeirri heildarmynd sem aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 dregur upp. En ein sterkasta einstaka hugmynd í skipulaginu er samgönguás þess. En samgönguás aðalskipulagsins verður hryggjarstykki borgarinnar þegar fram líða stundir ef vel tekst til og mun binda hana saman sem eina línulega borg í stað þess að vera samansafn  af  sundurleitum úthverfum.

Samkvæmt AR2010-2030 á samgönguásinn að liggja frá Örfirisey austur að Keldum. Þarna er fyrirhuguð þétt almenningsumferð með háu þjónustustigi.  Það er ekki víst að þessi hugmynd nái fram að ganga nema skipulagsyfirvöld hlúi að henni við hverja einustu skipulagsákvörðun sem tekin er, stórar og smáar. Ég má til með að geta þess að í nýlegu deiliskipulagi við Austurhöfn var ekki tekið nægjanlegt tillit til hugmyndarinar. Það olli mér áhyggjum.

Vinningstillagan ryður braut fyrir þessa mikilvægu hugmynd mun betur en aðrar tillögur í samkeppninni og festir ásinn nánast í sessi verði hún að veruleika. Þetta er meira mál en margan grunar og jafnvel skipulagsfólk sér ekki það gríðarlega tækifæri fyrir borgina alla sem í honum felst að mér sýnist. Það sem einkennir vinningstillöguna er fyrst og fremst samönguásinn en  einnig  áhersla á lýðheilsu, sjálfbærni og vistvæna hugsun.

Tillagan skapar skýrar einingar í heildstæðu hverfi með margvíslegri útfærslu byggðarreita sem býður upp á fjölbreyttar húsagerðir sem að vísu mættu vera fjölbreyttari. Hún gerir ráð fyrir aðlaðandi og fjölbreyttum almenningsrýmum og góðu samspili sjávar, lands og byggðar. Og það mikilvægast er að í tillögunni er verslun og þjónust staðsett m.t.t. samgönguáss og í göngufjarlægð frá öllum íbúðum og atvinnutækifærum.

Vinningstillagan var unnin af Arkís arkitektum ehf, Landslagi ehf, Verkís hf með aðstoð Dr. Bjarna Reynarssonar og uppfyllti best og flest markmið aðalskipulags Reykjavíkur eins og segir í dómnefndaráliti.

Aðrir þáttakendur voru Batteríið arkitektar, Teiknistofan Storð, VSB verkfræðistofa.  Karl Kvaran, OLGGA ofl.  Gláma Kím, Kurt og Pí, Efla, Studio Vulkan.  Teiknistofan Tröð, Mannvit.

Samtals reiknar tillagan með u.þ.b. 816.200 m² viðbótarbyggingarmagni og 5100 íbúðum í 3-5 hæða húsum.

++++

Að neðan koma nokkrar áhugaverðar myndir sem fengnar voru á vef Reykjavíkurborgar. Á efstu myndinn sést skýrt hvar samgönguásinn mun liggja og hvar miðhverfi sjálbærs borgarhluta er myndaður á krossgötum. Hjólreiða- og göngustígur liggur liðlega um elliðaárósa inn í hverfið og í gegnum það.

+++++

Ég mæli eindregið með að lesendur kynni sér dómnefndarálitið og vinningstillöguna nánar sem finna má á eftirfarandi slóðum.

Álti dómnefndar 

Verðlaunatillagan

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/#comments

 

 

 

 

 

ellidahofn-06

fr_20150623_017853fr_20150623_017852

ellidahofn-tjorn

bryggja3Verðlaunahafar, dómnefnd ásamt borgarstjóra og formanni umhverfis- og skipulagsráðs: Matthildur Kr. Elmarsdóttir, Björn Ólafs, Egill Guðmundsson, Björn Axelsson, Sunna Kristinsdóttir, Magnea Guðmundsdóttir, Þráinn Hauksson, Guðjón L. Sigurðsson, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, Darió Nunes, Björn Guðbrandsson,Svava Þorleifsdóttir, Gísli Rafn Guðmundsson, Dagur B. Eggertsson og Hjálmar Sveinsson.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Einar Karl Friðriksson

    Verulega spennandi!

    En er þetta full þétt eins og þetta er teiknað úti á uppfyllingunni, þ.e. nyrsti hluti skipulagsins? Hvað eru há hús þar? Minnir pínu á stórkallalegar myndir af randbyggð austan við Skerjafjarðarhverfið (þar sem nú er suðurendi „neyðarbrautar“) sem ég held verði aldrei að veruleika í þeirri mynd.

  • Guðmundur

    Þetta er spennandi. Og dregur óneitanlega dám af l’Eixample í Barcelona, með húsaferningum með garði í miðju (patio) og skábrautum.

  • Magnús Birgisson

    Gallinn er sá að ennþá er gert ráð fyrir fólksflutningunum miklu eftir Miklubrautinni með fækkun á atvinnutækifærum í og við höfðann (og Súðarvog). Fækkun mun eiga sér stað þegar sum fyrirtæki þurfa að flytja (maður spyr sig hvert?) og jafnvel þó einhver smáfyrirtæki verði eftir og blöndun atvinnu- og íbúabyggðar muni eiga sér stað í meira mæli en annars staðar.

    Villtar hugmyndir um bátastrætó og sporvagna er bara góður húmor…ekkert annað.

    Það sem blasir við er að þessar hugmyndir renna enn sterkari stoðum undir þá skoðun, sem æ fleiri aðhyllast, að LSH eigi að vera á þessu svæði.

    Vogabyggð, íbúabyggð á Höfðanum, stækkað Bryggjuhverfi og betri göngu- og hjólatengingar við Grafarvog, Úlfarsárdal, Grafarholt og Árbæ þýða að stór meirihluti höfuðborgarbúa er kominn í snertifjarlægð við þennan stærsta vinnustað landsins.

    • Sammála þessu. Stór vinnustaður eins og LSH mun styrkja samgöngustefnu borgarinnar verulega. Bátastrætó er grín en sporvagnar eða annað slíkt er fullkomin alvara. LSH við Hringbraut er svakalega vilaus ráðstöfun.

  • Ég sé fleiri og fleiri góða hluti eftir því sem ég skoða þessar tillögur betur.

    Allra hrifnastur er ég af því að gerð er tilraun til að endurheimta náttúrulega höfðann úr klóm landfyllinga seinustu áratuga.

    Það sem mér finnst undarlegt er að lítið virðist vera lagt í að nýju bryggjuhverfin tengist því gamla. Það ætti að vera lítið verk að gera það með betri hætti. Getur verið að núverandi Bryggjuhverfi sé utan skipulagssvæðissins og að ætlunin sé að tengja það við nýju hverfin með því að skipuleggja auð svæði í jaðri þess sérstaklega?

  • Öll þessi þétting hlýtur að taka pressuna af Vatnsmýrinni!

  • 816 þúsund fermetrar kallar á um 300 milljarða fjárfestingu! Það er allnokkuð. Þetta er um 15 þúsund manna byggð. Er ekki tilefni til þess að setja Vatnsmýrina á ís meðan þetta og 1000 íbúðir við Súðarvog byggist?

    • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

      Núverandi skipulag gengur út á að beina mestallri eftirspurn eftir nýju húsnæði inn fyrir núverandi mörk þéttbýlis í Reykjavík.

      Ég get mér til um að þetta samsvari eftirspurn næstu fimm til fimmtán ára, svo þetta er ekki endilega svo stórt í því samhengi.

      Hingað til hefur þessari eftirspurn verið mætt með nýbyggingum í úthverfum, og þau hafa svo sannarlega þanist út á síðustu áratugum.

    • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

      Ég gleymdi að nefna Vatnsmýrina eins og þú gerir í þínum ummælum.

      Ég held það hafi verið nefnt að þessi uppbygging hafi verið færð framar í forgangsröðina þegar borgaryfirvöld hægðu aðeins á flumbruganginum í kringum flugvöllinn.

      Vonandi gefur þetta, ásamt niðurstöðu Rögnunefndarinnar, tækifæri til að staldra aðeins við og ræða framtíð flugvallarins með skynsamari hætti

  • Mría Guðmundsdóttir

    Þetta er gott mótvægi við þéttinguna í miðborginni og góð samkeppni við Súðarvogsskipulagið, sem er allt of þétt, með of háum húsum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn