Þriðjudagur 01.03.2016 - 12:43 - 4 ummæli

Ásar í skipulagi Parísar

le-futur-quartier-d-affaires-de-la-defense_940x705

Það er einhver stór hugsun í skipulagi Parísarborgar sem maður er eiginlega stanslaust hissa á.

Eitt af því sem er mest áberandi í skipulagi borgarinnar eru breiðgötuásar sem liggja þvers og kruss um borgina. Þessir ásar eiga rætur sínar að rekja til Napóleons III  og Haussmanns.

Ásarnir tengja oft saman merkilegar byggingar og garða eins og á einum stað þar sem hann liggur frá Palais de Chaillotí gegnum Tour Eiffel og að Ecole Militaire. Og  annarsstaðar frá Hotel des Invalides (gröf Napoleons) milli Grand og Petit Palais og að Champs-Elysees.

Sá lang stærsti liggur 10-11 km leið sem liggur allt frá Louvre safninu í hjarta borgarinnar um Tuileries garðanna, Place de la Concorde (þar sem Maria-Antoinette var hálshöggvin), Champ-Elysees, Etoile með Sigurboganum og breiðgötuna Grande Armee og endar í La Defence. Ótrúlaga flott og stórhuga gatnaskipulag sem hvergi í veröldinni sést nokkuð líkt.

La Defence er aðal viðskiptahverfi Parísarborgar.

Þessi  þráðbeina götulína milli fortíðar og framtíðar, þrungin sögu, er einhver glæsilegasta gata sem um getur.  Ásinn byrjar í Louvre sem er aðeins snúið miðað við ásinn (um 3-5 gráður að mig minnir) og endar í Grand Arche sem er snúið nákvæmlega jafn mikið og Louvre miðað við götuna. Þar sem gatan er hæst stendur Sigurbogi Napóleons eftir Chalgrin.

La Grande Arche er teiknað af danska arkitekinum Otti von Spreckelsen (1929-1987) sem vann verkið í alþjóðlegsi samkeppni.  Mér hefur verið sagt að íslenski arkitektinn Guðrún Gústafsdóttir sem vann um tíma hjá Spreckelsen hafi komið að verkinu.  Arkitektinn lifði ekki til að sjá verk sitt fullklárað árið 1989.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort La Defense hafi verið lausn skipulagsfræðinga til þess að losna við háhýsin úr miðborg Parísar!  Úthýsa þeim úr miðborginni og gefa þeim kjöraðstæður í jaðrinum í stað þess að láta atburðarrásina og tíðaranda liðandi stundar ráða ferðinni eins og oft vill gerast og skemmir margar gamlar borgir sem fólki líkar og jafnvel elskar.

Uppúr 1970 var nánast hætt að byggja háhýsi innan Periferíunnar í París, góðu heilli. Svipað var gert í London (Docklands), Kaupmannahöfn og víðar þó það hafi ekki gerst með frönskum elegans eins og hér.

+++++

Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 má skynja vilja til þess að feta svipaða leið og gert hefur verið í París og víða annarsstaðar.

Það er að visa þeim sem vilja byggja háar og nútímalegar byggingar út fyrir gamla borgarhlutann og gefa þeim sem þess óska nokkuð frjálsar hendur á þeim svæðum meðan innan gamla borgarhlutans verði byggt samkvæmt mjög ströngum skilmálum sem falla að því sem fyrir er.

+++++

Að neðan koma tvær myndir teknar af þaki Sigurbogans til austurs og vesturs.

109-0940_CRW[1]Séð af Sigurboganum niður Chams-Elysees til austurs í átt að miðborginni sem er laus við háhýsi að mestu.

109-0943_CRW1[1]

Séð af þaki Sigurbogans niður Grand Arme til vesturs í átt að La Defence þar sem er þyrping háhýsa.

g_vigoenfotos_3615pÞað er athyglisvert að enginn ferðamaður nennir að fara og dvelja í La Defens nema einu sinni. Þessar glæsilegu byggingar laða ekki að sér ferðamenn eða gesti nema einu sini að sagt er. Þeir sem þarna koma eru flestir þar staddir vegan vinnu sinnar. Þarna er víðáttan á torgum of mikil, ekkert í mannlegum skala og vindurinn sígnauðandi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn